1998-05-04 11:20:50# 122. lþ. 116.5 fundur 671. mál: #A vinnuregla Þróunarsjóðs sjávarútvegsins við úreldingu fiskvinnsluhúsa# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:20]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þau svör sem hann gaf við fyrirspurnum mínum. Eðli máls samkvæmt hlutu þau að verða takmörkuð þar sem eins og fram kom í máli hans stjórnin hefur ekki komið saman eftir að dómurinn féll til þess að fjalla um þessa niðurstöðu.

Hins vegar er athyglisvert að það kemur fram í svari hans að 36 umsóknum virðist hafa verið vísað frá á þeirri forsendu sem stjórn sjóðsins gaf sér um meðferð mála.

Þegar lögin voru sett á sínum tíma um Þróunarsjóð og um það að hægt væri að úrelda fiskvinnsluhús engu síður en fiskiskip lá alveg ljóst fyrir að menn voru á þeirri skoðun að grípa þyrfti til tiltekinna ráðstafana til þess að auka hagræðingu í sjávarútvegi. Það má þess vegna furðulegt heita að stjórn Þróunarsjóðsins skyldi í raun komast upp með að setja þau skilyrði sem hún setti sem gerðu það að verkum að einungis 20 hús hafa fengið eðlilega meðferð miðað við það sem má ætla að andi laganna hafi sagt fyrir um, 36 umsóknum hefur verið vísað frá og í rauninni eru ótaldar þær umsóknir sem hefðu komið til sjóðsins ef menn hefðu ekki gefið sér það fyrir fram að þeir ættu engan rétt eða möguleika vegna þess að auðvitað var það svo að fjöldi aðila sem sat uppi með ónýttar eða vannýttar fasteignir treysti sér aldrei til þess að sækja um vegna þeirrar reglu að menn yrðu sjálfir að vera búnir að útvega kaupanda áður en þeir sendu umsókn til sjóðsins. Það er kannski það fráleita í þessu öllu, herra forseti, að nákvæmlega þeir sem þurftu helst á atbeina sjóðsins að halda voru útilokaðir. Hinir sem gátu sjálfir fundið kaupanda að sínum eignum gátu fengið eins konar milligöngu hjá Þróunarsjóðnum um mál sín.

Ég tel, herra forseti, að það væri sæmst að stjórn sjóðsins kæmi saman og ynni einfaldlega eftir þeim lögum sem fyrir liggja.