Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 10:31:51 (6199)

1998-05-05 10:31:51# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, Frsm. minni hluta RG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[10:31]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (frh.):

Virðulegi forseti. Ég var í miðri ræðu minni í gær þegar við lukum fundi og verður henni nú fram haldið. Ég hlýt í upphafi að vekja athygli á því hversu stórt og þýðingarmikið það mál er sem við erum að ræða í dag og ekki bara í dag, því þessi morgunn er upphaf fimmta dags sem þetta frv. er á dagskrá hv. Alþingis og er rætt eitt á fundi þingsins. Það sýnir vægi og alvöru þessa stóra máls.

Herra forseti. Þegar ég lauk máli mínu í gær hafði ég farið yfir frumvarpsflutning Björns Fr. Björnssonar árið 1971 um sveitarstjórnarmál og afrétti og ég átti eftir að fara yfir hvaða viðbrögð hann fékk við þeirri tillögu sem hefur haft þau áhrif að menn hafa hiklaust haldið því fram í dag að fyrir löngu sé búið að ákveða og það hafi verið hugsun löggjafans að stækka sveitarstjórnarmörk á þeim tíma. En áður en ég vík að þeim þætti ræðu minnar þar sem ég var stödd er ég tók hlé á ræðu minni í gær, hlýt ég að vekja athygli á ályktun sem barst okkur þingmönnum í hólf í gær og fundi þeirra hinna sömu aðila sem hafa sent frá sér þessa ályktun.

Virðulegi forseti. Sá félagsskapur er félagsskapur þúsunda manna um allt land og ég ætla að leyfa mér, áður en ég flyt Alþingi þessa áskorun og ályktun, að geta þess hvaða hópur þetta er. Þetta er Hið íslenska náttúrufræðifélag, Ferðafélag Íslands, Íslenski alpaklúbburinn, Útivist, Jöklarannsóknafélag Íslands, Skotveiðifélag Íslands, Landssamband ísl. vélsleðamanna, Ferðaklúbburinn 4x4 og stangaveiðifélagið Ármenn. Það sem þeir sendu okkur alþingismönnum hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Herra forsætisráðherra, Davíð Oddsson.

Við forsvarsmenn neðangreindra samtaka útivistar- og náttúrufræðifélaga förum þess á leit við þig, herra forsætisráðherra, og ríkisstjórn þína að frv. það sem nú liggur fyrir Alþingi um sveitarstjórnarmál verði ekki afgreitt sem lög frá þessu þingi.

Við teljum höfuðnauðsyn að ekki verði nú bundið með illafturkræfum hætti hvernig stjórnsýslu- og skipulagsmálum verði háttað á miðhálendi Íslands.

Meiri tíma þarf til opinnar umræðu um þessi mál þannig að þjóðin öll, eigandi hálendisins, fái að láta í ljós skoðun sína. Verði ofangreint frv. samþykkt næstu daga mun það kalla á endalausar deilur og óeiningu meðal þjóðarinnar. Jafnframt væri þá búið að útiloka meiri hluta hennar frá því að hafa nokkur áhrif á nýtingu hálendisins og hætt er við að almannaréttur verði fyrir borð borinn.

Sem forsvarsmenn helstu útivistar- og náttúrufræðifélaga landsins og fulltrúar þúsunda Íslendinga teljum við skilning meiri hluta þjóðarinnar vera þann að miðhálendið sé ein heild sem ekki beri að rjúfa, hvorki skipulags- né stjórnsýslulega.

Þögn þjóðarinnar um þessi mál allt þar til á síðustu vikum má ekki skilja á þann hátt að meiri hluti hennar sé fylgjandi þeirri skipan sem nú er gert ráð fyrir. Augljóst er á umræðum undanfarið að hvorki ráðamenn þjóðarinnar né almenningur hafa fyllilega gert sér grein fyrir þýðingu málsins.

Mikilvægt er að hlýtt verði á raddir hagsmunaaðila og helstu sérfræðinga sem virðast vera á einu máli um hvernig fara eigi með eina verðmætustu auðlind þessarar þjóðar.

Undirritaðir eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að vinna að farsælli lausn málsins.``

Undir þetta plagg rita formenn og forsetar þeirra félaga sem ég hef lesið upp.

Þessir fulltrúar félaga þeirra þúsunda sem aðild eiga að þeim félögum sem ég hef hér lesið upp hafa gert sér grein fyrir því að ákalli verður að beina til forsrh., að eina vonin til að hlustað verði á raddir þéttbýlisins og að því frv. sem hér liggur fyrir eða þeim ákvæðum sem máli skipta, sem er 1. gr. og bráðabirgðaákvæðið, verði frestað. Eina vonin til þess er að hægt verði að vekja skilning þess manns sem svo lengi hlaut þann heiður að skipa sæti borgarstjórans í Reykjavík. Þetta hef ég áður sagt, virðulegi forseti, og ég vek athygli á þessu aftur í dag.

Þessi hópur, Hið íslenska náttúrufræðifélag, Ferðafélag Íslands, Íslenski alpaklúbburinn, Útivist, Jöklarannsóknafélag Íslands, Skotveiðifélag Íslands, Landssamband ísl. vélsleðamanna, Ferðaklúbburinn 4x4 og stangaveiðifélagið Ármenn hélt fund á Hótel Borg í gær. Húsfyllir var á þeim fundi og færri komust að en vildu, þrátt fyrir að sá fundur var ákveðinn seint kvöldinu áður og lítið tóm gafst til að ná til félaga í þessum hópum öðruvísi en með beinni auglýsingu að vekja athygli á fundinum. Þrátt fyrir þennan skamma tíma og þrátt fyrir að ekki vannst tími til að senda bréf til félaganna um að þarna væri mikilvægur fundur á ferð var húsfyllir á Hótel Borg. Líka þar var ákall til okkar allra, ekki bara forsrh. heldur þingmanna allra sem hér eru að störfum. Sérstakri áskorun var beint til þeirra fulltrúa stjórnarflokkanna sem sátu fundinn en þar voru þrír fulltrúar stjórnarliðanna, einn frá Framsfl. og tveir frá Sjálfstfl., að staldra nú við og hlusta á raddir þeirra sem biðja um lengri frest. Ég vek athygli á því að það sem menn eru að biðja um er meiri skoðun, lengri frestur vegna þess að menn vilja fá að taka þátt í umfjöllun og umræðu um hvað þarna er að gerast.

