Framhald þingstarfa og þingfrestun

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 16:09:30 (6183)

1998-05-04 16:09:30# 122. lþ. 117.92 fundur 340#B framhald þingstarfa og þingfrestun# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 122. lþ.

[16:09]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég tel að hæstv. forseti hafi gert grein fyrir skoðunum forsn. hvað þetta mál varðar, að það eigi að fresta þingi án þess að nokkuð sé ljóst hvenær því lýkur. Ég bendi á tvennt í þessu sambandi. Í fyrsta lagi eru óafgreidd yfir 40 stjórnarþingmál. Í öðru lagi var fyrst talað um að þingi lyki 22. apríl, svo 8. maí. Nú er búið að fresta því. Þessi ákvörðun var m.a. tekin út af sveitarstjórnarkosningum. Fjölmargir þingmenn hafa vitaskuld bundið sig í tengslum við þessar sveitarstjórnarkosningar og ég tel ástæðu til þess, herra forseti, að óska upplýsinga um það frá þingflokksformönnum stjórnarflokkanna sem eru báðir í salnum hvernig þeir hugsa sér framhaldið á umræðunni. Það er vitaskuld málefni þingflokksformanna ekki síður en forseta hvernig störfum verður hagað á næstunni. Hvaða mál verður lögð höfuðáhersla á? Við vitum að við erum í erfiðri og ítarlegri umræðu og margt er ósagt, bæði í henni og í öðrum málum og menn virðast ekki hafa fundið sér tækifæri til að setjast niður yfir þessi mál. Ég vildi af þessu gefna tilefni óska eftir að þingflokksformenn Framsfl. og Sjálfstfl. segðu okkur óbreyttum þingmönnum eitthvað meira um hvernig þeir ætla sér að afgreiða málin í vor. Ekki hvað síst af hálfu þingflokks Framsfl. því að flest deilumálin sem hafa verið og verða væntanlega til umræðu eru tengd ráðuneytum þess flokks. Ég tel það vera ósköp eðlilega ósk að upplýst sé betur um þetta en að hv. þm. Svavar Gestsson þurfi að upplýsa ákvarðanir forsn. á þingi. Það eru mikil tíðindi að þingfundum skuli vera frestað frá 8. maí og þess vegna fram yfir sveitarstjórnarkosningar eða hvað? Það er því eðlileg krafa að í umræðunni verði betur upplýst um fyrirætlanir ríkisstjórnarflokkanna.