Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 22:06:33 (6231)

1998-05-05 22:06:33# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[22:06]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að fara nokkrum orðum um þær kringumstæður og þá umgjörð sem þessari umræðu er sköpuð. Einkum og sér í lagi vil ég staldra við þau ummæli sem féllu fyrr í dag og voru endurtekin í fréttum Stöðvar 2 og réttilega voru höfð eftir hv. þm. Pétri H. Blöndal, ummæli sem voru fyllilega vítaverð --- fyllilega vítaverð þar sem hv. þm. gaf þá einkunn að almenn pólitísk umræða, málefnaleg umræða um mikilvægt lagafrumvarp væri kjaftæði. Slík einkunnagjöf lýsir hv. þm. auðvitað betur en þeim sem hann vildi beina þessum orðum að.

Ég vildi líka vekja á því athygli, virðulegi forseti, að þessi hv. þm. er búinn að halda hér tvöfalt fleiri ræður en nokkur annar þingmaður við þessa umræðu. Hann er búinn að halda 20 ræður um þetta mál, er búinn að koma upp í ræðustólinn 20 sinnum. (PHB: Passar ekki!) 20 sinnum hefur hann séð ástæðu til þess að berja í borðið og ræða það mál sem hér um ræðir.

Af þessum sökum, virðulegi forseti, geri ég mjög ákveðna kröfu til þessa hv. þm. sem hefur orðið uppvís, í a.m.k. 18 eða 19 sinnum af þessum 20 skiptum, að mikilli fávísi hvað varðar það mál sem hér um ræðir, raunar ekki í fyrsta skipti því að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á því kjörtímabili sem nú fer senn að ljúka, sem betur fer, orðið uppvís að slíkri andúð á sveitarfélögum, á sveitarstjórnarmönnum að fátt er til jafnaðar. Hann hefur gjarnan talað um sveitarstjórnirnar í landinu í sömu andrá og þrýstihópa af ýmsum tegundum og gerðum og talar gjarnan þannig að sveitarstjórnirnar í landinu réðu miklu meiru en ástæða væri til. Það er eitt af þessu.

Í þessum fjölmörgu ræðum hans, allt of mörgu sem ég ætla mér ekki að gefa neina eina einkunn á borð við þá sem hann gerði fyrr í dag --- ég ætla ekki að taka mér í munn orðið kjaftæði þó ég gæti það vafalaust. Mér dettur það ekki í hug hins vegar. Ég vil ræða málið málefnalega við hann og aðra þingmenn hér. En mikið lifandis skelfing gæti mér hins vegar komið það orð til hugar en ég ætla ekki að láta það eftir mér, alls ekki. Það verða aðrir hv. þingmenn, virðulegi forseti, að gefa 20 ræðum hv. þm. Péturs H. Blöndals í þessari umræðu þær einkunnir sem þar verða.

Þekkingarleysi hv. þm. og raunar fleiri í þessari umræðu á mikilvægi sveitarstjórna og þess frv. sem við ræðum hér er takmarkalítið satt að segja. Hér hefur umræðan mestan part, a.m.k. út í frá, í fjölmiðlum og í almennri umræðu í samfélaginu, lotið að 1. gr. og bráðabirgðaákvæði frv. sem eins og kunnugt er snýr að forræði yfir hálendi Íslands. En auðvitað er það þannig að þetta frv. er svo langtum viðameira en eingöngu þeir þættir málsins. Þess vegna er það meira en skiljanlegt, það er raunar alveg nauðsynlegt að þingmenn fari mjög ítarlega yfir þetta viðamikla frv. sem er auðvitað ekkert mjög smátt í sniðum. Það telur meira en 100 greinar og raunar lagaumgjörð um það viðamikla og mikilvæga starf sem sveitarfélögin, önnur helsta stjórnsýslueining hér á landi hefur með höndum. Ég ætla að láta mér það eftir seinna í ræðu minni að fara í gegnum smákennslustund fyrir hv. þm. Pétur H. Blöndal og aðra þá sem augljóslega þurfa á því að halda þegar kemur að hinu mikilvæga verkefni sem sveitarfélögin hafa með höndum í samfélagi okkar, því mikilvæga verkefni sem sveitarfélögin hafa með höndum gagnvart íbúum þessa lands. Ég hef stundum sagt það og segi það enn og aftur að hlutverk þeirra er um margt veigameira gagnvart þjónustu við fólkið í landinu en annars þau mikilvægu verkefni sem við höfum hér með höndum. Það helgast auðvitað fyrst og síðast af því að nálægðin er meiri, möguleikar sveitarstjórnarmanna til að bregðast skjótt og vel við þeim þörfum og oft og tíðum eðlilegu óskum sem fram koma hjá íbúunum eru þannig að áhrif þeirra á líf fólks í landinu frá degi til dags, frá viku til viku, frá mánuði til mánaðar er sennilega miklum mun meiri en öll lög sem við setjum á hverjum vetri og er þá ekki endilega samræmi milli fjölda lagasetningar og áhrifa þeirra á þjóðfélagsgerðina eða líf fólksins í þessu landi.

Ég árétta það, virðulegi forseti, að í mínum huga er ekki nokkur spurning um það að störf og stefna í sveitarstjórnum í landinu er miklu áhrifaríkari og snarari þáttur við mótun lífs og leikja íslensku þjóðarinnar en sú mikilvæga lagasetning og lagasmíð sem hér er unnin í þessu húsi.

Það er síðan annar þáttur þess máls sem ég mun vafalaust drepa á hér á eftir, hvernig háttað er og háttað á að vera samspili þessara tveggja stjórnsýslueininga, þ.e. framkvæmdarvaldsins í umboði Alþingis og undir eftirliti Alþingis og síðan sveitarstjórnarstigsins. Þar hefur mér löngum þótt ástæða til að gera breytingar á og einmitt í því ljósi hef ég fylgst mjög grannt með og beið spenntur eftir því frv. sem hér var lagt fram fyrr á þessu þingi og las það spjaldanna á milli. Ég hef síðan eins og aðrir þingmenn væntanlega og fjölmargir sveitarstjórnarmenn og fjölmargir íbúar í þessu landi fylgst mjög gaumgæfilega með þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað, þeim breytingum sem félmn. hefur gert á frv. Og ég eins og margir aðrir spyr að leikslokum í því efni og vil í upphafi máls míns aðeins fara um það orðum hvort þetta frv. almennt sé til þess fallið að auka mér og vafalaust mörgum öðrum bjartsýni um að lögin styrki sveitarstjórnarstigið í landinu, styrki sjálfsforræði sveitarfélaga, styrki vald heimamanna í héraði, svo ég noti nokkrar þær kennisetningar sem algengar eru þegar stjórnmálamenn eru annars vegar og vilja tala við sveitarstjórnarmenn eða heimafólk á hverjum stað, þegar ráðherrar ríða um héruð og ræða við heimamenn og mikilvægi þess að færa valdið heim í hérað. Er þetta frv. með öðrum orðum þannig úr garði gert að við getum með góðri samvisku sagt að hér séu menn að ganga götuna fram um veg í þá veruna að tryggja enn frekar en orðið er vald og vægi á sveitarstjórnarstiginu? Að hér sé verið að stíga markvisst og metnaðarfullt skref í þá áttina að færa vald frá tiltölulega miðstýrðu ríkisvaldi yfir til fjölþætts stjórnvalds sem sveitarfélögin eru?

[22:15]

Ég held að það sé alveg sama hvernig ég velti þessum spurningum upp og hvaða orð ég nota við að spyrja þeirra. Svarið er því miður nei. Þá geta sumir spurt sem svo: Já, en gengur þetta ekki á svig við það sem flokksbræður mínir og flokkssystur mínar hafa sagt við 1. gr. þessa frv. þar sem við höfum sannarlega og með réttu gagnrýnt það að menn taki það skref sem hér hefur hvað mest verið deilt um að skipta landinu öllu upp í sveitarfélög?

Ég er sveitarstjórnarmaður í eðli mínu, ekki bara upp á punt, ekki bara í plati og þegar ég samþykki það og vil stuðla að því að færð séu verkefni á sveitarstjórnarstigið, að völd og áhrif þess séu færð út, þá vil ég ekki eingöngu að það sé gert í orði. Þá vil ég að það sé gert á borði, að hugur fylgi þar máli. Það er verr af stað farið en heima setið þegar menn eru með sýndarmennsku í þá veru. Það er verra fyrir fólkið í byggðunum, það er verra fyrir sveitarstjórnarmennina, það er verra fyrir stjórnsýsluna í landinu vegna þess að það mun eingöngu leiða til ófarnaðar eins og ég ætla að rekja hér á eftir. Með öðrum orðum, mér hugnast það ekki burt séð frá öllum öðrum röksemdum þessa máls að menn ætli að færa hálendi Íslands undir sveitarstjórnarstigið, en að sumu leyti og raunar mörgu leyti færa valdið jafnharðan úr þeirra höndum. Þá er ég ekkert að ræða um það sem menn hafa fjallað eðlilega mikið um hvort það sé rétt eða rangt að svo og svo stór hluti sveitarfélaga á landinu eigi lögsögu á hálendinu öllu eftir þeirri skiptingu sem hér er um rætt. Ég er bara að tala um grundvallarprinsippið í málinu. Ég er raunar að nálgast það hvort einhver skynsemi sé í því og hvort einhver heilleg stefna sé í því að færa slík verkefni til þessara tiltölulega smáu sveitarfélaga en jafnharðan á flóttanum taka þau til baka og færa þau inn í annars flókinn og illskýranlegan og óútskýrðan farveg sem einhvers konar sameiningarnefndir eru og mjög flókið stjórnkerfi á Reykjavíkursvæðinu. Ég vil nálgast þetta mál með þessum hætti og ætla að geyma mér eilítið að ræða hinn þátt málsins sem flestir hafa staldrað við.

Þetta er feikilega mikilvægt í mínum huga því að við eigum ekki að ræða sveitarstjórnarmál eingöngu út frá einhverjum tæknilegum forsendum. Ekki eingöngu út frá því að lagfæra þurfi lagasetningu sem samþykkt var og frágengin 1986 og færa hana og lagfæra með hliðsjón af kæruefnum, með hliðsjón af ábendingum heldur þurfum við að ræða það frá víðu sjónarhorni og út frá grundvallarhugsunum okkar um það hvaða hlutverki við viljum yfirleitt að sveitarfélögin í landinu gegni. Ég drap eilítið á það í fyrri ræðu minni sem ég held að sé nauðsynlegt að halda til haga líka, og ég sakna þess satt að segja að Framsfl. sem fer með forræði þessara mála í núv. ríkisstjórn, félmrn., hafði mjög hátt um það, fyrir ekkert allt of mörgum árum og þá undir forsæti Steingríms Hermannssonar, að það væri skynsamlegast og best að menn tækju upp þriðja stjórnsýslustigið svokallað, fjórðungsstjórnir. Ég man ekki nákvæmlega hvaða kosningar það voru sem þau mál voru kannski hvað mest rædd og reifuð en það er ekki mjög langt síðan. En það eru satt að setja einhver ár síðan ég hef heyrt á þetta minnst.

