Framhald þingstarfa og þingfrestun

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 16:28:12 (6194)

1998-05-04 16:28:12# 122. lþ. 117.94 fundur 343#B framhald þingstarfa og þingfrestun# (um fundarstjórn), SighB
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 122. lþ.

[16:28]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er mjög eðlileg ósk alþingismanna að fá að vita, undir þessum dagskrárlið ef ekki er hægt að fá að vita það undir þeim sem var til umræðu áðan, hvernig forsetar ætla sér að haga störfum þingsins á næstu dögum. Ég fékk yfirlit yfir þau mál sem bíða úrlausna hér á Alþingi. 43 stjfrv. eru komin úr nefnd og bíða afgreiðslu á Alþingi, þar á meðal 10--11 sem munu kalla á miklar umræður. Eitt af þeim hefur verið til umræðu í þrjá daga og er þó aðeins í 2. umr. Þá eru 9--10 slík mál eftir.

Þrjú þingmannafrv. sem meiri hluti þingnefnda hefur samþykkt að mæla með bíða afgreiðslu. Sjö stjórnartillögur og átta þingmannatillögur bíða afgreiðslu og 23 skýrslur eru óræddar. Það er því alveg ljóst að þinghald mun standa langt fram á sumar ef ætlunin er að ljúka þessu.

Það hlýtur að vera komið að því, herra forseti, að hæstv. forsrh. sé spurður hver hugmynd hans um verklok sé. Hver er tillaga hans í málinu? Mun hann gera stjórnarandstöðunni grein fyrir því, hver þessara mála hæstv. ríkisstjórn óskar sérstaklega eftir að afgreiða? Er hann reiðubúinn að hafa um það frumkvæði, fyrst stjórn þingsins gerir það ekki, að sest verði niður og reynt að semja um það milli stjórnarandstöðu og ríkisstjórnar að hafa skynsamlegri vinnubrögð í þessum málum en efni standa til miðað við stöðu mála?

Gerir hæstv. forsrh. sér það ekki ljóst, eins og allir aðrir þingmenn, að öll þessi mál, sem eru á sjöunda tuginn, verða ekki afgreidd á Alþingi á þessu vori? Hæstv. forsrh. hlýtur að gera sér það fyllilega ljóst eins og aðrir þingmenn. Fyrst forsetadæmið ætlar ekki að hafa um það frumkvæði að reyna að ná samkomulagi hér í þinginu um skynsamleg þingstörf, hvernig væri þá að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort að hann hafi nokkuð hugleitt það mál?