Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 20:32:17 (6224)

1998-05-05 20:32:17# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[20:32]

Jóhanna Sigurðardóttir (frh.):

Herra forseti. Mér kom það mjög á óvart þegar hlustaði á fréttatímann í sjónvarpinu í kvöld að einn hv. þm. stjórnarliðsins, hv. 16. þm. Reykv., Pétur Blöndal, skyldi afgreiða þær málefnalegu umræður sem hér hafa farið fram af hálfu minni hlutans sem kjaftæði. Ég mótmæli þessu, herra forseti, vegna þess að þá daga sem þessar umræður hafa staðið yfir hafa mjög málefnalegar umræður farið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar. Að vísu ítarlegar, herra forseti, en málið er þannig vaxið að það krefst ítarlegrar umræðu.

Ég veit ekki hvort hv. þm. gerir sér grein fyrir því að þó að hann afgreiði málflutning okkar stjórnarandstöðuþingmanna sem kjaftæði þá er hann um leið, herra forseti, að dæma þann málflutning og þær fjölmörgu áskoranir sem verið hafa vítt og breitt í þjóðfélaginu um þetta mál sem kjaftæði og það gerir maður ekki, herra forseti, (Gripið fram í.) vegna þess að allar þær fjölmörgu áskoranir sem fram hafa komið frá alls konar samtökum, umhverfissamtökum, útivistarsamtökum, ferðamálasamtökum og frá ýmsum sem ekki þykja sjónarmið þeirra góð sem vilja meiri nýtingu á hálendinu en fram kemur í tillögu miðhálendisnefndar, afgreiðir hann sem kjaftæði. Mikið af okkar málflutningi hefur einmitt farið í það koma til skila inni í þingsölum, herra forseti, sjónarmiðum og málflutningi þeirra sem hafa farið fram á þá hóflegu ósk að þessu máli verði frestað í örfáa mánuði.

Við erum ekki að tala um neitt smámál, herra forseti. Við erum að tala um hvernig stjórnsýslunni á miðhálendinu verði háttað til frambúðar, hverjir eigi að hafa stjórnsýsluna með höndum og taka ákvarðanir um nýtingu á miðhálendinu. Og mér finnst það afar billegt, herra forseti, að þingaður Reykv., þingmaður þess kjördæmis sem lítið eða ekkert á að hafa að segja um skipulagninguna á miðhálendinu, skuli afgreiða málflutning okkar á þennan hátt. En það verður að vera hans mál. Þó er sjálfsagt, eðlilegt og rétt að vekja athygli á því úr þessum ræðustól hvernig þessi hv. þm. afgreiðir á sama tíma réttmætan málflutning þeirra sem gerst þekkja til á hálendinu.

Þegar ég lauk ræðu minni fyrir kvöldmatarhlé hafði ég tekið á nokkrum stórum þáttum í þessu máli, herra forseti, m.a. gert grein fyrir því hvaða breytingar hafa átt sér stað frá því að málið var tekið út úr félmn., tekið á því hvernig eigi að mæta sjónarmiðum stjórnarsinna sem voru á móti frv. við 1. umr. og hvað það sætir furðu margra innan og utan þings að þessir þingmenn sem voru á móti málinu við 1. umr. skuli hafa skipt um skoðun vegna þess frv. sem umhvrh. kynnti og felur raunar lítið í sér, litla viðbót við það sem við stóðum frammi fyrir þegar þetta frv. var lagt fram í þinginu.

Ég hef gert grein fyrir því sögulega sem gerðist í þingsölunum þegar stjórnarliðar undir forustu umhvrh. neituðu að taka á dagskrá stjórnarfrv. sem umhvrh. flutti og ég færði rök fyrir því að það væri vegna þess að ráðherrarnir og ekki síst umhvrh. treysta sér ekki þess til að það frv. fái ítarlega skoðun í nefnd og þar með verði varpað ljósi á það hve lítið þetta frv. felur í sér, hve litlu það breytir fyrir þau 95% þjóðarinnar sem eiga að standa utan við það hvernig miðhálendið verður skipulagt, hve litlu það breytir fyrir þennan hóp þjóðfélagsins sem er þó 95% þjóðarinnar.

Ég hef einnig gert grein fyrir því breytta viðhorfi sem eðlilega hefur komið fram hjá fulltrúum Alþb. sem töldu sig, miðað við það sem rætt var í félmn., geta með sæmilegri samvisku að einhverju leyti stutt þetta stjfrv. ef samhliða yrði afgreitt frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum sem tryggði réttmæta og eðlilega hlutdeild allrar þjóðarinnar í ákvörðun um það hvernig við nýtum miðhálendið og hvernig fulltrúar Alþb. voru raunverulega blekktir og hvernig það hefur komið í ljós í þessari umræðu, enda hafa þeir flutt tillögu um að þessu máli verði vísað frá. Það eru eðlileg og sjálfsögð viðbrögð af þeirra hálfu.

Herra forseti. Forsrh. stóð hér í ræðustól í gær og talaði um öll þau stóru mál sem skipta munu þjóðina miklu í framtíðinni, mál sem munu fela í sér mikla eignatilfærslu til fárra í þjóðfélaginu á kostnað heildarinnar þar sem sérhagsmunir eru hafðir í hávegum á kostnað almennra hagsmuna. Þessi oddviti ríkisstjórnarinnar talaði eins og sá sem valdið hefur yfir löggjafarsamkundu þjóðarinnar og sagði: ,,Öll þessi mál verða afgreidd.`` Það er þó einu sinni þingið en ekki hæstv. forsrh. sem tekur ákvörðun um það.

Ég hef lýst þeim fjölmenna fundi samtaka útivistarfólks í gær sem samþykkti áskorun um að þessu máli yrði frestað. Það sem gerðist líka markvert í dag og ég nefndi ekki í inngangi ræðu minnar var að oddviti stærsta sveitarfélagsins í landinu, borgarstjórinn í Reykjavík, hefur látið þá skoðun sína í ljós, gerði það í hádegisútvarpi í dag, að það sé ósk borgarstjórans að þessu máli yrði frestað.

Þannig að fyrir því hafa verið færð full rök á þessum dögum sem við höfum rætt þetta frv., herra forseti, að fresta þessu máli. Ég fór fram á það í ræðu minni fyrr í dag af mestu hógværð að hæstv. umhvrh. flytti okkur við þessa umræðu rök um það hvað mælti á móti því að fresta málinu til haustsins, hvað í ferli þessa máls og framkvæmd hindraði það að hægt væri að fresta málinu. Ég hef ekki heyrt þau rök, herra forseti. Ég hélt satt að segja fyrst að það væri vegna þess að hæstv. umhvrh. ætlaði sér að staðfesta þær tillögur sem nú eru í vinnslu hjá miðhálendisnefndinni fyrir áramótin áður en skipulagsfrv. yrði samþykkt á þingi og áður en samvinnunefndin sem á að skipa samkvæmt frv., ef að lögum verður, ætti að hefja störf sem er um áramót.

Hæstv. umhvrh. hefur nú lýst því yfir að það verði ekki gert, að tillögur miðhálendisnefndarinnar verði ekki staðfestar fyrr en að samvinnunefndin hefur komið að málinu þannig að ekki eru það rök í málinu. En hver eru þá rökin fyrir því að ekki megi fresta málinu til haustsins til þess að ná víðtækri sátt um þessi mál? Við því vantar öll svör í þessum sal, herra forseti, og eftir þeim svörum er nú beðið.

Af því að hv. þm. Pétur Blöndal hefur afgreitt ræður okkar stjórnarandstöðuþingmanna sem kjaftæði þá er rétt að halda því til haga og láta það enn og aftur koma fram, að það er ekki bara sú sem hér stendur heldur margir aðrir, eins og fram kom í þeim umsögnum og ályktunum sem ég las í dag, sem líkja þessu máli, þeim leiðum sem á að fara varðandi stjórnsýsluna og hagnýtingarréttinn á miðhálendinu, við það hvernig fór með nytjastofnana á Íslandsmiðum sem eru sameign íslensku þjóðarinnar. En svo er nú þó komið að þar hefur orðið veruleg og mikil eignatilfærsla svo hundruðum milljarða skiptir til fárra í sjávarútvegi. Engu að síður stendur í lögum um stjórn fiskveiða að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Í frv. um þjóðlendur, sem væntanlega verður að lögum, stendur líka að íslenska ríkið sé eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti.

Herra forseti. Margir bera kvíða í brjósti fyrir því að eins geti farið um þessa auðlind og um auðlindina í hafinu og að verið sé að færa hana til ráðstöfunar, ekki eignar heldur til ráðstöfunar á fárra hendur, þ.e. ákvörðun um hvernig nýtingu hennar skuli háttað.

[20:45]

Af þeim greinum sem ég vitnaði til í dag finnst mér ein sú athyglisverðasta vera greinin sem skrifuð var af Ingva Þorsteinssyni náttúrufræðingi og Ólafi Arnalds náttúrufræðingi um beitarfriðun á miðhálendi Íslands. Þar segir orðrétt:

,,Það eru fyrst og fremst auðnir miðhálendisins sem valda því að í dag er Íslandi lýst sem stærsta eyðimerkursvæði Evrópu.``

Það er ekkert að sjá í þeim tillögum sem fyrir liggja af skipulagi miðhálendisins að með eðlilegum hætti eigi að taka tillit til sjónarmiða þeirra talsmanna sem tala fyrir því að beitarfriðun miðhálendisins verði fram til ársins 2015. Eða eins og Ingvi Þorsteinsson og Ólafur Arnalds segja:

,,Við beinum því þeirri tillögu til samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendis Íslands að hún stuðli að algerri beitarfriðun hálendisins til loka skipulagstímans, eða til ársins 2015.

