Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 13:31:52 (6213)

1998-05-05 13:31:52# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[13:31]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Hæstv. forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að ég mundi skipta ræðu minni niður í fjóra flokka, mundi byrja á að ræða um vinnubrögð, síðan mundi ég ræða um þann þátt frv. sem er til umræðu sem helst hefur verið umdeildur og lýtur að skipulagsmálum. Í þriðja lagi mundi ég ræða um grundvallarbreytingar sem verið var að gera í stjórnsýslunni og hvernig þær tengjast þessu frv. og þeim umræðum sem hafa verið í þingsal um þetta frv. og í fjórða lagi mundi ég víkja að einstökum greinum frv. Ég taldi upp þrjár ástæður fyrir því að hyggilegt væri fyrir Alþingi að fresta afgreiðslu málsins, láta það liggja í sumar, gefa þeim aðilum sem óskað hafa eftir að koma ábendingum til þingsins til félmn. og Alþingis og gefa þjóðfélaginu öllu svigrúm til að ræða málið ofan í kjölinn eins og er rauður þráður í þeim ályktunum sem borist hafa til Alþingis á undanförnum dögum. Ég rifjaði upp að haldinn var fjölmennur borgarafundur í gær á Hótel Borg í gær sem beindi þeirri eindregnu áskorun til Alþingis að fresta málinu og í upphafi máls míns vitnaði ég í þrjár álitsgerðir um þetta frv. þar sem fram kæmu ólík sjónarmið, frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi en sambandið er reyndar á því máli að hraða beri afgreiðslu málsins en jafnframt hvatt til málefnalegrar umræðu og ég hef nefnt að það gefist ekki tóm til slíkrar umræðu á þeim tíma sem eftir lifir þings ef áætlanir ganga eftir.

Í öðru lagi vitnaði ég í ályktanir sem komu frá aðskiljanlegum hópum útivistarmanna þar sem óskað er eftir að málinu verði frestað. Í þriðja lagi vitnaði ég í álit Hins íslenska náttúrufræðifélags og las upp úr greinargerð sem fylgir því með mjög athyglisverðum, bæði hugrenningum og tillögum um afgreiðslu málsins. Einnig þar er lagt til að málinu verði gefinn tími og reyndar síðan fundin bráðabirgðalausn til fjögurra ára meðan ýmsir þættir sem tengjast skipulagsmálum í landinu skýrist betur en nú er. Þetta eru mjög athyglisverðar hugmyndir sem koma frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi en þetta var fyrsta ástæðan fyrir því að ég taldi eðlilegt að fresta málinu, það eru áskoranir sem Alþingi hafa borist.

Í öðru lagi nefndi ég að í þessu frv. væri margt sem orkaði tvímælis, sem væri óljóst, sem væri mótsagnakennt. Atriði sem er að finna í þessum lögum væru í hugsanlegri mótsögn við sitthvað sem fram kæmi í öðrum lögum. Þetta er ekkert ljóst, við erum inni á gráu svæði en þetta gráa svæði þarf að lýsa upp þannig að línur séu alveg kýrskýrar. Einnig það kallar á að Alþingi gefi sér betra tóm til umfjöllunar um málið.

Í þriðja lagi nefndi ég að frekari umræða um málið og frekari frestur á afgreiðslu þess mundi gera tvennt í senn: Tryggja vandaðri vinnubrögð og víðtækari sátt um endanlega niðurstöðu málsins og vitnaði í því sambandi í afgreiðslu umdeilds frv. um lífeyrisréttindi. Lífeyrislöggjöfin olli miklum deilum í þjóðfélaginu þegar frv. þar að lútandi kom fyrst fram fyrir réttu ári og kom til umræðu í Alþingi en það varð að ráði að frv. var tekið út af þingi. Hagsmunaaðilar og allir þeir sem tengdust málinu fengu ráðrúm til að setjast yfir frv. yfir sumarið bæði úr svokölluðum fjármálaheimi, frá atvinnurekendum og verkalýðshreyfingu og lífeyrissjóðunum, auk ríkisvaldsins og niðurstaðan varð allásættanleg lausn. Ekki eru allir sáttir við niðurstöðuna en víðtæk sátt í þjóðfélaginu engu að síður. Nú geri ég mér grein fyrir að um ýmsa hluti og ýmis mál næst aldrei pólitísk sátt, það er útilokað. Menn eru að takast á um pólitísk ágreiningsefni og ekki er hægt að ætlast til að þeir nái sátt um alla þætti. En það sem orkar tvímælis, það sem er óljóst er hægt að skýra, þannig að menn hafi traustari grunn til að mynda skoðun sína á og það er fyrsta krafa sem maður hlýtur að gera áður en löggjöf er sett að allar staðreyndir máls séu ljósar og svo er hitt að tími sem þjóðfélaginu væri gefinn til að skoða málið gerir það að verkum að ýmsir fletir sem mönnum voru ókunnir koma fram. Í því sambandi vitna ég sérstaklega til greinargerðar sem kemur frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi sem mér finnst a.m.k. umtalsverð. Þar er gerð tillaga um ákveðna málamiðlun sem mér finnst að mörgu leyti betur hugsuð en sú málamiðlunartillaga sem var til umræðu á sínum tíma og hefur verið. Öll rök mæla með því að málinu verði skotið á frest. Ég hef síðan spurt hvort eitthvað sé í frv. sem valdi því að slíkt geti verið til ills, að eitthvað kalli á að við samþykkjum þessi lög nú í snarhasti og svo er ekki. Hugsanlega eru ýmsir þættir sem lúta að nafngiftum í sveitarfélögum en það er hægur vandinn að taka slíkt út úr ef það er eitthvert vandamál, þetta þarf bara að skoða en það væri þá fyrst og fremst þetta. Þetta réttlætti ekki að mínum dómi að farið yrði að keyra í gegnum Alþingi lagabálk sem er eins umdeildur og þessi og þjóðfélagið allt kallar á að fái betri umræðu en möguleikar munu vera á ef þingi lýkur á allra næstu dögum en eftir því sem ég best veit er stefnt að því að flýta þinglokum eins og unnt er.

Þetta var um vinnubrögðin en síðan vék ég að þeim hluta frv. sem er hvað umdeildastur og lýtur að skipulagsmálunum og þá sérstaklega 1. gr. frv. til sveitarstjórnarlaga þar sem segir að landinu öllu skuli skipt upp í sveitarfélög. Hér stendur hnífurinn í kúnni, menn deila um þetta atriði. Ég lagði áherslu á að það sjónarmið hefur verið ríkjandi í þingflokki mínum að það eigi eftir því sem kostur er að tryggja að landið, miðhálendið, sé ein skipulagsheild og að umhverfissjónarmið vegi jafnan þungt. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni og þar er ég að lýsa persónulegu skoðun minni að það væri heppilegast að miðhálendið væri ein stjórnsýslueining og allt fráhvarf frá þeirri afstöðu ber að líta á sem málamiðlun af hálfu minni. Ég vék að því áðan líka í ræðu minni að menn hlytu að velta því fyrir sér ef unnt væri að draga línu milli afréttarlanda og heimalanda vegna skipulags miðhálendisins hvers vegna ekki að draga þessa línu þá líka milli stjórnsýslueininga. Niðurstaða mín var og er sú að þetta gæti reynst erfitt, ekki þannig að erfið verkefni kalla einfaldlega á lausn ef hún er betri en annað á náttúrlega að reyna að ná henni, en samt er rétt að vera raunsær á vandamálið. Ég held að miklu erfiðara væri að draga þessa línu milli heimalanda og afréttarlanda ef menn væru að gera hitt um leið, að búa til stjórnsýslueiningar. Ég held að deilurnar yrðu miklu harðari fyrir vikið en ef menn væru fyrst og fremst að draga línu sem markaði skipulaginu farveg. Það er skoðun mín.

Síðan er það í ljósi þessarar afstöðu sem til verður bókun með áliti okkar hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur þar sem segir að fyrirvari okkar á samþykkt laganna sé mjög eindregið sá að samhliða verði gerðar breytingar á skipulagslögum. Við vildum láta styrkja skipulagslög og það er forsenda þess að við séum reiðubúin að íhuga einhverjar nýjar lausnir, aðrar en þær að landið verði ein stjórnsýslueining. Bókun okkar var svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Kristín Ástgeirsdóttir og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara sem m.a. lýtur að því að gera þurfi breytingu á skipulags- og byggingarlögum samhliða afgreiðslu þessa frv. eigi skipulag hálendis Íslands að vera með ásættanlegum hætti. Þær breytingar verða að fela í sér á afdráttarlausan hátt að miðhálendið verði skipulagt sem heild og að fleiri komi að þeirri vinnu og ákvarðanatöku en aðliggjandi sveitarfélög. Er þar átt við fulltrúa tilnefnda af samtökum sveitarfélaga í öllum landshlutum og fulltrúa ríkisins fyrir hönd þjóðarinnar allrar.``

[13:45]

Þetta var sá texti sem við settum í álitsgerð með frv. Við bárum okkur eftir því að heyra hvað ríkisstjórnin væri að gera til að reyna að koma til móts við þá sem gagnrýndu frv. hvað harðast. Okkur voru sýnd drög að frv. sem síðan var dreift í þingsalnum á borð þingmanna en hefur ekki fengist rætt í þinginu og hefur mörgum fundist það æði undarlegt í ljósi þess að það er ríkisstjórnin sjálf sem stendur að þessu.

