1998-05-04 11:18:27# 122. lþ. 116.5 fundur 671. mál: #A vinnuregla Þróunarsjóðs sjávarútvegsins við úreldingu fiskvinnsluhúsa# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:18]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst rifja það upp að í lögunum um Þróunarsjóð var ekki gert ráð fyrir því að það væri skylda að úrelda fiskvinnsluhús. Á hinn bóginn var skylt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum að taka skip til úreldingar en sá þáttur sem laut að fiskvinnsluhúsum var á grundvelli laganna byggður algerlega á frjálsu mati sjóðsins og sjóðstjórnin taldi í samræmi við það að hún gæti sett skilyrði sem þetta varðandi ákvarðanir um úreldingu fiskvinnsluhúsa.

Ef ég vík svo að spurningunum sjálfum sem hv. þm. hefur lagt fram er þess að geta varðandi fyrstu spurninguna að sjóðurinn mun alls hafa keypt 20 hús.

Varðandi aðra spurninguna er það að segja að sjóðnum bárust allt 36 umsóknir þar sem umsækjandi gat ekki teflt fram kaupanda og fullnægt þannig skilyrðunum.

Varðandi þriðju spurninguna er það að segja að stjórn Þróunarsjóðs hefur ekki komið saman til fundar eftir að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var kveðinn upp í mars sl. og því hefur stjórnin ekki fjallað um niðurstöðu dómsins né tekið ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Verði málinu skotið til Hæstaréttar þarf að bíða niðurstöðu hans til þess að hægt verði að taka ákvörðun um mál Vinnslustöðvarinnar og annarra þeirra fyrirtækja sem hér um ræðir. Þó að stjórn Þróunarsjóðsins hafi ekki enn fjallað um málið og tekið ákvarðanir þykir mér mjög líklegt að niðurstaðan á þeim vettvangi verði sú að málinu verði áfrýjað.

Varðandi fjórðu spurninguna er það að segja að ekki verður séð að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur hafi nein áhrif á réttarstöðu þeirra fyrirtækja sem sóttu ekki um úreldingu fiskvinnsluhúsa. Það yrði ekki með góðu móti hægt að beita hlutbundnum aðferðum til þess að komast að því hvers vegna fyrirtækin sóttu ekki um úreldingu fiskvinnslustöðva.