Jafnframt skorum við á þá bændur og þau sveitarfélög sem hlut eiga að máli að sýna þann stórhug að styðja þá tillögu að gefa miðhálendinu hvíld fyrir beit í hálfan annan áratug, eftir nær 1.100 ára óslitna beitarnotkun.``

Þessu vildi ég halda vel til haga, herra forseti, án þess að vitna að öðru leyti til þeirrar ítarlegu greinar sem þar er skrifuð sem á virkilega erindi inn í þessa umræðu. Ég segi það hér og nú að ég deili áhyggjum mínum með þessum náttúrufræðingum sem hafa áhyggjur af beitarmálunum á miðhálendinu.

Þegar ég frestaði ræðu minni fyrir kvöldmat var ég í miðjum klíðum að fara yfir mjög athyglisverða grein frá hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni sem hann skrifaði 22. apríl, en hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hefur, eins og hér hefur komið fram, fylgt samvisku sinni og sannfæringu allt til þessa dags og vonandi til enda þessa máls. Sem oddviti í hópi stjórnarliða berst hann fyrir því að það verði eðlilegur aðgangur allrar þjóðarinnar að skipulagi hálendisins. Mér finnst sömuleiðis að grein sem oddviti okkar jafnaðarmanna í þessari umræðu skrifaði einnig í Morgunblaðið eiga erindi í þessa umræðu.

En ef ég held áfram með grein hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar, sem ég var nú rétt að ljúka fyrir kvöldmatarhléð, þá heldur hann svo áfram, herra forseti:

,,Skipulagssvæði það sem heppilegast er að skipulagsnefndin ætti að fást við er miðhálendi Íslands, sem markast af línu sem dregin er á milli heimalanda og afrétta. Þetta er í raun það svæði sem nú hefur verið unnið svæðisskipulag að og kynnt með rækilegum hætti. En í raun má vel hugsa sér að svæðið verði stærra. Að mörgu leyti væri rökrétt að svæðið næði yfir sem stærstan hluta af mögulegum orkuvinnslusvæðum landsins í vatnsafli og háhita. Þá erum við í raun ekki aðeins að tala um miðhálendið heldur einnig gosbeltin, en það eru einmitt gosbelti landsins sem hafa mest aðdráttarafl og útivistargildi. Ef mörk svæðisins yrðu endurskoðuð hvað þetta varðar þá yrðu fyrirsjáanlegar breytingar þær að við bættist í fyrsta lagi jaðarsvæði í Vestur-Skaftafellssýslu og í Skagafirði en á þessum svæðum eru allnokkur virkjanaáform. Í öðru lagi bættist við framhald gosbeltisins á Norðausturlandi, Gjástykki, Kröflusvæði, og á Suðvesturlandi, Þingvellir, Hengill, Bláfjöll og Reykjanesskagi að hluta. Vel mætti velta fyrir sér að ganga lengra og skoða hvort svæðisskipulag ætti að ná til víðfeðmra hálendissvæða á landinu utan miðhálendisins, þ.e. þau sem uppfylla ákveðna lágmarksstærð samanber skilgreiningu á ósnortnum víðernum sem nú er í smíði á vegum umhverfisráðuneytisins. Þá mundu bætast við svæði á borð við nokkurn hluta Snæfellsness, sérstaklega sá sem tengist miðhálendinu á Holtavörðuheiði, og í raun má skilgreina Snæfellsnes með nokkrum rökum sem hluta gosbeltanna. Þá má einnig nefna hálendi Vestfjarða, m.a. Glámuhálendið þar sem eru virkjanahugmyndir. Fleiri svæði koma til álita.

Skipulagsnefnd sú sem hér er rædd ætti að vinna svæðisskipulagið en aðalskipulagið og deiliskipulag verði áfram hjá sveitarfélögunum. Hins vegar verði valdsvið nefndarinnar víðtækt þannig að hún geri sem allra nákvæmasta skilgreiningu í landnotkun, skilgreiningu vega, húsa og annarra mannvirkja, skilgreiningu á friðun og sem víðtækustum rétti almennings til nota af landinu jafnframt að gæta jafnvægis milli náttúruverndarsjónarmiða og nýtingu auðlindanna. Augljóst er að sum svæði hálendisins þarf að skipuleggja mun nákvæmar en önnur vegna náttúrufars og nýtingar. Slíkt skipulag þyrfti að vera í höndum skipulagsnefndarinnar.

Aðalskipulag sveitarfélaga innan marka hálendisins þarf að vera í samræmi við svæðisskipulagið sem skipulagsnefndin leggur fyrir og þarf það að vera í hennar verkahring að hafa eftirlit með samræmingu. Núverandi hálendisnefnd á að fá að ljúka sínu góða starfi en síðan taki nýja nefndin við og fái tækifæri til að fjalla um svæðisskipulagið áður en það er endanlega samþykkt. Á fjögurra ára fresti þarf síðan að meta hvort endurskoða eigi svæðisskipulag miðhálendisins.``

Svo mörg voru þau orð, herra forseti.

Ég vitnaði áðan einnig til skeleggs málflutnings okkar oddvita jafnaðarmanna, Rannveigar Guðmundsdóttur. En málflutningur hennar í dag sem var mjög ítarlegur, mjög skynsamlegur, mjög málefnalegur. (Gripið fram í: En í gær?) Líka í gær, hv. þm. Hún fór líka í gær, og í dag, yfir einstakar greinar þessa frv. sem er mjög nauðsynlegt. Ég tel alveg nauðsynlegt, herra forseti, að vanda vel til verka í starfi okkar og ég tel að málflutningur hennar í þessu máli sé okkur jafnaðarmönnum til mikils sóma.

Hv. þm. verður að una því að ég ætla með mikilli ánægju að vitna í ágæta grein sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir skrifar 29. apríl 1998, sem hún kallar ,,Atlaga að almannarétti.`` Og þetta er vissulega atlaga að almannarétti.

Ég ætla að grípa niður í örfáar setningar í hennar annars ágætu grein. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ekkert getur réttlætt að lögbinda svo afdrifaríkt ákvæði. Það virðist ríkisstjórnin samt ætla að gera í bullandi ágreiningi við þjóðina. Þjóðarauðlind sem felst í ósnortnum víðlendum hálendisins --­ söndum, jöklum, hraunum og gróðurvinjum, á að vera sameign allrar þjóðarinnar og Alþingi ber að tryggja þjóðarsátt um stjórn og skipulag svæðisins.``

Herra forseti. Þetta finnst mér vera kjarnaatriði, að það er Alþingis, það er raunverulega skylda Alþingis í svona stóru máli að tryggja þjóðarsátt um stjórn og skipulag svæðisins. Hver annar en Alþingi getur raunverulega gert það? Og áfram heldur þingmaðurinn:

,,Alþingi ber einnig að tryggja að meiri hluti þjóðarinnar, eða þau 70% íbúa landsins sem búa á suðvesturhluta landsins, komi að stjórn og skipulagi þessa sameiginlega svæðis.

Fólkinu í landinu þykir vænt um öræfi landsins og nýtir þau í æ ríkari mæli til gönguferða, útreiða, sleða- og skíðaferða. Menn sjá í öræfum landsins aukna möguleika til lífsfyllingar. Auðvitað er eðlilegra að fleiri en íbúar þeirra sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu standi að mótun og skipulagningu þessa svæðis. Allir landsmenn verða að geta treyst því að almannaréttur ráði ferðinni, t.d. réttur almennings til umferðar um landið, en ekki hagsmunir einstakra sveitarfélaga. Landeigendur og sveitarfélög hafa í mörgum tilvikum beitt útivistarfólk valdi og þrengt að ferðaþjónustunni.``

Þarna höfum við reynsluna. Og hv. þm. kemur einmitt inn á það að landeigendur og sveitarfélög hafi í mörgum tilvikum beitt útivistarfólkið valdi og þrengt að ferðaþjónustunni:

,,Að mati margra hafa árekstrar af þessu tagi aukist hin síðari ár með meiri umferð utan byggða. Tillaga um skiptingu miðhálendis milli fárra sveitarfélaga er gróf atlaga að almannarétti í þessu landi. Í þessu felst ekkert vantraust á sveitarfélögin enda hafa jafnaðarmenn verið frumkvöðlar í að efla sveitarfélögin með flutningi valds frá ríki til sveitarfélaga varðandi málefni sem snúa að sveitarfélögunum sjálfum.