En og ég spyr: Hvernig stendur á því að málið fæst ekki rætt? ,,Jú``, segja menn. ,,Það þarf að senda þetta til umsagnar úti í þjóðfélaginu.`` Það er viðhorf sem ég ber virðingu fyrir. Að sjálfsögðu á að senda málin til umsagnar og ég tala nú ekki um svona mál sem eru umdeild. En annað eins hefur nú verið gert og er gert á þessum síðustu dögum að umdeild mál eru send til umsagnar með miklum hraði. En það voru menn ekki reiðubúnir að gera í þessu máli. Og hvers vegna? Ég spyr: Hvers vegna?

Vegna þess að ýmsir úr stjórnarliðinu hafa miklar athugasemdir við þetta. Það er staðreynd. Ég spyr hvort að það sé ekki líka ágreiningur um þetta utan þings, ágreiningur um að við séum að styrkja skipulagslögin eins og hér er lagt til.

Ég spyr t.d.: Hvaða sjónarmið hafa komið frá orkugeiranum? Við vitum að orkugeirinn --- og ég mun koma að því síðar --- orkugeirinn hefur harðlega gagnrýnt þann hátt sem hafður er á í skipulagi miðhálendisins, orkugeirinn hefur harðlega gagnrýnt það. Og mér segir svo hugur, og ég vildi fá það rætt í þinginu og heyra það frá hæstv. ráðherra og ráðherrum sem hlut eiga að mála hvort til standi að orkugeirinn og iðnrn. komi að skipulagi miðhálendisins í ríkari mæli eða fái betri aðgang en hér er gert ráð fyrir --- ég mun koma að því á eftir að ræða þann þátt málsins --- vegna þess að það er sjónarmið sem er mjög umdeilt líka, að umhverfisþættinum sé gert hátt undir höfði.

Þetta stjfrv. fékkst ekki rætt og þess vegna gerist það að þingflokkur Alþb. og óháðra, Svavar Gestsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Hjörleifur Guttormsson, Kristinn H. Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir, Ragnar Arnalds, Sigríður Jóhannesdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónas\-son, flytur tillögu til rökstuddrar dagskrár. Sú tillaga er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Þingflokkur Alþýðubandalagsins og óháðra harmar þá niðurstöðu meiri hluta Alþingis að neita að taka til umræðu frumvarp frá ríkisstjórninni sjálfri um breytingu á skipulags- og byggingarlögum þar sem reynt er að leita sátta í viðkvæmu deilumáli. Þar með er ljóst að ríkisstjórnin vill ekki ná neinni almennri sátt um skipulagsmál hálendisins. Jafnframt er ljóst að litlu breytir hvort frumvarp til sveitarstjórnarlaga nær fram að ganga á þessu vori eða bíður næsta vetrar. Með hliðsjón af þessu leggur þingflokkur Alþýðubandalagsins og óháðra til að Alþingi samþykki að frumvarpi ríkisstjórnarinnar til sveitarstjórnarlaga verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.``

Þetta er borið upp undir þingið og hverjar verða lyktir þess máls? Málið er fellt. Ríkisstjórnin og hennar stuðningsmenn í þinginu fella þessa tillögu, fellir það að hér verði tekið til umræðu frv. sem frá ríkisstjórninni sjálfri er komið.

Við svo búið, þegar þetta hefur átt sér stað, gerum við grein fyrir því, fulltrúar Alþb. og óháðra og Kristín Ástgeirsdóttir, óháður þingmaður sem sæti á í félmn., að grundvöllur fyrir stuðningi okkar við frv. sé brostinn. Og ég verð að segja að í ljósi þeirra mótmæla sem fram koma í þjóðfélaginu núna og eins og ég hef rakið þá finnst mér enn ríkari ástæða komin fyrir því að þessu máli verði öllu saman frestað og fólki gefinn möguleiki á því að ræða hlutina.

Hér finnst mér skylda hvíla á Alþingi nákvæmlega eins og þegar --- ég rifjaði það upp hér áðan --- yfirgnæfandi hluti þjóðarinnar samkvæmt öllum skoðanakönnunum, 80%, óskaði eftir því mjög eindregið að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um hið Evrópska efnahagssvæði þá var því neitað. Það er lífsreynsla sem ég mun ekki gleyma. Ég mun ekki gleyma þeim hroka sem Alþingi og ríkisstjórn sýndu þjóðinni á þeim tíma. Og núna þegar þessar óskir koma fram frá almannasamtökum víðs vegar að af landinu, ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu heldur víðs vegar að af landinu, þá finnst mér það vera skylda Alþingis að verða við þessum óskum og gefa þeim sem áhuga hafa möguleika á að fara nánar ofan í þessi mál.

Ég kom að því í mínu máli áðan að margt óljóst sé í þessum málum öllum. Það sem gerir umfjöllun um þetta erfiða er að við erum að fást við marga lagabálka. Til þess að tryggja að þau markmið sem við í þingflokki Alþb. og óháðra leggjum ríkasta áherslu á, að landið sé skipulagt sem ein heildstæð eining og að umhverfisþátturinn vegi þyngst, til að þessi áhersluatriði okkar nái fram að ganga og verði tryggð þá þýðir ekki að einskorða umfjöllun við þetta frv. eitt. Það þarf að horfa til margra annarra lagabálka einnig. Það þarf að horfa til náttúruverndarlaga. Það þarf að horfa til byggingar- og skipulagslaga. Það þarf að horfa til fjölmargra annarra þátta.

Ég rakti hér áðan og á eftir að gera í ítarlegra máli, umræður sem fram hafa farið um þessi efni hér fyrr. Ég rakti og vísaði í ræðu sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson flutti í fyrra þar sem hann rekur hvernig smám saman er verið að koma betra skipulagi á þessi mál. Hann hefði viljað ganga miklu lengra, t.d. í skipulagsmálum. Hann sagði í sinni ræðu og ég vitna í hv. þm. Hjörleif Guttormsson frá í fyrra, með leyfi forseta:

,,Ég hefði kosið að svæðisskipulag yrði lögfest, að það yrði lögbundið að gera skyldi svæðisskipulag. Það fékkst ekki stuðningur við það sjónarmið að þessu sinni.``

Síðan vitnar þingmaðurinn í þann ávinning sem varð með skipulagslögunum í fyrra og vísar þar t.d. í 12. gr. þeirra laga þar sem er svohljóðandi ákvæði, með leyfi forseta:

,,Jafnan skal miða við að sveitarfélög þau, sem svæðisskipulag fjallar um, myndi eina heild í landfræðilegu, hagrænu og félagslegu tilliti. Svæðisskipulag skal taka til alls lands þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli.``

Hér er vitnað í eina grein þessara laga. Reyndar vitnar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson í aðrar greinar skipulagslaganna þar sem verið er að stíga skref fram á við sem þingmaðurinn hefði viljað að væru reyndar stærri, en eru þó í áttina. Ég vek athygli á þessu vegna þess að þegar við tölum um þá þætti sem brenna á þjóðinni núna, skipulagið og umhverfisverndina, þá verðum við að líta á marga lagabálka og þróun í öllu þessu ferli heildstætt. Í þessum skipulagslögum sem voru samþykkt í fyrra segir enn fremur, t.d. í 27.gr., með leyfi forseta:

,,Meiri háttar framkvæmdir, sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við.``

Ég held nefnilega að þegar við lesum t.d. leiðara DV í gær, eða við fáum upphrópanir um það að verið sé að taka landið og stela því og þar fram eftir götunum, þá verðum við að gæta að því, að mínum dómi, að skoða þessi mál yfirvegað og skoða þessi mál með tilliti til annarra lagabálka. Og horfa líka á það sem jákvætt hefur áunnist í þessum efnum. Ég nefni og vísa til breytinga t.d. á skipulagslögunum. Við gætum líka horft til náttúruverndarlaga. Ég held nefnilega að þegar þessi mál eru skoðuð og rædd séu menn að tala um mjög marga hluti í senn.

Menn eru að tala um aðgang að landinu. Menn eru að tala um eignarhald á landinu og menn eru í þriðja lagi að tala um stjórnsýslu. Varðandi síðasta þáttinn, stjórnsýsluna, þá finnst mér ýmsum spurningum ósvarað, t.d. um skörun á svæðisskipulagi og aðalskipulagi og hverjir möguleikar sveitarfélaga eru til að streitast gegn svæðisskipulagi. Mér finnst þetta ekki liggja alveg ljóst fyrir. Mér finnst ekki liggja alveg ljóst fyrir hvernig þetta er.

Varðandi aðgang hins vegar að landinu þá er það ekki svo að með þeim breytingum sem hér er verið að leggja til sé neitt verið að hrófla við þeim þætti. Kveðið er á um aðgang að landinu t.d. í 14. gr. náttúruverndarlaga. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Almenningi er heimil för um landsvæði utan landareigna lögbýla, svo og dvöl á þessum svæðum í lögmætum tilgangi.``

Það er sem sagt ekki verið að takmarka aðgang að landinu. Hvað þá með eignarhaldið? Er verið að sýsla hér með eignarhaldið? Nei. Eignarhaldið er skilgreint í allt öðrum lögum, í allt öðrum lagabálkum. Menn eru að sýsla með eignarhaldið í þjóðlendufrumvarpinu.

