Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 15:22:09 (6218)

1998-05-05 15:22:09# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, GE
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[15:22]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Málið sem við höfum rætt nú í dag og undanfarna daga er djúpstætt ágreiningsmál á milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga. Ég hefði talið að virkileg ástæða væri til að skoða það hvort flötur fyndist á því að setja þessar deilur til hliðar og fresta afgreiðslu þessa máls til haustsins, t.d. fram til 1. des. Ég tek undir þau sjónarmið tveggja síðustu ræðumanna að enginn skaði sé skeður þó að þessi frestun verði.

Ég hygg að ef sátt næðist um að taka fyrir frv. sem hæstv. umhvrh. lagði hér fram, um breytingu á skipulagslögum, þá næðist jafnframt meiri sátt en náðst hefur meðan málið hefur ekki verið rætt hér. Ef það næðist þá færi þetta mál nú með bærilegri sátt í gegn. Ég tala nú ekki um ef þjóðlendufrv., eins og það lítur út, verður afgreitt, sem ég geri ráð fyrir að þokkaleg sátt sé um, þá breytir það verulega stöðu málsins.

Ég vil inna forseta eftir því hvort í farvatninu sé að leita eftir því við formenn þingflokka að ná einhverri lendingu í þessu máli. Ég geri það hér með og spyr hvort einhver leið sé að leita eftir sátt eða hugsa menn sér að þetta mál verði rætt þangað til þeir hafa talað sig dauða, eins og sumir kalla?

Þó nokkuð er í land með að málið sé fullrætt í 2. umferð. Eftir því sem ég best veit eru tíu hv. alþingismenn á mælendaskrá. Miðað við síðustu tvær ræður sem tóku fimm og hálfa klst. er hægt að reikna það nokkurn veginn út hve langan tíma þetta gæti tekið. Ég legg þetta fram og mælist til við hæstv. forseta að hann hugleiði þetta mál.

Meðan þetta mál hefur verið í umfjöllun hef ég verið hér almennt frá kl. níu á morgnana til kl. hálf átta á kvöldin til að fylgjast með umræðunum. Hér hafa komið fram mörg sjónarmið þvert ofan í það sem hér hefur verið sagt, að allir stögluðust á því sama. Það er beinlínis rangt að menn fari hér hver á fætur öðrum í ræðustól og tyggi hver eftir öðrum.

Mér þykir merkilegt, herra forseti, að ég er hér með afmælisrit frá 17. janúar 1998 þar sem 70 aðilar rita greinar um sín hugðarefni. Það er merkilegt að í þessu afmælisriti, sem er tileinkað Davíð Oddssyni fimmtugum, er ekki ein einasta grein sem fjallar um hið merkilega og mikilsverða mál sem við erum að ræða um, þ.e. um miðhálendið eða almenninga á Íslandi. Í þessu riti eru greinar sem fjalla um umhverfi, eignarrétt, eignarhald og nýtingarrétt. Ég tel ástæðu til þess að vitna í þær greinar að einhverju leyti, m.a. um lög nr. 38 frá 1990, sem eru í grunninn ekki ólík því sem við ræðum hér. Afleiðingarnar af þeirri lagasetningu voru, eins og menn vita, bullandi ósátt í þjóðfélaginu. Mér segir svo hugur að verði þetta frv. knúið fram í krafti fjöldans, þá muni verða bullandi ósátt um málið og þegar menn sjá lengra fram í tímann, þegar verðmætamat manna hefur breyst, eins og gerst hefur á undanförnum árum, þá er ekki víst að menn verði sáttir við þá gjörð sem hér stendur til að framkvæma.

Ég vil, herra forseti, vitna í athugasemdir um þjóðlendufrv. Það á svo sannarlega við þegar við veltum því fyrir okkur hvernig þessu máli, sem við deilum hér um, er komið. Þar stendur, með leyfi forseta :

,,Alla þessa öld og raunar að vissu marki fyrr hafa öðru hvoru risið upp deilur hér á landi um eignarrétt yfir hálendissvæðum landsins eða þeim landsvæðum sem lengst af hafa verið nefnd afréttir og almenningar.``

Það er einmitt verið að deila um afrétti, almenninga og nýtingu á þekktum og óþekktum auðlindum á almenningum, sem ég tel að ríkið eigi. Deiluefni sem þessi hafa gengið milli manna úti í þjóðfélaginu, á Alþingi og í einstökum dómsmálum sem rekin hafa verið vegna ágreinings um ákveðin landsvæði. Umræðan hefur snúist um það hvort þessi landsvæði teldust að fullu eign aðliggjandi sveitarfélaga þar sem íbúar þeirra hefðu nýtt svæðin, einkum til upprekstrar fyrir búfénað, eða hvort ríkið teldist eigandi landsvæðanna eins og ríkið hélt fram í nokkrum dómsmálum.

[15:30]

Þetta eru lykilatriði sem ég er að fara með og þau snúa beint að því frv. sem við erum að ræða, sveitarstjórnarfrv., þ.e. hálfri fyrstu greininni. Aðeins í þeirri grein þarf að gera örlitlar breytingar til þess að frv. geti hlotið afgreiðslu á þingi og mér sýnist enginn vilji fyrir því að menn breyti að svo komnu máli.

