Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 17:49:42 (6094)

1998-04-30 17:49:42# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[17:49]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir það sögulega yfirlit sem hann flutti. Ég tel það alltaf til bóta að sögunni sé haldið til haga. En það breytir ekki því að hv. þm. sagði í ræðu sinni að það væri ekki og yrði ekki sátt um þá leið sem tillagan um breytingu á skipulags- og byggingarlögum gengur út frá. Ég spyr hann á móti: Heldur hann að það verði einhver sátt um tillögu þingflokks jafnaðarmanna um þá skipan sem þar er á ferð? Ég held nefnilega hreint ekki. Eins og ég rakti í minni ræðu við upphaf þessarar umræðu var ég á þeirri skoðun og er og hefði talið æskilegast að einhvern veginn hefði verið hægt að setja sérstaka stjórn yfir eitthvað sem við mundum koma okkur saman um að skilgreina sem miðhálendið. En ég komst að þeirri niðurstöðu eftir ítarlega skoðun að það væri ekki framkvæmanlegt. Ég held að það mundi kosta mjög mikil átök við sveitarfélögin sem eiga land að miðhálendinu og hafa haft þar nýtingarrétt um aldir. Ég held að slíkt mundi kosta mikil átök og jafnvel langvarandi málaferli. Ég sló því fram, þótt ég sé ekki viss um að sú spurning standist, hvort slík stjórnsýslueining stæðist hreinlega stjórnarskrána. Ég held að þetta sé afar flókið mál og vil því ítreka að sú leið sem við reyndum, en því miður hefur tekist jafnklaufalega og raun ber vitni, var tilraun til að ná sáttum og ég vona svo sannarlega að menn muni áfram reyna að vinna eftir þeim brautum.