Margt athyglisvert kom fram á þessum fundi. Ég ætla ekki að freista þess að gera honum mikil skil, virðulegi forseti. En þarna voru haldin erindi fjögurra virtra einstaklinga sem getið hafa sér orðstír á mörgum sviðum, ekki síst fyrir það hvernig þeir vilja vinna að málefnum hálendisins. Þeir voru Steinunn Jóhannesdóttir, Trausti Valsson, Guðmundur Sigvaldason og Haukur Jóhannesson. Þetta fólk flutti skeleggar ræður og færði góð rök fyrir máli sínum og þeim málflutningi að staldra við og að stjórnvöld virtu þann vilja sem kæmi fram í svo stórum hópum að leiða þetta stóra mál ekki til lykta nú í vor í ágreiningi.

Ef ég reyni örlítið að staldra við þau skilaboð sem komu án þess að reyna að gera þessum fundi ítarleg skil, þá voru skilaboðin þau að fólk vill meiri tíma. Það vill ekki hroðvirknislega flýtimeðferð á svo stóru og þýðingarmiklu máli. Það leggur áherslu á --- og kom það fram í máli annarra sem tóku til máls, það voru nefnilega mjög margir sem tóku til máls á þessum fundi og settu sjónarmið fram sem ég er að geta hér í stuttri yfirferð --- vandaða meðferð, að flestir afréttir séu einskis manns land og að þjóðlendufrv. forsrh. er ásættanlegt þótt það sé ekki algott. En það er mjög slæmt að mati þessara aðila að sveitarstjórnarfrv. með uppskiptingu miðhálendisins í sveitarfélög upp til jökla og frv. iðnrh. um auðlindir í jörðu skuli spyrt við þjóðlendufrv., sem svo ágæt sátt er um, þannig að ekki er nokkru hreyft öðruvísi en með þessari illu leið.

Það kom fram á þessum fundi að Laugavegurinn frægi, þessi vinsæla gönguleið yfir miðhálendi Íslands, væri e.t.v. ekki til ef búið hefði verið að skipta landinu upp í sveitarfélagaræmur áður en hún kom til og varð þessi þjóðbraut hálendisins. Það var líka bent á að bitist er um fasteignagjöld á hálendinu af sveitarfélögum og þarna var nefnt sem dæmi skáli Ferðafélags Íslands í Hrafntinnuskeri.

Menn biðja um að málinu verði frestað, það rætt og opin umræða verði meðal almennings og e.t.v. skoðanakönnun.

Það sem kom fram á þessum fundi, virðulegi forseti, var athyglisvert. Ég hafði reyndar heyrt í útvarpinu áður að Valdimar nokkur, sem ég hygg að sé formaður Framsóknarfélagsins í Reykjavík, las ályktun fulltrúaráðs eða stjórnar framsóknarfélaganna í Reykjavík þar sem lýst var fullum stuðningi við afstöðu Ólafs Arnar Haraldssonar á Alþingi og afstöðu hans í þessu máli en eins og þeim sem fylgjast með er kunnugt, þá hefur hann lagst harkalega gegn þeirri leið sem sveitarstjórnarráðherrann, flokksbróðir hans, vill fara. Ég hlýt að spyrja hvort það geti verið að þessi ályktun stjórnar fulltrúaráðsfélaganna í Reykjavík hafi e.t.v. ekki borist félmrh., sveitarstjórnarráðherranum sem hér ber fram þetta mál í fullkominni óbilgirni skyldi maður ætla miðað við að stærstu félögin hér á þéttbýlissvæðinu í hans eigin flokki hafna þeirri leið sem hann kýs að fara.

Virðulegi forseti. Spurning mín til hæstv. félmrh. er hvort honum hafi borist þessi ályktun og hvort hún skipti hann engu máli. Þar með er ég ekki á nokkurn hátt að skipta mér af innanflokksmálum í Framsfl., hvorki í Reykjavík né nokkurs staðar annars staðar á landinu en vek athygli á því hversu athyglisvert þetta er.

Virðulegi forseti. Í lok þessa fundar í gær var borin upp þessi sama áskorun til ríkisstjórnar og Alþingis, sú hin sama og þessi félög höfðu ritað til forsrh. Davíðs Oddssonar. Áskorunin var samþykkt og það voru eiginlega allir alþingismenn að sjálfsögðu sem þarna voru sem ekki tóku þátt í atkvæðagreiðslunni þar sem þetta var ályktun til Alþingis þar sem þeir starfa en mér virtist sem allir aðrir greiddu þessari tillögu atkvæði sitt og hún var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn einu. Ég læt öðrum um að upplýsa hver þessi eini var.

[10:45]

Sú áskorun, sem þar var samþykkt samhljóða af minnst 200 manna fundi þessara níu samtaka útivistar- og náttúrufræðifélaga, hljóðar svo, virðulegi forseti:

,,Forsvarsmenn níu samtaka útivistar- og náttúrufræðifélaga hafa í dag sent herra Davíð Oddssyni forsrh. bréf þar sem farið er þess á leit við hann og ríkisstjórn hans að frv. það sem nú liggur fyrir Alþingi um sveitarstjórnarmál verði ekki afgreidd sem lög frá þessu þingi. Er þar sérstaklega átt við þá grein er framlengir stjórnsýslu- og skipulagsvald sveitarfélaganna inn til hálendisins. Forsvarsmenn félaganna níu telja að meiri tíma þurfi til opinnar umræðu um þessi mál þannig að þjóðin öll, eigandi hálendisins, fái að láta í ljós skoðun sína. Verði ofangreint frv. samþykkt næstu daga mun það kalla á endalausar deilur og óeiningu meðal þjóðarinnar. Samrit bréfsins hefur verið sent öllum alþingismönnum.``

Virðulegi forseti. Þetta var fundurinn í gær, þetta voru samtök níu útivistar- og náttúrufræðifélaga og fleiri eru það sem hafa samband við okkur þessa dagana til að brýna Alþingi að afgreiða ekki svona mál í ágreiningi.

Virðulegi forseti. Ég gerði hlé á ræðu minni í gær þar sem ég hafði frætt alþingismenn um það með hvernig afréttirnar voru færðar undir sveitarfélögin árið 1971. Það var aldeilis ekki gert með einhverri skoðaðri, hugsaðri aðgerð stjórnvalda né með greinargerð stjórnvalda þar að lútandi heldur var þetta þingmannafrv. sem Björn Fr. Björnsson flutti. Ég ætla að vekja athygli þingmanna vegna þess að hér er verið að ræða þetta mál á fimmta degi hinn 5. maí á þessu vori að frv. Björns Fr. Björnssonar, sem hefur haft svo miklar afleiðingar inn í umræðu dagsins í dag, var tekið til umræðu 3. maí 1971 og það var afgeitt í efri deild og það var afgreitt frá efri deild 13. maí, tíu dögum síðar og það var tekið fyrir í neðri deild 15. maí og ekki rætt og gengið til afgreiðslu.