Nauðsynlegt er að skipulagning miðhálendisins byggist á heildarsýn svo gætt verði samræmis á öllu svæðinu en þann þátt geta einstök sveitarfélög ekki tryggt. Þær hugmyndir hafa heyrst að í farvatninu séu tillögur til að sætta ólík sjónarmið innan ríkisstjórnarflokkanna. Hugmynd um að skipa nefnd með fulltrúum landshlutasamtaka sem fjalla á um svæðisskipulag á miðhálendinu en ganga að öðru leyti þá leið sem frumvarpið leggur til, þ.e. að miðhálendið skiptist milli nærliggjandi sveitarfélaga sem fara með aðal- og deiliskipulagsrétt, er ekki nægjanleg aðgerð til að tryggja samræmt skipulag á miðhálendinu. Stjórnskipuleg staða svæðisskipulags er miklu veikari en aðalskipulag sem er eitt helsta stjórntæki sveitarstjórna til að koma sínum pólitísku áhersluatriðum í framkvæmd enda speglar aðalskipulag gjarnan framtíðarsýn stjórnvalda. Svæðisskipulag byggist á heimild en ekki skyldu og því er ætlað að verða leiðbeinandi við aðalskipulag hvers sveitarfélags. Svæðisskipulag kemur aldrei til með að takmarka heimild sveitarstjórna til aðalskipulags og því síður deiliskipulags. Það eru því ólík sjónarmið og mismunandi hagsmunir einstakra sveitarfélaga sem munu ráða ferðinni á miðhálendinu í framtíðinni.``

Það er einmitt það sem menn óttast, það eru þessir mismunandi hagsmunir einstakra sveitarfélaga, að þeir muni of mikið ráða ferðinni. Árekstrarnir verði margir og það kemur aftur og aftur fram í umsögn eftir umsögn um þetta mál.

,,Mikill hluti auðlinda þjóðarinnar liggur á hálendi Íslands og engin stefna hefur verið mótuð um nýtingu þessara auðlinda. Stefnumörkun í orkumálum, svo sem ákvörðun um hámarksnýtingu vatns- og varmaorku, sem og stefna í ferðamálum á miðhálendinu og ákvörðun um staðsetningu þjóðgarða, hefur ekki verið mótuð af yfirvöldum. Sem dæmi um hvaða verðmæti eru á ferðinni er orkuþátturinn sem menn eru að fjalla um álíka að verðmæti og öll íslensku fiskimiðin eru í dag. Þetta eru allt verkefni sem færðust yfir til sveitarfélaganna við skipulagningu hálendisins. Vegalagning, mannvirkjagerð, afmörkun virkjunarsvæða, verndunarsvæða og ákvörðun um þjóðgarða eru þættir sem ákvarðaðir verða í aðalskipulagi sveitarfélaganna svo og uppgræðsla landsvæða, beitarafnot, umferð yfir viðkvæm svæði og svo framvegis. Þetta eru verkefni sem snúa að landinu öllu og engin rök til þess að fámenn sveitarfélög fari með ákvörðunarvald á þessu sviði.

Stundum hefur nálægð sveitarfélags við öræfi landsins, sérstök þekking heimamanna eða langvarandi nýting þeirra á svæðinu verið notuð sem rök fyrir því að staðbundin stjórnvöld væru betur en aðrir til þess fallin að fara með stjórn þessara svæða. Þetta er ekki rétt því stór hluti þeirra svæða sem frumvarpið gerir ráð fyrir að skipt verði upp milli þeirra er oft í órafjarlægð frá viðkomandi sveitarfélögum. Um er að ræða víðfeðm svæði sem lítil sem engin umferð hefur verið um frá upphafi byggðar og er vert að nefna í því sambandi allt Ódáðahraunið, svæðið norðan Vatnajökuls, Sprengisand, Nýjadal, Veiðivatnasvæðið og svæðin fyrir norðan Tungnaárjökul svo og alla jökla landsins, þar með talin sjálfan Vatnajökul.``

Það er einmitt sérstakt að hæstv. félmrh. hefur iðulega haldið því fram að stjórnsýsla sveitarfélaga næði til alls landsins nema til jöklanna. Það er auðvitað ekki rétt, samanber það sem ég var að vitna í hér hjá hv. þm.

,,Þessir hlutar landsins opnuðust mönnum ekki fyrr en um miðbik þessarar aldar og þá fyrir tilstilli áhugamanna um útivist enda eru örnefni á þessum stöðum sjaldan eldri en hálfrar aldar gömul. Bændur nýttu þessi svæði ekki og lítil sem engin umferð var um þessi víðfeðmu svæði, enda engar þekktar þjóðleiðir. Það er því hvorki þekking sveitarfélaganna á þessum svæðum, nálægð við þau né langvarandi nýting umfram aðra sem rökstutt getur kröfu þeirra um algjör umráð óbyggðanna. Þvert á móti hefur áhugafólk um útivist úr þéttbýlinu verið hvað ötulast við að nýta þessar víðáttur. Langvarandi heimild til búfjárbeitar á afréttum skapar heldur engan eðlilegan grundvöll að stjórnsýsluyfirráðum í nútímaskilningi enda er það óeðlilegt að afréttarrétthafinn sjálfur fari með þann þátt skipulagsmála sem ákvarðar t.d. gróðurvernd sem felst í beitarfriðun.

Við jafnaðarmenn höfum lagt til á Alþingi að miðhálendið verði sérstök stjórnsýslueining sem lýtur einni stjórn með aðkomu fulltrúa allra landsmanna. Í tillögunni er miðað við að mörk þess verði dregin milli heimalanda og afrétta en um þau mörk hefur náðst samstaða hjá sveitarfélögum sem liggja að miðhálendinu.

Það er afdráttarlaus skoðun jafnaðarmanna að líta beri á miðhálendið sem eina stjórnsýslu- og skipulagslega heild undir einni landskjörinni stjórn með aðkomu sveitarfélaganna.``

[21:00]

Herra forseti. Ég tel að í þessari grein sem ég var að vitna í frá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur hafi skýrt verið dregin saman helstu sjónarmið sem teflt hefur verið fram og rökum hjá þeim sem tala fyrir því að fresta nú þeirri afdrifaríku ákvörðun sem stjórnarliðar ætla að knýja gegnum þingið.

Ég verð að segja það, herra forseti, að maður opnar vart tölvupóst sinn að ekki hafi borist áskorun frá fólki og náttúruverndarsamtökum sem núna eru raunverulega að sjá alvöru þessa máls, þar sem eindregnum tilmælum er beint til okkar þingmanna að fresta þessari ákvörðun. Í þessu stutta matarhléi bárust ein örstutt skilaboð í tölvu mína, en þau segja mikið. Þau eru frá einum borgara sem segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Sem náttúruunnanda og Reykjavíkurbúa hryllir mér við lagafrumvörpum um ráðstöfun þess sem fyrir þingi liggja. Miðhálendi Íslands er óskorinn demantur og samkvæmt frumvörpum stjórnarliða skal hann sorfin í smátt. Brot er einskis virði samanborið við ósnortna heild.``

Ég tel, herra forseti, að þessi fáu orð segi nokkuð mikið.

Ég fer hvað úr hverju, herra forseti, að ljúka tilvitnunum í athyglisverðar greinar og ályktanir sem fram hafa komið um þetta mál. Þó á ég eftir örfáar. Þá mun ég taka til við að fara yfir örfáar greinar frv., alls ekki allar vegna þess að þeim hafa verið gerð mjög ítarleg skil bæði af hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og hv. þm. Ögmundi Jónassyni. En í leiðara í DV, í gær held ég, er því einmitt lýst hvaða vandamál geti skapast í þeirri leið sem stjórnarliðar ætla að keyra í gegn nú og vil ég vitna til þess, með leyfi forseta:

,,Íbúar Reykjavíkur og Reykjaness eiga á hættu að verða útilokaðir frá áhrifum á stjórn miðhálendisins. Í því felst ranglæti sem enginn getur varið með rökum. Tillaga um þetta liggur þó fyrir Alþingi í umdeildu frumvarpi félmrh.

Frumvarpið felur ekki í sér vott af skilningi á hinum sjálfsagða rétti meiri hluta þjóðarinnar sem býr í þéttbýli suðvesturhornsins til að taka þátt í að stýra helstu gersemi þjóðarinnar. Þeir eru fullkomlega sviptir öllum möguleikum til þess.

Í staðinn er lagt til að mörk sveitarfélaganna verði framlengd inn á miðhálendið. Sveitarfélög sem að því liggja eru um 40 talsins. Miðhálendinu verður því skipt í 40 litlar ræmur. Sérhvert sveitarfélaganna 40 fer með stjórnsýsluna á sinni ræmu. Í framkvæmd mun þetta fáránlega kerfi reynast illa.

Ranglætið gagnvart íbúum þéttbýlisins verður enn nöturlegra þegar íbúafjöldi sveitarfélaganna 40 er skoðaður. Í þeim búa samtals aðeins um 4% þjóðarinnar. Þeim á eigi að síður að færa ráðstöfunarrétt á óbyggðu landflæmi sem nær yfir liðlega 40% af Íslandi.

Þröngir hagsmunir hinna smáu sveitarfélaga rekast í mörgum tilvikum á hagsmuni almennings. Það er því veruleg hætta á að hagsmunir útivistarfólks af þéttbýlissvæðunum verði bornir fyrir borð. Við höfum þegar fengið forsmekkinn af því. Svínavatnshreppur bókstaflega rak Ferðafélag Íslands burt með ferðamannaskála sem félagið hafði haft um áratugi.``

Herra forseti. Þetta er einmitt eitt af áhyggjuefnum fólks. Það er yfirgangur þeirra sveitarfélaga sem þarna hafa átt hlut að máli og þarna er Svínavatnshreppur nefndur sem dæmi. Menn eru hræddir um að fólk fái ekki eðlilegan aðgang að þessum svæðum og það fái ekki að taka þátt í ráðstöfun og skipulagningu þeirra. Áfram segir hér:

,,Í veruleikanum mun þetta fyrirkomulag einnig skapa fjölmörg vandamál sem verður erfitt að leysa. Verði t.d. ráðist í virkjun á hálendinu getur það snert 10--12 sveitarfélög. Framkvæmdum af þeim toga fylgja gríðarlegir hagsmunir fyrir viðkomandi sveitarfélög.

