Menntun leigubifreiðastjóra með tilliti til ferðaþjónustu

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:01:54 (6153)

1998-05-04 13:01:54# 122. lþ. 116.13 fundur 589. mál: #A menntun leigubifreiðastjóra með tilliti til ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:01]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Spurt er: Hefur ráðherra þegar hafið undirbúning að sérstökum námskeiðum fyrir leigubifreiðastjóra þar sem þeir eru þjálfaðir í að veita erlendum ferðamönnum þjónustu eða eru uppi áform um að koma slíkum námskeiðum á? Svarið við þessu er að ráðherra hefur slíkt námskeið ekki í undirbúningi enda ekki á vettvangi hans. Ég vil í þessu sambandi rifja upp að á árinu 1997 beitti ég mér fyrir breytingu á lögum um leigubifreiðar. Þá kom inn sérstök heimild til þess að samgrh. væri heimilt að veita tímabundið og skilyrt atvinnuleyfi til rekstrar á leigubifreið til bifreiðastjóra sem væri jafnframt fullgildur leiðsögumaður þannig að það er svo nú að fullgildir leiðsögumenn hafa heimild til þess að reka leigubifreiðar til viðbótar þeirri hámarkstölu sem er um fjölda leigubifreiða á þeim svæðum þar sem um slík ákvæði er að tefla eins og á höfuðborgarsvæðinu.

Ég vil á hinn bóginn rifja það upp að Ferðamálaráð er sú stofnun sem kemur að fræðslu- og upplýsingamálum greinarinnar. Starfandi eru ferðamálafulltrúar um allt land en hlutverk þeirra er m.a. að efla þjónustu. Í sveitarfélögum utan Reykjavíkursvæðisins er nú um tugur starfandi leigubifreiðastjóra.

Út af fyrir sig er ég sammála hv. þm. um að mjög gott væri að efna til kynningarnámskeiðs fyrir leigubifreiðastjóra, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar. Ég vil í því sambandi rifja upp að í stefnumörkun ferðaþjónustunnar sem unnið hefur verið að og unnið er að er sérstaklega tekið fram að nauðsynlegt sé að skipulögð verði styttri námskeið og endurmenntun í ferðamálagreinum og að slíkt nám verði boðið fram í fjarnámi og í endurmenntunarstofnunum. Þá er hugmyndin sú að Ferðamálaráð hafi yfirumsjón með faglegu hliðinni í samvinnu við menntastofnanir og hagsmunaaðila en menntmrn. hefur tekið yfir þann þátt að sjá um menntun leiðsögumanna og annarra slíkra sem var áður á starfssviði samgrn. Ég er þess vegna sammála hv. þm. um að nauðsynlegt sé að reyna með þessum hætti með öðrum ráðstöfunum að gefa sem flestum kost á námskeiðum og endurmenntun í ferðamálagreinum þeim sem á annað borð koma að ferðaþjónustunni eða móttöku erlendra ferðamanna.

Spurt er: Hvert er hlutverk leiguaksturs í uppbyggingu ferðaþjónustu hérlendis? Ferðaþjónustan er náttúrlega sett saman úr mörgum þáttum. Eins og ég sagði áðan hefur vantað upp á að leigubifreiðastjórar almennt hafi þá tungumálaþekkingu sem nauðsynlegt er til þess að þeir geti tekið að sér leiðsögumannshlutverkið um leið og þeir aka ferðamönnum um landið. Eins og ég sagði áðan bar ég þá tillögu fram á Alþingi og hún var samþykkt að heimilt væri að leyfa fullgildum leiðsögumönnum að reka leigubifreiðar og þjóna þannig ferðamönnum.

Nú hefur það verið þannig um áratuga skeið að einstakir leigubílstjórar hafa lagt sig fram um að þjóna sérstaklega ferðamönnum. Þegar ég var í Hvalstöðinni man ég sérstaklega eftir einum leigubílstjóra sem þar var tíður gestur og svo hefur það raunar verið um ýmsa aðra. Þeir hafa náð sambandi og samningum við erlenda menn og þjónustað þá jafnvel árum saman svo að nokkuð er um þetta. En öll menntun er auðvitað góð, öll fræðsla er góð og nauðsynlegt að vera vakandi fyrir því að leigubifreiðastöðvarnar hafi innan stöðva sinna menn sem hæfir eru til þess að rækja leiðsögumannshlutverkið um leið og þeir aka bílum sínum.