Ég vil vekja athygli manna á því að fyrir þinginu liggur frv. frá ríkisstjórninni sem er miklu alvarlegra, sem er miklu alvarlegra mál en sveitarstjórnarlögin eru nokkurn tíma, (Gripið fram í: Eignarhald ...) miklu alvarlegra mál. Það er frv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þetta er hið alvarlega sem er að gerast hér ef það á að knýja það í gegn. Þetta er miklu alvarlegra mál en hitt, að skipta landinu öllu í stjórnsýslueiningar á milli sveitarfélaganna vegna þess að í því frv. er gert ráð fyrir að allar auðlindir í og á jörðu í löndum í einkaeigu séu eign landeigenda. Þar er verið að staðfesta í lögum að allar auðlindir í og á jörðu í löndum í einkaeign séu eign landeigenda.

Þetta er hin raunverulega eignaupptaka. Ef þetta verður samþykkt þá skulum við fara að tala um að verið sé að stela landinu. Þá skulum við gera það því þá er það orðið að veruleika. Ég fullyrði að hér sé á ferðinni frv. sem ekki aðeins kalli á mikla og ítarlega umræðu hér og í þjóðfélaginu reyndar öllu, ég fullyrði að samþykkt þess muni hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér og það væri stigið mjög stórt óheillaspor ef það frv. yrði samþykkt.

[14:00]

Það sem ég er að gera er að vekja athygli á því hve margslungið þetta mál er og hve mörgu ægir saman í umræðunni um sveitarstjórnarlögin. Menn halda að við séum þar að tala um aðgang að landinu. Nei, aðgangur að landi í almannaeign er tryggður með öðrum lögum, náttúruverndarlögunum, 14. gr. náttúruverndarlaga. Menn halda að við séum að tala um eignarhald á landi. Nei, það er fjallað um þau efni í þjóðlendufrv. og í frv. sem ríkisstjórnin hefur sett upp og er eins konar þjóðnýting með öfugum formerkjum. Það er verið að færa eignir þjóðarinnar í hendur þeirra sem hafa eignarhald á landi og það er mjög alvarlegur hlutur.

Til að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur og það sem stjórnar öllum okkar gerðum í þessu máli, og þá er ég að tala um þingflokk Alþb. og óháðra, er að styrkja skipulagsþáttinn og styrkja umhverfisverndina. Þetta er það sem við höfum að leiðarljósi og við erum þá ekkert að horfa á þennan lagabálk einan. Við erum að horfa á allar færar leiðir til að ná fram þessu markmiði. Ég vil í því sambandi t.d. vekja athygli á því að fulltrúar okkar hafa verið að reyna að styrkja skipulagslög og náttúruverndarlög og komið fram með raunhæfar tillögur til úrbóta. Ég vitna hér t.d. í till. til þál. um þjóðgarða á miðhálendinu sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson flutti. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta undirbúa, í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa, stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendi Íslands er hafi innan sinna marka helstu jökla og aðliggjandi landsvæði. Ráðherra kynni Alþingi stöðu málsins á vorþingi 1999 og stefnt verði að formlegri stofnun þjóðgarðanna árið 2000.``

Sannast sagna finnst mér þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð með þessari þáltill. eiga erindi inn í þessa umræðu núna vegna þess að það sem er mál málanna og brennur á þjóðinni er að finna leiðir, og það held ég sé ríkjandi meirihlutaviðhorf í þjóðfélaginu, til að verja okkar land, verja náttúruna, standa vörð um umhverfið. Hér segir, með leyfi forseta m.a.:

,,Miðhálendi Íslands á hvergi sinn líka. Þar er Vatnajökull, stærsti jökull Evrópu, og þrír aðrir stórir hveljöklar auk nokkurra minni.``

Síðan er lýsing á landinu og eldvirkni o.s.frv.: ,,Þessa gersemi ber Íslendingum að varðveita og vernda sjálfra sín vegna og í alþjóðaþágu. Það verður best gert með hyggilegu verndarskipulagi. Nú er í fyrsta sinn unnið að svæðisskipulagi miðhálendisins og því kjörið tækifæri að móta slíka verndarstefnu. Fyrirliggjandi þingsályktunartillaga tekur í meginatriðum mið af þeim áherslum er fram komu í maí 1997 í tillögu samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendis Íslands til ársins 2015. Til viðbótar þeirri stefnu sem þar er mörkuð er með þingsályktunartillögu þessari bent á æskilegar leiðir til að tryggja verndun stórs hluta miðhálendisins um langa framtíð með því að stofna þar til þjóðgarða og tengja við þá önnur náttúruverndarsvæði.``

Ég er að vitna í greinargerð sem fylgir tillögu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um þjóðgarða á miðhálendinu og snertir kjarnann í þeirri umræðu sem hér fer fram, um leiðir sem hægt er að fara til að standa vörð um miðhálendið, standa vörð um náttúru Íslands. Þetta er kjarninn í þeirri stefnu sem Alþb. hefur fylgt og sem þingflokkur Alþb. og óháðra hefur haft að leiðarljósi í öllu þessu máli og öllum málum sem snerta umhverfismál og skipulagsmál, þ.e. að tryggja heildstætt skipulag. Við höfum viljað lögfesta það, gera það að skyldu og við höfum viljað finna nýjar leiðir til að vernda umhverfið og gera umhverfisþættinum hærra undir höfði en verið hefur. Hér segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Tillaga þessi gerir ráð fyrir að stofnaðir verði fjórir stórir þjóðgarðar á miðhálendinu og verði jöklar og aðliggjandi landsvæði kjarninn í hverjum þeirra. Samkvæmt alþjóðlegri hefð sem á uppruna sinn í Bandaríkjum Norður-Ameríku og mótast hefur frá því á 19. öld er litið á þjóðgarða sem víðlend og verðmæt náttúruverndarsvæði á landi í ríkiseign. Kröfur til verndunar eru almennt miklar í þjóðgörðum, en jafnframt er gert ráð fyrir að fólki sé leyft að njóta náttúru þeirra ,,að svo miklu leyti og á þann hátt sem skili þeim óspilltum og til yndisauka fyrir ókomnar kynslóðir`` svo vitnað sé til bandarísku þjóðgarðalaganna.``

Síðan er þetta rætt allt ítarlega í greinargerðinni og enn fremur segir, með leyfi forseta:

,,Mörg og sterk rök má færa fyrir því að setja beri jökla landsins undir verndarskipulag. Jöklarnir eru í hugum margra tákn hins ósnortna og yfir þeim hvílir dulúð og upphafning. Þeir eru snar þáttur í náttúrufari landsins og bakhjarlinn í vatnakerfum þess, bæði jökulfljóta, lindáa og grunnvatns á stórum svæðum. Vatnsvernd og verndun á hreinleika jöklanna eru því samofnar og hafa í senn heilbrigðislegt og hagrænt gildi.

Jöklar draga að sér ferðamenn í síauknum mæli og eru að verða mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu sem atvinnugrein hér á landi. Jafnhliða því sem nýta ber þá fjölmörgu kosti sem tengjast ferðum á jöklum og í grennd þeirra er brýnt að setja um þær reglur sem tryggja náttúruvernd og varðveislu á hreinleika og eftirsóttum eigindum ferða um jökla og nálæg víðerni. Jafnframt þarf að skýra réttarstöðu þeirra sem standa fyrir ferðum á jöklum og stuðla að öryggi ferðamanna. Allt þetta og fleira ótalið kallar á náttúruvernd og skipulag umferðar á jöklum miðhálendisins. Með því að gera þá að kjarna í þjóðgörðum er lögð áhersla á þýðingu þeirra og nærliggjandi svæða í náttúruvernd og ferðaþjónustu og leitast við að tryggja að Íslendingar og aðrir fái notið þeirra óspilltra til yndisauka um langa framtíð.``

Í niðurlagsorðum greinargerðarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Með tilkomu þeirra þjóðgarða sem hér er gerð tillaga um kæmust Íslendingar í fremstu röð þjóða að því er varðar náttúruvernd. Sú verndarstefna sem margir hafa lýst eftir varðandi miðhálendið fengi á sig skýra og fastmótaða mynd. Jöklum miðhálendisins væri lyft á þann stall sem þeir verðskulda og aðdráttarafl og gildi óbyggðanna yrði meira en áður í hugum manna. Fyrir þjóð sem ætlar sér stóran hlut í ferðaþjónustu er mikið í húfi að vernda náttúru landsins, ekki síst jarðsögulegar minjar og víðerni og jökla hálendisins.``

Ég dreg þetta fram, hæstv. forseti, til að sýna fram á að hægt er að fara ýmsar leiðir til að ná þessu markmiði sem mér finnst vera mikilvægast. Okkur í þingflokki Alþb. og óháðra finnst vera meginmálið og skipta höfuðmáli að tryggja skynsamlegt skipulag, heildstætt skipulag, möguleikann á skipulagningu. Við viljum lögfesta það og við viljum finna leiðir, ekki bara einskorða okkur við eitt frv. í því efni heldur finna leiðir og þess vegna nýjar leiðir, til að vernda náttúru landsins. En eru allir á einu máli um það? Nei, það eru ekki allir á einu máli um það. Auðvitað eru ólík sjónarmið þar þótt ég haldi að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar sé á þeirri skoðun að verja beri náttúru landsins og vernda. Ég verð að segja það líka að þeir aðilar sem hafa komið nálægt virkjunum, orkugeirinn á Íslandi, hefur einstaklinga í starfi sem hafa næmt auga fyrir náttúrunni og vilja standa vörð um hana og frágangur er til fyrirmyndar í kringum mörg orkuverin hér á landi. En engu að síður er það sjónarmið áberandi sem kemur frá orkugeiranum að vægi umhverfisþáttarins sé of mikið. Annað er ekki að skilja á þeim álitsgerðum sem frá þeim koma. Hingað barst t.d. yfirlýsing frá Orkustofnun um tillögu að svæðisskipulagi miðhálendis Íslands. Ég ætla að leyfa mér að vitna í þessa álitsgerð frá 9. desember 1997. Hér segir m.a., með leyfi forseta:

,,Orkustofnun fagnar því að málefni miðhálendis Íslands er tekið til ítarlegrar umfjöllunar með þeim tillögum að svæðisskipulagi sem nú liggja fyrir, sbr. auglýsingu í Lögbirtingablaðinu hinn 6. júní sl.

