Framhald þingstarfa og þingfrestun

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 16:36:44 (6197)

1998-05-04 16:36:44# 122. lþ. 117.94 fundur 343#B framhald þingstarfa og þingfrestun# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 122. lþ.

[16:36]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var gott frammíkallið hjá hv. 17. þm. Reykv., Ögmundi Jónassyni, áðan þegar hann spurði undir ræðu hæstv. forsrh. hvort þingviljinn stæði í ræðustólnum. Því hæstv. forsrh. talaði eins og hann einn væri þingviljinn. Við erum auðvitað orðin vön því að hann beiti valdi sínu þannig, aðallega var það reyndar á síðasta kjörtímabili, en það glittir af og til í það hér núna. Og það er í raun eðlilegt að hæstv. forsrh. skuli sjálfur líta þannig á vegna þess að þingmenn stjórnarflokkanna, ekki aðeins í Sjálfstfl. heldur einnig í Framsfl., una ágætlega sínum hlut við þessar aðstæður sem komu ekki síst vel í ljós þegar ákveðið var að formaður Framsfl. gegndi varaformannsstarfi Sjálfstfl.

Yfirlýsing hæstv. forsrh. áðan var hins vegar ákaflega dýrmæt vegna þess að hann sagði: ,,Þessi mál verða afgreidd.`` Þá vitum við það. Þá hefur talað sá sem valdið hefur, ekki aðeins fyrir hönd stjórnarflokkanna, heldur væntanlega einnig fyrir hönd forseta Alþingis. Það er fróðlegt og umhugsunarvert og það er fróðlegt og umhugsunarvert og auðvitað áhyggjuefni vegna þess að við höfum á undanförnum árum verið að reyna að þróa önnur vinnubrögð, annað vinnulag í þessari stofnun, en var. Það er bersýnilegt að okkur hefur mistekist í þeim efnum. Það kom í ljós áðan þegar þingviljinn stóð í þessum stól.