Staðsetning mannvirkja, lagning lína og vega, að ógleymdum miðlunarlónum, getur haft mikil fjárhagsleg áhrif fyrir örsmá sveitarfélög. Deilurnar sem ólíkir hagsmunir kunna að skapa eru því líklegar til að seinka eða tálma framkvæmdum. Hver á að setja þær niður?

Íbúar Reykjavíkur og Reykjaness nota miðhálendið í vaxandi mæli til útvistar, jafnt vetur sem sumar. Það er að stærstum hluta einskis manns eign. Hvernig er þá hægt að réttlæta að þessi mikli meiri hluti þjóðarinnar fái ekki að koma að ráðstöfun hálendisins?

Smyrslið sem á að bera á sárin felst í þjóðlendufrumvarpi forsætisráðherra. Samkvæmt því á að slá eign þjóðarinnar á þá hluta miðhálendisins sem enginn getur sannað eignarrétt sinn á. Hvað gagnar það þjóðinni að eiga miðhálendið í orði kveðnu ef hún fær ekki að ráða yfir því?

Sporin hræða. Þetta fyrirkomulag er sláandi líkt yfirráðum yfir fiskinum í sjónum. Hann er að sönnu ,,eign`` þjóðarinnar lögum samkvæmt. En ráðstöfunarrétturinn er í höndum örfárra manna sem fara með auðlindina eins og þeir eigi hana. Nú er lagt til að hálendið fari sömu leið.

Réttlætisins er best gætt ef stjórnsýsla miðhálendisins verður sett í hendur sérstakrar landsnefndar. Þá gætu allir fulltrúar þéttbýlis sem dreifbýlis komið að stjórn þess. Það er hin sanngjarna niðurstaða. Hún felur í sér að engum er úthýst. Hún gerir öll sjónarmið jafngild.

Það er einfaldlega óverjandi að svipta íbúa sveitarfélaga sem liggja ekki að miðhálendinu rétti til að hafa áhrif á stjórn þess. Hálendið er gersemi sem við eigum öll saman og eigum að fá að stjórna saman.``

Ég vil ekki láta hjá líða, áður en ég lýk þessum lestri, að vitna í hluta af ágætri grein sem Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélags Íslands, skrifar. Einn kafli þeirrar greinar er undir yfirskriftinni ,,Þingmenn Reykjavíkur og Reykjaness, takið eftir!``

,,Fyrir nokkrum mánuðum skilaði samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins áliti sínu. Flestir nefndarmenn voru fulltrúar sýslna sem land eiga að miðhálendinu. Reykvíkingar, Reyknesingar og Vestfirðingar áttu ekki þar fulltrúa. Í greinargerð nefndarinnar er gert ráð fyrir því að stjórnsýslan á svæðinu eigi að vera í höndum sveitarfélaganna sem að hálendinu liggja.

Sami andi er í frumvarpi til laga sem félagsmálaráðherra lagði fram um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Þetta frumvarp hefur enn ekki hlotið afgreiðslu í þingi. Í frumvarpinu segir m.a.:

,,...staðarmörk sveitarfélaga, sem liggja að miðhálendinu, verði framlengd inn til hálendisins. Sama gildir um staðarmörk sveitarfélaga á jöklum.`` Í stuttu máli; miðhálendið, sem nú er að mestu almenningur, skuli hvað stjórnsýslu varðar falla undir nokkur sveitarfélög landsins þar sem innan við 30% þjóðarinnar býr. Þá á að útiloka mikinn meiri hluta þjóðarinnar frá öllum ákvörðunum um landnýtingar og stjórnsýslu á miðhálendinu. Íslenskir veiðimenn hafa slæma reynslu af afskiptum sveitarstjórnarmanna að málum er snerta landsréttarmál og nýtingar náttúrunnar.

Sveitarfélög á Austurlandi útvega veiðiheimildir til veiða á hreindýrum. Samkvæmt 8. gr. reglna um stjórn hreindýraveiða getur sveitarfélag valið eftirfarandi leiðir við ráðstöfun veiðiheimilda sinna:

a. Ráðið skyttu til veiða upp í heimildir.

b. Skipt veiðiheimildum milli íbúa sveitarfélags með hliðsjón af ágangi hreindýra.

c. Þriðja lagi afhent hreindýraráði veiðiheimildir sínar til sölu á almennum markaði.

Dæmi eru um að hreppsnefndir hafi úthlutað einum ákveðnum manni meiri hluta þeirra dýra sem komið hafa í hlut hreppsins, þ.e. atvinnuveiðimanni, sem verður að teljast afar vafasamt frá siðrænu sjónarmiði.

Þá hefur verið óánægja með það þegar arði af hreindýraveiðum hefur verið skipt á milli íbúa sveitarfélagsins með hliðsjón af ágangi hreindýra. Hreindýrin eru eign íslensku þjóðarinnar. Vitaskuld á að fela hreindýraráði að selja allar veiðiheimildir til veiða á hreindýrum á almennum markaði --- annað er hið megnasta óréttlæti.

Varðandi miðhálendið er ekki annað viðunandi fyrir íbúa Reykjavíkur, Reykjaness og Vestfjarða en Alþingi lýsi því yfir með löggjöf að miðhálendið sé sameign allrar þjóðarinnar og þar með allar auðlindir og náttúruperlur sem þar eru. Þingmenn Reykjavíkur, Reykjaness og Vestfjarða geta því með engu móti stutt frumvarp félagsmálaráðherra til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum, þ.e. að fela 40 sveitarfélögum stjórnsýslu hálendisins. Annað eru hrein svik við kjósendur.``

Þetta voru orð Sigmars B. Haukssonar.

Ég hef, herra forseti, vitnað nokkuð til ýmislegs sem fram hefur komið frá náttúruverndarsamtökum í máli mínu. Náttúruverndarráð hefur látið ýmislegt athyglisvert frá sér fara í þessu máli og hefur gert mjög margar athugasemdir við það sem fram hefur komið en þeir segja hér í grein í Morgunblaðinu:

,,Fyrr á þessu ári voru kynntar tillögur um svæðisskipulag á miðhálendi Íslands sem íslensk stjórnvöld hafa látið vinna. Þar birtast áætlanir um framtíðarnýtingu þessa stórbrotna landsvæðis til ársins 2015. Miðhálendi Íslands hefur að geyma ýmsar merkustu náttúruperlur landsins og þar eru því miklir hagsmunir allra landsmanna í húfi. Samvinnunefnd um svæðisskipulag hálendisins og skipulagsstjóri ríkisins hafa auglýst tillögurnar og boðið þjóðinni að tjá sig um þær og skila athugasemdum við þær nú í haust.

Á sama tíma vinna íslensk stjórnvöld að því að bjóða fjölmörgum erlendum stóriðjuhöldum íslensk fallvötn, orkulindir og land undir virkjanir og orkufrekan iðnað. Meðal þeirra eru fallvötn sem alls ekki er gert ráð fyrir að virkja í tillögum að svæðisskipulagi. Enda mundu sumar þeirra virkjana stórspilla eða eyðileggja um alla framtíð einstæðar náttúruperlur, sem aldrei verður sátt um að fórna fyrir skammtímahagsmuni.

Þrátt fyrir gjörbreytt viðhorf til umhverfismála og alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga virðist skýrsla iðnaðarráðuneytisins: ,,Innlendar orkulindir til vinnslu raforku`` frá árinu 1994 enn í fullu gildi, en þar er gerð grein fyrir ,,öllum helstu möguleikum sem fyrir hendi eru til að nýta vatnsaflið og háhitasvæði landsins til raforkuvinnslu``. Þótt þar sé viðurkennt að ekki hafi verið tekið tillit til náttúruverndarsjónarmiða er gefið í skyn að jafnvel innan þjóðgarða og friðlýstra svæða megi virkja.``

Ég ætla ekki að vitna meira í þessa grein þótt þar sé af ýmsu að taka en það er ljóst að að ýmislegu þarf að gæta í þessu sem ekki hefur verið gert varðandi þær svæðisskipulagstillögur sem liggja fyrir.

Svipuð sjónarmið koma fram frá Náttúruverndarsamtökum Íslands. Þau telja augljóst að hinar alvarlegu aðfinnslur Trausta Valssonar og Birgis Jónssonar séu reistar á rökum en tillagan um svæðisskipulag miðhálendisins nær ónýtur pappír sem gagnist engum hver sem afstaða viðkomandi kunni að vera til tillögunnar. Trausti og Birgir segja jafnframt að á fundum hafi höfundar skipulagsins ítrekað haldið því fram að lítið mál sé að breyta verndunarsvæðum í virkjunarsvæði síðar ef menn vilji það.

Náttúruverndarsamtök Íslands telja einsýnt að Alþingi þurfi að kanna þetta mál strax og fá botn í hvort tillagan um svæðisskipulag miðhálendisins sé eitthvað sem þjóðin geti reitt sig á varðandi framtíðarumgengni við þessa miklu náttúrugersemi þjóðarinnar. Þetta er þeim mun brýnna í ljósi þess óréttar sem að er stefnt með frumvarpi félagsmálaráðherra til sveitarstjórnarlaga þar sem gert er ráð fyrir að lögsaga og skipulagsréttur yfir miðhálendinu færist í hendur liðlega 40 sveitarfélaga sem land eiga að miðhálendinu. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt munu pólitískir fulltrúar tæplega 4% landsmanna fara með lögsögu og skipulagsyfirráð um 40% af flatarmáli Íslands. Hér er um svo hróplegt óréttlæti að ræða að Alþingi hlýtur að hafna frumvarpinu óbreyttu.