Í greinargerð og fylgiritum samvinnunefndarinnar um svæðisskipulagstillöguna er margan fróðleik að finna og þar hefur verið unnið brautryðjendastarf sem hægt er að byggja á. Á hinn bóginn telur Orkustofnun að of mikið sé færst í fang með skipulagstillögunum þar sem í raun er þegar tekin afstaða til frambúðarnýtingar alls miðhálendisins. Í þessu felst afdrifarík ákvörðun sem byggir ekki nema að takmörkuðu leyti á stefnumótun æðstu stjórnvalda þar sem teknar væru pólitískar ákvarðanir varðandi miðhálendið um auðlindanýtingu, atvinnusköpun og umhverfismál svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur umræða öll verið of takmörkuð til að nú sé tímabært að staðfesta svo umfangsmiklar tillögur.

Það er því megintillaga Orkustofnunar að fyrirliggjandi tillögur verði endurskoðaðar með það að markmiði að því verði frestað að taka afstöðu til annarra svæða en þar sem nú þegar liggi fyrir samþykkt not eða samþykkt verndarsvæði. Jafnframt ætti með kortagerð af einhverju tagi að benda á þau landnot sem þar til bærir aðilar telja æskileg. Þannig ætti í samvinnu við Orkustofnun að vinna allítarlegt kort sem sýni landnot þeirra virkjunarkosta sem hagkvæmir geta talist. Þemakort eins og kort 23 í greinargerð samvinnunefndarinnar er of gróft í þessu skyni og gerir því of mikið úr áhrifum orkuvinnslunnar. Með slíkum hliðarkortum væri ekki verið að taka afstöðu heldur draga fram þær þarfir vegna einstakra landnota sem ábyrgir aðilar á hverju sviði benda á.

Samtímis mætti taka af skarið um það að engin landnýting verði nema að samþykktu skipulagi fyrir viðkomandi svæði. Jafnframt verði það tryggt að tímanlega verði tekið á skipulagsvinnunni og þá sameiginlega af öllum þeim sem málið varðar.

Kjarninn í umsögn Orkustofnunar er því sá að heildartillaga um skipulag miðhálendisins sé ótímabær þar sem enn skorti verulega forvinnu áður en unnt er að ganga jafnlangt í skipulagningu miðhálendisins og nefndin leggur nú til. Það skortir stefnu æðstu stjórnvalda landsins um uppbyggingu atvinnulífs sem hlýtur m.a. að kalla á nýtingu auðlinda hálendisins. Í orkumálum þarf t.d. að ljúka þeirri rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að láta gera í stefnumörkun sinni um sjálfbæra þróun. Ýmislegt í vinnubrögðum að þessu skipulagi gerir það enn fremur óhjákvæmilegt að leggja núverandi tillögur til hliðar.``

[14:15]

Hér er sett fram mjög hörð gagnrýni á það skipulag sem menn hafa verið að vinna að á miðhálendinu. Það er greinilegt að orkugeiranum finnst að gengið sé á sinn hlut. Ég er að vekja máls á þessu til að sýna fram á að sjónarmið eru gagnstæð. Annars vegar þau sjónarmið sem við höfum haldið mjög hátt á loft, Alþb. og þingflokkur Alþb. og óháðra, að verja beri umhverfið og við höfum gert tillögur um nýjar leiðir í þeim efnum, sett t.d. fram hugmyndir um þjóðgarða þar sem náttúran yrði varin á enn tryggari hátt en gert hefur verið til þessa.

En í niðurlagi þessarar greinargerðar Orkustofnunar segir, með leyfi forseta:

,,Enda þótt það sé ekki efni sem beina beri til samvinnunefndarinnar verður að nota þetta tækifæri til að lýsa efasemdum um framhald skipulagsmála miðhálendisins. Ef svo fer sem horfir að stjórnsýsla og þar með talið skipulagsmál verður í umsjá þeirra 50 hreppa sem eru taldir liggja að miðhálendinu, enda þótt þeim kunni eitthvað að fækka vegna sameiningar sveitarfélaga, þá er viðbúið að sama virkjanamannvirkið tilheyri mismunandi hreppum; stöðvarhús í einum hrepp, stíflur og lón í öðrum og línulagnir og aðkomuvegir í enn öðrum hreppum. Hagsmunir þessara sveitarfélaga munu rekast á, m.a. þar sem opinber gjöld, einkum fasteignaskattar, miðast við hrepp þann þar sem stöðvarhúsið liggur. Það býður því þeirri hættu heim að virkjunaraðili hljóti mjög misjafnar undirtektir í viðkomandi hreppum með tilheyrandi deilum og tilkostnaði við sættir eins og dæmin reyndar sanna.``

Reyndar er það iðulega svo að orkuver og mannvirki eru í ólíkum sveitarfélögum þannig að þetta er ekkert nýtt vandamál sem bent er á hér. En ég vek athygli á þessu til að sýna að menn hafa efasemdir um áherslur annars vegar í skipulagsmálum og hins vegar varðandi aðkomu að skipulagsvinnunni á mjög ólíkum forsendum.

Hverjar eru þær forsendur? Annars vegar eru það umhverfisverndaraðilar, það er umhverfisverndarhópurinn sem hefur sagt: Það er misráðið að láta peningalega hagsmuni, atvinnusjónarmið, stýra um of ferðinni. Það sé vanhugsað að láta atvinnusjónarmið stýra ferðinni þegar náttúra landsins er annars vegar. Við gætum tekið ákvarðanir sem leiða til landspjalla ef peningasjónarmið ráða ferðinni, sérstaklega ef um er að ræða vanmáttugar einingar, fjárvana einingar. Þetta er sjónarmið sem er alveg gilt og hefur alls ekkert að gera með andúð á landsbyggðinni. Það er staðreynd að þegar peningalegir hagsmunir koma við sögu þá kunna að skapast hagsmunaárekstrar og þá viljum við stilla okkur upp náttúrunnar megin og bæta úr fjárhagsþrengingum með einhverjum öðrum hætti. Þetta er sjónarmið sem hefur verið haldið á loft af ýmsum sem leggja áherslu á umhverfisþáttinn.

Síðan er það hitt sjónarmiðið og það er virkjunargeirinn, það er orkugeirinn. Hann segir: Ef sveitarfélögin koma öll að þessu verður svo erfitt að virkja. Þess vegna er Orkustofnun og orkugeirinn að vara við því að smíðaðir séu þröskuldar sem þeir þurfi að komast yfir til að geta virkjað á miðhálendinu. Gagnrýnin á aðkomu sveitarfélaganna kemur því úr tveimur ólíkum áttum, tveimur gagnstæðum áttum. Þetta atriði er vert að hafa í huga og það er vert að hafa í huga að menn eru að ræða þessa hluti alla á mjög ólíkum forsendum. Það eru ýmis ólík sjónarmið, ólíkar forsendur sem koma þarna til sögunnar.

En eitt er sameiginlegt með öllum þeim sem hvetja okkur til þess að fara varlega í sakirnar og það á við um orkugeirann en sérstaklega við náttúruverndaraðila. Þeir segja: Gefið okkur tóm til að skoða málið betur. Það var í þessum anda og vegna þrjósku ríkisstjórnarinnar og ótrúlegrar málsmeðferðar hennar á eigin frv., að neita að taka það til umfjöllunar, að þingflokkur okkar, Alþb. og óháðir, sameinaðist um tillögu þess efnis og tölum fyrir henni hér, að málinu verði vísað frá og það verði tekið til endurskoðunar í sumar og þingið taki aftur til hendinni og ræði málið að nýju og þá hugsanlega á einhverjum nýjum forsendum í haust. Þetta er mjög eindregið sjónarmið okkar.

Áður en ég lýk máli mínu um þennan þátt málsins ítreka ég það sem ég hef áður sagt að þetta mál er smámál miðað við annað frv. sem liggur fyrir þinginu og lýtur að eignarhaldi og nýtingu á auðlindum í jörðu þar sem gert er ráð fyrir eins konar þjóðnýtingu með öfugum formerkjum. Verið er að færa auðlindir þjóðarinnar í hendur þeirra sem eiga landareignir. Það er hlutur sem á að sjálfsögðu eftir að ræða mjög ítarlega í þinginu og að sjálfsögðu í þjóðfélaginu öllu.

Þetta var um skipulagsmálin og þann þátt frv. sem hefur valdið mestri úlfúð í þjóðfélaginu og er skýringin á bak við þær óskir sem koma núna hvaðanæva að þess efnis að við frestum málinu.