Ég vitna í það, með leyfi forseta, að í dómi Hæstaréttar Íslands, sem kveðinn var upp 25. febr. 1955, var fjallað um kröfur aðliggjandi hreppsfélaga að Landmannaafrétti í Rangárvallasýslu um viðurkenningu á beinum eignarrétti yfir landsvæðinu í tilefni af deilu um veiðiréttindi í vötnum á svæðinu. Í niðurstöðum Hæstaréttar segir m.a.:

,,Ekki hafa verið leiddar sönnur að því að hreppsfélögin sjálf hafi öðlast eignarrétt að afréttunum, hvorki fyrir náð, löggerninga, hefð eða með öðrum hætti. Réttur til afréttarins virðist í öndverðu hafa orðið til á þann veg að íbúar á landsvæði framangreindra hreppa og býla hafa tekið afréttarlandið til sumarbeitar fyrir búpening og e.t.v. annarrar takmarkaðrar notkunar. Um afréttarnotkun og fjallskil voru snemma settar opinberar reglur sem sveitastjórnum var falið að annast framkvæmd á. Eins og notkun afréttarlandsins hefur verið háttað hafa hreppsfélögin annað eða bæði ekki unnið eignarhefð á því.``

Í samræmi við þetta var því hafnað að hreppsfélögin hefðu öðlast beinan eignarrétt að Landmannaafrétti. Hvað er undirritaður að fara með þessum hugleiðingum? Jú, það er einmitt verið að fara inn á það sem er mismunurinn á því sem var getið um í nefndaráliti umhvn. um skipulags- og byggingarlög, sem gengu í gildi 1. jan. 1998, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var að vitna til að sá sem hér stendur hefði ekki gert neinn fyrirvara á varðandi afgreiðslu. Það var vegna þess að þar var gert ráð fyrir sérstakri skipulagsnefnd sem fjallaði um skipulag miðhálendisins. Þess vegna gerði ég ekki neinn fyrirvara. Þar var þetta allt með hreinum hætti. Nú koma ný lög sem heita sveitarstjórnarlög þar sem farið er þvert á það sem um er rætt. Ég viðurkenni að með þeim lögum var verið að færa aukið vald til sveitarfélaga. Ég er fylgjandi því að aukið vald sé fært til sveitarfélaganna. En ég er, herra forseti, alls ekki fylgjandi því að sveitarfélögum sem hafa ekki getu vegna fjárskorts eða mannfæðar sé lagt á herðar að annast skipulag og eftirlit á þessum svæðum. Það gengur ekki. Þetta hlýtur að verða sameiginlegt afl allra landsmanna. Það verður að vera á höndum ríkisins að fara með yfirráð, skipulag og nýtingarrétt á þeim auðlindum sem þarna eru fyrst og fremst. En ég er ekki að segja að það eigi ekki að gera í góðri sátt við sveitarfélögin. Það þarf.

Ég er alveg viss um að ekki er langt í að krafa kemur, herra forseti, um að lagður verði vegur þvert yfir miðhálendið og ég verð að segja að ég tel að það sé eðlileg krafa. Það er mjög eðlilegt að lagður verði vegur yfir miðhálendið. Hvað á þá að gera? Þarf þá að leita til allra þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að þessu svæði til þess að fá leyfi þeirra til að fara með veg sem er í almannaþágu um þetta land? Ég get ekki fallist á að það eigi að vera með þeim hætti. Ég tel að ríkið eigi að hafa alla yfirumsjón með miðhálendinu.

Gaman er að velta því fyrir sér hverjar eru helstu málvenjur varðandi hugtakið afréttur. Með leyfi forseta vitna ég enn í athugasemdir um frv. um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta sem ég tel, herra forseti, að hefði átt að vera fyrsta frv. sem við tækjum til afgreiðslu og umfjöllunar. Um það hefði ríkt góð sátt en það fer því miður í bága við það frv. sem er verið að ræða og er verið að reyna að koma í gegn, frv. til sveitarstjórnarlaga, sem er mál nr. 288 á þskj. 359.

,,Erfitt er að fullyrða hvort hugtakið afréttur hafi almennt séð ákveðna og afmarkaða merkingu í málvitund almennings. Þá er lögfræðileg merking hugtaksins á reiki og fræðimenn nota það með mismunandi hætti í skrifum sínum.`` --- Það er einmitt á þessu reiki sem málin eru í hugum þingmanna almennt. Það er á reiki hvað er verið að afhenda, hvað við erum að gera og það er á reiki meðal þjóðarinnar sem kemur best fram í því að ýmis áhugamannafélög eru núna að senda frá sér ályktanir og þessi áhugamannafélög eru full efa um að það sé rétt gjörð að þvinga þetta mál fram nú á vordögum. Ég tek undir með þeim og finnst eðlilegt að efasemdir séu uppi og mér finnst eðlilegt að þetta mál fái meiri umfjöllun meðal þjóðarinnar og meiri umfjöllun hjá þingmönnum. Þá gefst hv. stjórnarliðum kannski möguleiki á því að kynna sér málið þannig að þeir þurfi ekki að spyrja: Um hvað eruð þið eiginlega að ræða dag eftir dag? Þeir aðilar sem sjást kannski lítið í þingsölum og maður hittir þá á förnum vegi og þeir spyrja: Um hvað eruð þið eiginlega að ræða dag eftir dag?

Í orðabók Menningarsjóðs kemur orðið fyrir í þremur kynjum, þ.e. afréttur (kk), afrétt (kvk) og afrétti (hvk). Merking þess er síðan sögð vera: heiðaland, sumarhagar sauðfjár. Þar er merking orðsins skýrð með tilvísun til staðsetningar, landfræðilegra staðhátta og nánar tiltekinnar notkunar lands. Ekki verður skorið úr því hér hversu almenn hin tilvitnaða merking orðsins afréttur er. Án þess að færð verði fyrir því nein sérstök rök virðist sem hugtakið sé notað á ýmsa vegu í daglegu máli. Alveg sama held ég að gildi um það sem við köllum miðhálendi í daglegu máli. Ég efast um að landsmenn allir, ekki einu sinni þingmenn, geri sér fulla grein fyrir því um hvað er verið er að ræða. Um hvað er verið að ræða þegar við deilum um hvort afhenda eigi fáum sveitarfélögum yfirráðin og umráðaréttinn yfir miðhálendinu, nýtingarrétt með meiru.

