Köfun niður að Æsu ÍS 87

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:41:39 (6146)

1998-05-04 12:41:39# 122. lþ. 116.11 fundur 586. mál: #A köfun niður að Æsu ÍS 87# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:41]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin. Ég vil láta það koma fram strax að þau eru ófullnægjandi að því leyti að ekki var svarað til um heildarkostnað eins og spurt var um. Mér þykir nokkuð slælega að verki staðið þegar hæstv. samgrh. getur ekki á þeim vikum sem hann hefur haft til að afla gagna við svari fengið svör frá dómsmrn. um þann kostnað er laut að því ráðuneyti.

Ég vil þó segja að málið eins og það lítur út núna hefur afsannað algerlega þann málflutning stjórnvalda, þar á ég við samgrh. og Siglingastofnun, um að ekki væri hægt að kafa niður að skipinu. Það hefur einnig verið afsannað að kostnaðurinn væri svo mikill að óviðráðanlegt væri. Ég minni á að samgrh. lýsti því yfir í utandagskrárumræðu, sem ég gat um í fyrri ræðu minni, að kostnaðurinn væri yfir 30 millj. kr. Ég átel stjórnvöld fyrir sleifarlag í þessum efnum og fyrir að hafa ekki haft sómasamlega vitneskju um möguleikana til þess að kafa niður að flökum og ná þeim upp af hafsbotni.

Ég bendi á, vegna þess sem fram kom hjá hæstv. samgrh. varðandi tilboð Djúpmyndar, að það var lagt inn í febrúarmánuði, nærri tveimur mánuðum áður en þeim berst tilboð frá bresku köfurunum. Þann 14. maí svarar samgrn. bréfi Djúpmyndar með þeim orðum að það hafi haft bréf þess til athugunar, þakkar fyrir áhuga á málefninu, en að lokinni yfirvegun var ákveðið að ganga til samninga við annað fyrirtæki um rannsókn á flaki Æsu ÍS. Ráðuneytið sjálft leit því svo á að um væri að ræða tilboð til verksins, eins og vissulega var.