Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 17:58:19 (6098)

1998-04-30 17:58:19# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[17:58]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það mál sem við erum að ræða, frv. til sveitarstjórnarlaga, er heildarlöggjöf um sveitarstjórnir og leysir af hólmi þann lagabálk sem í gildi hefur verið. Þetta frv. var unnið af nefnd á vegum félmrh. og segja má að þrjú meginatriði í frv. séu breytingar frá núgildandi löggjöf. Í fyrsta lagi er það sem hefur verið hvað umdeildast, að skipta landinu í sveitarfélög, framlengja sveitarmörk inn á miðhálendið, þ.e. ákvæði í 1. gr. frv. og í tengslum við það ákvæði til bráðabirgða. Það er fyrsta atriðið í þessu frv. sem felur í sér breytingu frá núgildandi lögum. Í öðru lagi eru kosningalög sveitarstjórna felld úr lagabálkinum en um þau mál hafa verið sett sérlög. Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á skyldum sveitarfélaga um upplýsingar um fjármál og kveðið skýrar á um hvernig félmrn. geti komið að málum ef sveitarfélög eiga við alvarlegan fjárhagsvanda að etja.

[18:00]

Það vekur athygli þegar frv. er skoðað, og það hefur ekki breyst mikið í meðförum þingnefndarinnar, að það felur ekki í sér kerfisbreytingar. Eiginlega eru skipulagsmálin eina atriðið í þessu frv. sem hefur reyndar verið deilt mjög mikið um og þá sérstaklega skipulagsmálin á miðhálendinu. Það ágreiningsefni hefur mest verið rætt um og er vitaskuld breyting frá því fyrirkomulagi sem við höfum núna en að öðru leyti er löggjöfin mjög í anda fyrri löggjafar um sveitarstjórnir. Ekki er farið inn á neina nýja þætti í sambandi við sveitarstjórnir, stjórnsýslu þeirra, verkefni, stærðir, fundafyrirkomulag, lýðræðislegri stjórnarhætti og ýmislegt fleira sem er m.a. hægt er að telja til í umræðu um sveitarstjórnir í nágrannalöndunum og hefur að hluta til fundið farveg í löggjöf þeirra landa. Oft og tíðum byggir það á því að auka lýðræðislegan þátt í störfum sveitarfélaga, gefa íbúum betra tækifæri til að koma að málefnum sveitarfélags síns.

Ég tel, herra forseti, að það sé miður, að úr því að löggjöf um sveitarstjórnarmál var endurskoðuð, og nefndarstarfið búið að taka á annað ár, auk þess sem hugmyndir hafa verið á kreiki fyrr um þetta mál, að menn skyldu ekki leggja til stærri breytingar en raun ber vitni, bæði í frv. og einnig þegar skoðaðar eru breytingartillögur meiri hluta félmn. Nokkrar aðrar breytingar eru í frv. sem ég vil geta um. Þær eru ekki mjög stórar. Þó vil ég gera nokkrar þeirra að umtalsefni. Ég kýs í upphafi máls míns að fjalla nokkuð um þætti sem hafa lent aðeins til hliðar í umræðunni.

Eitt jákvætt er í þessu frv. miðað við fyrri löggjöf, þ.e. að sveitarfélög hafa sömu stöðu, sama hve margir búa í þeim. Ég tel skynsamlegt að sveitarstjórnarstiginu sé ekki misskipt eftir því hve margir íbúar eru í einstökum sveitarfélögum. Breytingar um nafngiftir sveitarfélaga, sem hafa verið gerðar nokkuð að umtalsefni, læt ég liggja milli hluta. Vitaskuld er þetta allt álitamál en eins og þingheimur veit voru afgreidd lög um þann málaflokk sem tengist þessu að hluta til. Það er ætíð viðkvæmt hvað menn kalla sveitarfélög sín og við höfum einmitt séð marvísleg vandamál varðandi þann þátt þegar sveitarfélög hafa verið sameinuð á undanförnum missirum. Satt best að segja, herra forseti, hafa sést nafngiftir á sveitarfélögum sem hefðu mátt missa sín. En það er eins og fleira, nöfn venjast, og vafalítið munum við verða sátt við allar þær nýju nafngiftir sem hafa komið í kjölfar sameiningar sveitarfélaganna þegar fram líða stundir.

Atriði í frv. víkja að starfi sveitarstjórna, um hæfi sveitarstjórnarmanna, kjörgengi starfsmanna, útfærslu á fyrsta fundi sveitarstjórnar. Þetta eru allt saman minni háttar ákvarðanir, eru til skýringar og skerpingar á reynslu og til bóta að endurbæta lagabálkinn með þeim atriðum en er ekki þess eðlis að um það ættu að vera mjög skiptar skoðanir.

Hins vegar eru einna mikilvægast í frv. fyrir utan skipulagsmálin á miðhálendinu ákvæði sem lúta að fjármálum og fjárhagslegri stjórnun í sveitarfélögum og ég mun víkja að þeim aðeins betur síðar.

Kæruleiðir eru samræmdar stjórnsýslulögunum en ein af ástæðunum fyrir því að hafist var handa við að endurskoða sveitarstjórnarlöggjöfina voru einmitt ný stjórnsýslulög. Það hefur orðið að fara yfir marga lagabálka í lagasafni okkar, einmitt út frá þeirri löggjöf og er það vel. Í frv. er kveðið á um með hvaða hætti menn geta kært ákvarðanir til ráðherra.

Það hefði mátt fara í endurskoðunina á sveitarstjórnarlöggjöfinni með aðeins djarfari framsetningu en nefndin gerði. Hún var undir forustu hv. þm. Jóns Kristjánssonar og við þekkjum að hv. þm. er ekki mikið fyrir skarpar beygjur í því sem horfir til framfara. Það kemur því e.t.v. ekki á óvart að endurskoðun og starf í nefndinni hefur mótast af mjög varkárum sjónarmiðum, e.t.v. sjónarmiðum sem eru einum um of íhaldssöm, einfaldlega vegna þess að það er fjölmargt í stjórnun hin síðari missiri, bæði á hinum fræðilega vettvangi og einnig í reynd sem hefur víða um heim fengið samsvörun í löggjöf og reglum í sambandi við stjórnarfar almannavaldsins með einum eða öðrum hætti.