Þannig var farið með þetta mál 1971 og einhver mundi segja að ekki væru þetta góð eða fagleg vinnubrögðu, varla hefur verið unnt að senda slíkt mál víðtækt til umsagnar á þeim tíu dögum sem liðu frá því að frv. var tekið til umræðu í efri deild og þar til það var afgreitt þaðan. Ekki mundum við telja það fagleg vinnubrögð. En ég spyr: Ætli þau séu nokkuð faglegri hjá okkur í dag miðað við það sem hér er að gerast?

Virðulegi forseti. Í gær las ég framsöguræðu Björns Fr. Björnssonar --- hún var ekki mjög löng --- af því ég vildi ekki að það yrði sagt að ég hefði valið úr henni kafla sem hentaði að halda á lofti. En nú áður en ég ætla að greina frá viðbrögðum sem þetta mál fékk ætla ég að leyfa mér að taka út tvo kafla til að menn fái samhengi í málflutning minn.

Sá fyrri er þessi, og vitna ég nú til orða Björns Fr. Björnssonar:

,,Ég hef fyrr á þessu þingi borið fram frv. um efni sem er þessu frv. nokkuð skylt. Það var á þá lund að sveitarfélög, sem eiga aðild að afrétti, annaðhvort afnotarétt eða eignarrétt, hefðu rétt til þess að leggja útsvör og aðstöðugjald á fyrirtæki og þá einstaklinga sem hefðu að staðaldri atvinnu á afréttarsvæðum og ættu þar sínar bækistöðvar. Það kom í ljós þegar frv. til laga kom fram hér á þingi um tekjustofna sveitarfélaga að það reyndist ekki nein leið til þess að koma ákvæði af því tagi sem í efni þessa frv. míns er inn í ramma frv., og af þeirri sök og þeirri sök einni hef ég leyft mér að bera fram frv. það sem liggur hér fyrir til umræðu.``

Ég vek aftur athygli alþingismanna á því hver orsök frumvarpsflutningsins var, nefnilega vilji þingmannsins til þess að sveitarfélög gætu lagt útsvör og aðstöðugjald á fyrirtæki og einstaklinga sem hefðu atvinnu á afréttarsvæðum. Þetta er, eins og síðar kemur í ljós, vegna þess að þarna eru stórfelldar virkjunarframkvæmdir í aðsigi.

Full ástæða er til að vekja athygli á þessu, virðulegi forseti, vegna þess að menn hafa viljað blása því til hliðar þegar sumir þingmenn hafa haldið því til haga að það geti valdið deilum m.a. um gjaldtöku þegar búið verður að skipta hálendinu upp í öll þessi sveitarfélög og sveitarfélagaræmur, eins og þær verða eðlilega þegar búið er að framlengja sveitarfélögin upp á jökla.

En, virðulegi forseti, ég ætla að leyfa mér að vísa aftur í ræðuna:

,,Þá má líka geta þess að stórfelldar framkvæmdir eiga sér stað og hafa átt sér stað um skeið á afréttarlöndum uppi. Þar á ég við stórvirkjanir og undirbúning að stórvirkjunum. Þar hafa verktakar og fyrirtæki þeirra haft bækistöðvar um langa hríð og þar hefur starfað fjöldi manna langtímum saman á hverju ári ...``

Það blandast engum hugur um það sem skoðar umræðuna frá 1971 þegar tekin var ákvörðun um það að, eins og segir í efnisgreininni sem Björn Fr. Björnsson flutti, afréttarsvæði sem hefur ekki þegar verið skipað innan staðarmarka neins sveitarfélags, skuli teljast til þess sveitarfélags sem þar á eignar- eða afnotarétt, að orsökin fyrir því var viljinn til að sveitarfélög gætu innheimt skatta og gjöld af þeim framkvæmdum sem voru á döfinni á hálendinu. Ég vek athygli á því að þessi frumvarpsgrein var ekki um það að mörkum sveitarfélaga skuli breyta og verða svo sem hér segir eins og þá hefði verið skilgreint. Enda vek ég athygli á því að allar götur síðan hefur í lögum um sveitarstjórnarmál verið grein sem segir:

,,Byggðin í landinu skiptist í sveitarfélög ...`` Og það er, eins og ég segi stundum, punctum saliens, byggðin í landinu skiptist í sveitarfélög en afréttunum var þarna skipað til sveitarfélaga með þessari hugsun.

Virðulegi forseti. Ég get ekki farið yfir þessa umræðu frá 1971 öðruvísi en að greina frá hver viðbrögð urðu við henni. Eins og ég sagði í gær þá var það einn hv. alþingismaður sem brást við þessu frv. og það var hv. þm. Jón Ármann Héðinsson. Ég ætla að leyfa mér að vísa í svarræðu hans. Hann segir:

,,Þótt hér sé ekki langt frv., þá er sannarlega hreyft hér mikilsverðu máli, því að hér er við mikið vandamál að etja, eins og frummælandi benti á. Ég verð nú að segja það að þar sem málið er eins viðkvæmt og flestir vita, þá finnst mér það nokkuð seint fram komið,`` --- þarna er vísað til þess að umræðan er 3. maí. Frv. var afgreitt tíu dögum síðar --- ,,því að jafnvel þótt sumir í samtökum sveitarstjórnarmanna séu þessu sammála, þá er lausnin ekki auðveld. Við í Alþfl. lögðum fram þáltill. á þessu þingi og höfum gert það áður, og reyndar var það einn maður að því er mig minnir frá Sjálfstfl., Ásberg Sigurðsson, sem lagði á síðasta þingi líka fram þáltill. um að skora á ríkisstjórn að hefjast handa og fá hæfa menn til að semja löggjöf um afréttir og óbyggðir og eignar- og afnotarétt viðkomandi sveitarfélaga og ríkisins sjálfs. Þetta er mikið mál og ég held að þetta sé það mikið mál að eitt svona frv., þó að því fylgi góður hugur, bæði frummælenda og okkar hinna hér í deildinni geti varla leyst það svona skyndilega.

