Starfssvið tölvunefndar

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:01:52 (6108)

1998-05-04 11:01:52# 122. lþ. 116.4 fundur 456. mál: #A starfssvið tölvunefndar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:01]

Fyrirspyrjandi (Ásta B. Þorsteinsdóttir):

Virðulegi forseti. Til þess að hafa eftirlit með lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga skipar dómsmrh. tölvunefnd. Samkvæmt 31. gr. laganna er verksvið tölvunefndar skýrt á eftirfarandi hátt:

,,Tölvunefnd hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara. Nefndin hefur að eigin frumkvæði, eða eftir ábendingum frá skráðum aðilum, eftirlit með því að til skráningar sé stofnað og skrár notaðar með þeim hætti sem fyrir er mælt í lögum þessum. Tölvunefnd veitir, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum, starfsleyfi, heimildir eða samþykki til einstakra athafna. Þá úrskurðar nefndin í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma.``

Með leyfi forseta vil ég nefna dæmi um þá veiku stöðu sem einstaklingar og hópar hafa gagnvart úrskurði tölvunefndar.

Árið 1995 fór félmrn. þess á leit við Ríkisendurskoðun að hún sæi um endurskoðun á sambýlum og vernduðum vinnustöðum fatlaðra. Verkefni Ríkisendurskoðunar lauk með útgáfu skýrslu sem innihélt ítarlegar upplýsingar um öll sambýli og verndaðar íbúðir fatlaðra á landinu. Persónuleg fjárhagsstaða hvers einasta íbúa var nákvæmlega tíunduð, nákvæmt heimilisfang, íbúafjöldi á hverju einasta sambýli var nákvæmlega tíundaður og að lokum var þess vandlega getið hvaða fötlun eða sjúkdóm hver og einn þessara íbúa var haldinn. Með skýrsluna og innihald hennar var ekki farið með sem trúnaðarmál heldur var hún öllum sem þess óskuðu aðgengileg.

Landssamtökin Þroskahjálp sendu tölvunefnd erindi þar sem farið var fram á að umræddum gögnum yrði eytt. Erindinu var synjað og taldi tölvunefnd ekki ástæðu til sérstakra athugasemda við vinnubrögð Ríkisendurskoðunar. Með vísan til þessa máls er því athyglisvert að skoða svar tölvunefndar til Ríkisendurskoðunar 1994 þar sem nefndin tjáir Ríkisendurskoðun að það sé mat nefndarinnar að lög um Ríkisendurskoðun geymi sérstaka lagaheimild fyrir stofnunina til aðgangs að upplýsingum er varða einkamálefni manna og sé henni því ekki þörf á heimild nefndarinnar fyrir aðgangi að þeim skrám sem henni eru nauðsynlegar í störfum sínum. Ekkert er getið um heimild Ríkisendurskoðunar til að birta svo nákvæmar persónuupplýsingar sem hér er fjallað um í opinberri skýrslu.

Þessi túlkun tölvunefndar, herra forseti, á heimildum Ríkisendurskoðunar til aðgangs að einkamálefnum manna gerir nefndina augljóslega vanhæfa til að fjalla um áfrýjun landssamtakanna Þroskahjálpar um þetta mál á því stigi sem það var borið fram. Úrskurður nefndarinnar er endanlegur og er ekki hægt að áfrýja honum annað. Því beini ég eftirfarandi spurningum til hæstv. dómsmrh.:

1. Telur ráðherra eðlilegt með hliðsjón af þrígreiningu ríkisvaldsins að tölvunefnd fari með eftirfarandi hlutverk:

a. að hafa frumkvæði að rannsókn einstakra mála,

b. að rannsaka þau og

c. að kveða upp endanlegan úrskurð í þeim?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að rannsóknar- og úrskurðarvald nefndarinnar verði aðgreint?