Spurning mín er sú og ég varpa henni til sérfræðings Framsfl. í sveitarstjórnarmálum og í stjórnsýslumálum yfirleitt, hæstv. félmrh., hvort Framsfl. sé algerlega fallinn frá þessari stefnumörkun, hvort hún hafi á einhverjum tíma, á einhverju stigi og einhverri stund sem fram hjá mér hefur þá sennilega farið verið slegin af og Framsfl. undirgengist það sem við jafnaðarmenn og við alþýðuflokksmenn höfum ævinlega verið ákaflega skýrir á, að í okkar litla landi væri verið að flækja stjórnsýsluna óþarflega með því að bæta við þriðja stjórnsýslustiginu. Það gæti vel verið að þetta ætti við í stærri þjóðum eins og Þýskalandi með sín lönd, en á Íslandi hefðum við ekkert við þetta að gera.

Ég sé, virðulegi forseti, að hæstv. félmrh. Páll Pétursson nikkar og svarar þar með spurningu minni um það hvort framsóknarmenn hafi fallið frá þeirri stefnu sinni. Ég met það svo að Framsfl. hafi þar með skipt um skoðun. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti en í þessu tilfelli er það auðvitað alveg sérstakt fagnaðarefni. Út af fyrir sig er gleðilegt að maður hefur yfir einhverju að fagna á þessu síðkvöldi.

Það hefur að vísu margt annað breyst hjá þessum sama Framsfl. af því að ég nefni hann til sögunnar og breytingar verið á ásýnd hans og stefnumiðum. Þó að ég gleðjist alveg sérstaklega yfir því að þessi stefna fráfarandi formanns flokksins, Steingríms Hermannssonar, hafi orðið undan að láta eru það óneitanlega önnur stefnumál sem sá ágæti maður hafði í heiðri og hélt hátt á lofti sem formaður Framsfl. sem ég sakna einkum og sér í lagi núna þegar Framsfl. er orðinn lítið meira en skugginn af sjálfum sér og orðinn nánast eins og deild í Sjálfstfl. eins og hvert málið á fætur öðru sem kemur í þetta hús ber með sér. (Gripið fram í.) Svo ég nefni það ekki þegar Framsfl. hefur tekið það hlutverk að sér eða formaður hans að gegna de facto, í raun, varaformennsku í Sjálfstfl., þá er þetta fullkomnað eins og ónefndur maður sagði á krossinum fyrir tæpum 2000 árum.

Ég var hins vegar að ræða eðli sveitarstjórnanna. Ég sagði áðan að mér líkaði það ekki og ég hefði eindregið lagst gegn því þegar menn væru í orði kveðnu að tala hlýlega til sveitarfélaga og mikilvægis þeirra í íslenskri stjórnsýslu en svo væri þetta ekkert annað en blaður og bull, væri þetta bara tal út í vindinn. Þannig hef ég ekki viljað standa að verki. Ég þekki það býsna vel sitt hvorum megin við borðið, bæði sem sveitarstjórnarmaður til tólf ára og síðan sem ráðherra og þingmaður, að það er algert grundvallaratriði í þessum efnum að þarna séu skýr skil, skýrar verklagsreglur og skýr hlutverkaskipti. Öllum sé það ljóst hver fari með hvaða verkefni í þessu sambandi og samkvæmt hvaða leikreglum. Það er alger óþarfi að rifja það upp fyrir þeim hv. þingmönnum sem eitthvað þekkja til og þeir eru sem betur fer allnokkrir í þessum sal þó að fáa sjái ég framan í á þessu augnabliki, þá er það þannig og ég held ég fari nærri með það að þeir eru yfir 20 hv. þingmenn sem sitja á yfirstandandi þingi sem hafa reynslu í íslenskum sveitarstjórnum frá fyrri tíð, um lengri eða skemmri tíma og raunar held ég að það séu einir tveir eða þrír sem enn þá sitja í sveitarstjórnum, a.m.k. út þennan mánuð þar til kosningar fara fram. Við búum sem betur fer við það að stór hluti hv. þingmanna þekkir vel af eigin skinni og eigin raun hvað verið er að fjalla um, hvað hér er í veði sem þetta frv. inniheldur. Þess vegna einkum og sér í lagi læt ég það fara í taugarnar á mér, sem ég ætti auðvitað ekki að gera, þegar aðrir hv. þingmenn sem ég hirði ekki um að nafngreina aftur eru að koma upp 10, 15 eða 20 sinnum og opinbera þekkingarleysi sitt á þeim málum sem hér eru til umfjöllunar og leyfa sér síðan að gefa innihaldsríkum og viðamiklum ræðum einkunnir, leyfa sér að gefa --- hvernig ber að orða það, ræðu sem innihélt fróðleik mikinn, enda þekkingin þar til staðar af hálfu formanns þingflokks jafnaðarmanna, Rannveigar Guðmundsdóttur, sem hefur að baki áralanga reynslu í sveitarstjórn í næststærsta sveitarfélagi landsins, einkunnir. Og að menn skuli koma hér blautir á bak við bæði eyrun í þessum málaflokki og leyfa sér að fara hér með háreysti eins og krakkar í leikskóla og gefa einkunnir á báða bóga. Ég gef ekkert fyrir það, ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut. Kannski er alveg ástæðulaust að ég láti þetta fara eitthvað í skapið á mér og ég ætla að reyna að láta það ekki gera það. Auðvitað svarar svona skætingur sér sjálfur í tíma og lengd.

Ég þekki það nokkuð vel eins og ég sagði áðan hvernig þessi samskipti gjarnan hafa verið á milli ríkis og sveitarfélaga. Það hefur gengið á ýmsu í þeim efnum og kannski ekki við annan frekar en hinn ætíð að sakast þó að yfirleitt hafi það verið á þann veginn að ríkisstjórn hvers tíma, og þá gjarnan við fjárlagagerð, hafi tekið einhverjar þær ákvarðanir sem hafa haft mikil eða lítil áhrif á fjárhag sveitarfélaga og áætlanagerð þeirra til lengri eða skemmri tíma. Oft hafa komið upp á haustin háhitamál af þeim sökum sem menn hafa reynt og orðið að leysa með viðræðum millum aðila og oftar en ekki sem betur fer náð landi en þessar uppákomur hafa sannarlega orðið til þess að stundum hefur orðið vík á milli vina og trúnaðarbrestir um lengri eða skemmri tíma.

Ég er ekki að kenna einni ríkisstjórn fremur en annarri um þetta. Ég hygg að það megi fara langt aftur og engin ríkisstjórn sé út af fyrir sig saklaus af því að hafa verið að krukka með þessum hætti í sveitarstjórnarstigið eða þær leikreglur sem sveitarfélögunum hafa verið settar lögum samkvæmt og gjarnan nýtt þá lagið sem mögulegt gerist við fjárlagagerð á hverju hausti og um hver áramót. En þetta er auðvitað ekki til fyrirmyndar. Ég held að allir muni það til að mynda þegar þannig var búið um hnúta að ríki og sveitarfélög höfðu um það ákveðið samspil og samkrull að reisa barnaskóla eða grunnskóla vítt og breitt um landið. Ég held að allir sveitarstjórnarmenn eða þeir sem fylgdust með þeim málum muni hvernig þeir hlutir gengu fram, muni það þegar hið háa Alþingi var við fjárlagagerð að veita 5 þús. kr. til tiltekinna verkefna, til tiltekinna skólabygginga ár eftir ár eftir ár eftir ár, aðrar 5 þús. kr. til sundlaugabygginga ár eftir ár eftir ár eftir ár. 5--6 ár voru ekki óalgeng. Sveitarfélögin voru auðvitað búin þá fyrir margt löngu að ráðast í viðkomandi byggingarframkvæmdir og ljúka þeim og þurftu síðan árum saman að sækja þessi framlög sem voru ekki alltaf viðurkennd hjá viðkomandi ráðuneyti. Ég held t.d. að virðulegur forseti muni það, þáv. menntmrh., þegar ég á bæjarstjórastóli mínum í Hafnarfirði þurfti að sækja til hans um uppgjör á framkvæmdum sem áttu sér stað þá mörgum árum áður en hann settist í stól menntmrh. og sumar hverjar mörgum árum áður en ég settist í stól bæjarstjóra þannig að í þetta fór mikill tími, útreikningar voru flóknir og stundum þurfti að sækja svo langt aftur í tímann að elstu menn mundu ekki lengur hvernig þessi kaup höfðu gerst og hverju var lofað og um hvað var talað.

[22:30]

Gjarnan var gripið til þess nauðþurftarráðs að nota pennastriksaðferðina til að ljúka þessum málum á einhvern hátt. En ég held samt sem áður að allir hafi í raun tapað á þessu samskiptamunstri, á þessu seinvirka kerfi, í þessum borðtennis þar sem boltinn gekk fram og til baka árum saman, bréfin skiptu tugum og hundruðum og hvorki gekk né rak.

Ég er þess fullviss og veit raunar að okkur hefur miðað í rétta átt í þessu, þetta er orðið skárra hvað samspil ríkisvaldsins og sveitarfélaganna varðar. Það er einfaldlega orðið skárra vegna þess að að sumu leyti hefur þeim sameiginlegu verkefnum sem skipta mestu máli í sveitarfélögum farið fækkandi. Þar er langveigaþyngst sú ákvörðun sem tekin var um að skólabyggingar, grunnskólar eru algerlega og ákveðið á forræði sveitarfélaganna. Þó er það ekki alfarið svo því að í því átaki sem þingið hefur samþykkt og sveitarfélögin vinna eftir varðandi einsetningu skólanna er ákveðinn hundraðshluti sem ríkisvaldið hefur lýst yfir að það ætli að standa skil á þar til einsetningarátakinu er lokið. Ég vil hins vegar ekki trúa því og neita að trúa því að þar sé ekki allt eins og það á að vera og þeir fjármunir verði til staðar þegar sveitarfélög sækja eftir þeim í samræmi við það verklag sem lagt hefur verið upp með.

Því miður er þessu ekki alveg lokið enn þá og við í þinginu höfum til að mynda átt í erfiðleikum með það, og ég nefni sérstaklega til sögunnar samgn. í því sambandi, hvernig hátta eigi samskiptum um hafnargerð. Út af fyrir sig löng saga á bak við það að ríkisvaldið er þátttakandi í hafnargerð eftir tiltölulega flóknum og síbreytilegum reglum sem sumpart Alþingi setur, sumpart samgrn. um kostnaðarhlutdeild ríkisvaldsins í tiltekinni hafnargerð. Þau mál hafa kostað mikinn tíma og mikið erfiði og í raun veit enginn sem að þeim málum kemur hvaða reglum ber að hlíta.

Hv. samgn. hefur á yfirstandandi kjörtímabili fengið athugasemdir um það og ábendingar og leiðsögn frá Ríkisendurskoðun. Við höfum í þeirri nefnd átt viðræður við fjmrn. Við höfum einatt hlustað á viðhorf sveitarstjórnarmannanna sjálfra, þ.e. hafnarstjórnanna í umboði sveitarstjórna, en enn þá er það þannig að enginn getur til að mynda svarað þeirri grundvallarspurningu, eins hlægilegt og það í raun er, hvort því sveitarfélagi, sem telur nauðsynlegt að ráðast í mikilvægar hafnarframkvæmdir og hefur ekki fengið eyrnamerkta neina fjárveitingu á gildandi hafnaáætlun, sé heimilt að hefjast handa á eigin ábyrgð, hvort það þýði, ef sveitarfélagið fer af stað enda þótt Siglingamálastofnun hafi þegar samþykkt teikningar og að Siglingamálastofnun felli sig við fyrirkomulag hafnarmannvirkjanna þá geti viðkomandi hafnarstjórn ekki verið viss um það að henni verði hegnt fyrir þetta ,,bráðræði`` eða fyrir þetta ,,frumkvæði`` að ráðast í framkvæmdir.

