Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 17:48:02 (6093)

1998-04-30 17:48:02# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[17:48]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. umhvrh. þurfi ekki að vera með þá uppgerðarhógværð að hann þekki ekki til þessara mála. Kjarni málsins er einfaldlega þessi: Þessari nefnd hefur aldrei verið ætlað það hlutverk að hafa nokkur áhrif á skipulagsmál, hvorki svæðisskipulag né annað. Henni er ætlað að vera umsagnaraðili og henni hefur aldrei verið ætlað að taka nokkurt vald frá sveitafélögum í skipulagsmálum. Við eigum að tala um hlutina eins og þeir eru, virðulegi forseti, en ekki eins og æskilegt sé að þeir væru og jafnvel hugsanlegt að hafa þá ef einhverjum eða öllum öðrum greinum í lögunum yrði líka breytt. Af hverju kemur það þá ekki fram í frv. að hugsanlega hefði mátt breyta bróðurpartinum af öðrum greinum í lögunum? Þetta er náttúrlega málflutningur sem dæmir sig sjálfur.

Ég held það sé nauðsynlegt, virðulegi forseti, svona í lokin á þessari umræðu við hæstv. umhvrh. að vitna til 13. gr. skipulags- og byggingarlaga og bið ég hann að hlýða á mál mitt:

,,Svæðisskipulag telst samþykkt þegar og að svo miklu leyti sem allar hlutaðeigandi sveitarstjórnir hafa samþykkt það.``

Hver einasta sveitarstjórn sem land á að hálendinu hefur því neitunarvald um það hvort svæðisskipulag verður samþykkt og menn eiga ekki að setja það fram hér sem röksemdafærslu að það að skipa einhverja verkefnalausa nefnd hafi eitthvað með það að gera hvernig svæðisskipulag á hálendinu verður.