Ef vikið er að eignarréttarlegri merkingu hugtaksins afréttur í lagamáli má sjá að það hefur verið skýrt með tvennum hætti. Annars vegar hefur þeirri skoðun verið haldið fram að afréttur sé tiltekið, afmarkað landsvæði og sá sem eigi afrétt eigi tiltekin eignarréttindi að því landsvæði, bein eða óbein eftir atvikum. Hins vegar hefur verið byggt á því að í afrétti felist ekki annað en beitarréttur tiltekinna aðila, óbein eignarréttindi að landi sem sé ekki að öðru leyti undirorpið eignarrétti viðkomandi rétthafa.

Þetta er kannski flókin skýring en tiltölulega einföld þó. Það þýðir að þeir sem hafa nýtt þetta land eiga ekki eignarrétt á því. En það sem verið er að gera með því frv. sem við stöndum á móti, stjórnarandstaðan í heild sinni vegna þess hvernig málið er búið, er að afhenda yfirráð með 1. gr. frv. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Landið skiptist í staðbundin sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.`` Allt landið skiptist og því erum við að mótmæla og því mótmæli ég, herra forseti.

Rétt er að velta fyrir sér hugtakinu almenningar. Með leyfi forseta er í þeim sömu skýringum og ég hef verið að vitna í, skýringar með frv. til laga um þjóðlendur og ákveðinna marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sagt:

,,Hugtakið almenningar. Löggjöf okkar hefur allt frá tíma Grágásar haft að geyma ákvæði um almenninga. Almenningar geta verið þrenns konar lögum samkvæmt, þ.e. land\-almenningar, hafalmenningar og almenningar í stöðuvötnum. Í þessari umfjöllun skipta landalmenningar fyrst og fremst máli.`` Í nákvæmlega sömu umfjöllun og við erum að fara yfir í sveitarstjórnarlögunum skipta landalmenningar mestu máli fyrst og fremst.

,,Í Grágás sagði m.a. um almenninga: Þat er mælt at almenningar ero a landi her. Þat er almenning er fiorðungs menn eiga allir saman.`` --- Hverjir voru fjórðungsmenn, herra forseti? Ætli það þyrfti ekki svona 20 fjórðungsmenn í hverju sveitarfélagi til þess að þau væru fullfær til þess að annast lögboðin verkefni? Ætli það þurfi ekki svona 400--500 manns? Ætli það séu ekki eitthvað um það bil 20 fjórðungsmenn, herra forseti, sem þarf til þess að standa fyrir því?

,,Við lögtöku Jónsbókar varð ekki breyting á meginreglunni um almenninga, sbr. þessi orð í Landsleigubálki, 52. kapítula: ,,Svá skulu almenningar vera sem at fornu hafa verit, bæði hit efra ok hit ytra.``

,,Á það hefur verið bent að ýmis ákvæði Jónsbókar um almenninga hafi í upphafi verið sniðin að norskum landsháttum og sé því spurning hversu vel þau hafa átt við hér á landi. Hvað sem því líður munu flest ákvæði Jónsbókar um almenninga orðin úrelt. Þó er rétt að geta þess, að framangreint ákvæði úr Landsleigubálki, 52. kap., var tekið með í síðustu útgáfu lagasafns dóms- og kirkjumálaráðuneytisins árið 1995. Í yngri löggjöf er gert ráð fyrir því að almenningar séu til og má í því sambandi vísa til 2. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849, 8. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, og 4. gr. laga nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl.``

Eitthvað hljóma þau kunnuglega þessi lög sem verið er að vitna til hér. Eitthvað hljómar það kunnuglega að það hafi verið deilur um villidýrafrv. svokallaða, veiðar á viltum fuglum og villtum spendýrum.

,,Menn hefur greint á um það hvar almenningar væru, svo og hvernig eignarrétti að þeim væri háttað. Gaukur Jörundsson hefur hliðsjón af gildandi lögum þegar hann segir: ,,Í löggjöf á síðari tímum hafa landsvæði, sem enginn aðili getur talið til einstaklingseignarréttinda yfir, oft verið nefnd almenningar, ...````

Hvað er verið að gera? Er verið að færa þessi lönd undir einstaklinga beint? Nei, það er ekki verið að gera það. Það er verið að færa þessi lönd undir yfirráð innan við 10% af þessari þjóð, sennilega innan við 6% af þessari þjóð. Það er það sem verið er að gera. Það er það sem verið er að deila um. Það er þess vegna sem menn standa hér og ræða málið frá ýmsum hliðum og fæstir hafa verið að tyggja upp hver eftir öðrum. Menn eru að ræða þetta mál til þess að reyna að varpa á það ljósi að hér er á ferðinni mjög alvarlegur hlutur, að ætla sér að keyra í gegn gegn vilja allrar stjórnarandstöðunnar og sennilega gegn meirihlutavilja þjóðarinnar ef málið væri grannt skoðað. En þetta er í krafti þess að ríkisstjórnin hefur ríkjandi meiri hluta á Alþingi.

Ég held að það sé rétt að velta fyrir sér hugtakinu: almennt um eignarrétt að fasteignum, með leyfi forseta, úr sama frv.:

[15:45]

,,Hugtakið fasteign kemur víða fyrir í lögum þótt þar sé ekki að finna neina almenna skilgreiningu á hugtakinu. Ýmsir fræðimenn hafa á hinn bóginn skilgreint hugtakið og þá yfirleitt á svipaðan hátt, sbr. skilgreiningu Gauks Jörundssonar, ,,að hún sé afmarkað land ásamt eðlilegum hlutum landsins, lífrænum og ólífrænum, og þeim mannvirkjum, sem varanlega eru við landið skeytt``. Séu framangreindar skilgreiningar á afrétti og almenningi lagðar til grundvallar virðist óhætt að fullyrða að einstakir afréttir og almenningar séu fasteign í framangreindum skilningi enda sé þá uppfyllt það skilyrði að um sé að ræða afmarkað landsvæði.``

Það er sem sagt verið er að afhenda yfirráðin yfir fasteignum. Það er akkúrat það sem ég held að menn þurfi að segja. Það er verið að afhenda fasteignir sem eru í eigu þjóðarinnar til yfirráða örfárra. Það er ekki að það ríki vantraust á þessum örfáu, síður en svo. Ég tel að þeir hafi ekki afl til þess að annast þetta mikla svæði.