Sumir hafa haldið því fram að fari sveitarfélag af stað án þess að grænt ljós liggi fyrir um einhverja fjárveitingu á hafnaáætlun þýði það að viðkomandi sveitarfélag, viðkomandi höfn, sé búin að útiloka sig frá því um aldur og ævi um alla framtíð að fá hlutdeild samkvæmt hafnalögum í viðkomandi hafnarmannvirkjum. Þetta er náttúrlega algerlega óþolandi aðstaða fyrir alla hlutaðeigandi aðila. Það er óþolandi fyrir okkur sem erum á hinu háa Alþingi og þá einkum og sér í lagi þá sem sitja í samgn. og verða að teljast sérfræðingar í þessum efnum að þurfa að svara gestum og gangandi frá hinum ýmsu höfnum á landinu sem leita eðlilegra svara við svona einföldum spurningum. Þetta er óþolandi fyrir samgrh. og starfsfólk hans. Við þetta er ekki búandi fyrir Siglingamálastofnun. Hafnaráð hangir í lausu lofti og síðast en ekki síst er ekki ljóst hvaða leikreglur gilda um hafnirnar hringinn í kringum landið.

Virðulegi forseti. Ég tek þetta sem eitt dæmi um í hvaða öngstræti samkrull ríkis og sveitarfélaga getur stundum lent. Það hefur oft flögrað að mér hvort menn þurfi ekki að stokka upp til að mynda spilin varðandi hafnargerð um landið allt og hvort ekki þurfi að semja þar algerlega upp á nýtt, hvort ríkissjóður þurfi ekki með einhverjum hætti að semja sig út úr þeirri hlutdeild og að bygging og uppbygging hafna hringinn í kringum landið verði algerlega á forræði sveitarstjórnanna sjálfra.

Ég veit að aðstaða hafnanna er mjög mismunandi og sumar búa vel, aðrar miður eins og gengur, en út af fyrir sig mætti reyna að leysa þann vanda með jöfnunarsjóðsleiðum eins og menn hafa gert á öðrum vettvangi í þessum efnum en ég held að margir séu mér sammála um að þetta óljósa samspil fjárveitingavaldsins á Alþingi við fjárlagagerð og við samþykkt hafnaáætlunar til fjögurra ára í senn og ríkisstjórnarinnar við hafnir hringinn í kringum landið hafi m.a. leitt til þess að menn hafi stundum farið í óarðbærar fjárfestingar, farið í fjárfestingar sem viðkomandi sveitarfélag hefði aldrei látið sér koma til hugar að fara í hefði þurft að taka þá peninga sem þar um ræddi af eigin sjálfsaflafé hugsanlega og þurft að fresta öðrum framkvæmdum fyrir þá hafnargerð sem í var ráðist.

Ég held að algerlega ástæðulaust sé fyrir mig að rekja dæmi um þetta. Hv. þm. þekkja þau auðvitað frá árum áður og viðkomandi heimamenn viðurkenna í raun og sanni að svona var þetta. Til að mynda sé ég þarna fyrir mér verkefni sem er mikilvægt að menn staldri við og velti fyrir sér hvort ekki eigi að semja upp á nýtt, ekki eigi að gefa upp á nýtt og skoða algerlega nýjar leikreglur í þessum efnum.

Vegamálin eru náskyld þessu og að sumu leyti eru um margt óljósar reglur hvað þeim viðvíkur. Við þurfum ekkert annað en rifja upp orðræður sem áttu sér stað fyrr á þessu ári í samskiptum hæstv. samgrh. og borgarstjórans í Reykjavík vegna Gullinbrúar, einmitt um þetta atriði sem ég nefndi áðan um, þ.e. hver gefur í raun framkvæmdaleyfið. Má borgin reiða af hendi fé og kosta flýtiframkvæmdir upp á von og óvon um endurgreiðslu ríkisins síðar meir eða er það óheimilt og ber að refsa fyrir slíkan röskleika? Menn hafa ekkert klárt og kvitt svar við þessu.

Hv. þm. Árni M. Mathiesen lagði fram frv. til að reyna að svara þessum spurningum og sá sem hér stendur var meðflutningsmaður hans að því frv. þar sem reynt var að nálgast þetta viðfangsefni með einhverjum hætti því að ástæðan er auðvitað sú fyrir því að ríkisvaldið og við skulum bara hafa hlutina eins og þeir eru, hæstv. fjmrh. er stundum mjög ófús að gjalda jáyrði við því að af stað sé farið með tilteknar stórframkvæmdir í hafnar- eða vegagerð jafnvel þótt aðrir ætli að borga brúsann eitthvað fram í tímann því að allt færist þetta á ríkisreikninginn, allt færist þetta sem skuldbinding á ríkisreikning, skuldbinding ríkissjóðs, og því hefur hann, hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson, af því að ég er að ræða um dæmi sem eru nýleg í sögunni, verið mjög andvígur því að ljá máls á svona verklagi vegna þess að ríkisreikningur skekkist að áliti hans.

Í þessu frv. hv. þm. Árna M. Mathiesens og fleiri var einfaldlega við það miðað að skuldbindingar af þessum sökum sem ríkissjóður hefði undirgengist yrðu færðar jafnharðan og þær eru greiddar. Það þýðir með öðrum orðum að ríkisreikningur skekkist ekki á þann hátt sem ég lýsti áðan heldur færast þessar skuldbindingar samkvæmt orðanna hljóðan eingöngu um það leyti sem fé er innt af hendi til viðkomandi hafna eða viðkomandi vegagerðar.

Skemmst er frá því að segja að viðbrögð við þessari tillögu hafa verið ákaflega neikvæð frá umsagnaraðilum og fjmrn. hefur lagst gegn þessu fyrirkomulagi og raunar Ríkisendurskoðun líka sem segir þetta ganga á svig við þá meginhugsun sem er að finna í fjárreiðufrv. sem samþykkt var fyrir ekki margt löngu og það kann vel að vera. Kannski er þetta ekki lausnin, kannski nálgumst við ekki þetta viðfangsefni á þennan hátt. Kannski nálgumst við það eingöngu með því að gera það í gegnum sveitarstjórnarstigið með því að ræða það pólitískt, einmitt á kvöldi eins og þessu, við frumvarpasmíð eins og þessa, hvort þessum verkefnum megi koma fyrir með einhverjum öðrum hætti, hvort verkefnaskipting ríkis og sveitarfélaga á þessum vettvangi, hvort megi breyta tekjuskiptingu á þann veg að línur séu skýrari og klárari. Ég held að ég megi vel gera það. Auðvitað vitum við það, hv. þm. og virðulegi forseti, að skilgreining til að mynda á því hvenær Vegagerðin og þar með Vegasjóður er orðinn veghaldari, hvenær með öðrum orðum vegir á Íslandi eru þjóðvegir og þar með á forræði ríkisvaldsins. Það er mjög tilviljanakennt.

Út af fyrir sig erfitt að setja einhverjar almennar reglur í því sambandi. Vissulega hafa menn gjarnan sagt sem svo að meginstofnæðar, svo sem á höfuðborgarsvæðinu, séu almennt á forræði ríkisins, þ.e. að koma bílum og fólki milli hverfa, milli sveitarfélaga, séu hin eðlilegu verkefni ríkisins og Vegagerðarinnar og Vegasjóðs en vegir innan hverfa séu á forræði viðkomandi sveitarfélags. En á þessu eru undantekningar og oft og tíðum rísa mikil álitamál um hvenær vegir eru á forræði sveitarfélaga og hvenær vegir eru á forræði ríkisins. Þess eru til að mynda dæmi í smærri byggðarlögum þar sem vegir þvert í gegnum þorp eru á forræði ríkisins en ættu sumpart að vera sem innanbæjarvegur. Þetta er oft á gráu svæði og er enn eitt dæmið um að okkur er mjög mikilvægt að fara mjög gaumgæfilega yfir það hvernig við ætlum að haga þessum samskiptum milli ríkis og sveitarfélaga.

[22:45]

Því segi ég enn og aftur sem mitt viðlag í þessari umræðu, virðulegi forseti, að því miður tekur þetta frv. til sveitarstjórnarlaga ekkert á þessum málum. Nú geta menn svo sem sagt: Enda er ekki ætlast til þess því að í 7. gr. frv. eru í raun þau atriði sem ég er að vekja máls á afgreidd í einni setningu, þeirri sem stendur í 1. mgr. og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum.``

Vissulega má það rétt vera að menn hafi til þess tóm og tækifæri síðar meir að lagfæra einstök lög, um vegi á Íslandi, um hafnargerð og því þurfi ekki að verja löngum tíma í þetta ákvæði frv. En þessu er ég algerlega ósammála, virðulegi forseti, því að sú lagasetning sem við erum að vinna hér er grundvöllur allra þessara sérlaga sem Alþingi er að setja um tiltekin verkefni sem sveitarfélögum allt í kringum landið eru falin. Og ef þessi grundvöllur er ekki í lagi, þá byggja hin lögin auðvitað á algjörum sandi. Hér er í raun Biblían og sérlögin eru þá Rómverjabréfin. Við verðum að hafa þennan grundvöll alveg skýran og þess vegna árétta ég það að ég sakna þess að menn horfi ekki á þetta frv. með dálítið meiri víðsýni en gert hefur verið, noti það tækifæri og tóm sem nú á að gefast til að ræða sveitarstjórnarmálin í víðasta skilningi þess orðs. Ég ætla að gera það. Og ég vona svo sannarlega og trúi því að einhverjir mínir þankar um þau mál nái að vekja hv. stjórnarliða til vitundar um það að hér erum við að ræða mjög mikilvæg mál þar sem má ekki kasta til höndum.

Ég nefndi bara sem dæmi þessa tvo málaflokka sem eru að stórum hluta á hendi ríkisins en að verulegum hluta líka á hendi sveitarfélaga, þ.e. vegamál og hafnamál þar sem um feikilegar upphæðir er að ræða. Það er ekkert vit í því að þeir sem þar þurfa um að véla og semja geti ekki reitt sig á skýrar og klárar leikreglur í þeim efnum.

Síðan eru það fleiri mál. Af þeim ástæðum sem ég nefndi áðan um þann grundvöll sem frv. er fyrir annarri mikilvægri starfsemi í sveitarfélögum og einnig vegna þess að ég tel fulla ástæðu vegna þeirra orða sem hafa fallið hér í dag sem hafa lýst alveg ótrúlegri fáfræði á því mikilvæga verkefni sem við erum að fjalla um, þá tel ég brýnt að fara yfir nokkur verkefni sem sveitarfélög hafa með höndum til þess að undirstrika og árétta að það er bara ekki tal út í loftið eða innihaldslausar hátíðaræður þegar sagt er að sveitarfélögin gegni mjög veigamiklu hlutverki um mótun lífs fólksins í landinu og hafi í raun áhrif á allan gang mála íslensku þjóðarinnar.