Þá ætla ég að víkja að frv. að öðru leyti og tala þá um þær grundvallarbreytingar sem eru að verða hér í stjórnsýslunni almennt. Það eru nefnilega að verða mjög miklar og afgerandi breytingar hér í stjórnsýslunni. Ef við hverfum aftur í tímann fáein ár, ef við förum nokkra áratugi aftur í tímann, þá var það svo að við litum þannig á að hver einstaklingur byggi við ákveðin réttindi, ákveðin grundvallarréttindi. Hann byggi við þann rétt að njóta skólagöngu, því var ekki alls staðar framfylgt en einstaklingurinn átti engu að síður rétt á því að fá skólagöngu. Hann átti rétt á því að njóta heilbrigðisþjónustu. Það var stundum hneykslast á því að afskekktir bæir gerðu kröfu til þess að byggð yrði brú á ána og vegagerð yrði ákjósanleg og þegar sjónvarp kom til sögunnar sögðu menn: Það á að reisa endurvarpsstöðvar og sjónvarpsskildi til að tryggja öllum aðgang að sjónvarpi. Lagðar voru raflínur til afskekktra bæja.

Þetta var stundum umdeilt en við Íslendingar litum almennt á þetta sem grundvallarréttindi, að einstaklingurinn gæti ákvarðað það sjálfur hvar hann byggi og mannréttindi hans voru fólgin í því að njóta þeirrar þjónustu sem þjóðfélagið almennt byði upp á, hina almennu grunnþjónustu sem þjóðfélagið almennt byði upp á. Við erum að tala þar um heilsugæsluna, við erum að tala um skóla, við erum að tala um sjónvarp, útvarp, þegar það kom til sögunnar og þar fram eftir götunum.

Ekki var þar með sagt að menn nytu alltaf þessarar þjónustu. En þá var það vegna þess að þjóðfélagið stóð sig ekki. En grunnhugsunin var sú að einstaklingurinn ætti rétt á þessari þjónustu. Hann ætti rétt á vegasamgöngum, hann ætti rétt á heilbrigðisþjónustu og menntun. Ef því var ekki fullnægt þá var það vegna þess að þjóðfélagið stóð sig ekki.

Síðan gerist þjóðfélagið margslungnara og margbrotnara. Sú þjónusta sem einstaklingum er boðið upp á er margslungnari og jafnframt gerist hún iðulega dýrari. Þá förum við að hverfa frá þeirri grunnhugsun að einstaklingurinn eigi rétt á allri þjónustu hvar sem hann býr, það er farið að hverfa frá þessu prinsippi. Við förum að hugsa á nýjum forsendum og það er farið að hugleiða það hvernig hægt sé að styrkja sveitarfélögin til að veita þjónustu, þjónustu sem einstaklingunum er boðið upp á en þjóðfélagið er smám saman að færa sig frá þeirri grunnhugsun að einstaklingurinn geti valið sér búsetu og eigi rétt á allri þjónustu hvar sem hann býr. Þarna verður viðhorfsbreyting.

Þetta gerist samfara annarri þróun sem er líka að eiga sér stað í Evrópu. Hún er sú að stykja sveitarstjórnarstigið. Ég held að þetta sé nokkuð sem Evrópusambandið ýtir undir og stuðlar að. Í Bretlandi eru t.d. yfir 500 sýslur. Af þessum 500 sýslum í Bretlandi eru núna 350 sem hafa sérstaka fulltrúa sem sinna Evrópusambandinu einvörðungu. Og sveitarfélögin eru að koma sér upp Brusselkontórum.

Hvað gerist þá hér á landi? Hvað skyldi þá gerast hér á landi? Það sem gerist hér á landi er að Evrópusinnar, sem fletta upp í eigin samvisku og skoðunum um hvað þeim eigi að finnast, fletta því upp í staðlaskrám Evrópu; þeir eru búnir að finna það út að í Evrópu framtíðarinnar eigi sveitarstjórnirnar að vera grunneiningar og þangað og á ábyrgð þeirra eigi að færa öll verkefni.

Það er bara einn hlutur sem gleymist í þessu öllu saman. Hann er sá að sveitarfélög hér á landi eru ekki sambærileg við sveitarfélög í Evrópu hvað varðar stærð og styrkleika. Sveitarfélag á Íslandi telur iðulega nokkur hundruð manns. Sveitarfélag í Svíþjóð telur hundruð þúsunda, jafnvel milljónir. En þetta vill gleymast þegar verið er að taka ákvarðanir t.d. um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaganna. Þá eru menn komnir inn í þessa múgsefjun, að þetta sé nokkuð sem Evrópumennirnir geri, þess vegna hljótum við að gera þetta líka. Þess vegna er ráðist í að færa verkefni sem sveitarfélögin ráða engan veginn við, t.d. málefni fatlaðra. Það á að taka þau málefni og setja þau yfir til sveitarfélaga. Hvers vegna? Vegna þess að þetta er dagskipun frá Evrópu.

Hér hafa menn staðið í ræðustól og rætt þessi sveitarstjórnarmál og þetta sveitarstjórnarfrv., að þetta sé einn liður í því að færa valdið nær fólkinu. Þetta sé sú braut sem okkur beri að feta.

Ég hef verið stuðningsmaður þess að styrkja sveitarfélög. Ég er líka stuðningsmaður þess að sveitarfélögin sameinist og styrkist ef það er á annað borð vilji íbúanna sem er náttúrlega grundvallarmál. En ekkert lýðræði er í því fólgið og það er ekki verið að koma til móts við fólk með því að henda í það verkefnum sem það ræður ekki við. Það dregur úr lýðræðinu, það dregur úr réttindum einstaklinganna sem hlut eiga að máli. Við hljótum að spyrja: Hver er hin endanlega útkoma úr málinu? Við getum ekki hengt okkur þannig í formið eitt.

[14:30]

Þetta vildi ég segja almennt um þá stefnubreytingu sem er að verða. Ég óttast hana svolítið. Ég held að í Evrópu séu menn að smíða almenn lágmarksréttindi, lágmarks borgaraleg réttindi, en henda síðan verkefnunum í sveitarstjórnirnar og þær geti sjálfar ákveðið hvort þær fari einvörðungu eftir þessum lágmarksstöðlum eða tryggi íbúum sínum betri kjör. Og hvað stjórnar þar ferðinni? Hvað kemur til með að stjórna þar ferðinni? Fjárhagurinn. Það er fjárhagur þeirra. Þess vegna mun þessi valddreifing, þessi flutningur á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga, auka á mismun þegnanna.

Svo ég dragi þetta saman þá erum við komin frá hinni gömlu, íslensku hugsun að segja: Hver einstaklingur ákveður hvar hann býr og býr við þau grunnmannréttindi sem okkar þjóðfélag hefur upp á að bjóða. Þannig hugsuðum við fyrir nokkrum áratugum. Smám saman höfum við horfið frá þessari hugsun. Við munum henda öllum verkefnum í sveitarstjórnirnar. Þær munu haga sér samkvæmt lágmarksstöðlum frá Evrópu. Síðan mun aukið við réttindin eftir efnahag sveitarfélaganna. Þau sveitarfélög sem standa lakast að vígi, hafa lakasta fjárhagslega stöðu, munu verða eftir og bjóða sínum íbúum upp á lakari þjónustu. Það liggur í hlutarins eðli. Þetta er sú þróun sem er að eiga sér stað. Þess vegna dugir mér ekki að segja, eins og menn hafa gert í þessari umræðu, að þetta sé þáttur í að færa valdið nær fólkinu. Það er of mikil einföldun og vald án fjárhagslegs bolmagns til að leysa þau verkefni sem eru sett á sveitarfélögin er til þess eins fallið að draga úr réttindum fólks.

Þetta var um það sem almennt er að gerast núna. Það kemur nokkuð fram í þessu lagafrumvarpi en ég ætla nú að víkja að einstökum greinum frv. Ég hef fjallað nokkuð um 1. gr. sem er um skiptingu landsins í sveitarfélög en kem núna að þeirri grein sem talsvert hefur verið rædd hér og lýtur að fjárhag sveitarfélaganna. Það er 7. gr. Eins og þingmenn þekkja hafa komið athugasemdir um 7. gr., t.d. frá Garðabæ og fleiri aðilum síðustu daga. 7. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum.

Sveitarfélög skulu vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma.

Sveitarfélög geta tekið að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum.

Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.``

Síðan er komin breytingartillaga frá félmn. sem er svohljóðandi:

,,Sveitarfélög skulu setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og er heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri þeirra``.

Mér finnst margt ágætt í þessari grein. Sérstaklega fagna ég því að menn skuli ekki hafa farið að ráði þeirra sem vilja setja sveitarstjórnum þröngar skorður. Hér segir t.d.: Sveitarfélög geta tekið að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum. Þetta finnst mér gott. Þetta er rúmur lagatexti sem setur sveitarstjórnum ekki þröngar skorður eins og margir hafa viljað gera.

Hins vegar hefði ég viljað orða síðari hluta lagagreinarinnar öðruvísi. Ég hefði viljað hafa síðustu setninguna stutta og laggóða: Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana. Punktur. Hér hefði ég viljað setja punkt, en meiri hlutinn vill bæta við: ... til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.

Ég hefði viljað hafa þetta opnara fyrir sveitarfélögin, að þau hafi sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði í gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana. Það hefur verið bent á það við umræðuna hér að þetta væri í ekki í samræmi við stjórnarskrá landsins, vegna þess að samkvæmt henni hafi sveitarfélagið ekki leyfi til skattheimtu nema samkvæmt lögum. Þannig hefur verið talið að við værum að fara inn á vafasamar brautir en ég hef bent á að hér séum við á mjög gráu svæði. Línan á milli gjaldtöku margvíslegrar og skattheimtu er mjög óljós eins og oft hefur verið rætt um þegar talað hefur verið t.d. um gjaldheimtu í heilbrigðiskerfinu. Það er ekkert einhlítt í því efni.

