Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 11:52:04 (6208)

1998-05-05 11:52:04# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[11:52]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef nú hlýtt á ræðu hv. 5. þm. Reykn. að talsverðu leyti og m.a. niðurlag ræðu hennar. Ég geri síst athugasemdir við að þingmaðurinn flytji mál sitt og túlki skoðanir sínar þó að það taki tíma. Mér finnst það ofur eðlilegt að þeir sem hafi sérálit, nál., geri grein fyrir sínum sjónarmiðum.

Það breytir ekki því að ég hef athugasemdir við ákveðna þætti í málflutningnum og tek eftir því að hv. þm. leggur mikið á sig til að reyna að sannfæra sjálfa sig og þingheim um að Alþfl. hafi ekki stefnt að þeirri skipan mála sem nú liggur fyrir sem grunnur í þessari umræðu. En útskýringar hv. þm. þar að lútandi breyta ekki neinu um þetta efni. Þetta efni liggur skjalfest fyrir, hvernig á þessum málum var haldið af ráðherrum Alþfl. og síðan hvernig gengið var frá í framhaldi af bráðabirgðaákvæðí í skipulagslöggjöf sem var grunnurinn fyrir vinnu að skipulagi miðhálendisins en því var lokið vorið 1997. Í framhaldi af því skyldi sú vinna ganga inn í nýja skipulagslöggjöf sem var samþykkt samhljóða á Alþingi í fyrravor, án fyrirvara af hálfu Alþfl. Háttvirtur nefndarmaður þáv. situr einmitt undir þessari umræðu og getur vafalaust staðfest að enginn fyrirvari var við afgreiðslu skipulagslaganna sem skiptir hálendi Íslands á milli sveitarfélaga hvað varðar skipulags- og byggingarmál og skilur þar ekkert út undan.

Fólkvangar og friðlýst svæði eru hins vegar annað mál sem ég kem kannski að ef færi gefst til.