Herra forseti. Fleiri frv. en þjóðlendufrv. lúta að þessum málum sem eru hér svo mjög til umræðu. Það er einnig frv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það frv. til laga er jafnalvarlegs eðlis og er í rauninni hluti af öllum þessum pakka sem þarf að ræða samtímis. Ég held að við höfum ekki fjallað nægjanlega um eignar- og hagnýtingarrétt ríkisins á auðlindum í jörðu utan afmarkaðra eignarlanda. Það held ég að við höfum ekki gert og þess vegna segi ég, herra forseti: Það vantar svo margt í frv. um sveitarstjórnarlögin, þ.e. skilgreiningar á ýmsum atriðum svo sem eignarhaldi, eignarrétti og því hvað sé fasteign o.s.frv. Ég tel að í frv. vanti það að ekkert er kveðið á um eignarrétt ríkisins á jarðefnum. Ekki er kveðið neitt á um jarðefni sem ekki hafa verið hagnýtt hér á landi og þar sem þau hafa ekki fundist í nýtanlegu magni. Ég held að nú með þessu frv. til sveitarstjórnarlaga sé verið að afhenda a.m.k. nýtingarrétt. Það sem á að gera síðan með frv. um eignarhald og nýtingu auðlinda í jörðu er að það á að afhenda örfáum aðilum til eignar einmitt þessi auðæfi sem eru sameign íslensku þjóðarinnar. Ég kem kannski, herra forseti, að þessu atriði nokkru seinna.

Hv. 17. þm. Reykv. gerði mjög vel grein fyrir bréfi til hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar frá áhugahópum um útivist, áhugahópum um náttúrufræði, jöklarannsóknir, skotveiði og vélsleða, frá Ferðaklúbbnum 4x4 og frá stangaveiðifélaginu Ármenn. Ég þarf ekki að fara yfir það mál en ég minni á að árangurinn af þessari umræðu stjórnarandstöðunnar er m.a. sá að þessir aðilar hafa látið frá sér fara þá ályktun sem hér var lesin a.m.k. einu sinni.

Það sem ég tel veigumestu breytinguna sem er lögð til í þessum sveitarstjórnarlögum og þá afdrifaríkustu er sú sem ég hef verið að ræða, þ.e. að landið skuli skiptast í sveitarfélög en ekki einungis byggðin og afréttirnar eins og ég hefði svo gjarnan viljað sjá. Enda kemur það fram í áliti minni hluta félmrn. að hún telur að með þeirri breytingu sé verið að stíga skref í átt til skipulags sem er algjört ósætti um á meðal íslensku þjóðarinnar og vaxandi ósætti vegna þess að fólk er að átta á því að hér er verið að gera eitthvað sem menn hafa talið sig komast upp með án þess að gerð hafi verið athugasemd við það. Það sem er verið að gera er að nánast er verið að stíga sömu skrefin og þegar lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, voru samþykkt og afleiðingarnar, herra forseti, af því er að auðlindin í hafinu er að færast á örfárra manna hendur. Það veit ég að virðulegur forseti er sammála ræðumanni um að í því máli sé illa komið, illa komið og ósanngjarnt. Ég veit að hæstv. forseti er sammála mér um ákveðin grundvallaratriði þó svo að hann hafi ekki tjáð sig um það í þessum ræðustól. En þetta er af sama toga. Þetta mál er af nákvæmlega sama toga. Þetta stóra álitamál sem ég fjalla hér um felst í 1. gr. frv. og því ákvæði sem er til bráðabirgða þar sem nærliggjandi sveitarfélögum eru veitt öll völd á öræfum landsins. Við jafnaðarmenn getum engan veginn fallist á að það beri að deila hálendinu upp á milli þessara sveitarfélaga. Ég tel ekki að neitt geti réttlætt það að lögbinda svo afdrifarík ákvæði í ágreiningi.

Víðerni Íslands eru mjög dýrmæt auðlind og mat okkar jafnaðarmanna og fjölmargra annarra, allrar stjórnarandstöðunnar, er að víðerni Íslands séu dýrmæt auðlind sem sé sameign allrar þjóðarinnar. Það sem okkur ber að gera á virðulegu Alþingi er að tryggja þjóðarsátt um stjórn og skipulag svæðisins. Þetta er meginatriðið, herra forseti, sem ég er að fjalla um og hér hefur verið fjallað um á undanförnum dögum.

Ég segi að þegar opin umræða í þjóðfélaginu fer fram um þá þjóðarauðlind sem felst í ósnortnum víðernum hálendis, þ.e. söndum, jöklum, hraunum og gróðurvinjum þá kemur í ljós að fólkið í landinu er að átta sig á því að það vill að hagsmuna allra sé gætt varðandi ákvarðanir sem varða framtíð svæðisins.

Ég ítreka að það er tillaga okkar jafnaðarmanna að miðhálendi Íslands verði sérstök stjórnsýsluleg heild sem lýtur einni stjórn með aðkomu fulltrúa allra landsmanna. Það er það sem við sækjumst eftir, herra forseti, og þess vegna erum við að koma því til skila til þjóðarinnar hvað um er að ræða í þessu frv.