Menn hafa í þessum sal nú upp á síðkastið til að mynda rætt um það og verið um það sammála að málefni fatlaðra ætti að flytja til sveitarfélaga. Ég hef ekki heyrt margar raddir sem hafa andmælt því. Ýmsir hafa hins vegar haft uppi viðvaranir um að einstök sveitarfélög hefðu kannski lítið ráðrúm til þess og litla getu til þess sökum smæðar að ráða við það stóra verkefni en allt að einu er það samþykkt og þegar hefur verið gengið frá lögum þar að lútandi. Ég er þess fullviss að þegar tímar líða munu sveitarfélögin ráða mjög vel við það verkefni og hafa alla burði til þess, einkum og sér í lagi þegar þeim fækkar og þau stækka þar sem þróunin er öll í þá veru sem betur fer.

En það er nauðsynlegt í þessu sambandi að menn fylgi eftir ákveðinni og skýrri stefnu varðandi verkefnatilflutning af þessum toga og ekkert hálfkák, ekkert bakk og engar sveigjur og beygjur séu á slíkri stefnumörkun. Þess vegna verð ég að segja, virðulegi forseti, að það olli mér vonbrigðum þegar því var fleygt og það heyrðist úr hornum að félmrh. hefði upp á eigin spýtur tekið um það ákvörðun að fresta yfirfærslu verkefna á sviði fatlaðra yfir til sveitarfélaganna. Samkvæmt gildandi lögum skal sú yfirfærsla að eiga sér stað um næstu áramót og það hefur þá algerlega farið fram hjá mér a.m.k. hafi verið gerðar breytingar á þeim lögum. Ég held ég geti nokkurn veginn fullyrt að svo hefur ekki verið gert. (Gripið fram í: Það er rétt.) Ef hins vegar á að fresta þessari yfirfærslu málefna fatlaðra sem á að taka gildi um næstu áramót, þá ber auðvitað að gera það núna. Það er enginn bragur á því að hæstv. félmrh. komi hingað einhvern tíma á haustdögum, í október eða nóvember, mánuði eða tveimur áður en þetta á allt að gerast og segi að þessu verði að breyta. Hann hefur lýst því yfir í þinginu að hann hafi það í hyggju. Svona ráðslag er ekki til eftirbreytni og fyrirmyndar og er vont í samskiptum þeirra stjórnsýslustofnana sem ríki og sveitarfélögin eru.

En af því að ég staldra við þetta mál þá er enn eitt mál af þeim toga að ekki er allt með felldu í þessum samskiptum. Ég vil rifja það upp að þann 11. mars 1998, þ.e. fyrir tæpum tveimur mánuðum, átti ég orðaskipti við hæstv. félmrh. um þessa frestun á yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga og spurði hann þá í munnlegri fyrirspurn hvort það væri í raun satt og rétt sem fram hefur komið í fjölmiðlum að hann hefði upp á eigin spýtur tekið ákvörðun um að ekkert yrði af þessum tilflutningi. Hann staðfesti það og bar því þá við að þetta væri ákaflega óheppilegt vegna þess að það væru að koma sveitarstjórnarkosningar. Í þeirri umræðu varð ég hálfagndofa satt að segja og sá ekkert samhengi milli þess að sveitarstjórnarkosningar færu fram 23. maí á árinu 1998 og 1. janúar 1999 ætti þessi tilfærsla að eiga sér stað. Einnig benti ég á það raunar að þegar lögin voru samþykkt hér --- ég held að það sé eitt og hálft ár síðan --- þá vissu menn líka að sveitarstjórnarkosningar yrðu í landinu í maí 1998 þannig að það átti ekki að koma nokkrum manni á óvart. En auðvitað var þetta ekki málið. Þetta var ekki hin raunverulega ástæða fyrir því að félmrh. var búinn að sjá sitt óvænna og taldi ekkert annað gerlegt í stöðunni en að fresta þessari yfirfærslu. Ástæðan var einfaldlega sú að nauðsynleg heimavinna af hálfu ráðuneytisins hafði ekki verið unnin. Hann hafði látið tímann líða án þess að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu í samráði við sveitarfélögin og félög fatlaðra. Það var hinn kaldi veruleiki málsins sem hvorki var hægt að hylja sjónum hv. þingmanna né þjóðarinnar þó hann reyndi að klóra í bakkann þann 11. mars 1998 þegar hann var spurður um þessi mál.

Þá kom það auðvitað fram að fyrir nokkrum vikum síðan, þ.e. skömmu fyrir 11. mars á þessu ári, hafði hæstv. ráðherra áttað sig á því að ekki var allt með felldu varðandi möguleika tveggja umdæma, Reykjavíkurumdæmis og Reykjanesumdæmis, að taka við þessu verkefni vegna þess að ríkið hafði ekki gert þær nauðsynlegu lagfæringar á ýmsum þáttum málsins sem voru óhjákvæmilegar áður en þessi tilfærsla ætti sér stað. Og það var þá, á þessu ári, átta mánuðum áður en tilfærslan átti að taka gildi, sem hann skipaði nefnd sem hafði það verkefni að fjalla um biðlista eftir búsetu og annarri þjónustu hjá svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra og gera framkvæmdaáætlun til nokkurra ára um uppbyggingu þjónustu í þágu fatlaðra. Í þessa nefnd voru settir tveir hv. alþm., tveir háttsettir stjórnarþingmenn. Það er nú orðin regla frekar en undantekning að ráðherrarnir setja slatta af stjórnarþingmönnum í nefndir framkvæmdarvaldsins. Það er út af fyrir sig önnur Ella, virðulegi forseti. En ég vil nefna það í örstuttu framhjáhlaupi að það er orðin spurning hversu eðlilegt það er fyrir hv. þingmenn að vera jafnmiklir þátttakendur í undirbúningsstarfi á vegum framkvæmdarvaldsins og raun ber vitni.

Það er ekki sérstaklega góður bragur á því, ekki síst þegar það er orðið jafnalgengt og nú er hjá núverandi stjórnarflokkum, að stjórnarþingmenn séu hver um annan þveran, sumir hverjir í einni eða tveimur, jafnvel þremur nefndum á vegum framkvæmdarvaldsins og komi síðan hér til þings eftir að hafa unnið að slíkri lagasmíð eftir forskrift framkvæmdarvaldsins og taki upp sitt fyrra hlutverk sem þingmenn. Það er kannski ekkert sem bannar þetta og ég er út af fyrir sig ekki að leggja það til. Það getur vel verið að ýmislegt mæli með þessu í hófi. En mér finnst hins vegar sem við séum búin að missa algerlega tökin á þessu, þ.e. núverandi stjórnarflokkar. Manni virðist sumpart að þetta séu einhvers konar gulrætur fyrir suma hv. þm. sem fengu ekki ráðherrastóla sumir hverjir eða þau formannssæti í nefndum sem þeir áttu von á og gerðu kröfu um í upphafi þings. Það er svona verið að rétta við þann hliðarhalla með því að leyfa þeim að taka þátt í einhverjum nefndum um smíði tiltekinna frumvarpa og leyfa þeim að skoða þetta og skoða hitt. En þetta var útúrdúr.

Þessi nefnd er samt til og í henni sitja tveir þingmenn. Nú eru átta mánuðir þar til tilflutningur á að eiga sér stað lögum samkvæmt því að lögin standa og þau eru ákaflega skýr í þessu sambandi. 1. janúar á næsta ári eiga málefni fatlaðra að flytjast til sveitarfélaganna og fyrr en þessum lögum verður breytt stendur það hvað sem líður áhrifum og yfirlýsingum hæstv. félmrh. En þetta var ekki alveg það versta í þessu sambandi. Þessi nefnd, virðulegi forseti, í þessu mikilvæga samstarfsverkefni sveitarfélaganna og ríkisins ætlar að hafa lokið störfum fyrir 1. ágúst nk. Fjórum mánuðum áður en yfirfærslan á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga á að ganga í garð ætlar nefnd sem félmrh. hefur skipað að hafa lokið störfum og hafa þar með fjallað um biðlista eftir búsetu og annarri þjónustu hjá svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra og leggja fram tillögu að framkvæmdaáætlun fyrir nokkur ár um uppbyggingu þjónustu í þágu fatlaðra. Þá á að leggja fram þessa áætlun þegar í raun og sanni átti að vera búið að ljúka að stórum hluta við þá uppbyggingu sem nú á að setja nefnd í að gera áætlun um.

[23:00]

En ég sagði að þetta væri ekki það versta því að í þessari umræðu upplýsti hæstv. ráðherra að það væri nauðsynlegur fylgifiskur sem að sönnu er rétt með þessari yfirfærslu á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga að gera breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í svari sínu bar hann því við að sér hefði ekki gefist nægilega langur tími til þess að undirbúa þá lagasmíð. Hann lét þess líka getið, virðulegi forseti, að frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga yrði tilbúið í vor. Orðrétt sagði hæstv. ráðherra í þessari umræðu fyrir tæpum tveimur mánuðum, þann 11. mars 1998, með leyfi forseta:

,,Fyrir liggur að lagafrv. verður tilbúið í vor. Þegar lagaramminn er klár, þá getur kostnaðarnefndin gengið frá sínum þætti``. Ég lýk lestrinum. Þegar hann ræðir um kostnaðarnefndina þá er það enn ein nefndin sem skipuð er fulltrúum sveitarfélaga og ríkisins um það hvernig beri að skipta kostnaði. Menn eru með öðrum orðum ekki komnir neitt á veg í því sambandi og eru rúmir sex mánuðir þar til yfirfærslan á að eiga sér stað. Þá getum við lesið áfram: ,,... þá getur kostnaðarnefndin gengið frá sínum þætti og þegar kemur fram á árið eða undir haust sjáum við hve langan tíma þarf til verkefnisins.``

Frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga er ekki komið fram. Það kemur væntanlega ekki fram á yfirstandandi þingi. Maður skyldi þó aldrei segja aldrei þegar hæstv. ríkisstjórn er annars vegar því að enn þá er hún hér á þeim degi eða kringum þá daga sem samkvæmt áætlun þingsins var ráðgert að fresta þingi, en ég hef ekki heyrt neinn tala um það eða ræða um það að þetta frv. sé væntanlegt. Það væri auðvitað ógerlegt að afgreiða það á yfirstandandi þingi því að samkvæmt reglum sem við höfum sett okkur og erum sammála um hafa nefndir þingsins lokið störfum. En það er alveg ljóst að fyrirheit ráðherrans og yfirlýsingar ráðherrans frá 11. mars um að þessar breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga munu ekki koma fram á þessu þingi. Þessi tímafrestur sem var ansi knappur fyrir mun ýtast fram á haustið. Því er það alveg ljóst að menn munu í einhverju hendingskasti grípa til þess ráðs sem verður óhjákvæmilegt, að fresta tilflutningi á málefnum fatlaðra um eitt eða jafnvel tvö ár og verður að horfast í augu við það. En það er auðvitað mjög gagnrýnivert, ekki það endilega að menn hafi ákveðið að gefa sér meira svigrúm, en ég veit til þess af því að ég þekki til þess og fólk hefur haft samband við mig víðs vegar um landið að til að mynda notendur þessarar þjónustu höfðu ekki hugmynd um fyrirætlanir ráðherrans um að fresta þessari tilfærslu. Það er verið að sækja á viðkomandi sveitarstjórnarmenn um það hvernig þessu verði háttað í hinu og þessu sveitarfélaginu og hvað eigi nú að gera og hvar stjórnsýslan eigi að vera, hvert þjónustuna eigi að sækja o.s.frv., hvaða breytingar verði í raun og sanni þegar þessi tilfærsla á sér stað. Sveitarstjórnarmenn vita það ekki einu sinni því að ráðherrann hefur ekki haft fyrir því að tilkynna þetta formlega neins staðar, enda getur hann ekki tilkynnt það formlega neins staðar því að þingið hefur ekki tekið ákvörðun um það. Hér velkjast mál áfram með einhverjum þeim hætti sem að því er virðist enginn tekur ákvörðun um og enginn ræður við.