Herra forseti. Ég hef lokið yfirferð minni um greinar og ályktanir sem fram hafa komið um þetta mál og tek nú til við að fara yfir athyglisverða skýrslu umhvrh. um undirbúning að löggjöf um stjórnsýslu á miðhálendi Íslands, að því er tekur til skipulags- og byggingarmála. Þessi skýrsla var lögð fyrir 113. löggjafarþing 1990--1991. Í inngangi þessarar skýrslu segir:

,,Í samráði við ríkisstjórnina ákvað umhvrh. í októbermánuði sl. að skipa sérstaka nefnd fulltrúa samkvæmt tilnefningu þingflokka, tiltekinna ráðuneyta og Sambands ísl. sveitarfélaga til að undirbúa frumvarp til laga um tilhögun stjórnsýslu á hálendi Íslands og verndun þess.

[21:15]

Eftirtaldir aðilar tóku þátt í nefndarstarfinu: Ágúst Guðmundsson, Landmælingum Íslands, Birgir Þorkelsson samgrn., Bryndís Brandsdóttir Kvennalista, Geir Gunnarsson Alþb., Gunnar Eydal, Sambandi ísl. sveitarfélaga, Héðinn Sverrisson, Samtökum um jafnrétti og félagshyggju, Hjalti Zophóníasson, dóms- og kirkjumrn., Hjörleifur Guttormsson menntmrn., Hulda Jónsdóttir Borgaraflokki, Jóhannes Geir Sigurgeirsson Framsfl., Jón Höskuldsson landbrn., Páll Líndal umhvrn., formaður, Sigfús Jónsson Alþfl. og Stefán Thors, Skipulagi ríkisins.``

Þarna er m.a. fulltrúi Framsfl. og í þessari skýrslu má lesa eftirfarandi:

,,Til þess að bæta úr því ástandi sem nú er í skipulags- og byggingarmálum, kom fram sú hugmynd að framlengja mörk sveitarfélaga sem að hálendinu liggja þannig að landinu öllu yrði skipt í sveitarfélög. Þessi hugmynd virðist tæplega raunhæf. Mjög erfitt yrði að ákveða út frá hvaða sjónarmiðum ætti að framlengja, enda mörkin milli sveitarfélaga víða óljós og umdeild. Ekki tæki betra við þegar kæmi að því að ákveða efri mörk á öræfa- og jöklasvæðum.``

Það eru ekki mörg ár, herra forseti, síðan þessi skýrsla var lögð fyrir þingið m.a. með aðild Framsfl. sem kom að þessu máli. Þar er greinilega varað við því, herra forseti, að fara þá leið sem stjórnarflokkarnir, Framsfl. og Sjálfstfl. stefna nú að. Þessi hugmynd virðist tæplega raunhæf, segir í skýrslunni.

Ég hygg, herra forseti, að það sé ansi mikið til í því sem þarna kemur fram. Menn ættu kannski að dusta rykið af þessari skýrslu, lesa hana yfir og athuga hvort ekki fyndist ýmislegt nytsamlegt í henni. Hún gæti jafnvel haft áhrif til þess að breyta sjónarmiðum ýmissa fulltrúa stjórnarliðanna sem virðast vera með tappa í eyrunum þegar reynt er að tala skynsamlega í þessu máli. Þeir hlusta ekki á nein rök. Látum nú vera þó þeir hlusti ekki á okkur stjórnarandstæðinga en öll þessi fjölmennu útivistar-, umhverfis- og ferðasamtök, það er alveg sama hvað þau segja. Það er alltaf tappi í eyrunum á þessum stjórnarliðum. Þeir virðast heillum horfnir og ætla sér með góðu eða illu að keyra þetta mál í gegn þó þeir viti innst inni að stór hluti þjóðarinnar fylgir þeim ekki í þessu máli. Ég held bara að það sé nú á síðustu dögum og vikum að þjóðin er að vakna upp við það sem er að gerast í þinginu.

Engan þarf að undra, herra forseti, að menn horfi til þess hvernig farið hefur verið með auðlindina í hafinu og horfi til þess með ugg í brjósti að svipað geti gerst með miðhálendið. Við biðjum aðeins um að reynt verði að ná sátt í málinu og til þess verði gefnir örfáir mánuðir. Það er mun betra fyrir stjórnarliðana, stjórnarandstæðinga og þjóðina í heild að þannig sé haldið á málum.

Af því að ég var að vitna í þessa skýrslu frá frá 113. þingi um undirbúning að löggjöf um stjórnsýslu á miðhálendi Íslands þar sem varað er við þeirri leið sem hér á að fara, þá er ágætt að halda líka til haga frv. til laga um stjórn skipulags- og byggingarmála á miðhálendi Íslands sem flutt var af Eiði Guðnasyni. 1. gr. þess hljóðar svo:

,,Miðhálendi Íslands er sérstakt umdæmi að því er tekur til skipulagsmála samkvæmt skipulagslögum, nr. 19/1964, með síðari breytingum, og byggingarmála samkvæmt byggingarlögum, nr. 54/1978, með síðari breytingum, en með þeim frávikum sem greinir í þessum lögum.

Ég vitnaði til þess fyrr í dag, herra forseti, að einn stjórnarliða sem við 1. umr. þessa máls var á allt annarri skoðun heldur en nú hefur komið á daginn vitnaði, í rökum sínum í Morgunblaðinu, til þessa frv. frá 1991--1992, um stjórn skipulags- og byggingarmála á miðhálendi Íslands, og sagði orðrétt. Þá kvaðst hún vera sammála þeirri lausn sem sett var fram í frv. sem Eiður Guðnason fyrrv. umhvrh. flutti á sínum tíma.

Nú hefur þessi hv. þm. breytt um skoðun og út af hverju? Út af frv. sem umhvrh. hefur kynnt í þinginu og felur í sér að af 18 fulltrúum eiga sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu að hafa 12, 95% þjóðarinnar fjóra fulltrúa. Það er allt réttlætið. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir var á annarri skoðun fyrir nokkrum vikum og taldi þá leið sem Eiður Guðnason talaði fyrir á árinu 1991--1992 mjög skynsamlega.

Það sem einnig hefur vakið furðu mína í umsögnum um þetta mál er umsögn stjórnar SSH, að vísu ekki um þetta mál, heldur um þjóðlendur. Í þeirri umsögn kemur fram að sveitarfélögum nægir greinilega ekki að stjórnsýslan skiptist alveg á milli sveitanna og jöklarnir og allt það sem við höfum farið í gegnum, heldur segja þeir um frv. til laga um þjóðlendur, með leyfi forseta, nokkuð athyglisvert:

,,Í þessu frv. er um mestu eignaupptöku Íslandssögunnar að ræða ef frá er talin upptaka konungsvaldsins á kirkjujörðum eftir siðaskipti.``

Þarna er verið að fjalla um frv. um þjóðlendur. Síðan segja þeir:

,,Samkvæmt frv. verður skipuð sérstök nefnd, óbyggðanefnd, á vegum forsrn. til að kanna eignarhald og úrskurði í kjölfarið um eignarrétt einstaklinga, félaga eða annarra á hálendinu.``

Hvað leggja þeir til í staðinn? Hvað á að koma í staðinn fyrir þessa mestu eignaupptöku Íslandssögunnar, ef frá er talin upptaka konungsvaldsins á kirkjujörðum eftir siðaskiptin, þ.e. eins og er í þjóðlendufrv. sem lýsir því yfir að miðhálendið sé sameign þjóðarinnar? Þeir tala um að þau ákvæði þjóðlendufrv. sem kveða á um ríkið sé eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í einkaeignarrétti muni leiða til mestu eignaupptöku Íslandssögunnar.

Þess í stað segja þeir að til greina kæmi að færa þessar þjóðlendur undir sveitarfélög sem land eiga að hálendinu og skjóta þar með enn frekari stoðum undir byggð sem víðast á landinu. Mér finnst þetta alveg furðuleg tillaga og með ólíkindum að þetta komi fram. Í þessu máli hefur margt sérkennilegt komið fram og þetta er eitt af því.

Ég vil, herra forseti, áður en ég fer í örfáar greinar, aðrar en þær sem helst hafa verið í umræðunni um frv. félmrh., víkja að þeim tillögum sem minni hluti félmn., sem Rannveig Guðmundsdóttir skipar hefur flutt, í staðinn fyrir þá leið sem stjórnarflokkarnir vilja fara. Þar eru fluttar brtt. við 1. gr. og ákvæði til bráðabirgða. Tillaga minni hlutans er svohljóðandi:

,,Landið skiptist í staðbundin sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð utan miðhálendis Íslands sem verður sjálfstæð stjórnsýslueining sem lýtur sérstakri stjórn. Forsætisráðherra skipar níu manna stjórn miðhálendis til fjögurra ára að fengnum tilnefningum. Umhverfis-, iðnaðar-, samgöngu- og félagsmálaráðherra tilnefna einn fulltrúa hver og Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir fjóra fulltrúa. Forsætisráðherra skipar einn fulltrúa og er hann jafnframt formaður stjórnarinnar.

Sveitarfélög eru lögaðilar.

Hver maður telst íbúi þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili.

