Köfun niður að Æsu ÍS 87

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:44:04 (6147)

1998-05-04 12:44:04# 122. lþ. 116.11 fundur 586. mál: #A köfun niður að Æsu ÍS 87# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:44]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég bið afsökunar á að hafa gleymt að svara þessum þætti, hvenær ráðuneytið svaraði Djúpmynd. Það er hins vegar ekki rétt hjá hv. þm. að því bréfi komi fram að um tilboð sé að ræða. Til að það sé alveg ljóst ætla ég að lesa bréfið upp með leyfi hæstv. forseta, frá orði til orðs:

,,Reykjavík, 14. maí 1997.

Ráðuneytið hefur haft til athugunar bréf yðar, dagsett 26. febrúar 1997, og þakkar yður áhugann á téðu málefni, en að lokinni yfirvegun var ákveðið að ganga til samninga við annað fyrirtæki um rannsókn á flaki Æsu ÍS 87.

Fyrir hönd ráðuneytisins, Jósep H. Þorgeirsson.``

Það er því alveg ljóst að í bréfi ráðuneytisins felst ekki viðurkenning á því að um tilboð sé að ræða.

[12:45]

Í öðru lagi vil ég segja út af þeim ummælum sem hv. þm. Kristján Pálsson viðhafði að mér er ekki kunnugt um að í Noregi gildi þær reglur og skylda á útgerðarmönnum að ná upp skipum sem hafa sokkið og ef svo er eru það ný tíðindi fyrir mér og ég mun að sjálfsögðu láta athuga það. Ég man ekki betur en ég hafi látið athuga það á sl. vetri og niðurstaða þeirrar rannsóknar hafi verið að sú skylda hvíli ekki á norskum útgerðarmönnum að ná upp skipum sem sökkva við Noregsstrendur.

Ég vil í þriðja lagi segja að ég get ekki á það fallist að sleifarlag hafi ríkt í sambandi við aðkomu samgrn. að málefnum Æsu. Ég hef fundið að það vaknar áhugi á þessu máli á Alþingi og hefur gert af og til en á hinn bóginn hefur ekki verið um frumkvæði að ræða frá einstökum þingmönnum í þessu máli í sölum Alþingis, hvorki við afgreiðslu aukafjárlaga né síðustu fjárlaga. Jafnframt dreg í efa að ég hafi sagt áður í umræðum á Alþingi að ekki fyndust í veröldinni tæki til þess að kafa niður á 75 metra dýpi. Má vera að ég hafi sagt það en hafi ég sagt það þá er þar greinilega um mismæli að ræða.