Þannig hefði t.d. mátt fara í IV. kafla frv., sem fjallar um nefndir, ráð og stjórnir, og stytta þar verulega ákvæði þar sem gert er ráð fyrir byggðaráðum og hlutverki þeirra. Ekki svo að skilja að það sé ekki gott og blessað að hafa ákvæði um slíka þætti, heldur hefði lagaramminn getað verið miklum mun einfaldari en hér er lagt til og ekki gerðar breytingar í nefndinni og hefði það verið til skýrleika við lagasetninguna. Það er ekki gert og það er eitt dæmi um að stytta mátti löggjöfina verulega án þess að draga úr vægi hennar í nokkrum atriðum eða gildi hennar sem lagaramma fyrir sveitarfélögin.

Vert er að vekja sérstaka athygli á nokkrum ákvæðum. Það er t.d. í 73. gr. frv. Ég ætla ekki, herra forseti, að fara yfir allar greinar frv. Þær eru rúmlega 100 svo það hlýtur að vera til bóta að ég byrjaði á 39. gr. og hljóp svo yfir á 73. en 73. gr. frv. er mikilvæg vegna þess að hún fjallar um ábyrgðir sveitarfélaga. Því miður hefur þetta kannski ekki fengið þann hljómgrunn í umræðunni sem vert væri. Þó minnist ég þess að einstaka þingmenn hafa gert þetta að umtalsefni en við þekkjum það að einmitt ábyrgðir og fyrirkomulag ábyrgða í sveitarfélögum hefur margoft kallað á veruleg vandræði þeirra og að hluta til hafa rúmar lagaheimildir leitt til þess að sveitarfélög hafa lent í fjárhagslegum örðugleikum.

Í 73. gr. sem er reyndar að mestu leyti samhljóða núgildandi lögum er þó fellt niður það ákvæði að sveitarstjórn geti veitt einfalda ábyrgð til annarra aðila gegn tryggingu sem hún metur gilda. Við þekkjum það, herra forseti, í umsýslu fjölmargra sveitarfélaga að þau hafa oft og tíðum leiðst til þess að gefa einfaldar ábyrgðir. Oft hefur þetta verið til að bjarga atvinnuástandi eða atvinnufyrirtæki sem hefur verið þungamiðja á hverjum stað. Oft hefur þetta gengið upp og hin fjárhagslega endurreisn hefur tekist en síðan þekkjast einnig dæmi um að þetta hefur lagst með miklum þunga á viðkomandi sveitarfélög og við þekkjum dæmi um slík vandamál sem eru óleyst í dag.

Rökin fyrir þessu eru reyndar sett fram til að vernda sveitarfélögin fyrir sjálfum sér, ef svo má að orði komast, og setja þrengri ramma. Rökin eru m.a. þau að slíkar ábyrgðir geti raskað samkeppnisstöðu og að því leytinu getur slík ábyrgðaveiting af hálfu sveitarfélaga brotið í bága við EES-samninginn. Þetta er eitt af þeim dæmum sem við þekkjum úr þjóðlífi okkar þar sem við höfum ekki veitt því nógu mikla athygli að aðgerðir sem leiða til samkeppnisröskunar eru ekki heimilaðar og eiga ekki að vera heimilaðar. En það er svo merkilegt með okkur að fjölmargt af því sem horfir til bóta í fjármálaheiminum höfum við ekki fundið upp hjá okkur sjálf heldur urðum við að taka það með EES-samningnum, hugmyndir sem alls staðar er litið á sem sjálfsagðar. Að því leytinu er þetta ákvæði þó til bóta, hvort sem þakka má það EES-samningnum eða því að menn hafi frekar slæma reynslu af þessu ákvæði, þá er a.m.k. sá kaleikur tekinn frá sveitarfélögunum að veita slíkar ábyrgðir.

Einnig er nýmæli í frv. að eftirlitsnefnd er skipuð til að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga. Hér lítur þetta nokkuð vel út en auðvitað vaknar sú spurning, sem er ekki dregin fram í frv., hvort fjármálaleg afskipti af sveitarfélögum ættu ekki að vera á forræði fjmrn. en ekki félmrn. Nú er fjmrn. innheimtuaðili fyrir mestan hluta tekna sveitarfélaganna. Tekjuskattur einstaklinga rennur til að mynda að meiri hluta til sveitarfélaganna þótt fæstir geri sér grein fyrir því en nettóáhrif tekjuskatts einstaklinga, útsvarshlutinn sem rennur til sveitarfélaganna, er stærri upphæð en sem endar í ríkissjóði. Vitaskuld hefði því mátt varðandi þessa fjárhagslegu tengingu ríkis og sveitarfélaga draga fjmrn. meira inn í umræðuna en gert er í þessum lögum. Vitaskuld eru alltaf vandkvæði í slíku með verkaskiptingu ráðuneyta en ýmislegt í þessu frv. og þessari löggjöf ber þess merki að hugmyndafræði fjmrn. og ríkisfjármála, sem er vitaskuld þróaðasta hugmyndafræði í fjármálum almannavaldsins hér á landi, hefur ekki fengið að leika um þessa löggjöf eins og vera skyldi.

Nefna má að ákvæði í frv. um endurskoðun, bókhald og annað slíkt eru í sjálfu sér í lagi. Hins vegar hefði átt að vísa almennt til laga sem gilda um þessa þætti og eru til góðar löggjafir um, um ársreikninga fyrirtækja, um endurskoðun og margt, margt fleira þar sem eru ákveðnar skyldur og enginn vandi að fella sveitarstjórnir að þessari almennu umgjörð í stað þess að hafa í þessum lögum nokkuð stóran kafla sem fjallar um sömu atriði.

Herra forseti. Við eigum vitaskuld að reyna að hafa sem almennasta löggjöf á þeim sviðum þar sem því verður við komið. Vitaskuld eru atriði eins og bókhald og reikningsskil sveitarfélaga í engu frábrugðin almennu bókhaldi og reikningsskilum, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða ríkisstofnanir.

