Rannsóknarnefnd sjóslysa

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:46:45 (6148)

1998-05-04 12:46:45# 122. lþ. 116.12 fundur 587. mál: #A rannsóknarnefnd sjóslysa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:46]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Senn eru liðnir 22 mánuðir síðan skipið fórst og málið er enn í rannsókn. Fyrir réttu ári voru fengnir breskir kafarar til þess að kafa niður að flakinu, m.a. í því skyni að leita eftir því hvort skýringar fyndust á orsökum slyssins. Var m.a. lögð áhersla á að ná upp plógi skipsins og tókst það þann 16. maí þegar skelplógurinn náðist upp. Fram kom að þar væri um að ræða mikilvægan hlekk í rannókninni á ástæðum sjóslyssins frá fulltrúa Siglingastofnunar.

Þrátt fyrir að markmið köfunarinnar hafi því náðst að þessu leytinu til sem lýtur að rannsókn slyssins er nú liðið eitt ár síðan og enn ekki komin niðurstaða í rannsóknina.

Ég leyfi mér því að bera fram tvær svohljóðandi fyrirspurnir til samgrh. á þskj. 994:

1. Hvenær er að vænta niðurstöðu rannsóknarnefndar sjóslysa um orsakir þess að Æsa ÍS 87 fórst?

2. Hvers vegna hefur í tvígang verið skipt um formann nefndarinnar í þeirri rannsókn? --- En það gefur auga leið að mannaskipti í nefndinni á rannsóknarstigi eru ekki til þess að greiða fyrir störfum hennar.