Þetta er enn eitt dæmið um það, virðulegi forseti, hversu mikilvægt er í þessu sambandi að samspil þessara stjórnsýslueininga sé með viti bornum hætti, sé skýrt og afdráttarlaust.

Annar málaflokkur hefur feikimikið að segja fyrir sívaxandi hóp þjóðfélagsþegna, sem eru aldraðir sem í næstu og lengri framtíð verða langtum stærri hópur þjóðfélagsþegna en við höfum átt að venjast. Þjóðin eldist ef svo mætti segja. Sá málaflokkur fellur líka að sumu leyti undir þetta samspil ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin ala önn fyrir almennri þjónustu við heilbrigða aldraða, aðstoða við og veita fjárstyrk til tómstundastarfsemi aldraðra, kosta heimilishjálp fyrir aldraða og ýmsa félagsþjónustu aðra og er unnin feiknagóð vinna í mörgum sveitarfélögum og til mikillar eftirbreytni. Síðan kemur að hlutverki ríkisvaldsins í þessu sambandi sem einkum og sér í lagi lýtur að heilbrigðisþjónustu við aldraða, þá er ég að tala um langlegudeildir. Ríkisvaldið kemur líka að heimahjúkrun við aldraða og kostar hana. Heimilishjálp og heimahjúkrun eru greinar af sama meiði. Það eru auðvitað fjöldamörg dæmi um það að þarna hafa þessi tvö stjórnsýslustig verið nánast að kasta boltanum sín á milli, kasta ábyrgðinni af þeim kostnaði sem til fellur við félagslega aðstoð og heilbrigðisaðstoð við þann sem þjónustunnar nýtur. Ríkið reynir eins og það frekast getur að treina það að veita heimahjúkrun og hvetur til þess að sveitarfélagið setji aukinn kraft í heimilishjálpina til að hægt verði að fresta því að veita heimahjúkrun. Sveitarfélögin hins vegar gera kröfu um það að heimahjúkrun komi að einhverju leyti í staðinn fyrir heimilishjálpina. Þannig er þessum bolta dálítið kastað á milli. Síðan er ákveðin togstreita fólgin í því, þó ég hyggi að flestir séu nú orðið sammála um það að flestu leyti, að samfélagið eigi að reyna eftir fremsta megni að gera hinum öldruðu kleift að vera heima hjá sér eins lengi og þeir vilja og geta með þeim félagslegu og heilbrigðisfélagslegu úrræðum og úrræðum á heilbrigðissviðinu sem tiltæk eru. Með öðrum orðum að víkja frá þessari stofnanapólitík sem hér hefur riðið húsum, þessari stofnanapólitík sem hefur birst m.a. í því að langtum stærra hlutfall aldraðra er á langlegudeildum fyrir þá en gerist og gengur í nágrannalöndum okkar. Það er auðvitað engum blöðum um það að fletta og tölur sýna það óyggjandi að það fyrirkomulag er langtum kostnaðarsamara en að aðstoða aldraða við það að búa heima hjá sér.

En það er vissulega ákveðinn hvati hjá sveitarfélögunum að knýja á um að ríkisvaldið sjálft eða ýmiss konar líknarsamtök með þá fjárstyrk ríkisins ráðist í byggingu langlegudeilda fyrir aldraða, langlegudeilda sem síðan eru kostaðar af fjárlögum 100%, byggingarnar sjálfar kostaðar að 85% og sveitarfélögin borga þar 15%. Það er auðvitað ákveðinn hvati hjá sveitarfélögunum, kannski innibyggður, að þrýsta á um að þessi úrræði séu til staðar í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Ef framboð er mikið af langlegurýmum fyrir aldraða og eftirspurn er kannski minni eins og þekkist víða um land, þar eru þessi rúm ekki fullnýtt, þá gæti maður ímyndað sér að býsna þægilegt væri fyrir viðkomandi sveitarstjórn að knýja beint eða óbeint á um það að aldraðir einstaklingar sem sveitarfélagið hefur einkum kostnað af í heimilishjálpinni selji hús sitt og flytji á langlegudeildina fyrir aldraða þar sem ríkið borgar brúsann. Þannig gerast þessi kaup á eyrinni hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Ég vil hins vegar árétta það og undirstrika að ég hef ekki heyrt neinn þann sveitarstjórnarmann eða neinn forsvarsmann í sveitarfélögum né heldur á heilbrigðissviðinu sem með opin augu leggur mál raunverulega upp með þeim hætti sem ég er hér að gera. Ég er einfaldlega að benda á veruleika málanna og þær hættur sem eru innibyggðar í þetta samspil ríkis og sveitarfélaga og hafa sannarlega, óneitanlega leitt til þeirrar þróunar að miklu eða litlu leyti sem ég rakti áðan.

Þess vegna hef ég líka verið áhugamaður um það að ríki og sveitarfélög og síðan með hlutdeild Alþingis kæmu að þessum málaflokki alveg sérstaklega og það hefur verið reynt að gera sumpart á vettvangi reynslusveitarfélaga.

Þessu skylt en þó óskylt eru málefni atvinnulausra sem hafa mjög verið til skoðunar og miklum breytingum háð nú upp á síðkastið fyrir atbeina núverandi ríkisstjórnar og hæstv. félmrh. þar sem menn fóru í raun í allt aðra átt en þróunin hefur verið fram undir þetta og menn hafa haldið að flestir væru sammála um að fara því að í stað þess að auka ábyrgð og nálægð félagslegra úrræða og í vinnumiðlun, við útvegun atvinnu, við greiðslu atvinnuleysisbóta með því að færa þau verkefni í enn frekara mæli út í sveitarfélögin, þá sneri hæstv. ráðherra algerlega við blaði og bjó til eitt stykki ríkisstofnun, Vinnumálastofnun. Ég hafði uppi ákveðin viðvörunarorð um þau efni og ég vil endurtaka þau. Ég held hins vegar að úr því sem komið er sé nauðsynlegt að láta á það reyna hvort fyrirkomulagið um þessa nýju ríkisstofnun, sem sérstaklega er ástæða til að óska núverandi ríkisstjórn til hamingju með því að hún hefur talað í aðra veru en þá að stofna nýjar ríkisstofnanir þó hún hafi raunar gert það og ekki eingöngu í þessu tilfelli heldur líka með stofnun nýs ríkisbanka. En allt kom þetta dálítið á óvart og það var svo sem engin sérstök sátt eða hamingja hjá verkalýðshreyfingunni með þessa gjörð hæstv. félmrh. né ríkisstjórnarinnar í heild frekar en með annað það sem hann hefur fram að færa í sínu ráðuneyti í seinni tíð.

Það á eftir að koma á daginn, virðulegi forseti, hvort þetta fyrirkomulag geti gengið. Þarna er við það miðað að einhvers konar svæðisskrifstofur verði sem angar og útibú frá þessari ríkisstofnun sem Vinnumálastofnun heitir og vel má vera að þær nái vopnum sínum og geti virkað vel og ég vona svo sannarlega að þannig geti það orðið.

Á hinn bóginn hræða fyrstu skrefin í þessa veru því að það kemur auðvitað í ljós --- og í minni heimabyggð til að mynda hjá öflugu og stóru verkalýðsfélagi sem Hlíf heitir og öðru sem Framtíðin heitir hafa vaknað eðlilegar, háværar gagnrýnisraddir vegna þeirrar ráðstöfunar sem þetta nýja fyrirkomulag hefur leitt af sér, að umsýsla með atvinnuleysisbótunum skuli öll færð hingað til Reykjavíkur á einn stað og það sé einn staður á höfuðborgarsvæðinu sem afgreiði atvinnuleysisbætur til þess fólks sem lendir í þeim hryllingi að vera án atvinnu. Ég hélt satt að segja að þetta væri liðin tíð, að við ætluðum með öðrum orðum að draga úr þjónustu í þessum vettvangi heldur væri frekar vilji til þess, jafnvel hjá þessari hægri stjórn sem við búum við í dag, að auka félagslega þjónustu og færa hana nær fólkinu. En það er með þetta eins og annað að skylt er skeggið hökunni og út af fyrir sig er það fyrir löngu hætt að koma mér á óvart hversu óskammfeilin ríkisstjórnin er þegar kemur að þessum málum og öðrum.

Ég drap eilítið á það í stuttri dæmisögu um samskipti mín og hv. þm. Ólafs G. Einarssonar hvernig skólabyggingamálum hafi verið háttað hér á árum áður og ætla ekki að endurtaka það. En hinu er ekki að leyna að ekki er langt síðan grunnskólinn í heild sinni kom á borð sveitarfélaga og ég hef alla tíð verið mikill áhugamaður um að það gengi fram. Ég er alveg handviss um að fæðingarhríðunum er ekki lokið í þeim efnum, og eins og harðvítugar launadeilur á síðasta ári báru með sér, þá eru sennilega einhver ár í að þar skapist það nauðsynlega umhverfi sem grunnskólum okkar er mikilvægt. Kannski gerist það ekki fyrr en hinni svokölluðu einsetningu er lokið sem á að ljúka ef ég man rétt árið 2002 eða 2003, framlengt held ég til ársins 2003.

[23:15]

Það er hins vegar eitt af þeim málum sem ég hef stundum verið að velta fyrir mér og eru af þeirri gerð að einhvers konar andi fer að svífa yfir vötnunum og einhvers konar bylgja gengur yfir land, bylgja sem gengur þvert í gegnum allar sveitarstjórnir, nær hingað inn í þingsali og úr verður einhver sú niðurstaða sem bylgjan leiðir af sér. Stundum eru slíkar bylgjur nauðsynlegar og góðar en stundum hefði verið ástæða til þess að staldra eilítið við og huga nánar að málum. Þá er ég auðvitað að ræða um það sem nefnt hefur verið einsetning skólanna. Það var rauður þráður í sveitarstjórnarkosningum fyrir fjórum árum að öll mál skólanna mætti leysa með því að einsetja þá, auka við byggingar og stækka það rými sem hefur verið til skólahalds. Þessu lofuðu sveitarstjórnarmenn hver í kapp við annan í síðustu sveitarstjórnarkosningum og úr varð að hið háa Alþingi smitaðist af öllum þessum áhuga og í nýjum grunnskólalögum var þetta hinn rauði þráður. Skólahald skyldi leysa með einsetningu. Nú eru sveitarfélögin hvert í kapp við annað að reisa skólabyggingar hringinn í kringum landið, eyða milljörðum á milljarða ofan í steinsteypu --- og vafalaust mun það allt skila sér, eða vonandi, skulum við segja. En ég hef stundum haft efasemdir í hjarta mér hvort forgangsröðin hafi verið alveg rétt í þessum efnum, hvort menn hefðu ekki getað og hvort ekki hefði verið skynsamlegra að taka kannski eilítið smærri skref varðandi steinsteypuna og huga þá frekar að innri málum skólanna. Ég nefni kjör kennara. Ég nefni ýmsa þætti í skólastarfi sem hafa liðið fyrir fjárskort og gera enn og munu gera hvað sem líður stórauknu húsrými í skólunum, þ.e. hinni svokölluðu einsetningu. Einsetningin ein og sér býr ekki til betri skóla. Við skulum átta okkur á því. Þetta er kannski skólabókardæmi um það sem við þurfum að taka mið af í þinginu að fyrirsagnir leysa ekkert endilega mál.