[18:15]

Þess má geta að nú nýlega hefur verið afgreidd ein merkasta löggjöf síðari ára á hinu háa Alþingi. Það var gert í fyrra með löggjöf um fjárreiður ríkisins. Þar er kveðið á um mjög svo skipulögð vinnubrögð á sviði ríkisfjármála.

Ég sakna þess nokkuð að sú hugmyndafræði komi ekki með skýrar fram í þessari löggjöf. Að baki eftirlitsnefndarinnar sem hér er sett á laggirnar til að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga, sem nokkurs konar yfirfrakki, býr góð hugsun. Vitaskuld eiga sveitarfélögin að gæta sjálf að sínum fjármálum. Þau gera það vissulega en við höfum allt of mörg dæmi um að fjármál ýmissa, sérstaklega smærri sveitarfélaga, hafa farið úr böndunum og því er þessi eftirlitsnefnd sett upp. Ég hefði hins vegar, eins og ég nefndi, kosið að menn veltu fyrir sér hvort slíkt eftirlit gæti ekki verið af hálfu fjmrn., jafnvel samvinnuverkefni fjmrn., félmrn. og t.d. ríkisendurskoðunar sem heyrir jú undir Alþingi. Þetta er atriði sem vert hefði verið að hugsa um í nefndarstarfinu við undirbúning frv. og e.t.v. hafa þessir þættir verið ræddir ítarlega í hv. félmn. Það má vel vera þó mér sé ekki kunnugt um að nákvæmlega hafi verið farið ofan í þessi atriði.

Í 81. gr. frv. er kveðið á um samvinnu sveitarfélaga. Þar eru ákvæði rýmkuð nokkuð þannig að þetta er með almennara orðalagi. Ég tel þetta til bóta eins og annað, m.a. í brtt. meiri hluta nefndarinnar.

Brtt. meiri hlutans gera ekki neinar sérstakar kerfisbreytingar á þessu frv. nema sem viðvíkur aðaldeiluefninu. Reyndar ekki tekið á því, þ.e. skipulagi á miðhálendinu, sérstaklega í þessu frv. Með ákvæði til bráðabirgða er það þó lagað að frv. um þjóðlendur sem bíður afgreiðslu. Það er fyrst og fremst með ákvæði um að byggðanefnd skeri úr um ágreining á miðhálendinu. Aðrar brtt. meiri hluta nefndarinnar eru nú ekki veigamiklar.

Rætt er um að byggðarmerki, skjaldarmerki sveitarfélaga, skuli skráð hjá Einkaleyfisstofu. Um það er ekkert að segja. Ég held að það sé skynsamlegt að festa í lög að menn njóti verndar með sín skjaldarmerki. Skjaldarmerki íslenskra sveitarfélaga eru fjölskrúðug flóra og menn hafa gaman af sínu merki. Merkjahefð á sér djúpar rætur þótt hér á landi sé ekki hefð fyrir slíku. Hér er um að ræða útlent fyrirbæri sem í meginatriðum var tekið upp á seinni tímum. Látum vera þótt mönnum þyki vænt um sitt merki og þá er ekki verra að hafa það skráð þannig að aðrir geti ekki nýtt það.

Við 7. gr. frv. er brtt. Ég er, herra forseti, aðeins að velta vöngum yfir brtt. meiri hluta efh.- og viðskn., meiri hluta félmn. --- Mér er eitthvað tamara að ræða um efh.- og viðskn. en hv. félmn. Ég vona að þeir ágætu þingmenn sem þar eiga sæti misvirði ekki slíkt mismæli.

Breytingar eru gerðar varðandi arðgreiðslu fyrirtækja í sveitarstjórnum. Það er mikilvægt að fjalla um því að mörg af fyrirtækjum sveitarfélaga, þá sérstaklega á orkusviði, hafa verið mikilvægur þáttur í fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna. Við þekkjum fjölmörg dæmi um sterk fyrirtæki sem hafa getað stutt vel við sín sveitarfélög. Reykjavíkurborg er ekki hvað síst kunnug á þessu sviði þó fjölmörg önnur sveitarfélög hafi búið að sterkum fyrirtækjum. Með brtt. nefndarinnar er kveðið skýrar á um þessa þætti, þ.e. að fyrirtækin geti greitt sveitarsjóðum arð þegar rekstur þeirra hefur gefið tilefni til þess. Hér eru tekin af öll tvímæli um útfærslu þessa.

Lagt er til að þegar um miklar fjárfestingar er að ræða, það er nýmæli, að verði skylt að leggja fyrir sveitarstjórn umsögn sérfróðs aðila um kostnaðaráætlun ef áætlaður heildarkostnaður eða hlutur sveitarfélagsins nemur hærri fjárhæð en fjórðungi skatttekna á reikningsárinu. Hér er gert ráð fyrir að þá verði lögð fram sérstök umsögn um fjárfestingaáætlunina. Þetta er vitaskuld til bóta, herra forseti, en þetta ákvæði hefði þurft að orða miklu skarpar og skýrar.

Hér hefði hugmyndafræðin um fjárreiður ríkisins t.d. getað komið að gagni og reyndar bara almenn löggjöf sem gildir um lagafrv. á Íslandi sem á rætur að rekja til laga nr. 13/1979, þ.e. Ólafslaga. Þar var kveðið á um að hverju stjórnarfrv. verði að fylgja kostnaðaráætlun þegar frv. er lagt fram. Þetta þekkjum við þingmenn, að í hverju frv. og þar á meðal þessu frv. er umsögn fjmrn. um útgjaldaþætti frv. Það er lagaskylda að hverju lagafrv. þurfi að fylgja kostnaðaráætlun, þ.e. áhrif þess á kostnað ríkissjóðs. Það er galli að ekki skuli einnig vera lagaskylda til að láta tekjuáætlun fylgja frv. Það eru hins vegar góð vinnubrögð að láta kostnaðaráætlunina fylgja og þau eru, ef ég man rétt, skv. 20 ára gömlum lögum. Vitaskuld hefði mátt útfæra þessa hugsun, þ.e. faglegri vinnubrögð við fjárfestingar sveitarfélaga, skýrar en meiri hluti nefndarinnar gerir. Þó skyldi ekki vanmeta það að sú breyting sem þeir leggja til er í rétta átt. Þetta, herra forseti, er samt sem áður dæmi um það að hin þrauthugsaða hugmyndafræði ríkisfjármála hefur ekki enn náð nægjanlega mikilli fótfestu í sveitarstjórnarumhverfinu.