Það sem skýrir breytingartillöguna sem ég einnig las upp og er svohljóðandi:

,,Sveitarfélög skulu setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og er heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri þeirra.`` Skýringin á þessu er sú að lagatextinn eins og hann var í upphaflega frv. hefði heimilað sveitarfélagi sem rekur hlutafélög að taka arð, einvörðungu til að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast. Þar með hefði verið þrengt mjög að hlutafélögum í eigu sveitarfélaga.

Þótt ég sé nú ekki mestur aðdáandi hlutafélagavæðingar hjá sveitarfélögum og reyndar mjög andvígur því, sérstaklega þegar um er að ræða félagslega þjónustu, vil ég engu að síður að sveitarfélögum sé heimilt að reka hlutafélög ef því er að skipta, og önnur fyrirtæki ef slíkt er uppi á teningnum. Mér finnst eðlilegt að slíkt hlutafélag geti aflað arðs eins og önnur hlutafélög. Þess vegna hef ég stutt þá breytingartillögu sem hér kemur til sögunnar.

Á hverju byggir þá sú gagnrýni sem t.d. kemur frá Garðabæ? Jú, hún byggir á því að t.d. Reykjavíkurborg rekur hlutafélög um starfsemi sem önnur sveitarfélög nýta sér og þar sé um einokun að ræða. Þar er talið að um einokun sé að ræða og ef Reykjavíkurborg fær heimild til að taka arð umfram það sem notað er til þeirrar þjónustu sem verið er að veita, þá sé komin heimild til einhliða skattlagningar. Þar sé einokunarfyrirtæki komið með möguleika til að skattleggja viðskiptavini sem í þessu tilviki eru nærliggjandi sveitarfélög. Þetta er að sjálfsögðu sjónarmið út af fyrir sig sem ber að skoða. Ég tel þó að það eigi að leysa í samningum milli þessara sveitarfélaga. Það ætti að vera hægur vandinn að gera slíkt og ég tel að fremur ætti að leita eftir samningum við sveitarfélögin.

Eitt af því sem okkur hefur verið bent á í umfjöllun um þetta frv. er að á margan hátt séu lög bundin við margvísleg smáatriði sem löggjafinn hefði getað látið liggja á milli hluta. Í 11. gr. segir t.d.:

,,Sveitarstjórnir nefnast bæjarstjórn, hreppsnefnd eða sveitarstjórn. Byggðarráð skv. 38. gr. nefnast byggðarráð, bæjarráð eða hreppsráð og framkvæmdastjóri sveitarfélagsins nefnist bæjarstjóri eða sveitarstjóri.

Í Reykjavíkurborg nefnist sveitarstjórnin borgarstjórn, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins borgarstjóri og byggðarráð sveitarfélagsins borgarráð.

Heiti sveitarstjórnar, byggðarráðs og framkvæmdastjóra er ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.``

Auðvitað orkar það mjög tvímælis að binda það í landslög að borgarstjóri skuli heita borgarstjóri. Auðvitað á sveitarfélaginu að vera í sjálfsvald sett hvaða heiti eða embættistitill framkvæmdastjóra sveitarfélagsins er gefinn. Þetta finnst mér íhugunarvert sjónarmið en við ræddum það ekki í nefndinni, einfaldlega vegna þess að við höfðum ekki hugmyndaflug til að skoða það. Við munum væntanlega gera það ef málinu fæst frestað og það verður tekið fyrir að nýju í haust. Atriði eins og þessi eru þess virði að skoða nánar.

Eins og ég gat um áðan þegar ég var að tala um tæknilega erfiðleika við að fresta þessu frv. þá tel ég þá ekki vera neitt sérlega mikla, sérstaklega í ljósi þess að nefnd er að fjalla um svæðisskipulagið, óháð þessari lagabreytingu, og verður að störfum til 1. desember. Við erum ekki að trufla það starf en hins vegar er annað sem við þyrftum að skoða, ef við tökum ákvörðun um að fresta þessu. Það er ýmislegt sem lýtur að nafngiftum í frv. og mætti hæglega taka þann þátt úr og samþykkja hann.

Í sveitarstjórnarlögunum sem nú eru við lýði er ýmislegt sem tengist stjórnsýslunni og heitum sem er úrelt. Þegar þessi mál voru rædd við 1. umr. gat ég um það að inn í frv. hefðum við tekið ýmsar tillögur um lagabreytingar sem komu frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Hann lagði fram frv. til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum, bæði á þessu þingi og síðasta, þar sem hann gerir, í greinargerð með því frv., grein fyrir því hvers vegna nauðsynlegt er að gera breytingar á þessum þætti laganna. Hann segir þar, með leyfi forseta:

,,Með gildistöku sveitarstjórnarlaganna, nr. 8/1986, varð réttarstaða allra sveitarfélaga á Íslandi hin sama. Sýslufélög voru þá lögð niður og þar með urðu hreppar og kaupstaðir samkvæmt eldri lögum jafnréttháir. Eftirlit sýslunefnda með hreppum heyrði sögunni til og kaupstaðarréttindi sköpuðu viðkomandi sveitarfélögum ekki lengur neina sérstöðu. Sveitarstjórnarstigið var þar með skýrar afmarkað en fyrr þótt eftir sem áður væri gífurlegur munur á íbúafjölda milli sveitarfélaga. Eftir þessar breytingar átti m.a. að vera kleift að gera þetta stjórnsýslustig skiljanlegra og gegnsærra fyrir alla, jafnt uppbyggingu þess sem verkefni. Vissir annmarkar á löggjöfinni drógu hins vegar úr eða komu í veg fyrir að öllum almenningi yrði ljós sú grundvallarbreyting sem orðin var þar sem viðhaldið var lagaboði um mismunandi heiti sveitarfélaga eftir íbúafjölda og ýmissa stofnana og stöðuheita á þeirra vegum. Vafalítið hefur fastheldni og metnaður hinna stærri sveitarfélaga ráðið hér miklu og Alþingi hróflaði ekki að þessu leyti við þeim tillögum sem félagsmálaráðherra lagði þá fyrir þingið og undirbúnar höfðu verið af stjórnskipuðum nefndum.

Við framkvæmd sveitarstjórnarlaganna hafa komið í ljós ýmsir annmarkar á ákvæðum laganna að því er varðar þau atriði sem tekið er á með frumvarpi þessu. Á það ekki síst við um ákvæðin um mismunandi heiti sveitarfélaga eftir íbúafjölda. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar að því er varðar heiti sveitarfélaga og kveðið skýrt á um heiti formanns og framkvæmdastjóra sveitarstjórnar, sem og heiti framkvæmdanefndar sveitarfélagsins. Allar lúta þessar breytingar að því að afnema lögbindingu á nafngiftum eftir íbúafjölda en festa í sessi tiltekin samheiti fyrir öll sveitarfélög, svo sem sveitarstjórn, oddviti, sveitarstjóri og byggðarráð. Frumvarpið gerir enn fremur ráð fyrir að sveitarstjórn sé í sjálfsvald sett að nota jafnframt aðrar nafngiftir á stöðuheitum og binda í samþykktir sínar, ef þær svo kjósa.``

[14:45]

Síðan er gerð ítarlegri grein fyrir þessu nema hvað að í því frv. sem hér liggur fyrir voru þær tillögur sem fram komu í umræddu frv. til laga sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lagði fram teknar inn. Þær breytingar sem hér eru nauðsynlegar og horfa til bóta voru teknar inn, en þetta er eina atriðið sem ég sé að við þyrftum að íhuga ef tekin væri ákvörðun um að fresta málinu eða láta það bíða til næsta þings, hvort við þyrftum að skoða þennan flöt eitthvað nánar.

Af öðrum breytingum sem lagðar eru til og ég hef gert athugasemdir við, þá vil ég víkja að 42. gr. þar sem segir að starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags eru ekki kjörgengir í stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana er þeir starfa hjá og ef ég man rétt var einnig gerð brtt. við þessa grein. Jú, þar er bætt við: ,,Á eftir orðunum ,,kjörgengir í`` komi: nefndir, ráð og`` --- stjórnir á það að vera.

Ég hef vakið athygli á því og gerði það í nefndarstarfinu að með þessu er t.d. verið að útiloka að starfsmenn skóla í Reykjavík sætu í fræðsluráði skipaðir af stjórnmálaflokkunum. Það væri bannað lögum samkvæmt að starfsmenn sætu í fræðsluráði. Það er reyndar gert ráð fyrir að einstaklingar eða starfsmenn stofnana geti setið í stjórn fyrirtækja ef það er samkvæmt öðrum samþykktum eða öðrum lögum en sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna væri þetta ekki hægt. Almennt finnst mér ekki óeðlilegt að hafa ákvæði af þessu tagi, að starfsmenn sitji ekki í stjórn þeirra stofnana sem þeir vinna hjá, sem fulltrúar stjórnmálaflokka. Mér finnst eðlilegt að þeir komi þangað inn og sitji sem fulltrúar starfsmannafélags eða starfsmannanna, en ekki sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna. Hins vegar þegar við erum að tala um víðtækan málaflokk eða stofnun sem byggir á mörgum stofnunum í reynd, eins og skólarnir í Reykjavík, þá finnst mér gegna öðru máli og spurning hvort við erum ekki að þrengja lagatextann um of. Við erum í rauninni að segja að einhver sem starfar sem ritari í Álftamýrarskóla geti ekki setið í fræðsluráði fyrir einhvern stjórnmálaflokkanna. Þetta finnst mér vera heldur mikil þrenging, er of mikil þrenging að mínum dómi.

