Menntun leigubifreiðastjóra með tilliti til ferðaþjónustu

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:07:19 (6154)

1998-05-04 13:07:19# 122. lþ. 116.13 fundur 589. mál: #A menntun leigubifreiðastjóra með tilliti til ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:07]

Fyrirspyrjandi (Ólafur Örn Haraldsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans og fyrir að taka undir þau meginsjónarmið að allir sem koma að ferðaþjónustu og þá um leið leigubílstjórar þurfa að veita gæðaþjónustu.

Við erum að tala um tiltölulega einfalt mál. Leigubílstjórarnir vilja sjálfir koma þessum námskeiðum á. Ekki er verið að biðja ráðuneytið um að standa fyrir þessum námskeiðum. Aðeins er verið að biðja um að þetta verði tekið inn í námskrá svo að þeir geti bætt þessu við þau námskeið sem þeir eru með. Þeir eru þegar með námskeið um rekstur, þjónustu, bókhald, þjónustu við fatlaða, þjónustu við börn og aldraða. Þetta eru mennirnir allt saman að gera til þess að vanda þjónustu sína. Ég veit að margir óska eftir því að fá tækifæri til þess að endurmennta sig og auka menntun sína og þjónustu í ferðaþjónustunni. Það finnst mér að ráðuneytið eigi að styðja eins og ég heyrði á ráðherranum að vilja styðja það almenna sjónarmið en það er best gert með því að heimila þeim að standa fyrir þessum námskeiðum og ég endurtek að þeir greiða þetta sjálfir.

Ég tek skýrt fram að hér er alls ekki að mínu viti verið að tala um að leigubílstjórarnir eigi að taka vinnu frá leiðsögumönnunum eða gerast leiðsögumenn. Til þess þarf miklu meiri sérmenntun og aðrir sinna því. Því tel ég að hér sé um einfalt framfaramál að ræða og ég veit að áhugi ráðherrans stendur til að hjálpa til á þessu sviði og ég vona að hann taki þar hraustlega á með mönnum sem vilja bæta þjónustu sína og um leið að auka möguleika í atvinnugrein sinni.