Ég tek skýrt fram, virðulegi forseti, að ég er svo sem enginn andstæðingur þess og skil það ósköp vel að margir horfi til nágrannalanda okkar, þar sem rými er meira og barnafjöldi er hlutfallslega einfaldlega minni en er hér á landi, og vilji bjóða okkar börnum upp á jafnmikið og gott skólarými og þar er að finna. En ég hygg samt að í sívaxandi mæli séu margir foreldrar að velta því fyrir sér þegar þeir sjá sína kjörnu fulltrúa taka ákvarðanir um milljarðafjárfestingar í steinsteypu hringinn í kringum landið, hvort eitthvað mætti hægja á ferðinni í þeim efnum og verja þeim fjármunum kannskri til innra starfs til þess að gera börnin okkar að betri samfélagsþegnum, gera þau hamingjusamari og glaðari í skólunum, gera kennarana og annað starfsfólk glaðara og ánægðara með kaup sín og kjör. Ég held að þarna hefði kannski átt að fara bil beggja og fara hægara í sakirnar en var gert. Út af fyrir sig er engum einum um að kenna. Öll berum við þarna ábyrgð og ég vona svo sannarlega að þótt þessi ákvörðun hafi verið tekin fái íslenski grunnskólinn að vaxa og dafna undir stjórn sveitarfélaga. En hitt er annað mál að menn hafa svo sem talað um það sem einhvers konar stórkostleg tíðindi þegar það gerðist að grunnskólarnir fóru til sveitarfélaganna. Þeir voru kostaðir af sveitarfélögunum að verulegu leyti. Það voru fyrst og síðast laun kennara sem voru færð yfir, og það er út af fyrir sig ekki lítið mál, en sveitarfélögin hafa með öðrum orðum að flestu leyti verið ábyrg um þá starfsemi sem skólarnir hafa haft með höndum en hafa ekki haft húsbóndavald, ekki haft samningsstöðu gagnvart kennurum og það samspil eitt og sér gerði það að verkum að það ekki var ljóst hver réði, hver átti að marka stefnu, hvernig átti að ganga um dyr og ganga. Þess vegna fagna ég því enn og aftur að menn skyldu taka þetta mikilvæga skref að fella þetta verkefni í einu og öllu undir þann hatt sem sveitarfélögin hafa.

Þessu náskylt er sú mikilvæga starfsemi sem fer fram í leikskólum --- og nú fer ég satt að segja að sakna vinar í stað, virðulegi forseti, sem er hv. þm. Pétur H. Blöndal því að þetta er einkum og sér í lagi gert handa honum og hans líkum því hann hefur orðið uppvís að því hér enn og aftur, virðulegi forseti, að vita lítið sem ekkert um það verkefni sem sveitarfélög hafa með höndum. Ég held að það væri nauðsynlegt að kanna það. Ég mundi strax róast a.m.k. ef ég vissi af því að hann væri hér í húsi. Er það svo, virðulegi forseti?

(Forseti (GÁ): Ég býst við að hv. þm. sé farinn heim að sofa. Hann er ekki í húsi.)

Ég veit ekki hvort ég á að gleðjast eða hryggjast yfir þessum tíðindum, það varðar kannski engu. Maður getur að sumu leyti glaðst yfir því að hann heldur þá ekki fleiri ræður í kvöld. Hann er búinn að halda eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar 20 ræður í kringum þetta mál, segi og skrifa 20 ræður.

Ég nefndi leikskólann. Við höfum verið með löggjöf í þá veru. Ég hef gjarnan séð það og vildi í tengslum við sveitarstjórnarumræðuna um þennan grunn sem við erum að leggja að sveitarstjórnarstiginu og þeirri þjónustu sem þar á að eiga sér stað fá umræðu til að mynda um stóraukið samspil leikskóla og grunnskóla. Nú hefur skólaskyldualdur verið að lækka í tímans rás, hann var á öndverðri öldinni 10--11 ára. Ég held að það hafi verið minn heimabær sem undir forustu Alþfl. í þá daga nýtti sér heimildir Alþingis til þess að snarlækka skólaskyldualdur, ef ég mann rétt úr 10 ára í 7 og var langfyrst sveitarfélaga til þess enda stjórnað á félagslegum grunni og að því leytinu til sýnir það að auðvitað hefur það mjög mikið vægi hvernig pólitískar áherslur eru í sveitarfélögum. En ég segi það af fullri alvöru, virðulegi forseti, og maður heyrir af því og veit af því víða í nágrannalöndum okkar, að minna er lagt á ungviði okkar í leikskólum landsins en í mörgum öðrum löndum. Þegar ég segi ,,lagt á``, þá á ég við að skipulegri kennsla, jafnvel í erlendum tungumálum, hefst við fimm ára aldur. Ég veit að fóstrur sem hétu þá og heita nú leikskólakennarar eru mjög áhugasamar um það að ganga frekar í þessa áttina.

Ég sé til að mynda fyrir mér að sveitarfélög þar sem félagslegar áherslur eru hátt á lofti eins og í Hafnarfirði gengju á undan með góðu fordæmi enn og aftur og horfðu til þess til að mynda að um aldamótin, við skulum segja hálfur dagur elsta árgangs leikskólanna, yrði gefinn kostur á endurgjaldslausri vist, ,,skólavist`` í leikskólum bæjarins. Það kæmi mér ekkert á óvart ef niðurstaða sveitarstjórnarkosninga yrðu hagkvæmar 23. maí nk. að menn sæju slíkar breytingar, slíkt frumkvæði eiga sér stað í bænum góða sunnan við Reykjavík. Að vísu eru ekki allar fréttir jafngóðar þaðan því að menn hafa sagt mér af úrslitum leikja í knattspyrnu í kvöld sem er auðvitað annað mál. Það vekur mig til umhugsunar um íþróttamál í sveitarfélögum sem er ekki til að brosa að þó að það séu gleðilegir hlutir sem þar eru að gerast því að sveitarfélögin bera líka ábyrgðina á því forvarnastarfi sem fylgir íþróttunum. Ég hef verið þeirrar skoðunar að menn hafi ævinlega vanmetið þátt íþrótta í uppeldi og heilsu þjóðar okkar. Ég hef gjarnan orðað það sem svo að íþróttaiðkun væri eins og besti skóli. Ekki eingöngu kenndi það æsku landsins að una við tilteknar leikreglur heldur leysti það líka úr læðingi ákveðið einkaframtak sem öllum er nauðsynlegt á leikvelli og þá er ég fyrst og síðast að vísa til þeirra íþróttaleikja þar sem margir eru saman komnir og spila í liðum. Þetta er hin hliðin á peningnum sem er kannski minna umrædd en ekki síður mikilvæg en það að líkami og sál hressist.

Hvað varðar íþróttamál er það á hendi hvers sveitarfélags að verulegu leyti hversu mikið lið opinberir aðilar leggja slíkri starfsemi. Sum sveitarfélög gera það mjög myndarlega en önnur ekki. Það er athyglivert í þessu sambandi að einmitt á þessum vettvangi, virðulegi forseti, hefur Alþingi ekki sérstaklega þurft að hafa sig í frammi um það að setja sveitarfélögunum niðurnjörvaðar fyrirskipanir um það hvernig þeim beri að styðja og styrkja við íþróttafélög og íþróttastarf í viðkomandi bæjarfélögum. Þetta finnst mér til marks um að kannski sé ekki alltaf þörf á því að við í þessum sal séum að segja sveitarfélögum fyrir verkum upp á punkt og prik. Það er engin brýn þörf á því í einu og öllu. Ég ber fullt traust til sveitarfélaga og sveitarstjórnarmanna, að þau sinni þessum skyldum samkvæmt almennum en þó skýrum reglum og við þurfum ekkert að stafa það ofan í sveitarstjórnarmenn, kjörna fulltrúa hringinn í kringum landið hvernig þeir eigi að sinna verkum sínum. En inn á það kem ég á eftir, virðulegi forseti, að þetta frv. til sveitarstjórnarlaga tekur einmitt mið af slíku stafrófi þar sem svo virðist sem ríkisvaldið telji nauðsynlegt að tala við sveitarstjórnarmenn nánast eins og óvita og segja þeim nákvæmlega upp á punkt og prik hvernig þeir eigi að haga stjórnsýslu sinni. Það er engin þörf á því að mínu mati og ég ætla að nálgast það betur á eftir.

Ég drap eilítið á íþróttir og heilbrigðisþáttinn. Auðvitað er það þannig að þótt ríkisvaldið verji fyrir atbeina Alþingis upp undir helmingi af fjárlögum hvers árs til heilbrigðismála beint eða óbeint þá eru sveitarfélögin líka snar þáttur í forvarnastarfinu sem ég gat um áðan og hafa löngum borið ábyrgð á þessum forvarnaþætti þó að í seinni tíð hafi heilbrigðisyfirvöld, heilbrrn. og undirstofnanir þess, komið í auknum mæli að þeim málaflokki. Það er auðvitað ágætt en breytir því ekki að þessi forvarnaþáttur er og verður fyrst og síðast hjá sveitarfélögum þó ekki væri nema vegna þess að þar er stjórnsýslan í beinu daglegu sambandi við það fólk sem þarf að ræða við frá einum tíma til annars. Það gerir ekki heilbrrn., það gerir ekki hið háa Alþingi. Það nær ekki slíku beinu sambandi við einstakling eins og nauðsynlegt er á mörgum sviðum eins og í forvarnastarfi hvað heilbrigðismálin varðar, tóbaksvarnir og annað þess háttar.

[23:30]

Á sama hátt, auðvitað sökum þessarar nálægðar, er deginum ljósara að engin önnur stjórnsýsla en sveitarfélögin og stofnanir þeirra hafa lykilhlutverki að gegna hvað varðar heilbrigðiseftirlit og mengunarvarnir á hverjum stað. Það er auðvitað alveg sama hvað við ræðum lengi og hátt og snjallt um þau mál, ef framkvæmdin, áróðurinn og fræðslustarfsemin heima í héraði er ekki eins og nauðsynlegt væri þá ganga hlutirnir ekki fram eins og við setjum hér á blað. Þarna er því enn einn málaflokkurinn sem segir okkur að sveitarfélögin gegna þarna lykilhlutverki og það segir okkur enn og aftur að frv. til sveitarstjórnarlaga er ekki málaflokkur og ekki frumvarpspakki sem menn taka með vinstri hendi, taka með einhverjum útúrsnúningum og afgreiða.

