Framhald þingstarfa og þingfrestun

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 16:06:44 (6181)

1998-05-04 16:06:44# 122. lþ. 117.92 fundur 340#B framhald þingstarfa og þingfrestun# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 122. lþ.

[16:06]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er afar skiljanlegt að hv. þm. Svavar Gestsson skuli vekja umræðu um störf þingsins vegna þessa. Staðan er sú nú á Alþingi að það er eins og við þingmenn stjórnarandstöðu séum bara þingmenn. Við vitum ekkert og eigum ekkert að vita. Okkur kemur ekki við hvað meiri hlutinn ætlar að afgreiða. Hann ætlar bara að afgreiða allt sem hann getur af öllum þeim fjölmörgu stóru málum, mörgum ágreiningsmálum, sem eru undir í þinginu og við eigum bara að halda okkur við efnið og helst að hætta að tala.

Nú er það svo að búið er að setja þingfrestun í óvissu. Hún er einhvers staðar inni í framtíðinni. Búið er að fresta eldhúsdagsumræðunni. Hún verður einhvern tímann, kannski í næstu viku, skilst mér, miðað við svör forseta. Einu sinni var það svo að við sem höfum unnið og staðið að starfsáætlun Alþingis höfum talað um að hafa metnað fyrir starfsáætluninni og mér er mjög minnisstætt að það þurfti að flytja utanríkismálaumræðu og mönnum var meinilla við það. Ekki af því að allir væru ekki sammála um að það væri mjög mikilvægt í stöðunni að flytja utanríkisumræðuna um dag. Alls ekki þess vegna heldur vegna þess að með því vorum við að rífa upp starfsáætlun Alþingis sem hafði verið fest á blað, prentuð og gefin út og við hana ætluðum við að standa. Þessi metnaður er fyrir bí. Nú er það svo að hér á að halda áfram eins lengi og einhverjum þóknast. Ég legg áherslu á ,,einhverjum``, vegna þess að ég er sannfærð um að þetta er ekki það sem forseti Alþingis vill, sem hefur unnið með okkur að bættum vinnubrögðum, öðruvísi ásýnd Alþingis.