Innheimta komugjalda heilsugæslustöðva

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:02:49 (6131)

1998-05-04 12:02:49# 122. lþ. 116.8 fundur 662. mál: #A innheimta komugjalda heilsugæslustöðva# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:02]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þau lög gilda í landinu að þeir sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda eiga að fá hana. Þjónustugjöld hafa ekki verið hækkuð síðan um áramótin árið 1996 og við höfum haldið þjónustugjöldum niðri.

Ég sagði áðan að ég teldi það dæmi sem nefnt var vera einsdæmi og ég tel almennt að sú heilbrigða skynsemi sem ræður hjá stjórnendum sjúkrastofnana hafi ráðið og ráði. Mér finnst með þeim stóryrtu lýsingum sem hafa verið færðar vera skotið töluvert yfir markið og almennt vita menn að innan heilsugæslunnar þekkja menn það vel til þeirra einstaklinga sem þangað koma að ekki er gengið hart eftir þjónustugjöldum og þau eru ekki há í heilsugæslunni, sem betur fer, og þar eru þök sem hv. þm. þekkja. Þegar einstaklingar eru komnir upp í visst þak er ekki greiddur nema þriðjungur eftir það en almennt held ég að sú skynsemi sem hefur ráðið varðandi innheimtuaðgerðir sé sú leið sem menn hafa farið og munu fara.