Enginn má skilja orð mín þannig að hægt sé að yfirfæra allt sem viðkemur ríkisfjármálum eða fjármálum fyrirtækja yfir á fjárhagslegan rekstur sveitarfélaga. Það væri allt of mikil einföldun. Hins vegar er hægt að læra ýmislegt af því umhverfi og hefði mátt gera vinnu nefndarinnar sem undirbjó frv. nokkuð nútímalegri en raunin virðist hafa orðið. Það er miður, herra forseti, að þingnefndin skuli ekki hafa gert veigamiklar breytingar á frv. eins og það liggur fyrir.

Eitt atriði er fellt niður, sögulegt ákvæði. Það er 100. gr. gildandi sveitarstjórnarlaga um fyrirtæki með takmarkaða ábyrgð. Sveitarfélagsfyrirtæki með takmarkaða ábyrgð var barn síns tíma þegar sveitarfélög ráku fyrirtæki sem ekki voru hefðbundin bæjarfyrirtæki heldur sett upp með takmarkaðri ábyrgð. Þau voru ekki hlutafélög heldur voru þau bastarðar í íslensku fyrirtækjaumhverfi. Ég man t.d. eftir því að þegar Bæjarútgerð Hafnarfjarðar var og hét, þá var hluti af þeim rekstri, togarinn Júní, núna Venus, rekinn í sérstöku félagi með slíkri takmarkaðri ábyrgð. Ég held að svona félög séu ekki rekin lengur. Nú nokkuð mörgum árum eftir að þau hafa gegnt hlutverki sínu er þessi nauðsynlega lagahreinsun gerð. Þó er vert að hugsa til baka og rifja upp sögulegar ástæður þess að þetta ákvæði var áður í lögum. Það var á þeim tíma að bæjarfélög og sveitarfélög tóku miklu virkari þátt í atvinnulífinu en þau gera núna, þ.e. með hreinni eignarþátttöku.

Ég hef nú, herra forseti, farið yfir nokkur þeirra atriða sem e.t.v. hafa ekki fengið nægjanlega mikla umfjöllun í umræðu um þetta frv. Aðaldeilumálið hefur snúist um aðra þætti, þ.e. skipulagsmálin í tengslum við miðhálendið. Að aflokinni þessari umfjöllun um meginatriði frv. og brtt. meiri hlutans, auk þess sem ég hef varpað fram ábendingum sem menn gætu haft í huga ef til frekari endurskoðunar þessara laga kæmi, finnst mér tímabært að snúa sér að því efni sem verið hefur hvað umdeildast í þingsölum.

Hér er átt við það sem kemur fram í 1. gr. frv. um að landið skiptist í sveitarfélög. Mörk þeirra eru framlengd til jökla og sveitarfélögin eiga að fara með stjórnsýsluna á þessu svæði. Þó eru ákveðin tengsl við þjóðlendufrv. sem hér á eftir að ræða. Hins vegar ekki hægt að ræða þetta mál án þess að hafa í huga hið þekkta frv. umhvrh. um breytingar á skipulags- og byggingarlögum. Það er óaðskiljanlegur hluti þessarar umræðu eins og þingmenn vita. Það er afskaplega óþægilegt, herra forseti, að ræða þessar greinar frv. án þess að víkja að efni frv. sem ekki er tekið til formlegrar afgreiðslu hér. Það skiptir svo miklu máli í nefndarstarfinu. Ég vil af vanþekkingu minni spyrja hæstv. forseta hvort það sé ekki þinglegt, þrátt fyrir að málið sé ekki formlega í umræðu, að gera að umræðuefni, í tengslum við þetta frv., atriði úr hinu frv. Er nokkuð athugavert við slíkan málflutning?

(Forseti (StB): Forseti gerir engar athugasemdir við það.)

Ég þakka forseta fyrir að gera ekki athugasemdir við að ég tengi í mál mitt nokkuð efnisatriðum frv. sem því miður fær ekki nauðsynlega þinglega meðferð. Um það hafa menn tekist á hér fyrr í dag.

[18:30]

Meginatriði sveitarstjórnarfrv. er vitaskuld að sveitarfélögin fara með stjórnsýslulegt vald á sínu svæði, þar á meðal skipulagsvald. Nú eru skipulagsmálin einungis hluti af stjórnsýslunni. Þau eru hins vegar mjög mikilvægur hluti af stjórnsýslunni á miðhálendinu, einfaldlega vegna þess að vegna fámennis, fárra bygginga og vegna lítillar umferðar reynir ekki eins mikið á aðra stjórnsýsluþætti þótt slíkt verði vitaskuld svo í framtíðinni. Má þar nefna hluti eins og lögreglumál, umferðarmál og margt fleira en skipulagsmálin eru samt almennt talin vera eitt aðalatriðið í stjórnsýslu sveitarfélaga og á það bæði við sveitarfélög í þéttbýli og í dreifbýli og ég tala ekki um mikilvægi skipulagssviðsins þegar kemur að miðhálendinu.

Í útfærslu félmn. í tengslum við þetta frv., og margsinnis hefur verið vikið að því í áliti meiri hlutans og í þeim fyrirvörum sem stuðningsmenn gerðu gagnvart þessu frv., er vikið að nauðsynlegum breytingum á lögum um skipulags- og byggingarmál. Sú nefnd sem er þar sett á laggirnar til að fjalla um svæðisskipulagið hlýtur að koma sterkt inn í.