2. Ákvæði til bráðabirgða orðist svo:

Miðhálendið markast af línu sem dregin verður milli heimalanda og afrétta, línu sem miðað var við í tillögum svæðisnefndar að skipulagi hálendisins frá 1997.``

Ég tel að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir færi í nefndaráliti minni hluta félmn. mjög sterk rök fyrir þeim brtt. sem hún flytur. Hún segir m.a. í sínu áliti eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Það álitamál sem tekist er á um er í 1. gr. frumvarpsins og ákvæði til bráðabirgða þar sem nærliggjandi sveitarfélögum eru veitt öll völd á öræfum landsins. Jafnaðarmenn geta ekki fallist á að deila miðhálendinu þannig á milli sveitarfélaganna.

Víðerni Íslands eru dýrmæt auðlind sem er sameign allrar þjóðarinnar og Alþingi ber að tryggja þjóðarsátt um stjórn og skipulag svæðisins. Þegar umræða í þjóðfélaginu fer fram um þá þjóðarauðlind sem felst í ósnortnum víðernum hálendisins --- söndum, jöklum, hraunum og gróðurvinjum --- kemur skýrt í ljós að fólkið í landinu vill að hagsmuna allra sé gætt við ákvarðanir sem varða framtíð svæðisins.``

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur farið ítarlega yfir nefndarálitið og sé ég ekki ástæðu til þess að gera frekari grein fyrir því en hún gerir ályktun 90 virtra einstaklinga að lokaorðum sínum, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þess að samstaða er um að miðhálendið verði áfram eign þjóðarinnar teljum við undirrituð höfuðnauðsyn að ekki verði á þessu þingi bundið með óafturkræfum hætti hvernig stjórnsýslu- og skipulagsmálum verður háttað þar. Meiri tími verði gefinn til opinnar umræðu þannig að öll þjóðin fái að taka þátt í að ákveða hvernig með mál þessi verður farið í framtíðinni.``

Herra forseti. Ég vil þá ljúka þessum kafla ræðu minnar og snúa mér í síðari hluta hennar að tveimur ákvæðum í þessu frv. Ég nefndi áður að þó ég vildi fara inn á ýmislegt í þessum 100 greinum sem hér eru til umræðu, þá hafa hv. þm. Ögmundur Jónasson og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, sem sæti eiga í félmn., gert þeim það góð skil að ég skal ekki tefja tíma þingsins að þessu sinni til að fara yfir einstakar greinar þó að ... (Gripið fram í.) Ef hv. þm. kýs að ég fari yfir allar greinar þá er það auðvitað guðvelkomið. Ég er með skýringar á þessum greinum og umsögnum. Ef þingmaðurinn hefur ekki farið yfir þær, þá væri kannski rétt að fara yfir hverja og eina þessara greina. Það eru út af fyrir sig engin stórtíðindi í þessum greinum sem snúa að stjórnsýslu sveitarfélaganna.

Ég ætlaði aðeins að fara í tvær þeirra sem mér finnst skipta mestu máli. Herra forseti. Ég kemst kannski síðar að til að fara yfir einstakar greinar af því að ég hef heyrt að þess er óskað ...

(Forseti (StB): Forseti vill leyfa sér að trufla hv. ræðumann með því að upplýsa að hér hefur verið farið yfir einstakar greinar frv. nokkuð oft í þessari umræðu, bæði við 1. umr. og síðar þannig að hv. þm. verður að meta það hvort hún vill bæta þar úr.)

Ég hef farið ítarlega yfir þær sjálf en mér fannst hv. stjórnarþm. Pétur Blöndal kalla eftir því. Við skulum vona að hv. þm. hafi þá hlýtt á mál hv. þm. Ögmundar Jónassonar og hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur.

[21:30]

Herra forseti. Ég vil byrja á því að vitna til þess að fyrr á þessu þingi flutti ég ásamt hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni og Rannveigu Guðmundsdóttur frv. sem er breyting á 109. gr. sveitarstjórnarlaganna og orðaðist svo, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélag verður eigi sameinað öðru sveitarfélagi nema fleiri kjósendur í atkvæðagreiðslu skv. 108. gr. séu fylgjandi sameiningu en andvígir. Ef hins vegar um er að ræða þrjú eða fleiri sveitarfélög og tillaga samstarfsnefndar hlýtur meiri hluta greiddra atkvæða í a.m.k. 2/3 þeirra er viðkomandi sveitarstjórnum heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga sem samþykkt hafa sameiningu.``

Herra forseti. Eftir að þingmannafrv., sem ég vitnaði í, var lagt fram kom þetta frv. til sveitarstjórnarlaga fram og í 91. gr. þess var að finna nokkurn veginn sambærilegt ákvæði sem ég hafði flutt ásamt tveimur öðrum þingmönnum. Ég fagna auðvitað sérstaklega því ákvæði í þessu frv. en það er að finna í 91. gr. og þar segir, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélag verður eigi sameinað öðrum sveitarfélögum nema fleiri kjósendur í atkvæðagreiðslu skv. 90. gr. séu fylgjandi sameiningu en andvígir, sbr. þó 2. mgr. þessarar greinar.

Hljóti tillaga samstarfsnefndar skv. 90. gr. ekki samþykki í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum, en þó meiri hluta greiddra atkvæða í a.m.k. 2/3 þeirra og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2/3 íbúa á svæðinu, er viðkomandi sveitarstjórnum heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga sem samþykkt hafa sameininguna.``

Ef þetta ákvæði verður samþykkt, sem ég var að vitna til í þessu stjfrv., þá tel ég að komið sé að verulegu leyti til móts við þau sjónarmið sem við flutningsmenn settum fram í frv. okkar á þskj. 84. Í því frv. var ítarleg greinargerð þar sem m.a. var farið inn á hve nauðsynlegt væri að stækka sveitarfélögin og færð fyrir því ýmiss konar rök en það kemur nokkuð á óvart í þessu frv., sem er heildarlöggjöf um sveitarfélögin, að lágmarksíbúatalan stendur óbreytt. Henni er ekkert breytt hér. Þar stendur: ,,Lágmarksíbúatala sveitarfélags er 50 íbúar.`` Þetta hefur staðið nokkuð lengi í þessari löggjöf. Það er einmitt vitnað til þess í umsögnum um greinina að þetta ákvæði sé tímaskekkja. Ég held að full ástæða sé til þess að taka undir það að ákvæðið sé í raun og sanni tímaskekkja. Hér er umsögn frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Áfram stendur ákvæðið um 40 íbúa lágmarkstölu. Vafasamt verður að telja að sveitarfélög sem fara undir þann íbúafjölda valdi þeim verkefnum sem lög bjóða og enn síður að takast á við fleiri verkefni sem fyrirhugað er að færa frá ríki til sveitarfélaga. Lágmarksíbúatalan verður því að vera hærri þó ekki sé nefnd ákveðin tala.``

Borgarbyggð segir um þessa grein að greininni verði breytt á þann veg að lágmarksíbúatala sveitarfélaga verði 400 í það minnsta. Akureyrarbær segir um þessa grein:

,,Er ekki full ástæða til þess að breyta lágmarksíbúatölunni til hækkunar?`` Síðan er það Akranes sem segir: ,,Í VIII. kafla fyrirliggjandi frumvarps er gert ráð fyrir því að félagsmálaráðuneytið skuli vinna að stækkun sveitarfélaga og í sama kafla er einnig fjallað um hvernig standa skuli að sameiningu sveitarfélaga. Ákvæði þessi eru nauðsynleg og mjög til bóta miðað við gildandi lög. Með vísan til þessara ákvæða verður að setja alvarlegan fyrirvara við 6. gr. frv. þar sem áfram er gert ráð fyrir að lágmarksíbúatala sveitarfélags verði 50 manns. Ákvæði þetta gengur þvert gegn tilgangi 88. gr. frv. og væri eðlilegt að miða stærð sveitarfélags við hærri íbúatölu. Slíkt er nauðsynlegt með tilliti til þeirrar þjónustu og starfsemi sem sveitarfélögum er falin með lögum.``

Í umsögn frá Djúpavogshreppi segir: ,,Miðað við verkefni og skyldur sem lagðar eru á sveitarfélög tel ég 50 manna lágmarksíbúatölu ekki viðeigandi. Ég tel að mjög fámenn sveitarfélög sem sinna eiga þessum verkefnum sem þeim eru nú þegar falin samkvæmt lögum geti ekki rækt skyldur sínar. Meðal margra stjórnmálamanna hefur sú skoðun verið ríkjandi að með því að færa verkefni í ríkara mæli frá ríki til sveitarfélaga styrki það sveitarfélögin og efli dreifbýlið. Frá því að lágmarksíbúatalan 50 var sett inn í sveitarstjórnarlögin 1986 hefur orðið nokkur breyting á sveitarfélögum til stækkunar. Þó eru á milli 120 og 130 sveitarfélög enn með íbúatölu undir 1.000. Samkvæmt nýrri skýrslu sem unnin var fyrir Byggðastofnun um byggðaþróun kýs meiri hluti íbúa í sveitarfélögum með íbúatölu að 1.000 íbúum að búa í stærri samfélögum. Ég tel því að skýrslan endurspegli vilja fólksins til breytinga á þessu ákvæði. Því legg ég til að ákvæðinu um lágmarksíbúatölu verði breytt í 1.000.``

Samband sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra segir eftirfarandi, með leyfi forseta: ,,Ákvæði 6. gr. um að lágmarksíbúatala sveitarfélags sé 50 íbúar er tímaskekkja. Sveitarfélög sem nálgast þennan íbúafjölda eru ekki fær um að sinna lögboðnum verkefnum sveitarfélaga né heldur að taka við auknum verkefnum frá ríki. Nærri lægi væri að lágmarksíbúafjöldi væri ákveðinn 1.000 íbúar með hæfilegum aðlögunarfresti.`` Mörg sveitarfélög, sem hér er vitnað til og samtök þeirra, telja þetta ákvæði tímaskekkju og að eðlilegt hefði verið að huga að breytingum.