Ég tel að það sé þannig að stjórnsýslan utan byggða sé óljós og framkvæmd skipulags- og byggingarmála hafi verið tilviljunarkennd. Auðvitað er það svo að stjórnarliðar eru að reyna að koma skikki á málin. En það sem gerist jafnframt er að það mun verða enn meira ósætti meðal þjóðarinnar en verið hefur. Það er nauðsynlegt að taka á því og það er tekið á því í skipulags- og byggingarlögum hvernig eigi að fara með skipulag og það var nægjanlegt. Það þurfti ekki að fara þá leið sem farin er í frv. til sveitarstjórnarlaga þar sem 1. gr. gjörbreytir stöðunni frá því sem áður var.

Ég tel að það sem verið er að gera með þessu frv. sé atlaga að almannarétti. Sveitarfélögin þekja aðeins hluta af óbyggðunum en samkvæmt lögum á að telja afrétt til þess sveitarfélags sem á þar upprekstrarrétt. Ég segi bara að ef frv. þetta nær fram að ganga þá fá sveitarfélögin sem liggja að miðhálendinu framkvæmdarvald á nær helmingi Íslands og með því er verið er að tryggja að 70% þjóðarinnar hafa ekkert með skipulagningu þessarar sameignar að gera. Það er aðeins örlítill hluti þjóðarinnar sem tekur örlagaríkar ákvarðanir í framtíðinni um svæðið sem er í orði kveðnu sameign allra landsmanna. Getur verið að svipaður hljómur sé í þessum orðum og varðandi sameignina í hafinu? Á ekki auðlindin í hafinu að vera sameign allra landsmanna? Svo er í orði kveðnu. Svo á að vera samkvæmt lögum. En ég mun skoða það síðar hvað virtur lögmaður segir um þennan eignarrétt, hvernig hann er framkvæmdur og hvernig á það mál skuli litið.

Ég held að nauðsynlegt sé að skipuleggja miðhálendið og ég tek undir þá hugsun sem sett er fram um að byggja verði á heildarsýn til þess að gæta samræmis á öllu svæðinu. Mjög ólíklegt er að sveitarfélög með mismunandi hagsmuni geti tryggt þennan mikilvæga þátt. Ég held að sameiginleg skipulagstillaga svæðanefndar þeirra sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu breyti engu um það. Þess vegna tel ég að frv. sem hæstv. umhvrh. lagði fram á miðvikudaginn í síðustu viku hefði verið skref í áttina ef það hefði verið tekið til umræðu. Ef það hefði farið til nefndar og fjallað hefði verið um það á eðlilegan máta, þá tel ég að náðst hefði a.m.k. einhver sátt, a.m.k. meiri sátt en nú ríkir. Ég er ekki að lofa mínum stuðningi við frv. eins og það er. En ef það kæmi fram og það næðust á því nægjanlegar breytingar, þá getur vel verið að ég gæti lagt þessu frv. lið eins og það er, þótt ég sé ósáttur við ýmsar aðrar greinar frv. en bara 1. gr.

Hvað er það sem þetta frv. ætlar sveitarfélögunum? Mikill hluti auðlinda þjóðarinnar liggur á hálendi Íslands. Ekki hefur verið mótuð nein stefna um nýtingu auðlindanna. Stefnumörkun í orkumálum, ákvörðun um hámarksnýtingu vatns- og varmaorku sem og stefna í ferðamálum á miðhálendinu og ákvörðun um staðsetningu þjóðgarða hefur engan veginn verið mótuð af yfirvöldum. Það er ljóst að þessi verkefni sem í eðli sínu eiga heima hjá landskjörnum stjórnvöldum færðust yfir til sveitarfélaganna við skipulagningu hálendisins. Nýting vatnsorku sem margir telja að nemi um 30 teravattstundum að teknu tilliti til hagkvæmni og umhverfis, ónýttur jarðhiti og atvinnusköpun við ferðamennsku á öræfum landsins, er fjársjóður framtíðarinnar. Um þetta erum við einmitt að ræða, þ.e. fjársjóð framtíðarinnar. Við erum að ræða um það sem við vitum ekki í dag hvað er. Það er eðlilegt að við gerum okkur ekki grein fyrir því í dag hvert mat okkar verður eftir 20 ár, hvert mat okkar verður eftir 25 ár.

Ég hef sagt frá því áður, herra forseti, að ég var á alþjóðlegum fundi ekki alls fyrir löngu. Hvað sögðu menn þar? Þar sögðu menn: ,,Vatnið``, herra forseti, sem okkur Íslendingum finnst svo sjálfsagt, vatnið sem við getum drukkið nánast úr hverri sprænu án þess að velta því fyrir okkur hvaðan það er upprunnið, ,,mun verða helsta deilumál þjóða og mun leiða til stríðs milli þjóða á komandi árum.`` Ég er ekki að boða þetta sjálfur. Ég er að rekja það sem þeir sögðu þarna sem voru flutningsmenn þess gera vatnið að helsta umræðuefni á alþjóðaþingi þingmanna í Moskvu núna í haust. Ég er aðeins að gera grein fyrir því hve þetta mál lítur öðruvísi út fyrir ýmsum öðrum þjóðum en okkur. Það getur verið að við eigum eftir að meta auðlindirnar í kringum okkur á allt annan máta og ég er þess reyndar fullviss að við munum meta loftið, við munum meta vatnið, við munum meta ýmis auðæfi sem við ekki þekkjum á hálendi Íslands á allt annan máta en við gerum nú. Það er þess vegna sem þessi umræða stendur yfir um þetta frv. til sveitarstjórnarlaga.

[16:00]

Það hefur stundum verið þannig að nálægð sveitarfélaga við öræfi landsins og sérstök þekking heimamanna eða langvarandi nýting þeirra svæða hafa verið notuð sem rök fyrir því að staðbundin stjórnvöld væru betur en aðrir fallin til að fara með stjórn þessara umræddu svæða. Ég er ekki viss um að það sé rétt því að stór hluti þessara svæða sem frv. gerir ráð fyrir að verði skipt upp á milli þeirra er í órafjarlægð frá viðkomandi sveitarfélögum og raunverulega er það þannig að þó að þetta séu aðliggjandi sveitarfélög þekkja heimamenn ekki sporð eða haus á því landi sem verið er að fjalla um.

