Starfssvið tölvunefndar

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:09:59 (6111)

1998-05-04 11:09:59# 122. lþ. 116.4 fundur 456. mál: #A starfssvið tölvunefndar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:09]

Fyrirspyrjandi (Ásta B. Þorsteinsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans. Þau hafa verið um margt upplýsandi, t.d. hvað það varðar að ný tilskipun ESB muni leiða til þess að hér þurfi að endurskoða lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og er það vel því að ég held að ekki sé nokkur vafi á því að verulega ágalla er að finna á þeirri löggjöf í dag, sérstaklega í ljósi þess hversu mikil aðsókn er orðin í upplýsingar og hversu mikið er gert af því að sækja til tölvunefndar, það sýna erindi tölvunefndar.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir minntist aðeins á umræðuna um gagnagrunna sem fór fram í þinginu í síðustu viku. Allt þetta hnígur í sömu átt að auðvitað þarf að fara vel yfir þau lög sem varða persónuupplýsingar og verndun þeirra.

Ég heyri ekki betur en að jafnvel séu hugmyndir manna uppi um að í nýju frv. um lög um meðferð og skráningu persónuupplýsinga væri hugsanlegt að koma á sérstakri kærunefnd og vil ég endilega hvetja til þess að menn skoði það af mikilli kostgæfni hvort ekki væri rétt að fara þá leið og nálgast þá gagnrýni sem hefur komið fram á störf tölvunefndar með því móti.

Hæstv. dómsmrh. talaði um sjálfstæði tölvunefndar og vissulega væri það mikilvægt. En ég ítreka að ég held að mjög mikilvægt sé að skorið verði á þetta vald tölvunefndar til að rannsaka, veita leyfi og síðan að úrskurða í málum sem að sumu leyti verði að teljast hennar eigin.