Við höfum líka í þessum sal í vetur og gjarnan oft áður rætt um það mikilvæga verkefni sem gróðurvernd og skógrækt er. Ég er ekkert viss um að allir átti sig á því hvernig sveitarfélögin hafa komið að þeim málum. Þau bera að sönnu lögum samkvæmt ákveðna ábyrgð í þeim efnum. En þau gera auðvitað langtum mun meira en lagaleg skylda segir fyrir um og þá með stuðningi við skógræktarfélög og gróðurverndarfólk af ýmsum toga. Það undirstrikar enn og aftur sem ég sagði áðan, að ekki er endilega nauðsynlegt að stafa þessa verkefnalýsingu ofan í sveitarstjórnarmenn. Þeir finna á eigin beinum hvar eldurinn brennur og hverjar kröfur og óskir fólksins í viðkomandi bæjarfélögum, fólksins í landinu, eru frá einum tíma til annars.

Ég ætla út af fyrir sig ekki að staldra lengi við annan málaflokk sem þó væri full ástæða til að gera. Við eigum þess kost síðar í þessum mánuði við umræður um húsnæðismál almennt og tillögu hæstv. félmrh. og þessarar hægri ríkisstjórnar sem miðar að því að rústa hinu félagslega íbúðakerfi. Sveitarfélögin fara þar enn og aftur með það lykilhlutverk að skapa fólki aðstöðu til þess að hafa þak yfir höfuðið. Þá er ég fyrst og síðast að vísa til hins félagslega íbúðarhúsnæðis og leiguhúsnæðis en það er á enn fleiri sviðum, því að sveitarfélagið þarf að standa klárt á vegagerð, gatnagerð og framboði lóða þegar byggja skal. Þar er mikilvægur þáttur sem við munum ræða vítt og breitt sem betur fer síðar í þessum mánuði og til þess gefst þá tækifæri að fara nánar í þau mál.

Þegar við ræðum hinar stóru stærðir í orkumálum þá eru þau á nákvæmlega á sama hátt beintengd hverju heimili úti um byggðir landsins. Rafveiturnar skammta rafmagn, vatnsveiturnar vatnið. Hitinn úr jörðunni víða um landið er á hendi vatnsveitna eða annarra aðila. Verði misbrestur á að skaffa þessi grundvallarelement hvers heimilis er fyrst talað við sveitarstjórnarmennina, þá sem þjónustuna veita. Hvort heldur að sá almenni aðili sem ber ábyrgð á þeim málaflokki er heima í héraði eða hvort það er Rafmagnsveita ríkisins eða stærri og miðstýrðari stofnanir þá er það engu að síður sveitarfélagið, sveitarstjórnarmaðurinn og starfsfólk sveitarfélaganna þúsundum saman sem ber á þessu ábyrgð og þarf að svara til saka fari eitthvað úrskeiðis.

Í þessu sambandi eru landakaup líka snar þáttur í útgjöldum sveitarfélaga og það er auðvitað náskylt þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað um hálendið. Það er þáttur þess máls sem alveg er eftir og framtíðin ein á eftir að leiða í ljós hvernig honum vindur fram, þ.e. hvernig okkur mun ganga að leiða til lykta deilumál um það hver á Ísland, hver á hálendið og þá algjörlega burt séð frá því hvar forsjáin liggur, hvort hún verði að nafninu til hjá sveitarfélögum eins og hér í frumvarpinu er lagt til eða hjá öðrum, eingöngu eignarréttarspursmálið.

Ég lagði við hlustir og það var út af fyrir sig dálítið fróðlegt af því að þar átti í hlut hreinn meiri hluti Sjálfstfl. hér í nágrannabyggðarlagi, nánar til tekið hreinn meiri hluti í bæjarstjórn Garðabæjar sem lenti undir þungum hrammi réttlætisins, fékk yfir sig dóm Hæstaréttar vegna landakaupamála í Arnarnesi. Það var dálítið merkilegt að fylgjast með því öllu saman og ég ætla svo sem ekki að deila við dómarann. En ég get ekki sagt annað en að það kom mér á óvart að Hæstiréttur skyldi hafa komist að þeirri niðurstöðu að bæjaryfirvöld í Garðabæ hafi ekki lagt sig nægilega í framkróka og ekki gefið sér nægilega langan tíma til viðræðna við landeigendur þar um nauðsynleg landakaup vegna þróunar byggðar, þegar fyrir lá að hugmyndir um verð voru annars vegar af hálfu bæjarfélagsins vegna almannahagsmuna u.þ.b. 500 kr. á fermetra, ef ég man rétt, en hugmyndir eigenda landsins, þess sem selja skyldi, voru 2.800 kr. Talað var um parketverð. Það ku samsvara verði á fermetra parkets. Það sér hver maður og það höfum við alþýðuflokksmenn sagt áratugum saman, að auðvitað er ekkert réttlæti í því og hvergi hægt að koma auga á það réttlæti, að eigandi lands geti hirt af því verulegar fjárhæðir sem stórhækka af ástæðum sem hann hefur út af fyrir sig ekkert um að segja og hvergi komið nærri, heldur vegna þess hver þróun byggðar hefur orðið. Ég skal vera fyrstur manna til að viðurkenna það að verðmæti jarða hækki ef viðkomandi landeigandi hefur í sveita síns andlits lagt þar gjörva hönd á plóg og gert þar betrumbætur, farið í vegalagningu, farið í ræktunarstarf eða hvað eina. Þá er eðlilegt að almenningur, að bæjarfélögin, bæti viðkomandi einstaklingi það. En auðvitað er ekkert vit að hér sé bara nánast um einhvers konar olíufund að ræða eða gullgröft. Auðvitað er engin glóra í því að ef að þróun byggðar verður í þessa veruna en ekki aðra, þá þýði það að einstaklingar í þessu landi sem fengu gefins landsvæði fyrir áratugum síðan taki upp og tíni til sín tugmilljónir og jafnvel hundruð milljóna kr.

Þetta finna sveitarstjórnarmenn á sjálfum sér og ég er þess handviss að sjálfstæðismenn í Garðabæ hafa sumir vafalaust skipt um skoðun eða ég get ekki ímyndað mér annað en að þeir sjái ekki mikla glóru í því að þeir verði hugsanlega knúnir til þess að kaupa land í Arnarnesi vegna þess að byggðin kallar á það, fyrir 2.800 kr. fermetrann. Það þýðir með öðrum orðum, ég þori varla að reikna það en það sér hver heilvita maður, að meðalstór lóð eða tiltölulega lítil lóð upp á 300--400 fermetra, 500 hundruð fermetra, er komin í hæstu hæðir. Það liggur í augum uppi að kostnað vegna uppkaupa lands í þéttbýli greiðir enginn annar en fólkið í viðkomandi bæjarfélagi og að langmestu leyti verða greiðendur þeir sem reisa þau hús sem munu rísa á viðkomandi landsvæði sem kaupa þarf.

Þetta er náskylt því máli sem við ræðum hér og rætt hefur verið hvað mest. En þessu vildi ég koma að í almennum umræðum um sveitarstjórnarmál því að þarna er um veruleg útgjöld að tefla hjá mörgum sveitarfélögum. Stundum lenda sveitarfélög í því að ef landsvæði eru til sölu, tiltölulega langt frá byggð, þá verður það stundum orðið þannig að menn hugsa með sjálfum sér hvort ekki sé réttara að leysa þetta til sín núna og kaupa þetta núna í frjálsri sölu þó að menn hirði engan arð af viðkomandi landi næstu ár eða áratugi, frekar en að bíða þess að byggðin þróist í áttina að viðkomandi landbleðli og verða þá dæmdir til þess, úrskurðaðir til þess, annaðhvort af dómstólum eða úrskurðarnefndum, að leysa viðkomandi land til sín á uppsprengdu verði.

Þannig er lagaramminn um þetta í þéttbýlinu. Ég hef oft lýst yfir undrun minni með það að sveitarstjórnarmenn í öllum stjórnmálaflokkum skuli ekki hafa gagnrýnt þetta mun harðar og ákveðnar en raun ber vitni. Og að almenningur líka, kjósendurnir í þessum sveitarfélögum, skuli ekki hafa rekið upp ramakvein þegar þeir þurfa að borga skatt, vil ég segja. Þeir eru að borga auðlindaskatt, ekki til eigenda auðlindarinnar í raun og sanni, fólksins í landinu, því þarna er verið að borga til einstaklinga sem einhvern tíma á árum áður hafa sölsað undir sig þetta land oft með góðu og stundum með illu.

Ég þekki líka annað dæmi af þessum toga sem auðvitað er full ástæða til að rekja. Ég stóð frammi fyrir því sjálfur þá sem trúnaðarmaður Hafnfirðinga. Þar var um að ræða svokallað Thorsplan í Hafnarfirði. Það hét Thorsplan vegna þess að Kveldúlfur hafði áform um að fara í bryggjugerð í Hafnarfirði einhvern tíma á öndverðri þessari öld og fékk úthlutað landi í miðbæ Hafnarfjarðar á fyrstu áratugum aldarinnar. Af ýmsum orsökum kom aldrei til þess að í þessa framkvæmd væri ráðist og ekkert gerðist.

Við gjaldþrot þess fyrirtækis leysti síðan einn aðalkröfuhafinn, Landsbanki Íslands, þetta landsvæði til sín og tók það upp í skuld og átti þetta land, þetta landsvæði, þetta tún í hjarta bæjarins um áratuga skeið. Það kom að því að Hafnarfjarðarbær þurfti á þessu að halda og vildi lagfæra miðbæinn. Það var auðvitað ekki um annað að ræða en að kaupa þetta land. Ég held að ég muni það alveg rétt að kaupverðið hafi verið í kringum 100 millj. kr. Lái mér einhver ef ég á þeim tíma sem sveitarstjórnarmaður hafi litið á þetta sem ákveðna blóðpeninga, að þurfa að reiða af hendi 100 milljónir af skattfé almennings vegna þess að fyrir 40 árum var einhverju fyrirtæki úthlutað lóð endurgjaldslaust til að ráðast í einhvers konar drift sem því miður fór á annan veg. Og 70--80 árum síðar var bæjarfélaginu gert að greiða fyrir þessa lóðarúthlutun 100 millj. kr. Er nokkur glóra í þessu? Er þetta nokkurt réttlæti? Ekki segi ég það.

Það getur vel verið að mörgum finnist að þessi dæmi sem ég hef hér gert að umtalsefni eigi ekkert skylt við þá almennu umræðu sem á sér stað um hálendið en vissulega eru þetta skyld málefni og þá einkum og sér í lagi þegar kemur að þjóðlendufrv. forsrh. Þetta tengist því einnig þegar komið er að þeim þætti málsins að loks sjá menn það þó fyrir sér í þjóðlendufrv. forsrh. að leggja brautir í þá átt að gera það a.m.k. hreint hvað þjóðin á og hvað er í einkaeign, að þá skuli menn í miðju því ferli raunar taka um það ákvörðun, eins og hér er lagt til í 1. gr. þessa frv., að búta hálendið niður í frumeindir og skenkja það einstökum sveitarfélögum að nafninu til. Auðvitað er engin glóra í þessu. Það er ekkert samhengi í þessu að mínu áliti og þetta rekur sig hvað á annars horn.