Það má ræða um víðfeðm svæði þar sem lítil eða engin umferð hefur verið um frá upphafi byggðar og má í því sambandi nefna t.d. Ódáðahraun, allt svæðið norðan Vatnajökuls, Sprengisand, Nýjadal, Veiðivatnasvæðið og svæðið fyrir norðan Tungnaárjökul og alla jökla landsins, þar með talinn sjálfan Vatnajökul. Þetta eru atriði sem ég held að menn ættu að skoða. Bændur nýttu þessi svæði ekki og lítil sem engin umferð var um þessi víðfeðmu svæði, enda voru þarna engar þekktar þjóðleiðir. En við vitum ekki í dag hvaða auðæfi felast þar. Við getum ekki gert okkur grein fyrir því. Við getum kannski ætlað að á einhverjum tíma þegar fram líða stundir finni menn þar auðæfi sem þeir geta ekki gert sér grein fyrir í dag.

Ég held, herra forseti, að ástæða sé til, eins og ég boðaði í upphafi máls míns, að vitna í afmælisrit tileinkað hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni þegar hann varð fimmtugur 17. janúar 1998. Ég vitna þar í niðurlag greinar eftir Glúm Jón Björnsson sem ber yfirskriftina: Markaðsöflin eða stjórnmálamennirnir? (SighB: Er ekki rétt að forsrh. sé viðstaddur þegar vitnað er í afmælisritið?)

Herra forseti. Ég vil vitna í þessa grein. Vegna hvers? Vegna þess að þar er verið að fjalla um umhverfisgæði. Þetta er örstutt tilvitnun, með leyfi forseta:

,,Umhverfisgæði eru ekki ólík öðrum gæðum. En fólk setur þau sjaldan í fyrsta sæti. Hefðbundnar lífsnauðsynjar, fæði, klæði og húsnæði eru efst á blaði hjá flestum. Almenn velmegun á Vesturlöndum hefur aukið eftirspurnina eftir umhverfisgæðum. Það er ekki nóg að hafa vilja til að bæta umhverfið. Getan þarf einnig að vera tiltæk. Það liggur í augum uppi að eftir því sem fólk hefur hærri tekjur er meira afgangs til kaupa á umhverfisgæðum. Efnahagslegar framfarir eru því forsenda þess að hugað sé að umhverfismálum. Vesturlandabúar hafa náð þeim árangri í efnahagsmálum að þeir geta leyft sér að gera kröfur um hreint loft, fjölbreytt lífríki og óspillt landsvæði. Valið stendur nú á milli þess hvort við látum markaðsöflin eða stjórnmálamennina um að anna þessari auknu eftirspurn.``

Herra forseti. Ég vona að forsetinn geri sér það ómak að líta í þessa grein eftir að til hennar hefur verið vitnað eins og hér er gert. Svo segir áfram:

,,Ef það er eitthvað sem miðstýrðum samfélögum hefur mistekist hrapallega þá er það að vernda umhverfið. Ástandið í umhverfismálum í Austur-Evrópu þegar Járntjaldið féll var til vitnis um það. Sagan er til að læra af henni.``

Hvað er sá sem hér stendur að fara með því að vitna í niðurlag greinar Glúms Jóns Björnssonar um að umhverfið þarfnist frjáls markaðar? Það er einmitt verið að vitna til þess að við getum ekki sleppt valdi á því landi, sem talað er um sem miðhálendi, sem er sameign almennings á Íslandi eða lýtur að almannahagsmunum. Við getum ekki látið það í hendur örfárra.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna í niðurlag annarrar greinar eftir Hörð Sigurgestsson, en hann er einn af þeim 70 sem rita greinar í afmælisrit Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., sem varð fimmtugur 17. janúar 1998. Það er að nákvæmlega sé verið að fjalla um miðhálendi Íslands eða sveitarstjórnarlögin. Nei, það er vegna þess að hægt er að taka hér samlíkingu og það er gott þegar aðilar, eins og þeir sem rita þessar greinar, gera sér kannski ekki grein fyrir því að það er einmitt þessi hugsun sem ég er að reyna að koma á framfæri sem felst í þeirra greinum. Niðurlag greinar Harðar Sigurgestssonar heitir Horft fram á veginn, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Vegferð íslensks samfélags á síðustu áratugum aldarinnar hefur verið farsæl og afdrifarík. Hún hefur skapað okkur, sem einstaklingum og heild, nýja fótfestu og sterkan grundvöll til að horfa fram á nýja öld. Það hefur verið sérlega áhugavert að vera þátttakandi í þessu ferðalagi.

Í upphafi nýrrar aldar mun það enn skipta sköpum að tryggja áfram jákvæða þróun. Við verðum að keppa til jafns við samfélögin í nágrenni okkar. Á hvað ætlum við að leggja mesta áherslu? Grundvallaratriði verður að leggja áfram áherslu á frelsið og tryggja að opið sé til allra átta. Aukin festa gefur okkur tækifæri til að sjá lengra fram í tímann og móta okkur skarpari framtíðarsýn. Í atvinnulífinu bíða okkar mörg áhugaverð verkefni. Þau lúta bæði að því að treysta það sem er, en einnig að byggja upp nýtt. Sjávarútvegur og fiskiðnaður verður lengi áfram grundvallaratvinnugrein. Á þeim vettvangi hljóta að verða áfram örar og miklar breytingar. Jafnframt er eðlilegt að leggja áherslu á fjölhæfingu atvinnulífsins. Það þarf með markvissum hætti að skjóta fleiri stoðum undir atvinnustarfsemina. Almennt þarf að virkja betur þekkingu og reynslu, skapa meiri verðmæti. Í viðskiptum eigum við að leggja meiri áherslu á landvinninga erlendis til þess að auka umsvifin. Við þurfum almennt að sækja út í heim og forðast að einangra okkur. Það gildir bæði á vettvangi stjórnmála og viðskipta. Sérstaklega hljótum við að leggja áherslu á náið samstarf og tengsl við samtök Evrópuþjóðanna. Við þurfum að gera auðlindir okkar arðsamari.`` --- Herra forseti. Hvaða hugsun felst í þessari setningu? --- ,,Við þurfum að gera auðlindir okkar arðsamari. Ljóst er, að öll umhverfismál, hér á landi og erlendis, munu skipta okkur vaxandi máli.``

