Geðheilbrigðismál barna og unglinga

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:54:13 (6126)

1998-05-04 11:54:13# 122. lþ. 116.7 fundur 525. mál: #A geðheilbrigðismál barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:54]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í fyrra svari mínu, þá erum við að tala um heildstæða stefnu fyrir landið allt. Þegar við tölum um greiningarstöð þá er það fyrir landið allt að sjálfsögðu.

Mig langar að koma inn á það sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir sagði hér áðan. Hún talaði um að barnageðlækni vantaði á Vog, eða stofnanir SÁÁ, þó öðru hefði verið haldið fram. Þar var barnageðlæknir en við eigum allt of fáa barnageðlækna á Íslandi. Það er okkar vandamál, bæði á þessum meðferðarstofnunum og barna- og unglingageðdeildinni.

Mig langar að geta þess að Einar Gylfi Jónsson, sálfræðingur hjá SÁÁ, hefur margsinnis sagt á opinberum vettvangi að aðgengi fyrir unga vímuefnaneytendur á Íslandi að meðferð sé betri á Íslandi en nokkurs staðar annars staðar. Þar með er ekki sagt að ekki megi bæta úr. Þegar við ræðum um lokuð meðferðarúrræði, þá verðum við að nýta þau úrræði sem við eigum í dag, með þeim breytingum sem við sjáum að þurfa að vera á þeim miðað reynslu okkar. Það er mjög mikilvægt, eins og fram kom í svari mínu hér áðan, að félmrn. og heilbrrn. vinni að þessu saman. Við erum hér að tala um börn undir lögaldri.