Framhald þingstarfa og þingfrestun

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 16:14:43 (6187)

1998-05-04 16:14:43# 122. lþ. 117.92 fundur 340#B framhald þingstarfa og þingfrestun# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 122. lþ.

[16:14]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Að sjálfsögðu er nokkuð erfitt að ræða þetta mál með helsta leikarann í aðalhlutverkinu fjarstaddan, þ.e. hæstv. forsrh., því að það er ekki alfarið við forseta Alþingis að ræða í þessu efni heldur ekki síst oddvita stjórnarflokkanna sem lýsti því yfir fyrr á þessu þingi að það væri mjög nauðsynlegt að ljúka þinginu sem allra fyrst til að gefa frambjóðendum til sveitarstjórnarkosninga rúman tíma til að ná vopnum sínum og heyja kosningabaráttu.

[16:15]

Nú virðist það ekki lengur nauðsynlegt. Það er mjög skiljanlegt þegar skoðuð er staða frambjóðenda og framboða í Reykjavíkurborg, miðað við skoðanakannanir, að hæstv. forsrh. telji ekki bráðnauðsynlegt að gefa þeim tíma til að heyja sína kosningabaráttu þar sem hún sé hvort eð er fyrir fram töpuð. Því er ekkert óeðlilegt eða óæskilegt við að þingið sitji hér fram á vor þar sem Sjálfstfl. gæti hvort eð er ekki notað tímann sér til nokkurs gagns með öðrum hætti.

Ég vildi benda á það, virðulegi forseti, að út af fyrir sig er það ekkert áhorfsmál að efna til samfelldra kvöldfunda eða jafnvel næturfunda, þegar samkomulag er um hvenær ganga eigi til þinglausna og menn freista þess að afgreiða mál miðað við ákveðinn verklokadag. Það er hins vegar alveg fráleitt af forseta að gera ráð fyrir samfelldum kvöld- og næturfundum þegar enginn hefur hugmynd um hvort stefnt sé að þinglausnum í næstu eða þarnæstu viku. Ég veit að hæstv. forseti skilur það mætavel að við þingmenn munum ekki sætta okkur við að þess sé krafist að við sitjum hér á samfelldum nætur- og kvöldfundum þegar það er svona meira og minna út í bláinn og ekki í tengslum við neitt lokasamkomulag um þinglausnadag.