Tóbaksvarnir

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:19:50 (6139)

1998-05-04 12:19:50# 122. lþ. 116.10 fundur 688. mál: #A tóbaksvarnir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:19]

Fyrirspyrjandi (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Mikill árangur náðist í baráttunni gegn reykingum hjá ungu fólki alveg fram yfir 1990. Nú hefur slegið í bakseglin og á allra síðustu árum hafa reykingar vaxið hjá unglingum. Þetta er mikið áhyggjuefni, einkum þegar litið er til þess að sterkt samband er milli reykinga og neyslu annarra vímuefna.

Þegar ný lög um tóbaksvarnir voru samþykkt á Alþingi árið 1996 var ákveðið að stórhækka fjárframlög til tóbaksvarna. Nú eru tvö ár liðin og komin nokkur reynsla á nýju lögin og því spyr ég heilbrrh.:

1. Hver er reynslan af þeirri hækkun sem varð á framlagi til tóbaksvarna á árinu 1996 þegar lögfest var að 0,7% af brúttósölu tóbaks í stað 0,2% áður skyldi varið til tóbaksvarna?

2. Hvernig hefur þessum fjármunum verið varið?

3. Hvernig hyggst tóbaksvarnanefnd bregðast við endurteknum niðurstöðum kannana sem sýna að reykingar hafa aukist hjá ungu fólki?

Herra forseti. Nú í vor kom út á vegum Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála bókin Vímuefnaneysla ungs fólks. Höfundar eru fólk sem hefur mikla þekkingu á þessum málum og hefur unnið lengi að rannsóknum á þeim. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Eitt megininntak í forvarnastarfi á Íslandi hefur verið fræðsla um skaðsemi tóbaks og vímuefna. Slíkt starf er nauðsynleg forsenda til að ná árangri í baráttu við vímuefni og verður alltaf að vera í gangi. Hins vegar er mikilvægt að gera sér grein fyrir að takamarkaður árangur næst í þessari baráttu með slíkri fræðslu einni saman. ... Niðurstöður okkar benda til þess að huga þurfi betur að óformlegu taumhaldi í samfélaginu, sérstaklega því taumhaldi sem verður til í persónulegum samskiptum.

Öflugt forvarnastarf þarf að beinast að því að bæta félagslegt umhverfi ungmenna. Niðurstöður okkar sýna að unglingar sem verja litlum tíma með foreldrum sínum og fjölskyldu og unglingar sem fá lítið aðhald og eftirlit heima fyrir eru mun líklegri til þess að reykja og neyta vímuefna en þeir unglingar sem verja meiri tíma með fjölskyldunni og eiga foreldra sem veita þeim aðhald. Þetta styður okkur í þeirri skoðun að virkja þurfi foreldra og beina athygli þeirra að þeim þáttum í samskiptum fjölskyldunnar sem draga úr óæskilegum áhrifum jafningjahópsins.``

Undir þetta vil ég taka sérstaklega og einnig aðrar niðurstöður og ábendingar til úrbóta sem fram koma í bókinni.