Annað mál sem var rætt talsvert var 50. gr. þar sem segir:

,,Sveitarstjórn er skylt að ákveða kjörnum fulltrúum í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélags hæfilega þóknun fyrir þau störf samkvæmt mati sveitarstjórnar í samræmi við reglur er hún setur, svo og greiðslu ferða- og dvalarkostnaðar í samræmi við 35. gr.

Sveitarstjórn er heimilt að ákveða að greiða áheyrnarfulltrúum þóknun fyrir störf þeirra í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélags.``

Einnig er reyndar vikið að þessu í 53. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Ef um er að ræða sérstakar, umfangsmiklar og tímabundnar framkvæmdir á vegum sveitarfélags sem oddviti sér um skal hann eiga rétt á sérstakri þóknun fyrir þau störf samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.``

Þetta var rætt talsvert, hvort ætti að setja það í lagatexta að skylt væri að greiða fólki þóknun sem starfaði í nefndum á vegum sveitarfélags. Ég var einn þeirra sem höfðu miklar efasemdir um þetta, taldi að þarna væri ekki rétt að hafa lagaskyldu en eftir því sem ég hef hugsað málið betur er ég kominn á þá skoðun að rétt sé að gera þetta. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður við umræðuna, að mér finnst farið að bera nokkuð á því að stjórnvöld ákveði samkvæmt lögum að setja á fót nefndir sem eiga að starfa á vegum opinberra aðila en setja það jafnframt inn í lagatextann eða ákveða upp á sitt eindæmi að þeir sem skipaðir eru í nefndirnar fái ekkert greitt fyrir. Þetta finnst mér vera mjög vafasamt. Mér finnst mjög óeðlilegt að þeir sem eru hjá hinu opinbera og eru að sinna verkefninu sem hluta af sínu starfi fái greitt fyrir nefndarstörf. Mér finnst það mjög óeðlilegur hlutur og nokkuð sem ber að endurskoða en á hitt er að líta að iðulega er fólk að koma úr öðrum störfum og verður fyrir vinnutapi og tekjutapi af þeim sökum. Þá er eðlilegt við slíkar aðstæður að greitt sé fyrir nefndarstörf. Ég minni á að þegar verkalýðshreyfingin var að hefja sig til flugs í Evrópu í réttindabaráttu sinni lagði hún einmitt áherslu á þetta, kröfuskrárhreyfingin breska um miðja síðustu öld þegar hún var að berjast fyrir lýðréttindum og aðgangi verkalýðsins að þinginu, þá lagði hún höfuðáherslu á að greitt yrði fyrir þingstörfin til að fólki yrði ekki mismunað með þeim hætti og tekjulágt fólk lokað úti.

Ég hef vakið athygli á því að hæstv. menntmrh. t.d. gekkst fyrir því að samþykkt voru á þingi lög um starfsgreinaráð sem eru skipuð fólki, fulltrúum úr aðskiljanlegum starfsgreinum en það er sérstaklega tekið fram í þeim lögum þar sem kveðið er á um þessi starfsgreinaráð að ekkert skuli greitt fyrir þessi störf. Og þarna kemur fólk, verður fyrir vinnutapi og tekjutapi en mætir síðan þessu viðhorfi. Mér finnst þetta því allt vera í þá átt að rétt sé að hafa þetta sem skyldu, þótt ég hafi verið upplýstur um það síðar að það hafi verið annað sem í reynd vakti fyrir frumvarpssmiðunum þegar þeir settu þetta ákvæði inn og það var reyndar til að koma í veg fyrir að fulltrúarnir eða þeir sem færu með valdið skömmtuðu sér sjálfir. Þess vegna væri sett inn ákvæði þess efnis að sveitarstjórn væri skylt að taka ákvörðun um þetta efni til að koma í veg fyrir að sveitarstjórinn eða aðrir embættismenn eða þeir sem hlut ættu að máli skömmtuðu sér tekjurnar sjálfir. Það mun vera skýringin á bak við þetta þótt ég hafi nálgast þetta út frá öðru sjónarmiði.

Síðan gerist það að okkur hefur borist í hendur greinargerð, síðbúin greinargerð frá endurskoðendum. Félag löggiltra endurskoðenda hefur sent Alþingi greinargerð um þetta frv. þar sem fjallað er sérstaklega um 68. gr. frv. Í greinargerðinni eru settar fram mjög alvarlegar athugasemdir en bent á í niðurlagi hennar að félagið hafi ekki fengið frv. til umsagnar og þar sé komin skýringin á því að greinargerðin komi svo seint. Ég held að hér hljóti að vera um slys að ræða en ekki ásetning af hálfu okkar sem störfum í félmn. og höfum kappkostað að senda frv. til umsagnar sem víðast til að fá sjónarmiðin sem víðast að. Sú gagnrýni sem fram kemur í þessari greinargerð er á þá lund að 68. gr. frv. sé í mótsögn og andstöðu við önnur lög og þar er vitnað í lög nr. 18/1997, um löggilta endurskoðendur, þar sem segir í 9. gr. sem fjallar um vanhæfisástæður:

,,Endurskoðanda er óheimilt að endurskoða hjá stofnunum og fyrirtækjum:

1. ef hann er að einhverju leyti ábyrgur fyrir skuldbindingum viðkomandi stofnana eða fyrirtækja,

2. ef hann er undir stjórn eða á annan hátt háður stjórnarmönnum, framkvæmdastjóra, prókúruhafa eða þeim starfsmönnum sem annast eða hafa eftirlit með bókhaldi og fjármálum,

3. ef hann er eða hefur verið maki aðila skv. 2. tölul., skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar,

4. ef hann sjálfur, venslamenn hans skv. 3. tölul. eða næstu yfirmenn eiga meira en óverulegra hagsmuna að gæta hjá viðkomandi stofnun eða fyrirtæki,

5. ef hann er fjárhagslega háður þeim sem endurskoða á,

6. ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.``

Í lokamálsgrein sömu greinar segir:

,,Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki má ekki í þrjú ár samfellt eiga stærri hluta en 20% af veltu sinni undir einum viðskiptavini sem hann eða það endurskoðar fyrir. Endurskoðendaráð getur veitt undanþágu frá þessari reglu.``

Hér er Félag löggiltra endurskoðenda að vitna í löggjöf um löggilta endurskoðendur frá árinu 1997 þar sem tilgreindar eru þær ástæður sem geri löggilda endurskoðendur vanhæfa. Þeir segja að það gangi ekki upp að sveitarstjórn endurskoði sjálfa sig, það er meginhugsunin í þessu. Í 68. gr. segir:

,,Sveitarstjórn ræður löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem vinna skal endurskoðun hjá sveitarfélaginu.

Heimilt er þó sveitarstjórn að ákveða að endurskoðun sveitarsjóðs, stofnana og fyrirtækja sveitarfélagsins verði falin sérstakri endurskoðunarstofnun á vegum sveitarfélagsins. Skal slík endurskoðunarstofnun vera undir stjórn forstöðumanns sem skal hafa löggildingu sem endurskoðandi. Stofnunin skal heyra beint undir sveitarstjórn og vera og óháð öllum nefndum, ráðum, stjórnum, fyrirtækjum og stofnunum sveitarfélagsins við framkvæmd endurskoðunarinnar.

Endurskoðandi sveitarfélags skal haga endurskoðun í samræmi við lög og reglur og góðar endurskoðunarvenjur eins og þær eru á hverjum tíma hjá opinberum aðilum. Með endurskoðun sinni skal hann komast að rökstuddri niðurstöðu um áreiðanleika ársreiknings og ganga úr skugga um að fylgt hafi verið ákvæðum laga, reglna og samþykkta um meðferð fjármuna og upplýsingaskyldu sveitarfélaga.

Endurskoðandi sveitarfélags skal kynna skoðunarmönnum skv. 69. gr. athugun sína og endurskoðun tímanlega fyrir áritun ársreiknings.``

Í álitsgerð Félags löggiltra endurskoðenda segir í ljósi þess sem greinir í 68. gr. og með hliðsjón af því sem segir í lögum um löggilta endurskoðendur og ég vék að áðan, þá segir:

[15:00]

,,Við teljum með hliðsjón af ofangreindum tilvísunum að 68. gr. frumvarpsins eins og hún liggur nú fyrir brjóti algerlega í bága við lög um löggilta endurskoðendur, bæði hvað varðar vanhæfisástæður og einnig 6. gr. laganna sem fjallar um stofnun endurskoðunarfyrirtækja. Löggiltir endurskoðendur geta að okkar mati sinnt innra eftirliti hjá sveitarfélögum en samkvæmt lögunum um löggilta endurskoðendur eru þeir vanhæfir til að koma fram sem óháðir endurskoðendur sveitarfélaga. Má þar m.a. vísa til 11. greinar laga um löggilta endurskoðendur sem segir að ráðherra geti fellt niður löggildingu þeirra endurskoðenda sem ekki uppfylla skilyrði laganna. Sá aðili sem tæki að sér forstöðu ,,endurskoðunarstofnunar`` af því tagi sem frumvarpið gerir ráð fyrir, getur að okkar mati aldrei talist óháður og væri þar af leiðandi vanhæfur til að árita ársreikninga sveitarfélags sem slíkur.

