Virðisaukaskattur af handverksmunum úr íslenskum náttúruefnum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:41:24 (6166)

1998-05-04 13:41:24# 122. lþ. 116.16 fundur 677. mál: #A virðisaukaskattur af handverksmunum úr íslenskum náttúruefnum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:41]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Því miður verð ég að svara hv. fyrirspyrjanda neitandi. Ríkisstjórnin hyggst ekki fella niður virðisaukaskatt af handverksmunum þeim sem fyrirspyrjandi gerði að umtalsefni.

Við upptöku virðisaukaskattsins árið 1990 og við undirbúning laga nr. 80/1988 um þann skatt var það eitt meginmarkmiðið að hafa skattskylduna sem almennasta og undanþágur í lágmarki. Þær undanþágur sem ákveðnar voru í upphafi vörðuðu fyrst og fremst tiltekna þjónustu sem ekki þótti fært að skattleggja og hafði verið undanþegin í eldra söluskattskerfi og er reyndar undanþegin í flestum nágrannaríkjum. Má þar t.d. nefna heilbrigðisþjónustuna, félagslega þjónustu ýmiss konar og menntastarfsemi.

Sala hins vegar á vörum innan lands í atvinnuskyni var og er almennt skattskyld og það er lykilatriði. Það er talinn styrkur virðisaukaskattkerfisins að skattskyldan sé almenn og skattstofninn breiður. Allar undanþágur þurfa þess vegna að vera mjög vel rökstuddar og skýrt afmarkaðar og það þarf að vera auðvelt að skilgreina undanþegna aðila og aðgreina undanþeginn skattstofn og síðan má undanþágan ekki raska samkeppnisstöðu á viðkomandi markaði. Undanþágur í því skyni að styrkja tiltekna aðila eða tiltekna vörusölu eru til þess fallnar að veikja skattkerfið og þess vegna ekki síst er það ekki á dagskrá að fella niður umræddan virðisaukaskatt.

Síðari spurning fyrirspyrjanda lýtur að því hvort ríkisstjórnin áformi sérstakan stuðning við handverksfólk í dreifbýli. Því get ég eiginlega ekki svarað. Fjmrh. er kannski ekki til frásagnar um það en mér er ekki kunnugt um slík áform og get því ekki frekar tjáð mig um þau á þessum fundi.