Framhald þingstarfa og þingfrestun

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 16:22:35 (6192)

1998-05-04 16:22:35# 122. lþ. 117.92 fundur 340#B framhald þingstarfa og þingfrestun# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 122. lþ.

[16:22]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil ekki að Alþingi verði flæðilína, eins og hv. þm. Svavar Gestsson orðaði það svo ágætlega. Ég vil að Alþingi starfi með virðingu og sé sýnd virðing. Ég hef hins vegar oft velt því fyrir mér, eins og mál hafa þróast, hvort Alþingi þurfi yfirleitt að starfa miðað við þau viðhorf sem endurspeglast hjá alþingismönnum oft á tíðum. Það virðist oft svo þegar nefndarstörf hafa verið að stjórnarandstöðunni hafi verið sýnt að það þurfi eiginlega ekki að hafa þessa yfirferð í nefndum nema fyrir stjórnarandstöðuna.

Oft á tíðum hefur það einnig verið þannig hér í þingsal að stjórnarandstaðan hefur rætt hin stóru mál meðan stjórnarliðarnir hafa ekkert komið þar nærri. Sem betur fer hef ég upp á síðkastið komist að þeirri niðurstöðu að Alþingi þurfi að starfa. Það má ekki verða þannig að eftir kosningar sé myndaður meiri hluti og síðan megi bara minni hlutinn fara á skrifstofurnar sínar og halda þar til.

Nei. Ég er bjartsýnni vegna þess að upp á síðkastið hefur það gerst að stjórnarliðarnir tala mikið í stórum málum og það er gott. Hér hefur verið sagt að stjórnarliðar séu að hugleiða hvenær þinginu ljúki, hugleiða hvenær eldhúsdagurinn verði og vegna þess hefur verið spurt hver ráði.

Nú hefur hæstv. forsrh. heiðrað okkur með nærveru sinni. Þá beini ég, virðulegi forseti, þeirri spurningu til forsrh. hvort hann hafi hugleitt hvenær þinginu muni hugsanlega ljúka og hvort hann hafi hugleitt hvenær eldhúsdagsumræðan verði.