Köfun niður að Æsu ÍS 87

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:31:39 (6143)

1998-05-04 12:31:39# 122. lþ. 116.11 fundur 586. mál: #A köfun niður að Æsu ÍS 87# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:31]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Æsa ÍS 87 fórst sem kunnugt er í Arnarfirðinum í júlímánuði 1996 og viðbrögð stjórnvalda í kjölfar slyssins mörkuðust mjög af vantrú á að unnt væri að kafa niður að skipinu og jafnvel ná því upp af hafsbotni, sem nauðsynlegt var að gera í því skyni að afla óyggjandi upplýsinga um orsakir slyssins. Þannig kom fram í utandagskrárumræðu um málið, sjö mánuðum eftir að slysið varð, hjá hæstv. samgrh. að hann teldi ekki víst að unnt væri að kafa niður að skipinu, en það liggur á 76 metra dýpi. Enn fremur kom í sömu umræðu fram hjá hæstv. utanrrh. að svonefnd köfunarsveit setuliðsins á Keflavíkurflugvelli treysti sér ekki til að kafa niður að skipinu og hvatti til þess að málið yrði skoðað í því ljósi.

Engu að síður komu fram upplýsingar frá öðrum, þar með töldum fagmönnum, um að þetta væri gerlegt og jafnvel hægur vandi. Vitna má til ummæla ýmissa kafara í dagblöðum því til stuðnings. Svo fór að í maímánuði á síðasta ári voru fengnir breskir kafarar til að annast köfun niður að skipinu. Í framhaldi af því vil ég leyfa mér að bera fram eftirfarandi þrjár fyrirspurnir, sem er að finna á þskj. 993, um köfunina niður að Æsu ÍS 87:

1. Hver varð heildarkostnaður við köfun niður að Æsu ÍS 87 á síðasta ári, þar með talinn kostnaður vegna varðskips með áhöfn, lögregluyfirvalda, Siglingastofnunar og ID-nefndar?

2. Hvaða íslenskir aðilar buðust til þess að taka verkið að sér, hvert var tilboð þeirra, hvenær var tilboði þeirra svarað og hvers vegna var því hafnað?

3. Hvers vegna var verkið ekki boðið út?