Innheimta komugjalda heilsugæslustöðva

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:58:27 (6128)

1998-05-04 11:58:27# 122. lþ. 116.8 fundur 662. mál: #A innheimta komugjalda heilsugæslustöðva# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:58]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það er grundvallaratriði í heilbrigðisþjónustu hér á landi að allir fái heilbrigðisþjónustu sem á þurfa að halda, óháð efnahag. Ráðherra eða ráðuneyti hafa ekki gefið heilsugæslustöðvum eða öðrum stofnunum sem undir ráðuneytið heyra nein fyrirmæli um hvernig haga skuli innheimtu sértekna. Um innheimtu sértekna gilda almennar reglur en vegna þess að hér er um mjög sérstaka þjónustu að ræða er það háð mati stjórnenda stofnunar hversu langt skuli gengið í innheimtuaðgerðum hverju sinni.

Ekki þarf sérstaka heimild frá ráðherra eða ráðuneyti fyrir því að setja komugjöld eða önnur gjöld í innheimtu. Stjórnendum stofnana er treyst fyrir því að ákveða hvort og hvenær eðlilegt og skynsamlegt sé að grípa til innheimtuaðgerða. Við slíkt mat hljóta þeir að horfa á hvert einstakt tilvik, aðstæður einstaklingsins og einnig það að vafasamt er að eyða miklum tíma eða leggja í mikinn kostnað við innheimtu lágra fjárhæða. Ég tel að dæmið sem hv. þm. Ögmundur Jónasson kom með áðan sé nánast einsdæmi.