Fyrst er til að nefna sérkennilega samsetningu nefndarinnar. Hún er skipuð 18 fulltrúum eins og mönnum er kunnugt, 12 fulltrúar frá aðliggjandi sveitarfélögum gætu þess vegna verið hin eldri samvinnunefnd. Ekki hefur komið fram í umræðunni hvort það sé hugsað á þann hátt. Síðan er einn fulltrúi frá félmrh. og annar frá umvhrh. Þá koma fjórir eyrnamerktir fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn frá Reykjanesi, tveir frá Reykjavík og einn frá Vestfjörðum. Vitaskuld vekur nokkra athygli að þeir landshlutar sem liggja fjærst miðhálendinu, Vestfirðir annars vegar og Reykjanes hins vegar skuli vera með jafnmarga fulltrúa í samvinnunefndinni. Nú vitum við að Vestfirðingar, fyrir utan að vera gott fólk, eru yfirleitt það góðum gáfum búnir að þeir geta lagt vel til mála og gera vafalítið í þessari nefnd en nokkuð finnst manni vel í lagt að tæplega 10 þús. manns á Vestfjörðum, skuli skipa einn fulltrúa í nefndina en hinir 73 þús. sem búa í Reykjanesskjördæmi skuli skipa einn líka. Hér er ójafnvægi á ferðinni án þess að ég ætli að gera hvorki væntanlegum fulltrúa Vestfirðinga né væntanlegum fulltrúa Reyknesinga upp neinar þær hvatir að vinna ekki af heilindum fyrir landið allt í starfi nefndarinnar. Ég er einfaldlega, herra forseti, að benda á að hér er ekki um að ræða eðlilegar leikreglur. Það eru ekki eðlilegar leikreglur ef menn eru að tala um samráð og samstarf að láta sveitarfélög þar sem tveir þriðju hlutar landsmanna búa, það eru 107 þús. manns sem búa í Reykjavík, 73 þús. á Reykjanesi, fá þrjá fulltrúa í samstarfsnefndinni. Það eru 180 þús. manns af þeim 272 þús. sem byggja landið. Alveg burt séð frá því að við getum treyst allri nefndinni og fulltrúum aðliggjandi sveitarfélaga til að gera skipulagið þannig úr garði að hagsmunir landsmanna allra séu vel tryggðir er einfaldlega ekki um réttar leikreglur að ræða. Ef menn vilja samráð og samstarf eiga menn að setja það þannig upp að nokkuð tillit sé tekið til stærðar viðkomandi sveitarfélaga. Ég er ekki þar með að segja, herra forseti, að aðkoma að svæðisskipulaginu eigi að ráðast alfarið af stærð sveitarfélaga, síður en svo, en hér er einfaldlega ekki um að ræða skynsamlega uppsetningu og síst af öllu er hún til þess fallin að ná sáttum.

Verksvið nefndarinnar á að vera að fjalla um svæðisskipulag en þegar frv. er skoðað nokkuð betur kemur í ljós að nefndarskipanin hefur reyndar sáralítinn tilgang því að beinlínis er kveðið á um í frv. að sú samvinnunefnd sem nú starfar og var skipuð 1993, ef ég man rétt, skuli ljúka störfum og skila áliti sínu til Skipulagsstofnunar og Skipulagsstofnun eigi að senda það til ráðherra til staðfestingar eftir að þessi nýja nefnd með Vestfirðingnum og Reyknesingnum hefur fengið málið til umsagnar. Í frv. er sérstaklega kveðið á um að nýja nefndin, sem á að vera samráðsnefndin, fái ekki og eigi ekki að leggja upp með nýjar hugmyndir um svæðisskipulag á miðhálendinu. Þannig, herra forseti, er um að ræða einbera sýndarmennsku sem virðist vera sett upp til að friða stjórnarliða enda kom í ljós þegar reyndi hér á hvort menn ætluðu ekki að knýja þetta inn sem löggjöf að ekkert var að marka þetta þannig að það var ekki einu sinni svo að menn ætluðu að standa við þá sýndarlausn. Er nú skiljanleg afstaða manna sem trúðu á að verið væri að leggja upp með sáttafyrirkomulag að þeir hafi brugðist ókvæða við eins og við höfum séð í dag, að það átti að möndla þetta eina ferðina enn í samtölum milli ráðherra og þingmanna án þess að Alþingi Íslendinga fengi nokkru um það ráðið.

Þau vinnubrögð, herra forseti, sem við höfum gert að umtalsefni í dag, eru fyrir neðan allar hellur og má vafalítið fara nokkuð mörg ár aftur í tímann til að finna sambærilega aðferðafræði og hér er lagt upp með, þ.e. að ríkisstjórnarmeirihluti knýr á um lögfestingu á mjög mikilvægum þætti þar sem útfærsla málsins er í öðrum lögum og það skilið algerlega eftir. Við þekkjum vel að slík staða getur komið upp og menn hafa lagt fram bandorma eða tekið saman fleiri lög í umræðu og reynt að setja heilsteypta löggjöf um þá þætti. Það hefur verið venjan og almenna reglan varðandi lagasetningu hér en það er svo langt í frá að þau vinnubrögð hafi verið viðhöfð hér.

Það þarf líka að hafa vel í huga að þessar nefndir, því þær eru tvær, gamla samvinnunefndin, sem hefur raunverulega allt vald, og síðan nýja samvinnunefndin, sem hefur einungis umsagnarrétt um þær tillögur sem þegar er búið að vinna að langmestu leyti, fjalla einungis um svæðisskipulagið sem er rammi skipulagsmála. Aðalskipulag á að vera í samræmi við svæðisskipulag, og ég tala ekki um deiliskipulag sem er nákvæmari útfærsla á aðalskipulagi, þótt svo meginreglan sé sú að allt skipulag eigi innbyrðis að vera í samræmi. Hér er alveg augljóst að svæðisskipulagið, sem er einungis hluti af skipulagsvinnunni, er tekið út fyrir sviga og falið að hluta til nefndinni sem er reyndar ekki gert vegna þess að hún er einungis umsagnaraðili. Það þarf að hafa skýrt í huga, herra forseti, að samkvæmt núgildandi skipulags- og byggingarlögum, í 12. gr. þeirra laga, er heimilt að skipa slíka samvinnunefnd og það hefur verið gert. Það er sú nefnd sem hefur unnið þessar tillögur og hefur gengið undir nafninu gamla skipulagsnefndin en 18 manna nefndin er kölluð hin nýja.