Það kemur fram í 1. gr. frv. að ef eigi eru aðilar sammála, þá skuli sýslunefnd skera úr. Frummælandi tók fram að hann sæi ekki aðra lausn betri. Ég er ekki löglærður maður en mér dettur í hug að ekki væri úr vegi að Hæstiréttur mundi þá skipa sérstakan mann því að vissulega gæti í sýslunefndum verið deilt innbyrðis af fulltrúum hreppanna. Slíks eru dæmi áður fyrr hér á Íslandi þannig að það eitt gæti valdið mikilli togstreitu innan sýslunnar. Undir þau orð flm. vil ég taka að tímabært er að skipa þessu svæði sess í sveitarstjórnarlögum og í stjórnarskránni, og einmitt vegna þess að í dag eru tímamót í sögu sveitarstjórnarmála, það eru 100 ára tímamót, þá er verðugt að taka þessi mál, sem eru erfið og viðkvæm, til meðferðar. En nú vill svo til að flm. þessa frv. er frsm. allshn. í sameinuðu þingi, er hefur sent frá sér meirihlutanál. um þáltill. okkar alþýðuflokksmanna, og sjá þeir ekki ástæðu til að vísa henni einu sinni til ríkisstjórnar heldur vísa henni frá, og þykir mér það lélegt þar sem málið er stórmál og þarf að taka föstum tökum. Það er óhjákvæmilegt og það verður ekki undan því ekist. Jafnvel þó að sérstakt mál sé fyrir dómstólunum um eignarréttaraðild ríkisins að vissu landsvæði, sem á að nota til virkjunar núna, þá er ekki hægt annað en skoða þessi mál öll sem eina heild.``

Virðulegi forseti. Ég tek vissulega eftir því að sveitarstjórnarráðherrann hefur ekki mikinn áhuga á að hlýða á hvernig þau mál urðu til sem hann hefur beitt fyrir sig í málflutningi með því frv. sem hann hefur verið að mæla fyrir og vill keyra í gegn. (Gripið fram í: ... tíma til að kalla á ráðherrann.) Ég ætla að vekja athygli þingheims á því að ráðherrann hefur ekki áhuga á að fylgjast með hvernig þessi mál skipuðust á sínum tíma sem hann hefur gefið til kynna að hafi verið algjör útvíkkun sveitarfélaganna nærri því upp til jökla. Og það er hans og virðing hans, ég ætla ekki að kalla hann til.

Virðulegi forseti. Ég held áfram með tilvitnun í svarræðuna, þessa einu svarræðu sem flutt var á Alþingi Íslendinga.

Hann vísar til þess að: ,,... flm. þessa frv. er frsm. allshn. í sameinuðu þingi, er hefur sent frá sér meirihlutanál. um þáltill. okkar alþýðflokksmanna og sjá þeir ekki ástæðu til að vísa henni einu sinni til ríkisstjórnar, heldur vísa henni frá, og þykir mér það lélegt, þar sem málið er stórmál og þarf að taka föstum tökum. Það er óhjákvæmilegt, og það verður ekki undan því ekist. Jafnvel þó að sérstakt mál sé fyrir dómstólunum um eignarréttaraðild ríkisins að vissu landsvæði, sem á að nota til virkjunar núna, þá er ekki hægt annað en skoða þessi mál öll sem eina heild. Það verður margra ára barátta ef á að dómtaka hvert mál og bíða eftir niðurstöðu þar sem ágreiningur er um afréttarsvæði og nytjar þeirra.``

Og innskot frá þeirri er hér stendur, ég vek athygli á að þetta er 1971, fyrir 27 árum, og ég vek athygli á því hver þróunin hefur verið síðan og hversu veik við höfum verið í öllum málefnum miðhálendisins þar sem fyrst nú er tekið á eignarréttinum í frv. forsrh. og við erum í þessari vandasömu stöðu í dag.

[11:00]

Virðulegi forseti. Ég ætla að vísa áfram til ræðunnar:

,,Við í Alþfl. ætlumst alls ekki til þess að nytjar bænda séu dregnar frá þeim og þeirra réttur sé rýrður, alls ekki, en við viljum hafa það á hreinu hvernig um slíkan rétt er, hver á landið og hverjum ber þá skylda til að varðveita það og fara um það höndum á réttan og viðeigandi hátt, svo að það eyðist ekki. Menn líta á þessi landsvæði eins og frummælandi sagði, sumir jafnvel sem sína eign í gegnum afnotarétt, og það út af fyrir sig er eðlilegt. En fyrir alla framtíð er það best fyrir viðkomandi notendur að hafa sinn rétt tryggðan og skjalfestan og eins fyrir ríkið, sem þarf á þessu landi að halda í sambandi við stórvirkjanir. Fyrir allan landslýð er líka nauðsynlegt að hafa allt á hreinu, hvað þarf að borga fyrir réttinn og með hvaða hætti er hægt að tryggja hann til almannaþarfa í landinu, þá vonandi einnig fyrir þá sem hafa haft nytjar af þessu svæði áður. Sum þessara svæða eru óbyggðir sem hafa gildi núna vegna stórframkvæmda og breytinga á vatnsföllum og hugsanlega meira að segja vegna gróðurmyndunar í kjölfar gróðursetningar sem kostuð er af ríkinu. Hér er því stórmál á ferðinni sem er varla hægt að vísa frá. Þó að menn séu ekki sammála um vissa upptalningu sem á að athuga, þá er málið það viðamikið að ekki er annað hægt en Alþingi taki afstöðu til þess svo að þetta verði leyst og setji hæfa menn í það að finna þessu rétta og sanngjarna löggjöf.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu. Ég tel hæpið að við getum afgreitt þetta frv. héðan af, af því að það kemur svo seint fram, en vissulega hefði verið æskilegt að deildin hefði fengið þessi mál fyrr til athugunar og getað leitað umsagnar víða og reynt að kanna hversu mjög hugur manna stefnir í þá átt að fá þetta á hreint með umsögn víða að af landinu því að ekki getum við reiknað með að þetta sé aðeins á tilteknu svæði hér sunnan lands. Það hafa fallið dómar um mál norðan heiða og e.t.v. eru víða átök þó að þau séu ekki komin fyrir dómstólana.

Herra forseti. Ég tók aðeins til máls vegna þess að hér er í sjálfu sér hreyft mikilvægu máli þó frv. sé ekki stórt í sniðum, en ég vona að flm. skilji það að ég vil að málið fái víðtæka athugun því að það er í eðli sínu stórmál.``

Virðulegi forseti. Þarna rataðist þingmanninum satt orð á munn vegna þess að þetta litla frv. átti eftir að hafa víðtækar afleiðingar þó ekki fengi það þá umfjöllun á Alþingi sem alþingismaðurinn kallaði eftir.

