Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 16:41:00 (6081)

1998-04-30 16:41:00# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[16:41]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að taka undir það að ræða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar var mjög góð og málefnaleg þannig að allir hér inni hefðu viljað geta flutt hana. Í þessu sambandi vil ég þó segja eitt og það er varðandi þá fullyrðingu að náðst hafi eitthvert samkomulag í félmn. um að breytingar á skipulagslögum yrðu afgreiddar á þessu þingi eða teknar hér til umræðu. Ekkert samkomulag hefur verið gert um það í félmn. og var ekkert samkomulag um að leggja slíka brtt. fram á þessu þingi.

Það hefur svifið yfir vötnunum að eitthvert samkomulag hafi verið í gildi. Ég ætla ekkert að fullyrða um það hvort einstakir nefndarmenn í félmn. hafi rætt þetta við ríkisstjórnina eða aðra, en inni í nefndinni var ekki um þetta rætt og þar af leiðandi engu samkomulagi náð.

Mér heyrðist hv. þm. fjalla um þessi mál nákvæmlega eins og við í meiri hlutanum höfum gert, þ.e. áhrif þessara frv., ef að lögum verða, á skipulag landsins og nýtingu áhugaaðila sem annarra. Ég heyrði að hann var mjög sammála okkar túlkun.

Ég held að það sé misskilningur, a.m.k. hvað varðar félmn., að þar hafi verið eitthvert samkomulag í gangi. Ég velti því fyrir mér hvort í raun sé einhver grundvöllur fyrir því að hv. þm. sé á móti þeim málflutningi sem meiri hlutinn hefur haft uppi í þessu máli. Það er í rauninni ekkert sem skilur okkur að í málinu. Ekki nokkur skapaður hlutur.