Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 17:38:08 (6088)

1998-04-30 17:38:08# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[17:38]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Með því að fjalla um svæðisskipulag verður nefndin virk. Henni er ætlað að fjalla um það og það sem meira er, að loknum sveitarstjórnarkosningum metur samvinnunefndin hvort ástæða sé til að endurskoða svæðisskipulagið. Það er nú ekkert annað. Þannig að hún er ekkert óvirk. Þetta er ekki nein óvirk nefnd. Hún á að vera virk. Að loknum sveitarstjórnarkosningum á hún að setjast niður og endurskoða svæðisskipulagið, hvort ástæða sé til að endurskoða svæðisskipulagið þannig að hún er virkilega virk og hefur frumkvæði. Hún er auk þess skipuð fulltrúum frá þéttbýlinu sem ég tel alveg vera fullnægjandi. Að mínu mati er þetta miklu betri lausn en sú lausn sem jafnaðarmenn lögðu til þar sem umhverfis-, iðnaðar-, samgöngu- og félmrh. tilnefna fulltrúa ásamt forsrh. í nefnd til að fjalla um skipulagið og það er á engan hátt tryggt með því að fulltrúar þéttbýlisins, fulltrúar hinna landlausu komi að því máli.