Innheimta komugjalda heilsugæslustöðva

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:01:10 (6130)

1998-05-04 12:01:10# 122. lþ. 116.8 fundur 662. mál: #A innheimta komugjalda heilsugæslustöðva# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:01]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég tek undir málflutning hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Auðvitað er mergurinn málsins þau lög sem þessar innheimtuaðgerðir hvíla á. Svo er að skilja á hæstv. ráðherra að það beri ekki að líta á þetta sem hverja aðra viðskiptasamninga þótt hér séu dæmi um að svo sé gert í reynd en ég hjó eftir öðru í svari hæstv. ráðherra sem var á þá leið að það svaraði ekki tilkostnaði að innheimta lága reikninga og þess vegna er spurning mín þessi: Hvað með hina háu reikninga? Hvað með þá reikninga sem fólk greiðir ekki vegna þess að þeir eru svo háir og kostnaðurinn svo mikill að fólk rís ekki undir þeim? Er eðlilegt að mati hæstv. ráðherra að vísa innheimtu slíkra reikninga til innheimtulögfræðinga? Ég vil að lokum leggja áherslu á að hvernig sem á þessi mál er litið getur niðurstaðan að mínum dómi aðeins orðið ein. Þau lög sem þessar siðlausu innheimtuaðgerðir hvíla á ber að afnema þegar í stað.