Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 15:14:10 (6214)

1998-05-05 15:14:10# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[15:14]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir yfirgripsmikla ræðu og góða hjá hv. 17. þm. Reykv., Ögmundi Jónassyni. Þingmaðurinn fór yfir nokkrar greinar frv. Það þykir mér mjög fróðlegt. Það er virkilega ástæða til þess að fara yfir fleiri greinar frv. en þá fyrstu því að menn hafa raunverulega, herra forseti, aðeins verið hér að fjalla um hálfa fyrstu greinina í sínu máli margir hverjir. Það er einmitt ástæða til að fara yfir greinar frv.

[15:15]

Mig langar til að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson hvort hann sé sáttur við 25. gr. frv. þar sem hver og ein sveitarstjórn á að setja sér fundarsköp og það skal síðan staðfest af félmrn. Ég hefði talið að það þyrfti að setja ramma sem segði nákvæmlega til um hvernig sveitarstjórnarfundir skuli fara fram. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt vegna þess að það er mismunandi milli sveitarfélaga hvernig þetta fer fram og mjög örðugt að bera saman fundargerðir sveitarstjórna þar sem fundarsköp eru mismunandi. Þessu hefði ég viljað spyrja eftir.

Eins spyr ég hvort þingmaðurinn er sáttur við að allur greinarmunur sem gerður var á sveitarfélögum eftir fjölda íbúa hefur verið felldur brott. Sveitarfélög hafa þannig sömu stjórnsýslulegu stöðu án tillits til íbúafjölda. Þetta þýðir að sveitarfélagið Skorradalshreppur, 35 eða 50 íbúa, eftir því hvernig á það er litið, hefur sömu skyldur gagnvart íbúunum og Reykjavíkurborg. Þetta vildi ég gjarnan heyra aðeins um frá hv. þm.