Við teljum að það sé andstætt þeirri þróun sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu að undanförnu að gera einstakar stofnanir þess undanþegnar ytra eftirliti sem fæst með starfi óháðra löggiltra endurskoðenda. Spyrja má, hvaða aðstæður sveitarfélaganna geri þeirra stöðu öðruvísi en t.d. banka, tryggingarfélaga eða annarra þeirra fyrirtækja og stofnana sem skyldaðar eru til að hafa óháða löggilta endurskoðendur. Það er ótvírætt að löggiltur endurskoðandi sem veitir endurskoðunarstofnun á vegum sveitarfélags forstöðu, er fjárhagslega háður þeim sem endurskoða á sbr. 5. tl. 1. mgr. 9. gr. laga um löggilta endurskoðendur. Jafnramt er ljóst að slík stofnun mundi undantekningalaust sækja meira en 20% hlut af veltu sinni til eins viðskiptavinar, þar sem væru viðkomandi sveitarsjóður og stofnanir hans.

Til viðbótar ofangreindum sjónarmiðum má benda á að það kann að vera andstætt sjónarmiðum samkeppnislaga að stofnun á vegum hins opinbera, sem ekki býr við hliðstæða aðstöðu og einkaaðilar, keppi við þá aðila sem atvinnurekstur stunda á viðkomandi sviði. Í þessu sambandi verður að skoða hluti eins og húsnæðismál, tæknimál og endurmenntunarmál sem er sífellt vaxandi þáttur í rekstri enduskoðunarstofa.

Þegar litið er til allra þeirra atriða sem greind eru hér að framan, teljum við að fari þessi ákvæði frumvarpsins óbreytt í gegn verði stigið stórt skref aftur á bak varðandi stöðu endurskoðenda og trúverðugleika þeirra upplýsinga sem gefnar eru um rekstur og stöðu sveitarfélaga.

Okkar tillaga er sú að 2. mgr. 68. gr. frumvarpsins verði felld niður og þar með verði sveitarstjórnum gert skylt að ráða löggilta endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki sem vinni endurskoðun hjá sveitarfélögunum. Endurskoðunarstofnanir sem sveitarfélög starfrækja eða kynnu að setja á stofn sinni þar með eingöngu innri endurskoðun á vegum sveitarfélagsins.``

Þetta segir m.a. í þessari greinargerð frá Félagi löggiltra endurskoðenda.

Er ég sammála þeim sjónarmiðum sem þar koma fram? Ég hef miklar efasemdir um það. Ég hef trú á því að hægt sé að búa þannig um hnútana stjórnskipulega að sveitarfélögin komi á fót eftirliti og innra skipulagi sem standist þær kröfur sem við gerum til slíkrar starfsemi. Ég hef þá trú. Þetta eru hins vegar mál sem þarf að skoða. Ég held að allir hljóti að gera sér grein fyrir hve mikilvægt er að hafa endurskoðun á reikningum og allri fjármálaumsýslu sem traustasta og í ljósi þess séu þetta þættir sem okkur beri að gefa gaum. En eins og ég segi þá er ég ekki að lýsa samþykki við þeim sjónarmiðum sem hér koma fram og bendi t.d. á að endurskoðandi sem rekur sjálfstæða starfsemi, þó að hann sé ekki starfsmaður sveitarfélagsins, er eftir sem áður háður þessu sveitarfélagi um þær greiðslur og þá peninga sem hann fær í sinn hlut. Það eru því ekki eins skýrar línur í þessu og mér finnst koma fram í sjónarmiði Félagi löggilta endurskoðenda. En ég vil að sjálfsögðu að við förum rækilega ofan í saumana á þessu og reynum að ná því fram sem við hljótum öll að eiga sameiginlegt með boðskap þeirra, að þarna sé um sjálfstæða starfsemi að ræða og að tryggilega sé búið um alla hnúta. Undir það held ég að við hljótum öll að taka.

Sú lagagrein sem kannski kallaði á mesta umræðu í nefndinni og olli deilum á fyrri stigum --- viðunandi niðurstaða fékkst þó --- var 74. gr. og lýtur að eftirliti með fjárhag sveitarfélaganna. Þar og reyndar í öðrum greinum einnig, er verið að setja sveitarfélögunum allþröngar skorður, skipa eftirlitsnefnd með fjárhag sveitarfélaganna. Gert er ráð fyrir því í þessari lagagrein að ráðherra skipi þriggja manna eftirlitsnefnd sem hefur það hlutverk að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga. Einn fulltrúi í nefndina skal skipaður samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tveir án tilnefningar skipaðir af ráðherra og skal annar þeirra einmitt vera löggiltur endurskoðandi. Þessi nefnd á árlega að athuga reikningsskil sveitarfélaga og bera þau saman við viðmiðanir skv. 4. mgr. þessarar lagagreinar:

,,Leiði athugun í ljós að fjármál sveitarfélags stefni í óefni skal nefndin aðvara viðkomandi sveitarfélag og samhliða upplýsa ráðuneytið um álit sitt. Sveitarstjórn er skylt í slíkum tilvikum að gera eftirlitsnefndinni innan tveggja mánaða grein fyrir hvernig sveitarstjórnin hyggst bregðast við aðvörun nefndarinnar.

Þóknun til eftirlitsnefndarmanna skal ákveðin af ráðherra. Þóknunin og annar kostnaður af starfi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Ráðherra setur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga reglugerð um störf og málsmeðferð eftirlitsnefndar og viðmiðanir varðandi fjárhagsleg málefni sveitarfélaga. Fjárhagsviðmiðanir skulu taka til þeirra atriða sem meginmáli skipta við mat á rekstri og efnahag sveitarfélaga.``

Og svo kom hin umdeilda setning:

,,Ákvarðanir eftirlitsnefndar eru endanlegar og verða eigi kærðar til ráðherra.``

Þannig hljómaði texti frv. upphaflega en síðan urðu menn ásáttir um það í félmn. að þessi síðasta málsgrein yrði felld niður. ,,5. mgr. falli brott.``, segir í brtt. Enda hefði það verið sannkallað kyrkingartak á sveitarfélögunum ef skipuð hefði verið nefnd sem ætti að fara yfir alla þeirra reikninga, hún hefði ákvörðunarvald og úrskurður hennar væri endanlegur. En svo verður ekki. Hér stóð að það væri endanlegur úrskurður og eigi kærður til ráðherra. Þetta er fellt brott þannig að það horfir til bóta.

Hins vegar var annað gert samhliða þessari lagabreytingu. Ekki er nóg með það að nefndin eigi að skoða fjárhag sveitarfélaganna heldur er núna samkvæmt brtt. vísað í aðra grein sem nefndin á einnig að hafa til hliðsjónar í starfi sínu. Þar er vísað til 3. málsl. 2. mgr. 61. gr. sem samkvæmt annarri brtt. er búið að setja í sjálfstæða málsgrein. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn skal árlega gæta þess svo sem kostur er að heildarútgjöld sveitarfélags, þar með talin rekstrarútgjöld, fari ekki fram úr heildartekjum þess.``

Þessi nefnd á sem sagt að fara yfir fjárhag sveitarfélaganna og hún á að hringja aðvörunarbjöllum ef sýnt er að sveitarfélagið fer í útgjöldum sínum fram yfir það sem skatttekjur leyfa. Það er góðra gjalda vert og eftirsóknarvert að fjáhagurinn sé þannig rekinn að menn eyði ekki umfram efni að sjálfsögðu. En þegar búið er að skipa nefnd sem í rauninni er sett yfir sveitarstjórnina og getur tekið fram fyrir hendurnar á henni --- að vísu er hægt að kæra úrskurð hennar núna --- á þeirri forsendu að hún hafi eytt umfram það sem skatttekjur heimila, þá finnst mér vera farið að sauma svolítið að lýðræðinu vegna þess að þær aðstæður geta komið upp, ekki bara hjá ríkisvaldinu, ríkinu, heldur í sveitarfélögum einnig, að þörf sé á því og réttlætanlegt sé að ráðast í lántökur, að taka lán til að ráða bót á erfiðu atvinnuástandi t.d., að sjálfsögðu með það fyrir augum og í þeirri von að slíkt sé tímabundið. Auðvitað getur þetta verið réttlætanlegt og það er rangt að mínum dómi að setja sveitarfélaginu of strangar og þröngar skorður hvað þetta snertir.

Margar aðrar lagagreinar í þessu frv. mætti taka til umfjöllunar en ég ætla ekki að gera það heldur fara fljótlega að ljúka máli mínu vegna þess að ég er búinn að fara yfir þá efnisþætti sem ég sagði í upphafi að ég ætlaði að fara yfir. Í fyrsta lagi ætlaði ég að ræða vinnubrögð, síðan um skipulagsþátt laganna, þá um grundvallarbreytingar í stjórnsýslunni og hvernig þær snerta þá umræðu sem fram hefur farið um þetta frv. Og í fjórða lagi hef ég nefnt og rætt álitamál sem tengjast einstökum lagagreinum í frv.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég að nýju leggja áherslu á það sjónarmið sem ég hélt á lofti í upphafi umræðunnar, þ.e. að allt mælir með því, öll rök mæla með því að þetta frv. verði látið bíða, að það fái góða umræðu í sumar, að við verðum við þeirri lýðræðislegu kröfu sem við heyrum víðs vegar og hvaðanæva að í þjóðfélaginu og berst til Alþingis, að þessi mál fái betri umræðu. Jafnvel aðilar sem eru samþykkir þessu frv. eru margir á því máli einnig. Ég held því að það væri málinu mjög ákveðið til framdráttar að fresta því. Það væri skynseminni til framdráttar og það væri lýðræðinu til framdráttar og það mundi tryggja og treysta sóma Alþingis líka. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)