Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 17:36:24 (6087)

1998-04-30 17:36:24# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[17:36]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hlý orð hv. þm. í minn garð þess efnis að ræðan hafi verið gagnmerk sem ég og tel, en ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan. Fyrirvarinn sem hv. þm. höfðu í áliti meiri hluta félmn. var skýr, skynsamlegur og mjög skýr. Sú nefnd sem á að setja á laggirnar hefur ekkert hlutverk, virðulegi forseti, ekki af því það kemur ekki fram í því frv. sem þarna liggur frammi heldur verður að lesa skipulags- og byggingarlögin í heild til að átta sig á því að hún er verkefnalaus. Ég ætla að lesa upp fyrir hv. þm. 2. mgr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga:

,,Sveitarstjórnir annast gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana.``

Þær geta fjallað um alla skapaða hluti, fundað hvenær sem er. Það kemur skýrt fram í þessum gildandi skipulags- og byggingarlögum að frumkvæðisrétturinn og það að gera svæðis-, aðal-, og deiliskipulagsáætlanir er í höndum sveitarstjórna. Eins og ég segi, ég vil bara enn og aftur ítreka aðdáun mína á hæstv. umhvrh. að geta selt þessum hv. þm. þá hugmynd því það er alveg ljóst að þessi nefnd hefur ekki og hefur aldrei verið ætlað neitt hlutverk í að gera deili-, svæðis- eða aðalskipulagsáætlanir.