Viðbrögð flutningsmanns frv. voru þessi, virðulegi forseti:

,,Það er alveg hárrétt hjá síðasta ræðumanni að fyrir sameinuðu þingi liggur till. til þál. um að lýsa hálendi landsins og óbyggðir alþjóðareign ásamt margs konar réttindum öðrum. En eins og ég sagði í framsöguræðu minni tel ég alls ekki rétt í sambandi við þetta mál að vera að ræða um eignarrétt á afréttarsvæðum. ... En það mál sem hér er til umræðu fjallar aðeins um það hver aðili eigi að hafa sveitarstjórn á hendi á þessum svæðum. ... Ríkið getur átt eignir í hvaða sveitarfélagi sem er og einstaklingar líka, ... En ég gerðist svo djarfur að álíta að þetta mál væri þess eðlis að það væri fljótlegt að fá umsögn aðila sem gerst til þekkja svona mála þannig að hægt væri að samþykkja það og koma því frá á þessu þingi.``

Og það gerðist, virðulegi forseti, á tíu dögum. Ég geri mér alveg grein fyrir því miðað við umræðuna hér, þó að þarna væri einn maður sem flytti málið og einn maður sem gripi til andsvara og vekti athygli á því að fyrir sameinuðu Alþingi lægi þáltill. um að skipa miðhálendið þjóðareign og að það skyldi hafa eina og sérstaka stjórn, að því var vísað frá eins og ekkert væri og eitt lítið frv. af þessum toga var samþykkt á þinginu eftir enga umræðu og væntanlega mjög takmarkaða umfjöllun í nefnd.

Þetta litla frv. hefur haft þær afleiðingar sem ég þarf ekki að lýsa fyrir þingmönnum. Þeir þekkja það eftir fjögurra daga umræðu á Alþingi. En það er alveg ljóst í hugum manna nú að það eina sem fékk flutningsmanninn til að flytja þetta frv. var að áður var búið að hafna frv. frá honum um að sveitarfélögin fengju að leggja útsvör og fasteignagjöld á þau fyrirtæki og einstaklinga sem voru að vinna á hálendinu og eftir því sem helst verður skilið, við virkjanir. Þess vegna og aðeins þess vegna flytur hann þetta frv., til að reyna að tryggja yfirráð á afréttunum til að freista þess að þessi gjaldtaka leyfðist sveitarfélögunum.

Virðulegi forseti. Það er ótrúlegt að hugsa um það hvað gerðist í kjölfarið þessarar tillögu, að á sama tíma og menn, strax þarna, töluðu um nauðsyn þess að skipa eignarmálum á hálendinu, skipa nefnd og láta það vera stóra málið á því þingi sem ég hef þarna lýst, nefnd fagmanna til að skoða og byrja að skoða eignarmálin til þess að hægt væri að leiða þau til lykta samhliða því að skoða hvernig öðruvísi skyldi með önnur mál farið, þ.e. að við skulum fyrst vera að þessu nú 27 árum síðar. Ég minni enn á að nokkuð víðtæk sátt er um frv. forsrh. um þjóðlendur og það hversu góð vinnubrögð það væru hjá Alþingi Íslendinga að ganga frá því frv. og taka dýpri umræðu og reyna að leiða til lykta hvernig best skuli farið stjórnsýslulega með miðhálendið þannig að allir landsmenn uni við, virðulegi forseti, ekki bara dreifbýlið, ekki bara aðliggjandi sveitarfélög, ekki bara þéttbýlið heldur allir landsmenn sem eiga þessa auðlind saman.

Það er mjög slæmt að tilraun hefur verið gerð til þess að ota ólíkum sjónarmiðum í þessum sal saman undir þeim formerkjum að gagnrýni á þá tillögu sem hér er uppi sé gagnrýni og vantraust á sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu. Ég ætla að endurtaka það sem ég hef áður sagt: Það er rangt. Þetta er spurning um skoðun á því hvernig skuli fara með sameiginlegt svæði sem á eftir að nýta margvíslega og sem þarf að tryggja að verði sem best sátt um og allar ákvarðanir verði teknar þannig að ekki sé ágreiningur um þær.

Virðulegi forseti. Nú hefði ég kosið að hæstv. félmrh. gengi í salinn vegna þess að frá þeim tíma sem þetta litla frv., sem ég var að byrja að gera að umtalsefni þegar ég lauk máli mínu í gær og hef haldið áfram umfjöllun um í mörgun, skipaði afréttum til sveitarfélaga hafa miklar deilur verið um allt landið og alls ekki verið sátt um það, bæði hver hafi heimild til að veita leyfi, við skulum segja útivistarhópum eða öðrum hópum sem hafa freistað þess að byggja skála. Ég tek það sérstaklega fram að ekkert okkar sem vill að miðhálendið sé eitt stjórnsýslusvæði er á nokkurn hátt að verja það að í áratugi skuli hálendið hafa verið fremur stjórnlaust og að þar hafi í tímans rás risið margar byggingar sem e.t.v. hefðu ekki átt að rísa þar eða kannski með takmörkuðum leyfum. En ég ætla að benda á að hin síðari ár hefur verið reynt að gera þetta eins og hjá siðuðum þjóðum, leita eftir því hverjir hafi hugsanlega umráðarétt og hverjir geti hugsanlega veitt byggingarrétt. Um slík mál hafa orðið miklar deilur.

Ég minnist þess í fljótu bragði að Útivist byggði skála á Fimmvörðuhálsi eða a.m.k. á þeirri leið þar sem farið er yfir Fimmvörðuháls og miklar deilur urðu um það hvor hreppanna hefði átt að heimila bygginguna og hvort sá sem heimilaði hana hefði haft til þess rétt eða hvort annar hreppur sem lá að hefði átt einmitt þetta svæði og deilurnar voru væntanlega m.a. um gjaldtöku fyrir skálann.

Ég hlýt líka að minna á, þegar ég rifja upp deilur um skipulagningu og byggingarmál á hálendinu og árekstra sem hafa verið og munu væntanlega verða ef þetta frv. sveitarstjórnarráðherrans verður að lögum, vegna árekstra milli áforma sveitarstjórnanna sjálfra og hefða sem t.d. félagasamtök telja sig hafa, að við höfum þegar dæmi um slíka árekstra í kjördæmi sveitarstjórnarráðherrans. Ég þekki ekki nægilega vel til að vita hvort Svínavatnshreppur sem slíkur er hreppur ráðherrans líka enda læt ég það liggja á milli hluta. Þar hafa verið miklar deilur, fyrst um það hvort Svínavatnshreppur hefði heimild til að skipuleggja á Hveravöllum og ákveða hvernig byggt verði upp þar og síðar um það hvort Ferðafélag Íslands sem þar hefur verið með skála ætti einhvern rétt á svæðinu í skjóli hefðar eða liðinnar reynslu.

