Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 16:33:07 (6078)

1998-04-30 16:33:07# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[16:33]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu sinni í gær lagði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ríka áherslu á að við ættum ekki að skapa úlfúð milli dreifbýlis og þéttbýlis. Mér finnst það rangur málflutningur að ágreiningur um skipulagsrétt og stjórnsýslu sé vantraust á því að sveitarfélög ráði málum sínum í byggð og taki að sér verkefni. Ef þessi athugasemd þingmannsins hefur átt við okkur sem viljum hafa miðhálendið sem sérstakt skipulags- og stjórnsýslusvæði, þá verð ég að bregðast við því.

Mig langar að nefna það að ef tillaga kæmi fram um að Reykjavík ætti að fara með skipulag og stjórnsýslu í þjóðgarðinum á Þingvöllum, þá mundi ég leggjast heiftarlega gegn því. Í því fælist ekki vantraust á því að Reykjavík geti séð um málefni sín eða þau verkefni sem henni hafa verið falin og mörg önnur verkefni sem ég teldi eðlilegt að væru á vettvangi sveitarstjórnar. Mörg okkar hafa lagt áherslu á að taka eigi afstöðu til þjóðgarða, umferðar um landið, vegamála ýmiss konar, orkumála og annars sem eðlilegt er að stjórnvöld móti stefnu um. Eðlilegt er að móta stefnu um hvernig þessi mál eigi að falla skipulagi sem er verið að skoða. Þetta þarf að gera áður en við stúkum landið upp í stjórnsýslueiningar.

Að öðru leyti get ég tekið undir að margt var gott í ræðu þingmannsins. Staðreyndin er nú sú að öllum er okkur landið afskaplega kært. Málið snýst ekki um það heldur fyrst og fremst hvernig með skuli fara.