Það er þess vegna, herra forseti, sem við erum að ræða þessi mál. Það er þess vegna sem ég er að vitna í þessar greinar. Í þeim kemur fram sú hugsun að umhverfið skiptir okkur máli, nýting auðlindanna, sem við ekki þekkjum, skiptir okkur máli og við þurfum að gera auðlindir okkar arðsamari. Ætli nokkur maður eða það voru alla vega ekki margir sem sáu fyrir sér fyrir 20 árum að ferðaþjónusta yrði slík auðlind sem hún er í dag.

,,Við þurfum að gera það upp við okkur hvernig við ætlum að byggja landið.`` Hér er ein setning enn sem ég tel að sé umhugsunarverð. ,,Við þurfum`` segir Hörður Sigurgestsson ,,að gera það upp við okkur hvernig við ætlun að byggja landið. Sú þróun, sem stefnir til einnar byggðar á Suðvesturlandi, er hröð.``

Ein setning enn sem ég veit að vekur hugsun hjá hæstv. forseta rétt eins og þeim sem hér stendur.

,,Erum við sátt við þá þróun, eða eigum við annarra kosta völ? Í innra skipulagi hljóta að brenna á okkur atriði eins og jafn atkvæðaréttur án tillits til búsetu, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga og fleira.``

Það eru einmitt þessi atriði sem greinarhöfundur nefnir sem gerðu það að verkum að ég ákvað að vitna í orð hans.

,,Mannauðurinn hefur vaxandi þýðingu.`` Veit hæstv. forseti hvað mannauðurinn er mikils metinn á Íslandi? Mannauðurinn er metinn upp á 29% á Íslandi. Í velflestum þróuðum löndum eins og t.d. Japan er mannauðurinn metinn upp á 60%. Í Danmörku er síhækkandi mat á mannauðnum. Hvað verður hér? (KHG: Eru það prósentur af þjóðarauð?) Prósentur af þjóðarauð.

Hér er sagt: ,,Mannauðurinn hefur vaxandi þýðingu.`` Ég er því sammála. ,,Í menntamálum eru það afgerandi verkefni að breyta áherslum, skipuleggja að nýju og efla menntun og rannsóknir.``

Þetta er hluti af því sem við þurfum að gera varðandi miðhálendið. Við þurfum að efla rannsóknir. Við þurfum að rannsaka betur hvað við getum gert til að gera þessa auðlind enn þá verðmætari en hún er í dag.

Ég les áfram, með leyfi forseta: ,,Aukin þekking og reynsla munu á nýrri öld gera það auðveldara fyrir hagsmunaaðila í atvinnulífi og á öðrum vettvangi þjóðlífsins að gera út um hin stóru álita- og hagsmunamál.``

Það eru einmitt svona ábendingar sem við eigum að taka mark á eins og hér hefur margsinnis verið sagt. Við eigum að fresta afgreiðslu þessa frv., við eigum að gefa því meiri tíma. Við eigum að fresta afgreiðslu frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu. Þau eru ekki þroskuð til afgreiðslu, einnig frv. um sveitarstjórnarlögin, sérstaklega 1. gr., ég gæti sætt mig við að fella helming af henni niður og láta hitt svo róa því að við eigum möguleika á breytingum þar á en varla á því sem felst í 1. gr. í heild sinni.

Markmiðið er auðvitað eins og stendur í grein Harðar Sigurgestssonar, með leyfi forseta:

,,Markmiðið er að tryggja búsetu okkar allra, betri samkeppnisstöðu, bætt lífskjör og blómlegra menningarlíf.

Enn og aftur mun það skipta sköpum, hvernig verður um vélað. Og, --- það er alveg sama hvernig á þetta ferðalag verður litið --- það verður spennandi og afdrifaríkt.``

Þessu er ég sammála. Það er alveg sama á hvern hátt um þetta verður vélað og þessi frv. sem við erum með. Þetta verður allt spennandi, þetta verður allt afdrifaríkt. En ef við getum komið í veg fyrir mistök sem ég held að verið sé að framkvæma með því að þvinga þetta frv. svona í gegn eins og það liggur fyrir, þá eigum við að taka þeirri tilsögn og við eigum að gefa okkur tíma. Ég árétta það við virðulegan forseta að ástæða er til að leita eftir því við hv. formenn þingflokka sem eiga sæti á Alþingi hvort ekki náist sátt um að fresta afgreiðslu á þessu máli fram til 1. desember t.d.

Herra forseti. Að síðustu varðandi afmælisrit hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, sem var fimmtugur 17. janúar 1998, þá vil ég gjarnan vitna í grein Sigurðar Líndals um ákvæði laga nr. 38/1990, um sameign þjóðarinnar.

,,Í 1. gr. frumvarps til laganna sagði svo:

Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.``

Virðulegur forseti. Ég les þessa grein og mér verður hugsað til þess hvort það hafi gengið eftir sem hér stendur, að markmið laganna hafi verið, og það hafi náðst fram, að stuðlað hafi verið að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og verið sé að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.

