Kennsla í grunnskólum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:33:47 (6119)

1998-05-04 11:33:47# 122. lþ. 116.6 fundur 512. mál: #A kennsla í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:33]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég tek eftir því að hv. fyrirspyrjandi lætur þess getið að af þeim leiðbeinendum sem eru við sérkennslu sé stærsti hópurinn ýmist leikskólakennarar eða þroskaþjálfar. Hæstv. menntmrh. taldi að það væri kannski ekki á sínu valdi að hafa mikil áhrif þar á en ég vil samt spyrja hæstv. ráðherra hvort honum þætti sem það gæti verið á hans valdi eða a.m.k. hann hefði til þess nokkrar skyldur að skoða málefni þess hóps, sem er að störfum innan grunnskólans og grunnskólinn þarf í raun og veru á að halda vegna blöndunar, en hefur ekki formleg kennararéttindi en aðra menntun sem kemur að gagni, skoða málefni þessa hóps með það fyrir augum að þessir sérfræðingar verði viðurkenndir sem nauðsynlegir aðilar að þroska og kennslu þeirra nemenda sem þar eru þó að þeir séu ekki kennarar. Í dag eru þessir sérfræðingar allir ráðnir sem leiðbeinendur sem þýðir að bæði er faglega lítið gert úr þeim og staða þeirra er alltaf óviss.

Spurningin er því þessi: Telur menntmrh. að hann gæti með einhverjum hætti komið að því að breyta stöðu þessa fólks þannig að sérfræðiþekking þess nýttist sem skyldi?