Stöðugleiki og öryggisbúnaður skipa

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:12:27 (6157)

1998-05-04 13:12:27# 122. lþ. 116.14 fundur 590. mál: #A stöðugleiki og öryggisbúnaður skipa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:12]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir að hv. þm. hafi sagt að af 20 bátum slysavarnafélaganna hringinn í kringum landið stæðust aðeins þrír bátar skoðun. Var það rétt tekið eftir? (KPál: Já, það er rétt.) Já, og þær upplýsingar hafi fengist hjá Siglingastofnun. Mér finnst sjálfsagt að ræða það við slysavarnafélögin að svo skuli vera og hygg ég að forustumönnum slysavarnadeilda á einstökum stöðum þyki þetta forvitnilegar upplýsingar.

Hv. þm. spyr í fyrsta lagi: Hve mörg skip eru með haffærisskírteini en uppfylla ekki kröfur um stöðugleika samkvæmt skýrslu Siglingastofnunar Íslands frá síðasta ári og hvaða skip eru það?

Nú vil ég fyrst segja það, herra forseti, að spurningin er undarlega orðuð en ég hef kosið að skilja hana svo að hv. þm. sé að spyrja um hvernig ástandið sé nú og er þá þetta að segja:

Á sl. vori var sett af stað átaksverkefni um stöðugleika íslenskra fiskiskipa. Markmið verkefnisins verður að fara yfir reglur um stöðugleika skipa og framkvæmd þeirra, gera stöðugleika allra skipa með haffæri þekktan og auka þekkingu skipstjórnarmanna á stöðugleikamálum. Átaksverkefnið er komið vel á veg. Nú þegar hefur verið kannaður stöðugleiki stórs hluta þeirra skipa sem ekki höfðu stöðugleikagögn og tvær nýjar reglugerðir um kröfur til stöðugleika fiskiskipa hafa verið gefnar út. Samkvæmt þessum reglugerðum verður haffærisskírteini ekki gefið út til skipa sem uppfylla ekki tilgreindar lágmarkskröfur um stöðugleika.

Siglingastofnun Íslands hefur kannað fjölda þeirra fiskiskipa sem höfðu haffæri 20. mars sl. en uppfylltu samkvæmt fyrirliggjandi stöðugleikagögnum þá ekki þessar sérstöku lágmarkskröfur. Af samtals 592 skipum uppfylltu þrjú skip ekki kröfurnar.

Ástæða þess að þessi þrjú skip hafa enn haffæri er sú að haffærisskírteini var gefin út fyrir gildistöku reglugerðanna og var gildistími haffærisskírteinanna ekki út runnin þegar könnunin var gerð. Nú vil ég taka fram að samkvæmt reglum voru ekki skilgreindar sérstakar stöðguleikakröfur vegna þessara skipa vegna aldurs þeirra. Eitt þessara skipa mun fara í skoðun í þessum mánuði, eitt í júní og hið síðasta í ágústmánuði þannig að þess er að vænta að á haustdögum hafi verið bætt úr ágöllum þessara skipa.

Í öðru lagi er spurt: Hve mörg skip eru með haffærisskírteini en hafa fengið athugasemdir við öryggisbúnað?

Um þessa spurningu er þetta að segja: Eftirlit Siglingastofnunar Íslands með skipum er til fjölda atriða sem einkum tengjast smíði og búnaði skipa. Skoðanirnar eru þrenns konar: Aðalskoðun, aukaskoðun og skyndiskoðun. Þegar skip eru skoðuð útfylla skoðunarmenn skoðunarskýrslur þar sem skráðar eru athugasemdir um þau atriði sem skoðuð eru, bæði atriði sem eru í lagi og þau sem ekki eru í lagi. Þannig er það oftar en ekki en einhverjar athugasemdir eru gerðar við skoðun skipa en þær athugasemdir eru hins vegar misalvarlegar. Í kjölfar skoðunar er tekin ákvörðun um það hvort gefa eigi út haffærisskírteini og byggist sú ákvörðun á mati sérfróðra manna. Ef gerðar hafa verið alvarlegar athugasemdir við skoðun er ekki gefið út haffærisskírteini fyrr en bætt hefur verið úr ágöllum. Ef gerðar eru athugasemdir sem ekki teljast alvarlegar er veittur frestur til úrbóta þannig að gefið er út haffærisskírteini til skamms tíma. Ef athugasemdir eru minni háttar er gefið út haffærisskírteini til heils árs gegn loforði eiganda um úrbætur innan skamms.

Hjá Siglingastofnun Íslands er nú stefnt að því að taka upp kerfisbundna skráningu á athugasemdum í skoðunarskýrslum svo hægt sé að taka saman tölulegar upplýsingar um efni og umfang þeirra.

Í þriðja lagi er spurt: Hve mörg skip eru með athugasemdir í haffærisskírteini á fresti?

Í 15. gr. laga um eftirlit með skipum er Siglingastofnun Íslands veitt heimild til að veita hæfilegan frest til úrbóta ef skoðun skips leiðir í ljós minni háttar ágalla sem er ekki hægt að bæta úr þegar í stað. Athugasemdir þar að lútandi eru færðar í skoðunarskýrslu og haffæriskírteini gefið út til skamms tíma. Athugasemdirnar eru hins vegar ekki skráðar á haffærisskírteinið.

Eins og fram kemur í þessum svörum, herra forseti, er verið að vinna að tölvuvæðingu á þeim upplýsingum sem spurt er um og koma upp samræmdri skráningu þannig að tölulegar upplýsingar geti legið fyrir en eins og nú standa sakir er mjög mikið verk að fletta öllum gögnum en þetta eru þær upplýsingar sem hægt er að veita á þessari stundu.