Starfssvið tölvunefndar

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:12:16 (6112)

1998-05-04 11:12:16# 122. lþ. 116.4 fundur 456. mál: #A starfssvið tölvunefndar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:12]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna þeirra athugasemda sem hér hafa komið fram er rétt að minna enn einu sinni á að niðurstaða, ákvarðanir og úrskurðir tölvunefndar verða í öllum tilvikum bornir undir dómstóla, allur ágreiningur verður borinn undir dómstóla. Þess vegna er það ekki svo að þær niðurstöður séu endanlegar.

Við höfum röð af eftirlits- og úrskurðarnefndum í þjóðfélaginu. Við höfum Samkeppnisstofnun, heilbrigðiseftirlit, fiskveiðieftirlit og langur listi af eftirlitsstofnunum í þjóðfélaginu sem vinna að athugunum og rannsóknum mála og úrskurða með svipuðum hætti ef ágreiningur kemur upp. Ég sé ekki að í þessu tilviki sé með neinum hætti verið að víkja frá þeirri meginreglu og væri það að minni hyggju ekki skynsamleg ráðstöfun.

Ég sé ekki í fljótu bragði að það mundi samræmast þeim nýju reglum sem verið er að vinna að á vettvangi Evrópusambandsins að greina þetta hlutverk í sundur. Þar liggur til að mynda alveg ljóst fyrir að það mundi ekki samrýmast þeim reglum að heimila stjórnsýslukæru til ráðherra. Þess vegna hefur að mínu frumkvæði verið ákveðið að skoða sérstaklega varðandi undirbúning laganna hér að þessum nýju evrópsku reglum hvort ekki verði unnt að koma upp sérstakri úrskurðarnefnd þannig að skjóta megi stjórnvaldsákvörðun tölvunefndar til úrskurðarnefndar. Ég geri mér vonir um að slíkt fyrirkomulag geti samrýmst þeim reglum sem verið er að setja upp innan Evrópusambandsins og um leið tryggt aukið réttaröryggi í þessu efni þannig að menn geti fengið stjórnvaldsúrskurði á áfrýjunarstigi áður en farið er með mál fyrir dómstóla.