Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 11:56:07 (6210)

1998-05-05 11:56:07# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[11:56]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðurlegur forseti. Ef málið snerist nú um að breyta hugarfari þess sem hér talar, þá væri það ósköp einfalt og vandalaust hvað mig áhrærir. Hitt er alveg ljóst að hv. þm. hefur enga vörn í þessu máli. Þetta liggur fyrir í lögum sem samþykkt voru hér á Alþingi sl. vor og ekki einu sinni fyrirvari af hálfu fulltrúa Alþfl. í umhvn. Ég og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir höfðum fyrirvara við málið og ég lýsti í hverju minn fyrirvari var fólginn, að því er varðaði skipulag miðhálendisins. Undir það var ekki tekið af talsmönnum Alþfl. eða þingflokks jafnaðarmanna á þeim tíma, ekki nokkurn hlut. Allur aðdragandi þessa máls og þessarar skipulagslöggjafar er á grunni sem alþýðuflokksráðherrarnir lögðu þá stjórnartíð er hv. þm. studdi hér ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hina fyrri.

Það sem snýr að friðlýstum svæðum og það að blanda Þingvallaþjóðgarði hér inn í sem einhverju dæmi er fráleitt. Einhver tók hér varnarsvæðið --- ég man ekki hvort það voru talsmenn þingflokks jafnaðarmanna --- til þess að sýna fram á eitthvert módel til samlíkingar við þá hugmynd að búa til sérstakt stjórnsýslusvæði á hálendi Íslands. Ég hef aldrei útilokað að skynsamlegt væri að stefna að því. Ég tók undir það og átti beinan hlut að þeim tillögum 1991. En að ætla að fara að líkja þessu máli við þjóðgarða sem eru settir með reglugerð og auglýsingu á grundvelli náttúruverndarlöggjafar, ber vott um slíka fávisku, virðulegur forseti, að ég undrast að hv. þm. grípi til þess. Ég tel að talsmenn þingflokks jafnaðarmanna skuldi þinginu, af því að þeir tala hér ítarlega í málinu, skuldi þinginu að sýna mönnum fram á það hvernig þeir ætla að ganga frá málum. Hvernig ætla þeir að leysa málin úr þeirri stöðu sem þau eru í í dag og koma á þessu stjórnsýslusvæði á miðhálendi Íslands? Komi þeir með það, komi þau með mörkin og lausnina og ég vil skoða hana.