Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 17:45:17 (6092)

1998-04-30 17:45:17# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[17:45]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Landamerkjadeilum er nú sennilega ekki lokið með íslenskri þjóð. Það þættu a.m.k. söguleg tíðindi ef það hefði gerst. Hitt er annað mál og ég ítreka það að svæðið sem þessi svokallaða svæðisskipulagsnefnd miðhálendisins er nú að skipuleggja er afmarkað og um það hefur náðst samkomulag. Og hafi það farið fram hjá hv. þm. þá er líka í öllum tilvikum samkomulag um stjórnskipuleg svæðismörk milli sveitarfélaga að einu svæði undanskildu, þ.e. Þórsmörk. Um allt annað er samkomulag, ef hv. þm. veit það ekki.

Ég ætla aðeins að ræða við hann um hlutverk svæðisnefndarinnar samkvæmt hinu nýja frv. Í 3. gr. skipulags- og byggingarlaganna segir eins og hann hefur margbent á: ,,Sveitarstjórnir annast gerð svæðisskipulags.``

Í 6. gr. segir einnig, með leyfi forseta: ,,Skipulagsnefndir fara með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna.`` Og enn síðar í þeirri grein: ,,Sveitarfélög geta haft samvinnu við nágrannasveitarfélög um kosningu byggingar- og skipulagsnefnda ...`` o.s.frv. Þannig að hér er gert ráð fyrir að skipulagsnefndirnar geti verið sameiginlegar fyrir fleiri sveitarfélög.

Í 12. gr. segir, með leyfi forseta: ,,Svæðisskipulag skal gert að frumkvæði viðkomandi sveitarstjórna eða Skipulagsstofnunar í því skyni að samræma stefnu sveitarstjórna um þróun byggðar og landnotkunar á minnst 12 ára tímabili.`` Síðar í þeirri grein segir: ,,Að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum skulu viðkomandi sveitarstjórnir meta hvort nauðsynlegt sé að endurskoða svæðisskipulagið. Verði tekin ákvörðun um endurskoðun fer um málsmeðferð eins og um nýtt svæðisskipulag sé að ræða.``

Sjálfsagt er ekki rétt af manni sem hefur ekki mikið lögfræðilegt vit og er ekki löglærður að hreykja sér hátt og deila við lögfræðinginn sjálfan um það að þegar sett er ákveðin grein inn í þessi lög um svæðisskipulag og sérstaka nefnd til að fjalla um svæðisskipulag á miðhálendinu sem fær ákveðið verkefni, er auðvitað ljóst að hún hefur til þess fullt umboð samkvæmt heimild löggjafans. Það getur verið að það megi segja að það vanti í fyrri greinar þar sem fjallað er um að sveitarfélög geti haft samvinnu o.s.frv., samanber þó nánar ákvæði í hinni nýju væntanlegu grein. Ég kann það ekki. Það getur lögfræðingurinn sjálfsagt skýrt betur fyrir okkur. En það er alveg ljóst að þá fær hin nýja nefnd lögskipað hlutverk og vinnur það eins og henni ber að gera, tekur málið til endurskoðunar eftir hverjar kosningar og vinnur auðvitað í umboði þeirra sveitarfélaga sem að nefndinni standa.