Það er ekki von að fólk almennt átti sig á þessari aðferðafræði og tækni sem er að baki því að það hefur líka þvælst nokkuð fyrir þingmönnum að ná áttum í umræðunni að gera sér vel grein fyrir verksviði gömlu skipulagsnefndarinnar og nýju skipulagsnefndarinnar og hinu raunverulega valdsviði hennar og ekki hvað síst þegar kemur síðan að útfærslu í aðalskipulagi og deiliskipulagi. Öll þessi mál enda hins vegar hjá ráðherra vegna þess að ráðherra þarf að staðfesta svæðisskipulag og aðalskipulag. Meginmálið er samt, herra forseti, að við erum að fjalla um sameignir þjóðarinnar. Við erum að tala um auðlindir sem við komum til með að nýta mun meira á næstu áratugum en við höfum gert síðustu áratugi. Það verða fjölmörg skipulagsvandamál og önnur stjórnsýsluvandamál sem koma upp varðandi þetta svæði vegna þess að við erum að tala um svæði sem nemur u.þ.b. 40% af flatarmáli Íslands. Þetta svæði er stærra en mörg af þjóðríkjum í Evrópu. Það er því ekki skrýtið þótt lögð sé á það þung áhersla að menn vandi sig við löggjöf á þessu sviði. Við jafnaðarmenn höfum lagt til mjög einfalda, tæra og skýra lausn á þessum vanda. Við segjum einfaldlega: Miðhálendið sem er sameign þjóðarinnar, sem er þjóðararfur okkar og við eigum öll að nýta sameiginlega, verður allt saman eitt sérstakt stjórnsýslusvæði og falið sérstakri stjórn. Þar með erum við raunverulega búin að leysa öll þau vandamál sem upp á koma vegna þess að þessi stjórn sér þá ekki einungis um skipulagsmálin heldur einnig aðra þætti stjórnsýslunnar.

Þetta er ekki gert í frv. ríkisstjórnarinnar. Meginafstaða hennar er sú að það séu sveitarfélögin sem eigi að fara með stjórnina á miðhálendinu með þeirri einu veigalitlu undantekningu að sett er upp samvinnunefnd sem hefur umsagnarhlutverk gagnvart þeirri tillögu sem eldri samvinnunefnd mun útbúa eða klára á þessu ári. Þetta er grundvallar\-ágreiningurinn, herra forseti. Viljum við að miðhálendið sé sérstakt stjórnsýslusvæði? Ef menn vilja það geta þeir svo rætt um undir hvaða stjórn, hverjir koma að þeirri stjórn. Við höfum lagt til í tillögu okkar, af því við kusum að hugsa þetta alveg til enda, að stjórnin verði skipuð níu manns, við tökum miðhálendið undir forsrh. Við segjum að forsrh. skipi formann þessarar nefndar, en umhvrh., samgrh. og félmrh. skipi síðan einn mann hver, það eru fjórir, og síðan komi fjórir nefndarmenn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Vitaskuld er álitaefni hvernig við skipum þessa stjórn. Á hún að vera níu manna, á hún að vera stærri, eiga fleiri ráðuneyti að koma inn í, á það að vera Samband íslenskra sveitarfélaga sem skipar eða eiga einhverjir aðrir að skipa, t.d. Útivist eða Ferðafélag Íslands eða eitthvað þess háttar? Við erum ekki að leggja til heilaga tölu eða heilagar tilnefningar í nefndina sem fer með stjórn miðhálendisins. Við getum mjög vel séð fyrir okkur að fleiri aðilar, sérstaklega fagaðilar úr ferðaþjónustu, landbúnaði, af því ég sé að hæstv. landbrh. er í salnum, vitaskuld er hægt að hugsa sér það. Meginatriðið er hins vegar þetta: Fallast menn á að það sé skynsamlegt að miðhálendið sé vegna sérstöðu sinnar sérstakt stjórnsýsluumdæmi? Það er hinn pólitíski ágreiningur. Við jafnaðarmenn höfum lagt fram mjög skýra stefnu hvað þennan þátt varðar. Við viljum að það sé sérstakt stjórnsýsluumdæmi. Þingflokkur Kvennalistans hefur tekið undir þetta sjónarmið.

[18:45]

Ýmsir félagar okkar í Alþb. hugsa á svipuðum nótum þótt svo þeir gætu vel séð fyrir sér aðra útfærslu sem þeir héldu að þeir hefðu gert sátt um við ríkisstjórn en kom svo í ljós að brigsl voru í gangi hvað þann þátt varðaði, en vitaskuld skýra þeir þau mál sjálfir. Þeir sem voru með fyrirvara um málið hafa reyndar gert grein fyrir því. Ég ætla ekki að tjá mig beinlínis mikið um þann þátt.

En aðalatriðið er þetta: Er skynsamlegt að þetta sé sérstakt stjórnsýsluumdæmi? Okkar skoðun er að svo sé og færa megi fyrir því margvísleg rök. Við búum við, herra forseti, líkingu við aðra þætti í okkar þjóðlífi. Miðhálendið er ekki einasta þjóðareign okkar, við Íslendingar eigum aðrar þjóðareignir. Handritin t.d. eru sameiginlegur arfur okkar og teljast þau vera þjóðareign. Við eigum öll í handritunum. Við eigum sameiginlegan menningararf og við teljum okkur öll eiga margt í sögu okkar og í einstaklingum öll saman. Fiskurinn í sjónum er dæmi um aðra þjóðareign sem einnig hefur verið tekist á um á undanförnum missirum. Þar er sérkennið að fámennum hópi hefur, af almannavaldinu, verið afhentur ókeypis afnotaréttur á þeirri þjóðareign. Hér eru vitaskuld miklir fjármunir í húfi og þetta er alveg sambærilegt og er að gerast núna á miðhálendinu, þ.e. samkvæmt stefnu núv. ríkisstjórnar og núv. ríkisstjórnarflokka, stóra sjálfstæða Framsfl., eins og ég vil nú kalla hann eftir að þeir eru meira og minna gengnir í hjónaband, a.m.k. farnir að hefja sitt tilhugalíf, Sjálfstfl. og Framsfl. Stefna þessara tveggja flokka er að sameiginlegar auðlindir landsins skulu vera nýttar og stjórnað af fámennum hópi. Við höfum séð þetta hvað varðar fiskimiðin og við erum að sjá sömu hugmyndafræðina varðandi miðhálendið. Það er þessi þjóðarauðlind sem er í víðáttu hálendisins, við erum að tala um jökla, hraun, sanda, gróðurvinjar og allt sem hefur veitt fjölmörgum Íslendingum ánægju á síðustu árum og mun verða uppspretta lífsánægju næstu áratugi meira en flest annað. Við viljum að hagsmuna allra sé gætt við ákvarðanir sem varða framtíð þessa svæðis. Það er sanngjörn krafa, herra forseti, að fólkið í landinu komi að skipulagi á sinni eign. Það er ósanngjarnt að taka eign landsmanna í reynd eignarnámi og fela nýtingu hennar og skipulag fámennum hópi eins og gert er með fiskimiðin og gera á á miðhálendinu. Það er þessi stefna jafnaðarmanna sem við viljum draga sérstaklega skýrt fram í þessari umræðu.

