Köfun niður að Æsu ÍS 87

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:40:12 (6145)

1998-05-04 12:40:12# 122. lþ. 116.11 fundur 586. mál: #A köfun niður að Æsu ÍS 87# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:40]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Málefni Æsu hafa lengi verið til umræðu hjá þjóðinni og margir furðað sig á að ekki skuli hafa verið gengið strax í að ná þessu skipi upp svo hægt væri að rannsaka orsakir þess að skipið fórst og ná upp þeim sem með skipinu fórust, ef þeir skyldu enn vera um borð. Hjá öðrum þjóðum eins og t.d. Norðmönnum, er skylda að ná upp skipum sem sökkva svo fremi að einhver kostur er á því. Í þessu tilfelli tel ég fyllilega eðlilegt og tiltölulega auðvelt að ná skipinu upp þó auðvitað kosti það peninga.

Í mínum huga væri eðlilegt að hæstv. samgrh. beitti sér fyrir breytingum á siglingalögum um tryggingar skipa þannig að í tryggingarskírteinum þeirra væri kafli sem gerði ráð fyrir að ná skipum af hafsbotni undir vissum kringumstæðum.