Framhald þingstarfa og þingfrestun

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 16:04:46 (6180)

1998-05-04 16:04:46# 122. lþ. 117.92 fundur 340#B framhald þingstarfa og þingfrestun# (aths. um störf þingsins), Forseti GÁ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 122. lþ.

[16:04]

Forseti (Guðni Ágústsson):

Vegna orða hv. þm. og þeirra spurninga sem hann hefur varpað fram til forseta vill forseti segja það um fyrstu spurninguna að sú áætlun var í gangi að ljúka þingi 8. maí. Á forsætisnefndarfundi í morgun var það blásið af. Það er ljóst að þótt nefndir hafi lokið störfum og málin séu komin inn til þingsins til afgreiðslu eru margir á mælendaskrá í málaflokkum og því sá forsn. að ekki yrði um þinglok að ræða þennan dag og raðaði málum niður á daga og ákvað að vegna þess að menn þurfa margt að taka fyrir og margt er ógert að þá yrði að halda nokkra kvöldfundi í þessari viku.

Á þessu stigi er hægt að hugleiða hvenær beri að ljúka þingi og auðvitað hljóta menn að hugleiða það og stefna að því sem fyrst en það er ljóst að það verður ekki í þessari viku.

Hvað eldhúsdaginn varðar er reglan sú að hann er yfirleitt ekki fyrr en kemur að því að menn sjá fyrir þinglokin. Það gera menn ekki í dag og því er þeim umræðum frestað. Þetta vildi forseti láta koma fram undir þessum lið og við þessar athugasemdir hv. þm. að næg verkefni eru fyrir þinginu og ósýnt hvenær þinglok verða.