Við höfum sagt að frv. feli í sér mestu atlögu að almannarétti allt frá landnámsöld, eins og lýst var ágætlega í framsögu fyrir minnihlutaáliti félmn. sem þingflokksformaður okkar jafnaðarmanna, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, gerði grein fyrir.

Herra forseti. Í þessu máli er ekki verið að takast á um tækni. Það er verið að takast á um hugmyndafræði, það er verið að takast á um hugsjónir. Við getum ekki séð það fyrir okkur að sífellt færri fái yfirráð yfir sífellt fleiri auðlindum landsins. Það er komið nóg af því að halda fólkinu frá eign sinni. Það er þess vegna, herra forseti, sem við leggjum til að miðhálendið verði gert að sérstöku stjórnsýslusvæði til þess einfaldlega að fólkið fái að koma að þessari eign sinni en hún verði ekki sett í vörslu hinna fáu.

Möguleikar til lífsánægju á miðhálendinu eru miklir og vitaskuld eiga þau sveitarfélög sem eiga land að miðhálendinu að njóta sérstöðu gagnvart þessum þáttum í skipulagningu og við mótun. Það er enginn að tala um að íbúar Reykjavíkur og Reykjaness eigi að skipuleggja allt miðhálendið. Það er fráleitt. Það væri ekki skynsamlegt þótt svo meiri hluti þjóðarinnar búi á þessu landsvæði. Hér er einfaldlega verið að tala um að samráð og samstarf felur í sér jafnrétti. Það felur ekki í sér forréttindi og þetta frv., herra forseti, felur í sér forréttindi. Það veitir íbúum landsins ekki jafnan rétt til aðkomu að eign sinni. Það verður einnig að hafa vel í huga muninn varðandi þessar skipulagstillögur sem eru uppi um þennan þátt, þ.e. svæðisskipulag sem markar hina stærri umgjörð, aðalskipulag sem sveitarfélögin samkvæmt frv. munu útfæra, og svo deiliskipulag sem er hin nánari útfærsla.

Sömuleiðis verður að hafa vel í huga að sveitarfélögin eru mjög misjafnlega í stakk búin til að vinna eftir þessari stefnu ríkisstjórnarinnar. Sumum af þessum sveitarfélögum er alls ekki greiði gerður með því að fela þeim þetta mikla vald, þ.e. stjórnsýslulegt vald á miklum víðáttum. Þau eru sum veikburða og hafa ekki möguleika til að inna þetta starf þannig af hendi að vel fari. Það er þess vegna m.a. sem það er einfaldast og sanngjarnast og leiðir til farsælastrar niðurstöðu að hafa þetta eitt stjórnsýslusvæði og tryggja rétt þeirra sveitarfélaga sem liggja þar að, því hér, herra forseti, er enginn að tala um það að ganga á rétt hinna smærri sveitarfélaga sem eiga land að miðhálendinu. Það er alls ekki hugsun neins okkar jafnaðarmanna sem höfum talað í þessari umræðu.

Það er einnig, herra forseti, fullkomlega ótímabært að afgreiða svona stórt mál, þ.e. skipulag og stjórnsýslu á 40% landsins, eftir nokkurra daga umræðu á hinu háa Alþingi. Við höfum ekki stefnuna. Við höfum ekki hugsað í gegn hvað við viljum með miðhálendið. Viljum við að miðhálendið verði fyrst og fremst mótað skipulagslega út frá sjónarmiðum ferðamennsku? Viljum við að það verði mótað út frá sjónarmiðum útivistar, þá Íslendinga sjálfra? Viljum við að það verði mótað sérstaklega út frá því að tryggja betri samgöngur milli einstakra landshluta? Viljum við að miðhálendið verði mótað út frá nýtingu orkulinda og þá byggt upp með þeim hætti? Skipuleg umræða um það hefur ekki enn þá átt sér stað hér á landi og það er ekki hægt, herra forseti, að ganga frá stjórnsýslulegum þáttum þessa stóra svæðis fyrr en við erum búin að eiga þá umræðu, ekki einungis hér í þingsölum, um hvernig við viljum sjá nýtingu á þessum stærsta hluta landsins. Það er ekki fyrr en sú umræða hefur farið fram utan þings sem innan, ekki hvað síst utan þings, að við verðum fær um að takast á um hugmyndir um skipulag og útfærslu á svæðinu sjálfu. Það er svo margt sem þarna kemur inn í. Vegarlagning, afmörkuð virkjunarsvæði, verndunarsvæði, þjóðgarðar. Þetta eru allt saman þættir sem eru ákvarðaðir í aðalskipulagi sveitarfélaga og þetta frv. gerir ráð fyrir að aðalskipulag miðhálendisins verði í höndum sveitarfélaganna. Og hér er engin stefnumörkun, sem fylgir af hálfu Alþingis, hverju á að stefna að varðandi þetta aðalskipulag. Það eina sem búið er að segja er: Svæðisskipulagið á að vinna í gömlu nefndinni og það er búið að vinna það að hluta til. Fjölmargar veigamiklar athugasemdir hafa komið fram við þá tillögu og síðan mun ráðherra væntanlega staðfesta þessar hugmyndir gömlu, þröngu nefndarinnar þótt svo hin nýja nefnd fái einhvern umsagnarrétt. Og víst mun rödd Vestfirðingsins eina og Reyknesingsins eina í 18 manna hópnum vega létt þegar að því kemur að kalla eftir vandaðri og betri útfærslu á þessum málum.