Að ég tali nú ekki um þær deilur sem hafa komið upp í sveitarfélögum vegna virkjana. Þær hafa kannski ekki aðallega verið vegna þess sem frv. litla, sem ég var kynna þingheimi, boðaði, þ.e. að heimild fengist til að leggja útsvör og skatta á einstaklinga og fyrirtæki sem mundu starfa á hálendinu, heldur miklu fremur vegna þess sem snúið hefur að eignarréttarmálum og því hvaða bætur skuli koma fyrir land sem fer undir vatn. Ekki síst hafa slíkar deilur orðið í kjördæmi ráðherrans þannig að ég þarf auðvitað ekki að draga það fram hér. Það þekkja allir. En þær hafa orðið víðar. Og það sem við, sem erum andstæðingar þess að sveitarfélögin verði framlengd upp á jökla, höfum m.a. bent á, er að líka þegar kemur að þeim framkvæmdum sem ríkisvaldið mun hafa á sinni könnu, þá er miklu farsælla að það sé á svæði sem ríkisvaldið sjálft hefur stjórnsýslu á.

Þegar kemur að því að ákveða hvar þjóðgarðar skuli vera þá er miklu farsælla að það mál sé leitt til lykta á svæði sem ríkisvaldið sjálft hefur stjórnsýslu á. Þetta eigum við eftir í ríkum mæli þó að samvinnunefnd um svæðisskipulag sé búin að vinna ákveðið svæðisskipulag. Komandi ríkisstjórnir eiga eftir að taka miklar ákvarðanir og mikil hætta er á því að miklir árekstrar eigi eftir að verða vegna þessarar uppskiptu stjórnsýslu.

Virðulegi forseti. Hv. fyrrv. þm. Jón Ármann Héðinsson vísaði til þess að Alþfl. hefði verið með tillögu fyrir sameinuðu Alþingi sem var vísað frá á sama tíma og þetta litla frv. um afréttirnar rann í gegnum þingið á tíu dögum. Og vegna umræðu sem hefur aftur og aftur komið upp ætla ég að leyfa mér, virðulegi forseti, að fjalla í örfáum orðum um þær tillögur sem Alþfl. flutti um hálendið, máli okkar jafnaðarmanna til stuðnings, enda hefur það verið grundvallaratriði í stefnuskrá okkar í áratugi að landið skuli vera þjóðareign og að lagasetning skuli byggð á því.

Árið 1970 lagði Bragi Sigurjónsson fram till. til þál. um að Alþingi leggi fyrir ríkisstjórnina að láta sérfróða menn semja frumvarp eða frumvörp að lögum um eignarráð og eignarréttindi yfir óbyggðum landsins, stöðuvötnum í byggð og óbyggðum, fallvötnum, jarðhita og hvers konar námum og vinnslu verðmæta úr jörðu. Við samningu frv. skuli verða athugað, og því er lýst í mörgum liðum, hvernig þar skuli lýsa hálendi landsins og óbyggðir alþjóðareign, hvernig skuli fara með not afrétta, hvernig skuli fara með veiði- og fiskiræktarrétt, hver mörk skuli setja milli eignarráða ríkisins og réttinda annarra, hver eignarmörk ríkið skuli hafa yfir jarðhita, hver verðmæti í jörðu á landi eða landgrunni er finnist fyrir atbeina ríkisins skuli teljast ríkiseign og hver takmörk náttúruvernd skuli sett.

[11:15]

Þetta var árið 1970, virðulegi forseti, og það er núna 1998, 28 árum síðar, sem loksins er verið að leiða þessi mál farsællega til lykta með þjóðlendufrv. en í þessum mikla ágreiningi í frv. sveitarstjórnarráðherrans.

Strax árið 1971 fluttu þingmenn Alþfl. saman sömu till. til þál. um að lýsa hálendi landsins og óbyggðir alþjóðareign. Tillögugreinin er hin sama og áfram eru greinar tillögunnar um sömu efni og ég hef greint frá.

Á þinginu 1972--1973 settu þingmenn Alþfl. fram tillögu af sama toga en mun beittari. Það er till. til þál. um eignarráð á landinu, gögnum þess og gæðum, og að hún láti sérfróða menn semja frv. o.s.frv. Og þá eru komin tvö ný atriði inn í upptalningu á því sem verði að skoða. Annað er að allur jarðvarmi undir 100 m dýpi og aðstoðar hins opinbera þarf til þess að bora eftir og virkja verði lýstur alþjóðareign. Hitt ákvæðið er að kveðið skuli á um umgengnisskyldur við landið og viðurlög við spjöllum. Það var mikil framsýni í þessum tillögum jafnaðarmanna. Þessi tillaga var 1972--1973.

Virðulegi forseti. Það er sama tillaga sem enn er lögð fyrir þingið þingveturinn 1973--1974. Ekkert gengur með að vekja alþingismenn til umhugsunar á þessum árum um hversu mikilvægt er að ganga frá þessum málum og aldrei komast þessi mál á þann rekspöl að þau leiði af sér ákvörðun, hvað þá heldur nefndarskipan.

Á árinu 1974--1975 er flutt ný tillaga af þingmönnum Alþfl. Hún er öðruvísi en hinar og hún er aðeins flutt í eitt ár. Nú hefur átt að reyna að freista þess að ná frekari samstöðu. Sú ályktun hljóðaði svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að stefnt skuli að því að allt land verði alþjóðareign, eign ríkis eða sveitarfélaga en bújarðir verði í eigu bænda þegar þeir kjósa þann hátt fremur en hafa lönd sín á erfðafestu. Ríki og sveitarfélögum skal þó tryggður forkaupsréttur á öllu landi. Alþingi ályktar að leggja fyrir ríkisstjórnina að hún láti sérfróða menn semja frumvarp eða frumvörp að lögum um eignarráð og eignarréttindi þjóðarinnar yfir byggðu landi og óbyggðu, stöðuvötnum í byggð og óbyggðum, fallvötnum, jarðhita og hvers konar námum og vinnslu verðmæta úr jörðu sem ekki eru þegar í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Glöggt verði kveðið á um hvernig landareign og landnytjar færist úr einkaeign í eign ríkisins og hvernig bætur skuli reiknast fyrir.``

Þessi tillaga var aðeins flutt einu sinni, virðulegi forseti, og á þinginu 1975--1976 er aftur flutt tillaga um eignarráð á landinu, gögnum þess og gæðum. Tillögugreinin er hin sama og nú eru undirliðirnir fjórir. Ég ætla að vekja athygli á 2. lið en hann orðast svo:

,,Sú grundvallarregla verði mörkuð að landið allt eins og miðin umhverfis það sé sameign þjóðarinnar allrar.``

Ég ætla líka að vekja athygli þingmanna á því að þetta var áður en menn létu sér detta það í hug að miðin öll gætu hætt að vera sameign þjóðarinnar allrar. Sömu ákvæði eru í hinum þremur undirgreinum tillögunnar og í þeim fyrri sem ég hef hér rakið.

