Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 17:53:26 (6096)

1998-04-30 17:53:26# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[17:53]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum auðvitað eytt tíma í að teygja og toga þann texta sem var lagður fram. Ég held að í rauninni séu allir sammála um að hann sé gallaður. Það er alveg ljóst að það þarf að vinna hann betur og það þarf að ná sátt um það. Ég er hins vegar ósammála því að hér sé um að ræða einhverja nefnd sem verði verkefnalaus. Það stendur skýrt og greinilega í því frv. sem ekki fæst rætt, með leyfi forseta:

,,Miðhálendið, sem markast af línu sem dregin er milli heimalanda og afrétta, skal svæðisskipulagt sem ein heild.``

Það skal gert. Og hver á að gera það? Hver á að annast það verk? Það er auðvitað þessi nefnd. Þessi nefnd á að vinna verkið þótt það hafi síðan þá leið sem gerð er ráð fyrir í lögunum. Þingmaðurinn ætti að kynna sér þá vinnu sem hefur verið unnin á undanförnum árum af nefndinni sem í rauninni er að vinna drög að þessu verki og er búin að gera drög að skipulagi sem reyndar er ekki heldur sátt um. Það komu býsna miklar athugasemdir t.d. á fundum félmn. frá aðilum sem ekki eru alveg sáttir við það sem þar er verið að gera. (Gripið fram í: Í lögskipuðum farvegi.) Já, í lögskipuðum farvegi. Hér er því í raun kveðið fastar að og ein meginbreytingin sem felst í þessari tillögu er sú að það skal gera svæðisskipulag. Í núgildandi lögum er aðeins heimild til þess. Hér er því verið að kveða fastar að og mér þykir þingmaðurinn gera heldur og allt of lítið úr þessari tillögu. En ég ítreka enn og aftur að ég er svo sannarlega reiðubúin til að vinna þetta verk betur ef það má verða til þess að a.m.k. fleiri verði sáttir. Ég átta mig vel á því að hér er um grundvallarafstöðu að ræða í þessu máli og ég virði það. Hins vegar er þetta mál af því tagi að afar brýnt er að reyna að ná sátt sem að sem flestir geta sætt sig við.