Að vísu er svo að verulegur árangur hefur náðst í sameiningu sveitarfélaga án þess að færa upp þessa íbúatölu. Það er staðreynd sem ekki verður horft fram hjá. Árið 1986 voru sveitarfélögin 223 en ég býst við að þau séu kannski um 125--130 í dag en þar af eru 35 sveitarfélög með íbúatölu undir 400. Ég minnist þess fyrir þó nokkuð mörgum árum að Samband sveitarfélaga ályktaði um að það skyldi færa upp íbúatöluna. Út af fyrir sig hef ekki gert neina tillögu um að gera það og gerði það ekki í tíð minni sem félmrh. Þá var ég að undirbúa átak í sameiningu sveitarfélaga sem skilaði ekki miklu þá þegar kosning fór fram en ljóst að sá undirbúningur og sú kosning sem þar fór fram hefur skilað sér þó síðar yrði og hugmynd mín var sú að sjá hverju fram yndi í þessu efni og hverju þetta mundi skila.

Það kemur fram í greinargerð með því frv. sem ég vitnaði til um breytingu á sveitarstjórnarlögum en ákvæði þess var tekið inn í þetta stjfrv. að það sé skoðun flutningsmanna að lágmarksíbúatala í hverju sveitarfélagi eigi ekki að vera undir 1.000 til að skapa nauðsynleg skilyrði að flytja til þeirra fleiri verkefni og tekjustofna. Hvernig sem farið er yfir rök í því og raunverulega óþarfi að gera það, þá held ég að allir séu sammála um að mjög brýnt sé að stækka sveitarfélögin verulega og ekki síst núna þegar sveitarfélögin hafa fengið til sín grunnskólana sé þetta orðið mjög knýjandi verkefni.

Það er einu sinni svo að hlutfall sveitarfélaganna í samneyslunni, ef við berum okkur saman við Norðurlöndin, er langminnst hér á landi en aftur á móti er hlutur ríkisvaldsins stærstur hér á landi. Ef við tökum Ísland er ríkið með 14,35 sem hlutfall í samneyslunni en sveitarfélög 4,29. Annars staðar á Norðurlöndunum er þessu öfugt farið.

Út af fyrir sig er ekki ágreiningur um það, hvorki milli stjórnarflokkanna né stjórnarandstöðunnar, að stefna eigi að því að efla og stækka sveitarfélögin. Það er einmitt vitnað til þess í þessari greinargerð, þá erum við að tala um fólksflutninga frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins sem menn hafa gegnum árin haft verulegar áhyggjur af, að á síðasta áratug fjölgaði Íslendingum um tæplega 28.000 manns en vegna mikilla fólksflutninga til höfuðborgarsvæðisins fjölgaði íbúum þar engu að síður um ríflega 28.000 en á landsbyggðinni einungis um 1.800 sem eru aðeins liðlega 6% af heildarfjölguninni. Það er öllum ljóst að framþróun atvinnulífs og aukin verðmætasköpun og til að standa undir velferðarþjónustu og tryggja fólkinu örugga atvinnu kallar á umbætur í sveitarstjórnarmálum, ekki síður en hjá ríkisvaldi, og stækkun og efling sveitarfélaganna stuðlar vissulega að því að treysta byggð í landinu og brjóta niður þær hindranir sem eru í atvinnuuppbyggingu og til að ná fram betra og hagkvæmara skipulagi sem og að skapa skilyrði fyrir meiri, betri og jafnari þjónustu við íbúana.

Engu að síður er ljóst að annars staðar á Norðurlöndunum þekkjum við þá sögu að ekki tókst að stækka og efla verulega sveitarfélögin nema með lögboði og ekki er ég að boða það hér. Vel má vera að okkur lánist það og skriðurinn sem hefur verið á sameiningunni gefur kannski vonir til þess að sveitarfélögin stækki og eflist án þess að til þurfi að koma einhver íhlutun frá þinginu um að lögbinda hærri lágmarksíbúatölu. Engu að síður er á margan hátt hægt að taka undir það að miðað við þróunina sem verið hefur stingur sú lágmarksíbúatala sem hér er nefnd, um 50 íbúar, mjög í augu. En ég geri ráð fyrir að menn láti hér kyrrt liggja engu að síður og sjái til hvort sá skriður sem er á sameiningarmálunum og hefur verið á undanförnum 10--15 árum haldi áfram. Auðvitað hefur verulegt átak verið gert þar þegar við erum að horfa upp á það að sveitarfélögunum hefur frá 1986, á 12--13 ára tímabili, fækkað um nærri 100. Það er náttúrlega ávinningur sem er ekki hægt að vanmeta og hefur alveg örugglega stórkostlega þýðingu fyrir landsbyggðina til lengri tíma litið þó að það sjáist kannski ekki strax. En þessir búferlaflutningar eru kannski eitt af því sem menn hafa verulegar áhyggjur af og um það hafa verið ritaðar ýmsar bækur og lagðar fram ýmsar tillögur hvernig styrkja megi stöðu landsbyggðarinnar, m.a. nýleg bók um búsetu á Íslandi, rannsókn á orsökum búferlaflutninga sem Stefán Ólafsson ritaði og ég held að Byggðastofnun hafi staðið fyrir. Markmið þeirra rannsókna var að leita skýringa á búferlaflutningum milli landshluta á Íslandi á síðustu árum og áratugum. Slíkar skýringar, eins og á er bent, geta verið gagnlegar vísbendingar um það hvaða aðgerðir eru líklegar til að hafa áhrif á framtíðarþróun búferlaflutninga í landinu. Ég ætla aðeins að vitna til örfárra atriða í samandregnum niðurstöðum í þessari bók en þar segir, með leyfi forseta:

[21:45]

,,Við hönnun rannsóknarinnar var höfð hliðsjón af helstu kenningum sem fram hafa verið settar um viðfangsefnið erlendis og fyrri rannsóknum á þessu sviði hér á landi. Fyrirliggjandi gögn um fólksfjöldaþróun, búsetu, búferlaflutninga, atvinnuþróun og skyld atriði voru könnuð og að hluta borin saman við upplýsingar frá nágrannalöndunum. Þá voru framkvæmdar tvær sérkannanir vorið 1997 til þess að afla nýrra gagna til að varpa ljósi á tengsl búsetuþróunar og mats almennings í einstökum landshlutum á búsetuskilyrðum í eigin byggðarlagi. Sá þáttur rannsóknarinnar sem lýtur að athugun á tengslum búsetumats og búsetuþróunar felur í sér nýja aðkomu að viðfangsefninu, sem virðist veita afar öfluga skýringu á ólíkum mynstrum búferlaflutninga frá einum landshluta til annars.

Forsenda slíkra skýringa er sú, að hvað sem líður einstökum þáttum ytri skilyrða þá eru búferlaflutningar endanlega afleiðing ákvarðanatöku einstaklinga og fjölskyldna, sem byggist á mati og samanburði viðkomandi aðila á kostum og göllum aðstæðna í upprunabyggð og hugsanlegum áfangastað. Heildarútkoma slíks mats á aðstæðum og kostum ræður niðurstöðunni um val á búsetustað. Einnig er hugsanlegt að um þvingaða búferlaflutninga geti verið að ræða, til dæmis vegna atvinnuleysis eða ófullnægjandi menntunaraðstæðna í heimabyggð. Líklegast er þó að búferlaflutningar sem eru afleiðing tiltölulega frjáls vals einstaklinga hafi verið ríkjandi á Íslandi um árabil. Það kemur meðal annars fram í því, að fólk hefur flutt í miklum mæli frá landsvæðum þar sem atvinnuástand hefur verið gott og meðaltekjur yfir landsmeðaltali. Val á framhaldsmenntun felur oft í sér meðvitað val á starfsferli sem stýrir þar með búsetu að nokkru leyti. Í slíkum tilvikum er frekar um frjálst val að ræða en þvingaðan flutning.

Í nágrannalöndunum hafa búferlaflutningar breyst á undanförnum áratugum. Fram til um 1970 var víða aukning á streymi fólks frá jaðarsvæðum til þéttbýlli staða og stórborga. Eftir það hægði sums staðar á búseturöskuninni, til dæmis í Skandinavíu, Finnlandi og Bretlandi, og fólk tók að flytja í vaxandi mæli frá stórborgunum til smærri þéttbýlisstaða og dreifbýlis, oft í nánd við stórborgirnar.``

Síðan er spurt og sagt, herra forseti:

,,Það er því athyglisverð spurning hvort vænta megi aukinna búferlaflutninga frá höfuðborgarsvæðinu á næstu árum, til dæmis til smærra þéttbýlis eða dreifbýlis sem er innan seilingar við höfuðborgarsvæðið.``

Fram kemur einnig að íbúar smæstu staðanna á landsbyggðinni eru almennt óánægðastir með búsetuskilyrði sín og margir þeirra segjast helst vilja búa í fjölmennara byggðarlagi. Þessa samantekt, sem ég hef ekki tíma til þess að lesa ítarlega, tel ég um margt mjög athyglisverða til þess að meta þróun búsetu á Íslandi. Hér stendur líka, herra forseti:

,,Þrátt fyrir fámennið í landinu býr minni hluti Íslendinga í dreifbýli en er annars staðar á Norðurlöndum, um 9% hér á móti 15--26% í hinum löndunum. Það er þrátt fyrir það að stærri hluti vinnandi manna starfar hér við landbúnað en er í hinum löndunum.