Enn er flutt mál á þinginu 1976--1977. Nú bregða menn á nýtt ráð. Það er alveg greinilegt að tilraunin með till. til þál. til að reyna að fá þingið allt til að standa saman að því að ákvarða hvað af landinu skuli vera þjóðareign og hvað ekki gekk ekki upp. Engin leið er á þessum árum frá árinu 1970--1976 að vekja þingmenn með þeim hætti að slík þáltill. sé samþykkt og hefðum við þá fyrr staðið í þeim sporum að ganga frá þessum málum sem hér eru enn ófrágengin í dag. En árið 1976 freista Bragi Sigurjónsson og Jón Ármann Héðinsson, hv. þm. Alþfl., þess að flytja frv. til laga um eignarráð yfir landinu, gögnum þess og gæðum. Virðulegi forseti. Ég ætla að lesa 1. gr. þess, hún hljóðar svo:

,,Landið allt með gögnum þess og gæðum og miðin umhverfis það, svo sem viðtekin efnahags- og fiskveiðilögsaga hverju sinni greinir, er sameign þjóðarinnar allrar að svo miklu leyti sem ekki er öðruvísi ákveðið í lögum þessum.``

Enn á ný freista þeir þess að fara í frumvarpsformi inn á það hvernig skuli fara með umráðarétt eigna, hvernig skuli fara með heimildir bænda varðandi bújarðir sínar, skyldur ríkisins við að kaupa bújarðir af bændum, að ár og vötn eru sameign þjóðarinnar svo sem önnur gögn og gæði landsins, þar með talinn virkjunarréttur og veiðiréttur. En það er líka rætt um rétt jarðeiganda til að virkja til eigin nota eins og þar segir.

Virðulegi forseti. Þó fróðlegt væri, þá ætla ég ekki að þreyta þingmenn með því að lesa greinar frv. en ég ætla að benda á tvennt. Ég ætla að benda á að í greinargerð vísa þessir alþingismenn til þess að haldin hafi verið fjölmenn ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um búsetu mannsins á jörðinni er nefnist Habitat og hafi verið haldin í Vancouver í Kanada og vísa til þess sem þar er fjallað um, þ.e. um landið, og segja að athyglisvert sé fyrir íslenska þjóð að kynnast efni þess sáttmála og segja að ráðstefnan hafi verið einróma sammála um stefnu varðandi landið sem er mjög í sama anda og tillögur Alþfl. um eignarrétt á landi, gögnum þess og gæðum. Þeir benda á inngangsorð ráðstefnunnar, félagslegt réttlæti, endurnýjun byggða og framþróun sem eru skilyrði fyrir mannsæmandi húsnæði og heilsusamlegu umhverfi fólksins náist því aðeins að landið sé notað í þágu þjóðfélagsheildarinnar.

Þeir benda á samþykktir þessarar Habitat-ráðstefnu sem við erum að vísa til enn þann dag í dag. Við erum að senda þingmenn til þátttöku á Habitat-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og við erum að taka þessi ákvæði inn í okkar lög að því marki sem við getum. Ég ætla að benda á tvö atriði af þeim fimm sem þeir taka til í ákvæðum Habitat-ráðstefnunnar.

Sú fyrri er að landið er takmörkuð auðlind og meðferð þess á að vera háð opinberu eftirliti eða stjórn í þágu alþjóðar. Hin síðari er að eignarréttarformi liðins tíma ber að breyta til samræmis við síbreytilegar þarfir þjóðfélagsins svo það sé hagstætt þjóðfélagsheildinni.

Virðulegi forseti. Þetta var tilvísun á þinginu 1975--1976 í Habitat-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem við alþingismenn virðum svo mjög, sendum þingmenn þangað til þátttöku og teljum að hún sé brautryðjandi í að hvetja þjóðir heims til að fara vel með auðlindir sínar.

Virðulegi forseti. Á þinginu 1977--1978 flytja þingmenn sömu tillöguna og eftir það freista þeir þess að flytja aðskilin frv. á Alþingi. Nú er áratug lokið þar sem búið er að flytja á hverju einasta þingi þáltill. eða frv. um hvernig skuli skipa málum á miðhálendinu og að landið sé þjóðareign og hvernig skuli leitast við að skipa málum farsællega til framtíðar.

Nú kom kafli tímabils þar sem freistað var að flytja aðskildar tillögur, sérstök frv. um auðlindir í jörðu, sérstök frv. um ákveðin svæði o.s.frv. Þá sögðu menn: Við verðum að reyna að ná því fram að landið er þjóðareign með því að flytja fjölda frv. og tillagna sem í raun og veru með samþykkt sinni mundu skapa það sama.

Það er síðan umhvrh. Eiður Guðnason sem flytur frv. til skipulags- og byggingarmála á Alþingi Íslendinga 1991--1992. Þar segir í 1. gr.:

,,Miðhálendi Íslands er sérstakt umdæmi að því er tekur til skipulagsmála samkvæmt skipulagslögum, nr. 19/1964, með síðari breytingum, og byggingarmála samkvæmt byggingarlögum, nr. 54/1978, með síðari breytingum, en með þeim frávikum sem greinir í þessum lögum.``

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara nánar inn á það frv. en get 1. gr. þess þar sem það sem skiptir máli í umræðu okkar hér kemur fram.

