Framhald þingstarfa og þingfrestun

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 16:02:05 (6179)

1998-05-04 16:02:05# 122. lþ. 117.92 fundur 340#B framhald þingstarfa og þingfrestun# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 122. lþ.

[16:02]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því að samkvæmt áætlun þeirri sem starfað hefur verið eftir um nokkurt skeið var gert ráð fyrir að fresta þinginu 8. maí, 1998 tek ég fram, en okkur formönnum þingflokkanna var tilkynnt núna á fundi með forseta að af því yrði ekki. Það yrði ekki frestun 8. maí og ég tel alveg lágmark að það komi fram af þessum stóli með einhverjum hætti og hefði auðvitað átt að byrja fundinn á að láta þetta koma fram af forsetastóli.

Í öðru lagi liggur fyrir að ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvenær forseti Alþingis hyggst hugleiða að ljúka þinginu. Um það þarf alveg sérstaka ákvörðun eins og kunnugt er. Stjórnarandstaðan hefur a.m.k. ekki verið látin vita hvenær forusta þingsins hyggst hugleiða að ljúka yfirstandandi þingi þannig að ég geri ráð fyrir að við verðum þá látin vita um það væntanlega fljótlega hvenær hugleiðingartími þingforustunnar hefst þannig að menn átti sig á að það er kominn sá tími sem venja er að fresta þingfundum.

Í þriðja lagi var okkur tilkynnt um að eldhúsdagur sem hefur átt að vera mjög lengi í þessari viku verði ekki í þessari viku heldur í einhverri annarri. Við vitum ekki enn þá hvenær sá eldhúsdagur verður, hvort hann verður síðar í þessum mánuði eða þeim næsta. Það liggja engar upplýsingar fyrir um það.

Í fjórða lagi var okkur tilkynnt um að það yrði unnið sem mest, eins og fyrrverandi bankastjóri Landsbankans orðar það gjarnan, í þessari viku, helst bæði kvöld og nætur og það yrðu haldnir margir kvöldfundir í þessari viku og ekkert samkomulag er um að halda þá fundi. Það verður að vera alveg skýrt að það eru engir samningar við stjórnarandstöðuna heldur hvernig (Forseti hringir.) að þeim hlutum verður staðið.

Loks er gert ráð fyrir að allmargar utandagskrárumræður fari fram um fjöldamörg brýn mál á næstunni. (Forseti hringir.) Sömuleiðis verði ræddur fjöldi mála eins og tillaga til þingsályktunar um byggðastefnu.

Í stuttu máli, herra forseti, vildi ég láta það koma fram af þessum stóli að samkvæmt þeim upplýsingum sem forusta þingsins hefur náðarsamlegast veitt okkur er það þannig að það er allt í vitleysu í þessari stofnun.