Vægi höfuðborgarsvæðisins er mikið hér á landi, en þar býr um 58% af þjóðinni, en á hinum Norðurlöndunum er vægi þéttbýlis með 50.000 eða fleiri íbúa aðeins frá 31--39%. Höfuðborgirnar á Norðurlöndum hýsa frá 17% til 26% íbúanna í viðkomandi löndum. Íslendingar búa því í meiri mæli í þéttbýli en nokkur hinna frændþjóðanna á Norðurlöndum.

Frá 1990 hefur tap landsbyggðarinnar á Íslandi aukist umtalsvert, þannig að í sundur hefur dregið með Íslandi og frændþjóðunum í þessum efnum á síðustu árum. Sérstaða búferlaflutninganna frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðis hér á landi er því mikil.``

Það er einnig athyglisvert sem hér stendur, af því að við þurfum kannski einhvern tíma síðar í þessum mánuði að ræða húsnæðismálin, og það skulu vera mín lokaorð úr þessari gagnmerku bók, með leyfi forseta:

,,Umtalsverður hluti Vestfirðinga telur stöðu húsnæðismála í byggðarlagi sínu hafa versnað.`` Það er nokkuð athyglisvert þar sem Vestfirðingar hafa fengið drjúgan hluta af félagslegum íbúðum til sín og þar hefur ekkert verið byggt nema félagslegar íbúðir. Síðan segir: ,,Á höfuðborgarsvæði og Suðurnesjum skynja menn frekar framfarir á þessu sviði á tímabilinu.``

Þó það sé freistandi, herra forseti, að fara nánar út í þróun búsetu á Íslandi en ég hef hér gert með tilliti til þessarar 50 íbúa tölu í frv. og hvernig við getum styrkt sveitarfélögin á landsbyggðinni, þá ætla ég ekki að gera það. Hæstv. félmrh. hefur ekki sést í þingsalnum, alla vega síðan um kvöldmat. Nú veit ég ekki hvort hann er í húsinu. Ég hefði viljað fara nokkrum orðum um framkvæmd verkefna sem hefur kannski farið heldur hljótt um og tengjast sveitarfélögunum mjög mikið, þ.e. hvernig reynslan er af framkvæmd verkefna um reynslusveitarfélög.

Þau lög voru samþykkt 1994 og í þeim sagði að félmrh. skyldi hlutast til um að árlega væru lagðar fram á Alþingi skýrslur verkefnisstjórnar reynslusveitarfélaga um framkvæmd verkefnisins. Fyrsta skýrslan skyldi lögð fram vorið 1995 og sú síðasta vorið 2001. Ég minnist þess ekki, herra forseti, að á því þingi sem kannski lýkur á næstu vikum hafi enn komið fram þessi árlega skýrsla sem hæstv. félmrh. á að leggja fram um reynslusveitarfélög, en þau eru einmitt tilkomin til þess að unnt sé að leggja mat á flutning ýmissa verkefna, stærri og smærri verkefna, til sveitarfélaganna eins og í húsnæðismálum, öldrunarmálum, heilbrigðismálum, skólamálum og málefnum fatlaðra. Ég sé mér til nokkurra vonbrigða að á síðustu skýrslu sem hæstv. ráðherra lagði fram um reynslusveitarfélög er út af fyrir sig mjög lítið að græða. Ef menn hafa farið yfir verkefnasvið og sjálfsstjórn sveitarfélaga þar sem reynt er að efla sjálfsstjórn sveitarfélaganna og taka verkefni frá ríkinu þannig að stjórnsýslulega séu sveitarfélögin ekki eins háð ríkinu og þau hafa verið í ýmsum málaflokkum, þá ætti að vera komin einhver reynsla á það þannig að ráðherrann hefði getað gert okkur grein fyrir því í skýrslunni sem hann flutti í fyrra hvernig reynslan er af flutningnum til þessara sveitarfélaga. Það er mjög áhugavert að vita hvernig þetta hefur reynst í ýmsum málaflokkum, t.d. á Akureyri, hvað varðar málefni fatlaðra og í Vestmanneyjum sem menn samþykktu að taka að sér það verkefni. Minnist ég þess þá, herra forseti, að flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga úr málaflokknum fatlaðir átti að verða núna um næstu áramót. Ég veit ekki hvort af því verður en samkvæmt lögum á það að vera um næstu áramót. Það hefði verið mjög gagnlegt að fá einhverja vitneskju um hvort það frestast.

Í síðustu skýrslu sem ráðherrann lagði fram eru aðeins listuð upp þau sveitarfélög sem hafa tekið að sér reynsluverkefni og eru flokkuð sem reynslusveitarfélög með ákveðin ný viðfangsefni á sinni könnu. En þar er einungis getið um samþykkt verkefni sem hefur tekist þá samkomulag um og hins vegar verkefni sem hefur verið fallið frá og ekki náðst samstaða um. Síðan er lítið getið um það hvernig reynslan af þessu er.

Ég held að margir hafi kannski ekki gert athugasemdir við það í fyrra --- ég gerði það a.m.k. ekki, herra forseti, en var þó að vonast til þess --- að í þeirri skýrslu sem ég hélt að ráðherra mundi leggja fram á þessu þingi yrði nánar farið yfir það fyrir þingið og þingmenn hver reynslan af þessu er. Þess vegna hefði ég gjarnan viljað spyrja hæstv. ráðherra um það. Þó skal ekki gera kröfu um að hann verði hér í salnum. Hann svarar því þá við 3. umr., ef ég fer aftur inn á það, hvort vænta megi þessarar skýrslu.

Skýrslan var mun ítarlegri þegar hún var flutt hér 1995, væntanlega þá af þáv. félmrh. Rannveigu Guðmundsdóttur en í henni var farið nokkrum orðum um undirbúning þessara tilrauna og næstu skref í málinu.

Ég taldi rétt, herra forseti, að tengja þetta við þessa umræðu sem ég vildi aðeins fara inn á vegna þess, eins og ég sagði, að það stingur nokkuð í stúf að hafa þessa tölu hér. Ég er alls ekki að gera tillögu um breytingar en vildi þó að menn hefðu betur hugað að þessu. Það væri fróðlegt að vita hvort þetta hefði eitthvað verið rætt í hv. félmn. Ég segi enn og aftur að á þessum málum er verulegur skriður og því má vera að menn telji þess vegna ekki ástæðu til að gera neinar breytingar á og vilji hinkra enn um sinn og sjá hverju fram vindur. En auðséð er og ætti náttúrlega að vera öllum ljóst að viðfangsefni eins og grunnskóli, nema það sé þá samvinnuverkefni, eru litlum sveitarfélögum auðvitað ofvaxin.

Herra forseti. Ég hef talið ástæðu til að fara nokkuð ítarlega yfir það frv. sem hér er til umræðu, ekki síst þau umdeildu atriði, þau umdeildu stóru mál sem hér hafa verið rædd á síðustu dögum og verða væntanlega áfram. Ég get út af fyrir sig, herra forseti, ekki séð nein merki þess, hvað sem síðar verður á þessu kvöldi eða næstu daga þegar við ræðum þessi mál, að stjórnarliðar ætli nokkuð að hreyfa sig í þessu máli eða koma til móts við sjónarmið okkar stjórnarandstæðinga og ekki þó aðeins sjónarmið okkar heldur alls þess fjölda sem fyrir utan þinghúsið er og horfir stíft hingað til þingsins í von um að stjórnarliðar verði við þeirri sanngjörnu ósk og bón sem komið hefur um frestun þessa máls á hv. Alþingi.

Það skulu verða mín lokaorð eins og upphafsorð mín voru eftir hlé, að ég tel það ekki boðlegt einstökum stjórnarliðum að afgreiða þá ítarlegu og málefnalegu umræðu sem hér fer fram með þeim orðum að hér sé um eitthvert kjaftæði að ræða og bið ég þá sem því halda fram að athuga það að með því eru þeir að afgreiða bón þeirra sem fyrir utan þetta þinghús eru, þeirra stóru hópa í umhverfismálum, útivistarmálum og ferðamálum sem færa fyrir sínum sjónarmiðum mikil og sterk rök sem við höfum flutt í þingsali, þá eru þessir sömu þingmenn um leið að afgreiða þessi samtök sem best þekkja til þessara mála að þeir fari bara með kjaftæði og það er ekki boðlegt þessu þingi, herra forseti, þegar við fjöllum um svo stórt mál og öllu máli skiptir hvernig við höldum á því fyrir framtíðina og komandi kynslóðir.

Ég vona að við berum gæfu til þess að ná saman um það áður en þessu þingi lýkur að fresta þessu mikilvæga máli og reyna, eins og stjórnarliðar og stjórnarandstaða ættu að gera í svona stóru máli, að ná góðri sátt um það sem tryggir frið úti í þjóðfélaginu en leiðir ekki til ófriðar og árekstra eins og margir umsagnaraðilar boða að geti gerst ef hv. stjórnarliðar ætla að halda fram sem horfir og keyra þetta mál í gegnum þingið í bullandi andstöðu við meiri hluta þjóðarinnar. Það fullyrði ég, herra forseti.