Geðheilbrigðismál barna og unglinga

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:40:34 (6122)

1998-05-04 11:40:34# 122. lþ. 116.7 fundur 525. mál: #A geðheilbrigðismál barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:40]

Fyrirspyrjandi (Ásta B. Þorsteinsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. heilbrrh. um hvort unnið sé að heildstæðri stefnumótun fyrir landið allt í geðheilbrigðismálum barna og unglinga. Og ef svo er, hvernig miðar þeirri vinnu og hvenær má vænta niðurstöðu í málinu?

Þeir sem láta sig geðheilbrigðismál barna og unglinga varða, svo sem samtökin Umhyggja, barnageðlæknar, umboðsmaður barna og fleiri, hafa ítrekað látið í ljós nauðsyn þess að slík heildstæð stefna yrði mótuð. Mikil óvissa hefur ríkt í þessum málum. Á síðasta ári var t.d. mikill órói í kringum rekstur barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, fjárskortur og annar óróleiki sem leiddi til þess að yfirlæknir deildarinnar sagði upp störfum. Þó svo að málefni barna- og unglingageðdeildar virðist nú vera í ró eru önnur og brýn málefni sem standa óleyst, enda ekki nein stefna til um það með hvaða hætti eigi að leysa þau mál.

Samanborið við önnur Norðurlönd erum við miklir eftirbátar í að veita börnum með geðræn vandamál viðunandi geðlæknismeðferð. Hér á landi eru það aðeins um 0,4% í hverjum árgangi barna sem fá þjónustu barnageðlæknis ef þau eiga við geðræn vandamál að stríða. Á hinum Norðurlöndunum eru rúmlega 2% barna í hverjum árgangi sem leita eftir þjónustu barnageðlækna og fá hana. Því miður er þessi mismunur ekki vegna þess að færri íslensk börn eigi við geðræn vandamál að stríða, aðgengi þeirra að þjónustu geðlækna er því miður mun lakara en á öðrum Norðurlöndum.

Í svari við fyrirspurn minni fyrr í vetur um fjölda barna og ungmenna sem kæmu til meðferðar á Vog vegna fíkniefnanotkunar kom í ljós að sú tala fer hækkandi ár frá ári og núna eru um 264 börn og ungmenni sem leita eftir þjónustu á Vogi. Heilbrrh. lét þess getið í svari sínu að á Vogi starfaði einn geðlæknir. Hið rétta er að síðan í ársbyrjun hefur enginn geðlæknir starfað á Vogi þrátt fyrir það að í könnun, sem Helga Hannesdóttir barnageðlæknir gerði á geðheilbrigðisástandi barna og ungmenna sem lögðust inn á Vog til meðferðar, kæmi fram að á bilinu 15--36% þeirra ættu við ýmis alvarleg geðræn vandamál að stríða sem mætti skýra fíkniefnavanda þeirra. 36% þeirra sem tóku þátt í rannsókninni áttu við alvarleg hegðunarvandamál að stríða, 22% þeirra þjáðust af þunglyndi. Þessi ungmenni fara frá Vogi án þess að tekið sé á geðheilbrigðisvanda þeirra. Á bráðadeildir sjúkrahúsanna koma um 500--600 ungmenni á ári hverju eftir sjálfsvígstilraunir.

Mjög margir aðilar virðast vera að fást við að leysa vanda barna og ungmenna sem eiga við geðræn vandamál að stríða en það virðist lítið um samhæfingu eða samstarf þessara aðila að ræða. Telur hæstv. heilbrrh. að samhæfa þurfi störf þessara þjónustuaðila og vill hún beita sér fyrir því? Hvernig er ástand þessara mál á landsbyggðinni og (Forseti hringir.) er vel séð fyrir þeim málum utan höfuðborgarsvæðisins?

Ég er að ljúka máli mínu, herra forseti. Að lokum ein spurning til hæstv. heilbrrh.: Nær allir meðferðaraðilar sem fást við geðheilbrigðismál barna og ungmenna eru sammála um að hér þurfi að rísa lokuð meðferðarstofnun eða bráðastofnun í Reykjavík. Deilir hæstv. heilbrrh. þeirri skoðun?