[16:15]

Niðurstaðan er sú að sífellt fleiri flytja af landsbyggðinni á suðvesturhornið. Sannað er að karfastofninn er mjög illa kominn. Sannað er að grálúðustofninn er mjög illa kominn. Sannað er að blálangan er uppveidd. Sannað er að það hefur verið gengið mjög nærri kolastofninum. Sannað er að ýsustofninn er í lægð. Þetta, herra forseti, segir mér að það markmið sem sett var með lögum nr. 38/1990 hefur ekki náðst. Það er þetta sem ég óttast, herra forseti, að gerist ef við samþykkjum þetta frv. til sveitarstjórnarlaga, að það verði upphafið að því að sú auðlind sem við eigum á miðhálendinu verði ekki söm í fyllingu tímans, eftir 10--15 ár.

Herra forseti. Ég er þess fullviss að nýting auðlindanna á hálendinu er stærsta mál þingsins og það varðar alla þjóðina og það nær út fyrir öll sveitarfélagamörk. Svo ég taki dæmi, herra forseti, ef upp kemur stórt mál þar sem hæstv. iðn.- og viðskrh. er að beita sér fyrir einhverju stóru sem varðar nýtingu vatns- eða jarðhitaréttinda eða námaréttinda á hálendinu sem er svo stórt í sniðum að það kallar á t.d. byggingu á uppistöðulónum, línulagnir, vegalagnir og aðra mannvirkjagerð og það nær yfir svæði þar sem samkvæmt frv. hæstv. félmrh. er búið að færa sveitarfélagamörkin þannig að það eru kannski 12 eða 15 sveitarfélög sem koma að málinu, hvernig stöndum við þá að stjórnsýslunni? Er ekki líklegt að upp kunni að koma mikill ágreiningur innbyrðis á milli þessara 12 eða 15 sveitarfélaga? Er ekki líklegt að andstæð sjónarmið í sveitarfélögum um það hvað má og hvað ekki má komi upp, t.d. varðandi nýtingu á réttindum eða þá krafa um réttindi á einhverjum náttúruperlum svo dæmi séu nefnd. Ætli það sé ekki líklegt að það verði deilur? Íslendingar eru frægir fyrir landamerkjadeilur. Ætli það sé ekki líklegt að einhverjar deilur komi upp um slík atriði sem ég nefndi?

Ég veit að fjölmargir sveitarstjórnarmenn trúa því að það sé sanngjarnt að færa þeim þessi völd. En ég óttast að þar sé misskilningur á ferðinni vegna þess að sveitarstjórnirnar verða að hafa bæði fjármagn og getu til þess varðandi mannafla að sinna því verkefni sem er verið að fá þeim í hendur.

Ég hef verið að fara yfir ákvæði í þjóðlendufrv. og um samræmda stjórnsýslu forsrn. í þessum málum. Ég velti því fyrir mér hvort ástæða sé til að efna til langvinnra landamæradeilna og þrætna sem verði eilíft úrskurðarefni dómstóla og komi raunverulega í veg fyrir skynsamlega niðurstöðu á heildarnýtingu út frá sjónarmiðum nýtingar og náttúruverndar. Ég tel að með þessu frv. sé verið að skapa óvissu og út frá því sjónarmiði sé um að ræða óhapp eða slys. Það er hlutverk Alþingis að forða þessu slysi. Ég hef áður sagt það og legg það eindregið til, virðulegi forseti, að við geymum afgreiðslu þessa máls til haustsins eða komandi vetrar. Ég beini því enn, virðulegur forseti, til embættisins að leitað verði eftir því við formenn þingflokka sem sæti eiga á Alþingi að reynt verði að ná sáttum í þessu máli.

Margir stjórnarliðar hafa verið að verja þetta mál og hafa gert það með því að tala í einum kór um að verið sé að sýna sveitarstjórnum landsins óvirðingu með því að vekja upp spurninguna um hvort þeir ráði við stórmál eins og skipulagningu meiri háttar mannvirkja eða stjórnsýslu tengda við meiri háttar mannvirkjagerð eða nýtingu á hálendinu. Þetta er ekkert svoleiðis. Ég er ekki að fjalla um það. Málið snýst ekki um það. Menn mega hafa á því hvaða skoðun sem þeir vilja en sveitarfélögin eru misjafnlega stór og þau eru misjafnlega undir það búin að valda slíkum verkefnum. Málið snýst um það hvort verið er að efna til meiri háttar deilna milli sveitarfélaga um það sem máli skiptir, hvort við ætlum að nýta auðlindir hálendisins eða friða þær út frá heildarsjónarmiðum.

Ég legg enn til, og það skulu vera lokaorð mín þó svo ég hafi efni til langrar ræðu, sérstaklega út frá áliti umhvn. varðandi skipulags- og byggingarlög. Ástæða væri til þess að fara rækilega í gegnum þann kafla vegna þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði margsinnis og benti á að undirritaður mundi engan fyrirvara hafa varðandi samþykkt þeirra laga. Um þetta mál er það að segja og ég ítreka að þá var gert ráð fyrir sérstakri skipulagsnefnd um miðhálendið eða það svæði sem við erum að deila um og þess vegna setti ég engan fyrirvara. Fyrirvari manna laut að því að gerðar voru 64 breytingar á því frv. Það var þess vegna sem menn höfðu fyrirvara en ekki um skipulag hálendisins. Um þetta snerist málið.

Ég legg til, virðulegi forseti, að umræðan verði stöðvuð, málið tekið af dagskrá og samið verði um að því ljúki fyrir 1. des. og þá næst kannski meiri sátt um málið ef frv. hæstv. umhvrh. verður tekið fyrir til umræðu í nefnd og fær þá breytingu sem menn geta sætt sig við.

Ég læt umfjöllun minni lokið, herra forseti, og geymi mér það efni sem ég hef ekki farið yfir til 3. umr. og ugglaust verður þá af meiru að taka en ég hef getað búið mig undir á þessum stutta tíma síðan ég lauk fyrri ræðu minni um þetta mál.