Virðisaukaskattur af handverksmunum úr íslenskum náttúruefnum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:44:35 (6168)

1998-05-04 13:44:35# 122. lþ. 116.16 fundur 677. mál: #A virðisaukaskattur af handverksmunum úr íslenskum náttúruefnum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:44]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég var að vona að það hefði verið tekið upp í ríkisstjórn hvað væri hægt að gera til að styðja við bakið á fólki, ekki síst til sveita, sem er að fást við slíka framleiðslu eða er í raun og veru að nýta sitt hugvit á þennan hátt. En ég geri mér líka grein fyrir því að hæstv. fjmrh. hefur auðvitað ekki tök á að vita um þá umræðu sem hefur átt sér stað áður en hann kom til starfa. Þess vegna spyr ég ráðherrann hvort honum sé kunnugt um hvaða listmunir eru undanþegnir virðisaukaskatti því að auðvitað þekki ég til þeirra áforma sem voru með lögin um virðisaukaskatt í upphafi. En það ákveðnir listmunir og ákveðin listmunagerð eru undanþegin.

Mig langar líka að vekja athygli á ágætu erindi sem haldið var í Norræna húsinu fyrir tveimur árum um þessi mál þar sem athygli var vakin á þessari listgrein sem ég kýs að kalla svo. Þar sagði Elín Antonsdóttir, sem þar var með erindi, að fólk sem stundar handverk sem afþreyingu í frístundum sínum þurfi yfirleitt ekki að hafa af því hagnað. Það er í flestum tilvikum í annarri vinnu eða komið á eftirlaun. Mörgu þessu fólki er oft ekki nægilegt að vinna fallega hluti til að gefa eða eiga sjálft heldur vill það selja vöruna og í þeim tilvikum er ekki lagður á virðisaukaskattur né önnur gjöld. Því fer svo að atvinnufólkið verður ekki samkeppnisfært hvað varðar verð sem oftar en hitt er viðmiðunarstuðull fólks þegar það kaupir handunna gjafa- eða nytjavöru.

Þetta er mjög stórt mál og margir hafa fjallað um það og ég vek athygli á því að um liðna helgi var sýning í Reykjavík á slíkum munum sem framleiddir eru kannski að stærstum hluta í dreifbýlinu. Ég beini því þeirri spurningu til ráðherra hvort hann vilji kanna, ef honum er ekki kunnugt um það, hvaða hlutir eru undanþegnir og hvort hann vilji taka það upp í ríkisstjórn hvernig megi styðja þetta fólk.