Virðulegi forseti. Það er ekki að ófyrirsynju að ég vel að vísa í þetta frv. sem umhvrh. Eiður Guðnason flutti. Því hefur verið haldið fram í umræðunni, t.d. hér og nokkrum sinnum áður, að umræðan hafi verið eins og það sé Alþfl. sem eigi upphaf að því að hálendinu sé skipt á milli sveitarfélaganna --- sem er rangt. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson tók þetta mál fyrir í afar ítarlegri og góðri ræðu sinni á Alþingi. Þar var hann m.a. að svara Hjörleifi Guttormssyni, og ætla ég ekki að leggja mat á orðaskipti þeirra að öðru leyti en því að hann vísar eins og segir, með leyfi forseta, í umsögn umhvn. á frv. sem þeir höfðu tekist á um: ,,Nefndin leggur áherslu á að þau mörk, sem dregin verða um miðhálendið, munu á engan hátt breyta núverandi réttarstöðu hvað varðar eignarhald á svæðinu og lögsögu yfir afréttum og almenningum.`` Hann segir enn fremur þegar hann er að vísa til þingmannsins þegar hann ræðir um viðkomandi nál. að þingmaðurinn hafi, með leyfi forseta, sagt eftirfarandi:

,,Einnig tek ég mjög eindregið undir það að spurningin um eignar- og umráðarétt á hálendinu er málefni sem tengist þessu. Það var skýrt af málsmeðferð í nefndinni og viðræðum við þá lögfræðinga sem rætt var við að mjög æskilegt er, svo ekki sé fastara að orði kveðið, að tillaga þar að lútandi komi fram og verði afgreidd á Alþingi hið fyrsta.``

Af þessu dró fyrrv. umhvrh. Össur Skarphéðinsson þrjár ályktanir, að gerður væri skýr greinarmunur á eignar- og umráðarétti, að þingmaðurinn sem vísað var til teldi að það vantaði stefnu um umráðaréttinn sem væri helsta bitbeinið í umræðunni og kallað væri eftir slíkri stefnu og í þriðja lagi að engin stefna fælist í frv. um umráðarétt og stjórnsýslu á miðhálendinu og fráleitt að halda því fram í dag að vegna aðildar Alþfl. að frv. sé hægt að halda því fram að við berum ábyrgð á því að staðarmörk sveitarfélaga verði framlengd inn á miðhálendið núna.

Ég ætla að taka undir þessi orð, virðulegi forseti, og vekja á þeim athygli. Hins vegar er það mín skoðun alveg óháð því hvort sem það hefði verið Alþfl. eða einhver annar og það væri hægt að færa fyrir því rök að þarna hefði verið opnað á eitthvað það sem síðar gerðist sem ég er ósammála. Ég er algerlega ósammála því að samvinnunefnd um svæðisskipulag hafi fengið einhverja þá forskrift að hún hafi talið eða getað talið að það væri vilji Alþingis að framlengja sveitarfélög upp til jökla. En jafnvel þó það hefði verið, þá hefði það verið í hæsta máta eðlilegt að Alþingi Íslendinga nú hefði á því skoðun að skipa máli með þeim hætti sem réttast er gagnvart öllum þegnunum í þéttbýli og dreifbýli.

[11:30]

Ég harma það, virðulegi forseti, að í þessari umræðu hefur verið gerð ítrekuð tilraun til þess að láta líta svo út að þeir sem vilja að miðhálendið sé ein skipulags- og stjórnsýsluleg heild séu óvinir byggðarlaganna í kringum miðhálendi Íslands. Þetta er rangt. Þau skilaboð, hafi þau borist því fólki sem þar býr, eru röng.

Virðulegi forseti. Ég er komin að lokum ræðu minnar. Og þó mér liggi margt enn þá á hjarta varðandi þetta mál þá mun ég koma að því við 3. umr. Það sem hér er að gerast, verði þetta frv. gert að lögum, þrátt fyrir þau hörðu viðbrögð sem það hefur mætt, er eitthvað sem verður erfitt að taka til baka. Það er hægt að afstýra því núna að landinu verði skipt upp á milli sveitarfélaga en það er mitt mat að það verði illmögulegt eða óframkvæmanlegt að gera breytingar á slíkri löggjöf þegar hún er orðin. Með þessu er verið að búa til ramma utan um tillögurnar um skipulag á hálendinu, sem samvinnunefndin hefur lagt fram. Ég veit ekki hvort menn gera sér grein fyrir því að ríkisvaldið byggir auðvitað ekkert uppi á hálendi án samþykkis sveitarfélaganna. Það verður ekkert skert á miðhálendinu án samþykkis sveitarfélaganna. Og það er hætta á hagsmunaárekstrum. Það er hætta á hagsmunaárekstrum þegar fara á í framkvæmdir sem taka yfir fleiri sveitarfélög. Það er raunveruleiki sem er fyrir hendi sem ég þegar vísað á og get enn nefnt dæmi eins og vegarlagningu í Reykholtshreppi.

Stjórnarliðar hafa með málflutningi sínum sýnt að aðalatriðið, stóra málið er skipulagsmálin og það er ágreiningur um þann þátt. Lykilspurningin er hver fer með skipulags- og byggingarvaldið. Sú staðreynd hvernig ætti að skipa þeim málum lá ekki á borðinu þegar félmn. afgreiddi málið. Hún hefur komið fram síðar. Það er hins vegar alveg ljóst af orðum umhvrh. að það á eftir að breyta skipulagsfrv. sem er grundvöllur fyrir samkomulagi við þá stjórnarliða sem eru óánægðir, það á eftir að breyta því. Enginn veit í raun hvernig þessu máli verður skipað þegar það kemur hingað inn til þingsins í haust því að umræðan um frv., þó að það sé ekki á dagskrá, hefur sýnt að miklir veikleikar eru í skipulagsfrv.

Vegna þess hvaða viðbrögð hafa komið við því að miðhálendið verði sérstakt stjórnsýslu- og skipulagssvæði þá ætla ég að nefna önnur dæmi, þegar ég er komin að lokum máls míns: Þingvellir, Skaftafell, Jökulsárgljúfur með verndarsvæði. Þessi svæði lúta sérstakri stjórn þó meðferð þeirra sé hver með sínum hætti. Þingvellir eru undir þjóðgarðsstjórn, og við erum með frv. uppi á borðum okkar núna um hvernig þar skuli fara með. Skaftafell og Jökulsárgljúfur eru beint undir náttúruverndarlögum, bæði byggingar- og skipulagsmálin, og Hornstrandir eru friðland og fólkvangarnir eru teknir undan sveitarfélögum og settir undir samvinnunefndir.

Virðulegi forseti. Það er skoðun okkar jafnaðarmanna að réttlætisins sé best gætt ef stjórnsýsla miðhálendisins verður sett í hendur sérstakra landsnefndar. Þá geta allir, fulltrúar þéttbýlis sem dreifbýlis, komið að stjórn þess. Það er hin sanngjarna niðurstaða. Hún felur í sér að engum er úthýst, hún gerir öll sjónarmið jafngild.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum minna á tillögu okkar jafnaðarmanna sem liggur fyrir þinginu og legg til við lok máls míns að tillaga okkar um að landið verði ein skipulags- og stjórnsýsluheild verði samþykkt á hv. Alþingi.