Kennsla í grunnskólum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:24:53 (6117)

1998-05-04 11:24:53# 122. lþ. 116.6 fundur 512. mál: #A kennsla í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:24]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Þessi fyrirspurn var fram borin af varaþingkonu Kvennalistans, hv. þm. Birnu Sigurjónsdóttur. Þar sem hún er ekki lengur á þingi hef ég samþykkt að fylgja fyrirspurninni úr hlaði.

Samkvæmt nýlegri skýrslu undanþágunefndar fyrir grunnskóla hefur nú verið samþykkt 601 umsókn um undanþágu fyrir leiðbeinendur í grunnskólum fyrir skólaárið 1997--1998 og er það fjölgun um 50 frá árinu áður. Undanþágur hafa ekki verið fleiri síðan á árinu 1991--1992. Þessi aukning hlýtur að vera hæstv. menntmrh. áhyggjuefni sem og öllum þeim sem vilja enn betri grunnskóla. 377 umsóknir voru samþykktar af undanþágunefnd sem í eiga sæti fulltrúar kennarasamtaka, Kennaraháskólans og menntmrn. Um 224 umsóknir varð ágreiningur í nefndinni og þær því samþykktar af menntmrh. einum. 21 umsókn var hafnað og tveimur vísað frá.

Gera má ráð fyrir að þessir 600 leiðbeinendur hafi umsjón með kennslu um 10 þúsund grunnskólanemenda og ef þessir leiðbeinendur fylla 300 stöðugildi en margir þeirra eru í skertum stöðum, þá kenna þeir 10 þús. nemendum í um 8 þús. kennslustundir í viku hverri.

Í umræðum er oft látið að því liggja að leiðbeinendur séu flestir hámenntaðir en skorti aðeins próf í uppeldis- og kennslufræðum. Staðreyndin er sú að nærri 30% leiðbeinenda hafi aðeins stúdentspróf eða skemmri framhaldsskólamenntun. Stærsti hópurinn hefur að baki listnám, starfsmenntun eða aðra sérmenntun. Um fjórðungur hópsins hefur menntun á háskólastigi.

Sérkennsla fyrir seinfæra nemendur og nemendur með sértæka námsörðugleika gerir hvað mestar kröfur til sérþekkingar kennara. Í lögverndunarlögunum frá 1986 er kveðið á um að kennarar við sérkennslu skuli hafa 30--60 eininga framhaldsnám í sérkennslufræðum. Það stingur því í augu að sjá að í skýrslu undanþágunefndar eru við sérkennslu 57 leiðbeinendur. Stærsti hópurinn er reyndar með leikskólakennara-, þroskaþjálfa- eða aðra menntun sem nýtist á þessu sviði en níu þeirra hafa aðeins stúdentspróf og þetta er sérstaklega athyglisvert vegna þess að í því frv. sem liggur nú fyrir þinginu um lögverundun á starfsréttindum kennara er ekki getið neitt um menntun sérkennara þannig að ætla má að þarna eigi að fara að slaka á kröfum. Ég legg áherslu á það að með þessari fyrirspurn er ekki verið að veitast að leiðbeinendum, því fólki sem sinnir þessum störfum, heldur þeim sem bera ábyrgð á þeim.

Kennaraskortur er fyrst og fremst afleiðing margra ára láglaunastefnu gagnvart kennurum.

En spurningar Birnu Sigurjónsdóttur af þessu tilefni til hæstv. menntmrh. eru eftirfarandi:

1. Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa til að tryggja nemendum í grunnskólum kennslu menntaðra kennara?

2. Telur ráðherra réttlætanlegt að sérkennsla í grunnskóla sé í höndum einstaklinga sem hvorki hafa menntun í sérkennslufræðum né almenna kennaramenntun?