Þessi svæði hafa ekki öll verið verðmæti í hugum okkar Íslendinga. Þau hafa verið talin ein mesta ógæfa Íslendinga, miðhálendið, auðnirnar sem hafa skapað erfiðleika í sögunni að komast á milli landshluta þegar menn ferðuðust fótgangandi og margir hafa borið beinin á söndum miðhálendisins. Það er ekki fyrr en hin síðari ár og á síðustu áratugum sem menn fóru yfirleitt að fara upp á miðhálendið, stundum til að stytta sér leið en ekki hvað síst til að njóta hinnar stórkostlegu náttúru sem þar er. Síðar kom smátt og smátt nýting á vatnsföllum, allt til hagsbóta fyrir alla landsmenn.

Það er því ekki rétt, herra forseti, þegar því er haldið fram að sveitarfélögin sem eiga land að miðhálendinu eigi sögulegan rétt á nýtingu þessa landsvæðis. Það er ekki svo. Það hefur enginn sögulegan rétt á nýtingu þessa landsvæðis. Þetta landsvæði var ekki talið nýtanlegt og var beinlínis talið til óþurftar í okkar landi um aldir. Þetta er hlutur sem menn þurfa líka að hafa í huga og ekki má gleyma því að þótt farið yrði að tillögu okkar jafnaðarmanna mundi beitarréttur og afréttarréttur ekki breytast neitt sem menn hafa líka skapað sér hefð á. Það er enginn að fara í stríð við aðra landsmenn, síst af öllu í dreifbýlinu með tillögum okkar jafnaðarmanna. Þvert á móti er verið að rétta út sáttarhönd og vita hvort menn geta ekki nýtt þessa nýju þjóðareign sameiginlega og náð þar betri lendingu en menn náðu um þjóðareignina sem eru fiskimiðin. Þetta þarf að hafa vel í huga, herra forseti, vegna þess að öll þessi umræða snýst raunverulega um almannahagsmuni gegn sérhagsmunum. Rauði þráðurinn í málflutningi okkar er almannahagur, almannahagsmunir. Og hverjir standa andspænis þessum almannahagsmunum? Jú, það eru sérhagsmunirnir. Það eru hagsmunir hinna fáu. Við höfum séð þetta gerast í sambandi við fiskveiðistjórnarmálið, útfærslu gjafakvótakerfisins. Við erum að sjá það gerast í miðhálendisumræðunni, við höfum séð það í skattastefnu stóra sjálfstæða Framsfl. hvernig alltaf er hlaðið undir fákeppnisaðilana, alltaf hlaðið undir sérhagsmunina. Það er þetta, herra forseti, sem er hin pólitíska lína í þessari umræðu, þ.e. almannahagsmunir gegn sérhagsmunum. Að því leytinu fagna ég því hvernig þessi umræða hefur þróast. Hún hefur leitt til þess að við stjórnarandstæðingar stöndum saman í okkar málflutningi gegn þeirri málsmeðferð sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með. Vitaskuld erum við ekki öll sammála um einstök útfærsluatriði en við erum sammála um að stefna ríkisstjórnarinnar er ekki það sem við viljum.

Herra forseti. Mér skildist að talað hefði verið um að fresta umræðu klukkan sjö og ég vil halda mig við allt sem um hefur verið talað.

(Forseti (StB): Forseti getur upplýst að gert var ráð fyrir að hætta um sjöleytið, þannig að ef hv. þm. á mikið eftir af ræðu sinni þá gerir forseti ráð fyrir að fresta. Forseti vill því vita hve mikið hv. ræðumaður á eftir af ræðu sinni og mundi þá gefa honum tækifæri til að ljúka því ef það gerðist á næstu mínútum.)

Og byrja þá aftur þegar ...

(Forseti (StB): Já, forseti getur upplýst að fundinum og þessum dagskrárlið yrði þá frestað og þingmaðurinn mundi þá halda áfram ræðu sinni þegar framhald yrði á umræðunni.)

[19:00]

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir. Ég vil halda mig við það samkomulag sem hér er. Ég á reyndar ansi mikið eftir af minni ræðu, en vil reyna samt að ljúka henni og koma þá frekar síðar og fjalla um þá þætti sem ég átti eftir að fara yfir. Ég var í miðju kafi í þessu skipulagsmáli. En ég veit að ég hef tækifæri til að koma upp aftur og draga skýrar fram ýmislegt af því sem ósagt er.

Herra forseti. Ég vil einungis að lokum segja að ég tel vera mjög mikilvægt að við finnum þessu máli farsælan farveg. Það er ekki sama hvernig þessu máli er lent. Þótt það sé hér í ágreiningi núna fyrir tilstuðlan hæstv. ríkisstjórnar tel ég skynsamlegast, í þessu máli þar sem við tökumst á um skipulag á miðhálendinu og í tengslum við það frv. sem gert hefur verið að umtalsefni og verður ekki rætt. Í ljósi þess að hér er um að ræða mjög viðamikið mál og afdrifaríkt og er það mín skoðun og okkar fleiri, að ítarleg umræða þurfi að fara fram um þetta í þjóðfélaginu, m.a. vegna þess að málið er mikilvægt og einnig vegna þess að ágreiningur er um það.

Ég vil að lokum minna á yfirlýsingu 90 þjóðkunnra Íslendinga sem lýstu ekki afstöðu heldur óskuðu einfaldlega eftir að málið yrði ekki afgreitt nú í vor heldur að tækifæri gæfist til að ræða það betur í sumar. Ég teldi mjög til bóta, herra forseti, að menn færu þá leið og vil minna á, og það eru mín síðustu orð, að það er að mínu mati eðlileg afgreiðsla með tilliti til þeirrar sáttar og niðurstöðu sem náðist um frestun á afgreiðslu á öðru umfangsmiklu þingmáli sem er frv. um gagnagrunna á heilbrigðissviði. Ég tel að þar hafi náðst farsæl lending og ég óska þess, herra forseti, að við gætum fundið þessu máli svipaðan farveg.