Álagning fjármagnstekjuskatts

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:52:36 (6171)

1998-05-04 13:52:36# 122. lþ. 116.17 fundur 698. mál: #A álagning fjármagnstekjuskatts# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:52]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Sú aðferð sem viðhöfð er í þessu efni og fyrirspyrjandi ræddi um er ákveðin í lögum sem um þetta gilda og sett voru á árinu 1996. Í skýrslu nefndarinnar sem undirbjó það frv. og lagði grunn að þeim lögum segir um þetta tiltekna atriði, þ.e. gjalddagann:

,,Tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir einum gjalddaga á ári. Þar sem uppgjör á stærstum hluta fjármagnstekna fer fram um áramót telur nefndin eðlilegt og hagkvæmt að miða við þann tímapunkt. Nefndin telur ákveðið hagræði felast í því jafnt fyrir greiðendur sem fjármálastofnanir að hafa ekki fleiri gjalddaga. Kostnaður og umstang við framkvæmd og eftirlit verður minna og einfaldara í sniðum.``

Síðar segir í þessu sama áliti að fjölgun gjalddaga skipti ekki sköpum fyrir fjárhagsstöðu ríkissjóðs en geti sem sagt einfaldað og létt alla framkvæmd. Þannig er skýringin á því að þessi leið var farin, að hafa einungis einn gjalddaga, 15. janúar.

Í fyrirspurn hv. þm. er spurt hver sé skoðun ráðherra á þessu. Hún er ekki önnur en sú að hér er verið að framkvæma þau lög sem gilda. Ég mun svara því síðar hvort ég telji eðlilegt að beita mér fyrir breytingum á því.

Það hefur komið fram áður á hinu háa Alþingi að staðgreiðsluskil vegna fjármagnstekjuskattsins í fyrra voru rúmlega 2 milljarðar. Þar af greiddu fjármálastofnanir, þ.e. bankar, sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóðir um 1,1 milljarð kr. Skil fjármálastofnana eru fyrst og fremst skattur á vöxtum. Þar er um að ræða annars vegar vexti til einstaklinga og hins vegar vexti til rekstraraðila, en skattur af þeim er ekki eiginlegur fjármagnstekjuskattur þar sem hann gengur upp í álagðan tekjuskatt eða endurgreiðist þeim.

Eins og fram kemur í fyrirspurninni er gjalddaginn 15. janúar fyrir undangengið ár. Enn sem komið er liggur ekki ljóst fyrir hve lengi afdreginn skattur kann að hafa verið í höndum fjármálastofnunar áður en honum er skilað til ríkissjóðs. Reikna má með að verulegur hluti af fjárhæðinni sem skilað er komi af vöxtum sem reiknaðir eru einu sinni á ári, í lok árs, og hafi því ekki verið lengi í höndum viðkomandi fjármálastofnana. Síðastliðið ár er sem sé fyrsta árið sem fjármagnstekjuskatturinn er reiknaður og enn hefur ekki farið fram nein greining eða athugun á skilum á fjármagnstekjuskattinum. Eðlilegt er að slík athugun fari fram áður en tekin verður afstaða til þess hvort rétt sé að breyta þessu fyrirkomulagi sem Alþingi ákvað með lögum árið 1996. Málið verður sem sagt athugað þegar betri upplýsingar liggja fyrir.

Í 2. lið fyrirspurnarinnar er spurt hverjar áætlaðar tekjur banka og fyrirtækja séu af ávöxtun þeirrar staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts sem þau hafa innheimt. Eins og ég hef sagt liggja ekki fyrir upplýsingar um hvernig afdráttur þessara stofnana skiptist innan ársins. Eins og að framan greinir er heildarfjárhæð staðgreiðsluskila fjármálastofnana rúmur milljarður, 1,1 milljarður. Sé reiknað með jafnri dreifingu þessa afdráttar yfir árið á 5% vöxtum, þá yrðu tekjurnar 25 millj. kr. Hins vegar, eins og ég hef þegar sagt, er mjög líklegt að verulegur hluti fjárhæðarinnar falli til síðast á árinu þannig að þessir reiknuðu vextir yrðu þá verulega lægri en þessi tala sem er ágiskun og byggist á því að dreifa þessum upphæðum jafnt yfir árið á grundvelli 5% vaxta.

Að lokum er spurt í fyrirspurninni hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir lagabreytingum þess efnis að bönkum og fyrirtækjum beri að skila strax í ríkissjóð innheimtum fjármagnstekjuskatti eins og gildir um önnur opinber gjöld. Endanleg athugun á skilum og afdrætti fjármagnstekjuskattsins á þessu fyrsta ári hans hefur ekki farið fram og meðan frekari upplýsingar liggja ekki fyrir er hvorki tilefni né forsenda til þess að taka ákvörðun um að beita sér fyrir lagabreytingum í þessu efni. Að sjálfsögðu er ekkert útilokað í því og sjálfsagt að taka þetta með reikninginn í þeirri úttekt og athugun sem að sjálfsögðu fer fram þegar hægt verður að gera upp fyrsta árið í fjármagnstekjuskattinum. Málið er að það var ákveðið að hafa þetta svona af þeim ástæðum sem ég nefndi í upphafi. Það byggðist á skoðun nefndar Ásmundar Stefánssonar sem undirbjó þetta mál og þetta var talið hagkvæmt og skynsamlegt. Ef það hins vegar kemur í ljós að það sé hægt að gera þetta ódýrara og hagkvæmara, þá er sjálfsagt að skoða það.