Álagning fjármagnstekjuskatts

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:49:17 (6170)

1998-05-04 13:49:17# 122. lþ. 116.17 fundur 698. mál: #A álagning fjármagnstekjuskatts# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÁE
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:49]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 1228 ber ég fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. fjmrh.:

1. Hver er skoðun ráðherra á því að bankar og fyrirtæki innheimta af einstaklingum fjármagnstekjuskatt hvenær sem er á árinu, t.d. við greiðslu vaxta eða arðs, og liggja með það fé jafnvel mánuðum saman áður en því er skilað í ríkissjóð þar sem gjalddagi fjármagnstekjuskatts er aðeins einu sinni á ári, þ.e. 15. janúar?

2. Hverjar eru áætlaðar tekjur banka og fyrirtækja (og samsvarandi tekjutap ríkissjóðs) af ávöxtun þeirrar staðgreiðslu fjármagnstekna sem þau hafa þannig innheimt?

3. Hyggst ráðherra beita sér fyrir lagabreytingu þess efnis að bönkum og fyrirtækjum beri að skila strax í ríkissjóð innheimtum fjármagnstekjuskatti eins og gildir um önnur opinber gjöld?

Tilefni þessarar fyrirspurnar er sú staðreynd að innheimta fjármagnstekjuskatts er mjög sérstök. Fjármagnstekjuskattur er innheimtur í staðgreiðslu. Samkvæmt lögum er skylt að draga staðgreiðslu frá t.d. vaxtatekjum og skila í ríkissjóð. Fjármagnstekjuskatturinn sjálfur er 10% og þegar vextir eru færðir við upplausn bankareiknings eða arður greiddur, er 10% fjármagnstekjuskattur dreginn frá áður en greitt er til eigenda reikningsins eða móttakanda arðsins.

Hér er um að ræða hefðbundið vörslufé, þ.e. bankar og fyrirtæki innheimta af einstaklingum og öðrum, sambærilegt við t.d. staðgreiðslu af launum og virðisaukaskatt. Þessu vörslufé ber aðilum að skila samstundis, þ.e. innan eins mánaðar í megintilvikum eða á tveggja mánaða fresti til innheimtumanna ríkissjóðs.

Með fjármagnstekjuskattinn gegnir öðru máli. Honum ber ekki að skila fyrr en 15. janúar árið eftir. Það er einungis einn gjalddagi á ári. Þetta hefur þau áhrif, herra forseti, að fyrirtæki eru með vörslufé til ávöxtunar um margra mánaða skeið í mörgum tilvikum. Þótt vextir séu almennt færðir um áramót, og þá sé eðlilegt að standa skil á staðgreiðslunni 15. janúar, þá eru fjölmargar aðrar tekjur sem falla undir fjármagnstekjuskatt og eru greiddar fyrr, t.d. í bankakerfinu sem og arður. Sem dæmi má nefna að fyrirtæki á Verðbréfaþingi greiða arðinn yfirleitt fyrir mitt ár og draga 10% frá í fjármagnstekjuskatt. Þau skila skattinum ekki í ríkissjóð fyrr en hálfu ári seinna. Þannig liggja þau með fé sem þau eiga ekkert í og ávaxta það í marga mánuði. Þetta eru umtalsverðar fjárhæðir og mjög óeðlilegt þar sem þung áhersla er lögð á, og það með réttu, að sköttum sé skilað fljótt, vel og örugglega í ríkissjóð enda um vörslufé að ræða.

Ég minni á það, herra forseti, að í fyrstu hugmyndum um staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts var ætlunin að hafa 12 gjalddaga á ári. Frá því var fallið. Ég spyr hæstv. ráðherra: Um hvaða tekjutap er að ræða fyrir ríkissjóð við núverandi fyrirkomulag?