[23:45]

Í þessu samhengi hafa menn rætt skipulagsmálin vítt og breitt. Ég ætla ekki að kasta mér til sunds í þá flóknu umræðu sem átt hefur sér stað um það hvernig hlutirnir munu ganga fyrir sig á hálendinu, um samstarfsnefndir, svæðisskipulagið, þátt skipulagsstjóra og síðan ráðherra. Það hafa menn gert mjög samviskusamlega. Ég held að kannski sé ekki mjög miklu við að bæta í þeim efnum, enda hefur algjörlega komið í ljós að keisarinn var klæðalaus. Þau sem höfðu fyrirvara um þetta, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og áðurnefndur hv. þm. Pétur H. Blöndal, eru auðvitað algjörlega klæðalaus, þau keyptu köttinn í sekknum. Þau höfðu hátt um fyrirvara og gáfu til kynna að stórt samkomulag væri á ferðinni og mundi breyta eðli málsins. En það auðvitað hefur komið í ljós að það var fjas eitt og innihaldslítið eða innihaldslaust.

En skipulagsmál eru auðvitað mjög snar þáttur í þróun byggðar í þéttbýli og dreifbýli. Kannski er það svo að sveitarstjórnarmenn og við alþingismenn höfum ekki gefið því nægilega góðan gaum. Kannski hefur kappið stundum verið meira en forsjáin. Út af fyrir sig er það ekki skrýtið, í okkar litla landi sem risið hefur úr öskustónni á síðustu 50 árum eða svo, að menn hafi gengið hratt til verka og flýtt sér úr torfkofunum inn í nútímann.

Auðvitað er samt ástæða til að gaumgæfa, staldra við og skoða. Ég er vafalaust jafnsekur og aðrir um að hafa ekki gefið skipulagsmálum nægilega gaum. Ég minnist þess frá sveitarstjórnartíð minni að mér fannst allar þessar síur, og hinn langi frestur sem gjarnan ber samkvæmt lögum að hafa til þess að kalla eftir athugasemdum og ábendingum, tefja fyrir brýnum framfaramálum. Þó var farið eftir þeim og ég sé ekki eftir því, því að oft kemur þetta fyrirkomulag í veg fyrir slys eða að góðar ábendingar gera útfærslu mála í skipulagi betri en færustu sérfræðingar hafa séð fyrir. Þær ábendingar koma einfaldlega frá almenningi. Í því ljósi virðist mér að eftir eigi að leysa feikilega stórt skipulagsverkefni á miðhálendinu. Í mínum huga er það verkefni sem menn leysa ekkert í einu vetfangi. Þó að það sé auðvitað þannig, og því má ekki gleyma, að skipulagsskyldan, upphaf málsins, er hjá sveitarfélögum.

Þeir sem nærri hafa komið þekkja að þegar einu sinni er búið að festa hlutina á blað og teikna ramma fyrir tiltekið skipulag, og þó að menn setji þetta í gegnum eina síuna og tvær síurnar og þrjár síurnar og fjórar síurnar, allt taki einhverjum breytingum og lagist og batni, þá er hin grófa mynd mjög svipuð því sem lagt var af stað með.

Nákvæmlega þetta mun gerast í skipulagi miðhálendisins. Það gefur auga leið og við hljótum að gera ráð fyrir að þau sveitarfélög sem nú eiga að fá tiltekið forræði að í þessu máli, hafi ákveðinn metnað til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri á fyrstu stigum málsins. Það væri undarlegt ef svo væri ekki. Ef svo er ekki þá hafa þau hvorki vægi né getu til þess að standa í þessu. Ég held að hver einasti maður ætti að sjá að þetta á allt eftir að loga, hið sameiginlega fley á eftir að loga stafnanna á milli, það gefur auga leið. Í þessari svæðisskipulagsnefnd og samráðshópi eða samstarfshóp mega vera miklir snillingar ef þeir ætla sér að bera klæði á þau vopn og ljúka málum þannig að sveitarfélögin samþykki þetta öll, enda þarf sannarlega þeirra samþykki.

Að vísu hafa verið áhöld um það hvort ráðherrann geti á síðustu stigum málsins rekið þetta öfugt niður í einstök sveitarfélög sem hafi þar með ekki neitunarvald. Samkvæmt laganna hljóðan held ég að það sé alveg ljóst að auðvitað muni þau hafa það vald.

Ég held að hver maður sjái að þetta verður mjög erfitt verkefni, feikilega erfitt verkefni, nánast ógjörningur að samræma hin ólíku viðhorf sem auðvitað munu koma þarna upp. Viðhorf sveitarfélaganna til þessara mála hljóta að vera mjög mismunandi. Það hlýtur að vera keppikefli sumra sveitarfélaga, og kannski flestra þeirra, að þau hafi einhverjar tekjur af umferð túrista um hálendið. Auðvitað vilja þau gjarnan að tekjurnar falli í viðkomandi sveitarfélög en ekki nærliggjandi. Þá byrjar sá slagur. Ég hygg að sveitarstjórnarmenn viti hvernig kaupin gerast stundum á þessari eyri og hvernig samstarfinu er háttað milli bestu vina, milli nágrannasveitarfélaga um einstök atriði. Þeir þekkja að stundum reynast mál, sem virtust einföld við fyrstu sýn, flókin og erfið úrlausnar þegar á er tekið. Þau litlu mál milli kannski tveggja nærliggjandi sveitarfélaga, jafnvel þriggja nærliggjandi sveitarfélaga, verða auðvitað hátíð miðað við þau vandamál sem ávísað er á hér varðandi hálendið og aðkomu þessara fjölmörgu sveitarfélaga að því máli. Ég held að það þurfi engan snilling til að átta sig á þeirri þróun sem fram undan er.

Skipulagsmálin eru auðvitað stórmál og þáttur í þessari vakningu sem við öll verðum fyrir beint og óbeint, sem lýtur að umhverfisvernd og umhverfismálum almennt. Yngri kynslóðin hefur markað þessa leið og sumpart vakið athygli okkar sem eldri erum á því að okkur beri auðvitað að ganga af virðingu um það land sem okkur var falið í hendur.

Í sveitarfélögum er virðingin fyrir fortíðinni náskyld skipulagsmálunum. Virðingin fyrir því sem gamalt er og virðingin fyrir því sem segir sögu. Um þau mál hefur orðið vakning í sveitarfélögum og það er fagnaðarefni, í húsafriðun og sumpart í friðun lands. Það er ekki sama hvernig þessir hlutir eru gerðir en ég held að í seinni tíð séu menn farnir að átta sig á því hvað er þess virði að friða og hvað ekki. Við höfum gengið í gegnum misgóð skeið í arkitektúr og skipulagi hér á Íslandi. Sumt er að mínu áliti þess eðlis að ástæðulaust sé að varðveita og geyma til komandi kynslóða, en annað er svo sannarlega þess virði.

Þetta nefni ég í framhjáhlaupi, virðulegi forseti, sem enn eitt verkefnið sem í vaxandi mæli er á forræði sveitarfélaganna og háð mati sveitarfélaganna þó hér séu til nefndir á vegum ríkisins sem koma að þessum málum, svo sem húsafriðunarnefnd. Ég held að menningarverðmæti, menningarmál og þáttur sveitarfélaga í þeim efnum sé vanmetinn --- alveg feikilega mikið vanmetinn.

Ég held og hef á tilfinningunni stundum að fjölmiðlar trúi því að menning á Íslandi verði til uppi í menntmrn. og vestur í Háskólabíói. Þetta er auðvitað mikill misskilningur. Menningin um allt land og það lifandi tónlistar- og myndlistarstarf í smærri og stærri byggðarlögum hringinn í kringum landið er hin raunverulega þjóðmenning og hið raunverulega menningarstarf sem hér er innt af hendi.

Og ég er líka alveg handviss um að ef menn legðu nú saman, og það eru svo sem hæg heimatökin í þeim efnum, þá fjármuni sem sveitarfélögin leggja beint til ýmiss konar menningarstarfs þá sjái menn, og fjölmiðlar einkum og sér í lagi, að það eru sveitarfélögin sem eru hrygglengjan í því að tryggja og treysta menningu og listir í landinu. Við eigum að sýna sveitarfélögum þakklæti fyrir það og þeirra þáttur í því verður seint ofmetinn.

Enn og aftur drep ég á það, virðulegi forseti, af því að enn og aftur verður það á vegi mínum, að í þessu tilfelli er engin sérstök þörf á því að Alþingi stafi ofan í sveitarstjórnarmenn frá A til Ö, með ítarlegum lagabálkum, hvernig sveitarfélögin eigi að styrkja og styðja menningarlíf, tónlistarlíf, kórastarf, leiklistarstarfsemi, myndlist, uppbyggingu listamiðstöðva og starfsmiðstöðva fyrir listamenn. Sveitarstjórnarmenn finna þessa þörf, finna það að íbúarnir vilja gjarnan sjá þetta, þetta gefur lífinu gildi í viðkomandi byggðarlagi og því verður þetta til. Það er ekki þörf á hundrað greina lagabálkum til þess að sveitarfélögin sinni þessu verkefni. Þau hafa í gegnum tíðina haft frumkvæði að því sjálf og ganga miklu hraðar fram, og með meiri myndarskap að mörgu leyti, en ríkisvaldið í þeim efnum.

Það er út af fyrir sig algjörlega til skammar hvernig hið háa menntmrn. hefur stutt við menningu og listir í sveitarfélögum hringinn í kringum landið. Ég held ég geti nánast fullyrt að þar sem um eitthvað munar, þá er það á einum stað. Það er hér í Reykjavík. Þegar fjármunir eru veittir í gegnum fjárlög og í gegnum menntmrn. fara fjármunir til listahátíðar í Reykjavík. Menn reyndu fyrir sér með svokallaðar M-hátíðir með einhverjum smáaurum. Mér er í fersku minni þegar þráðbeint nei barst héðan frá ríkisvaldinu þegar listahátíð stórglæsileg, jafnoki þeirrar í Reykjavík, fór fram í Hafnarfirði í tvígang. Það var nú allur áhuginn hjá ríkisvaldinu til að styrkja og styðja menningarstarfsemi í kringum landið.

Þar þarf ríkisvaldið að taka sig verulega á. Í þessu dugir ekki nein hálfvelgja, hátíðarræður og borðaklippingar. Menn verða auðvitað að láta verkin sýna merkin.

Þessu náskylt er sú stórkostlega vakning sem átt hefur sér stað varðandi uppbyggingu tónlistarskóla sem ég sé fyrir mér að gegni stóru hlutverki þegar einsetningin verður að veruleika. Þá sé ég það fyrir mér að tónlistarnám taki æ stærri hluta af grunnmenntun barna á aldrinum 6--15 ára.

Ég er hræddur um að mörgum brygði í brún, af því ég er hér í þessari kennslustund fyrir hv. þm. sem hafa engan skilning á sveitarstjórnarmálum. --- Nú á ég ekki við þá hv. þm. sem hér sitja og hlýða á mál mitt með miklum áhuga, hv. þm. Magnús Stefánsson, hv. þm. Lúðvík Bergsveinsson og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Ég er sennilega að tala við hina sem sitja við sjónvarp sitt á skrifstofum sínum eða heima við og hafa í 15 eða 20 ræðum opinberað fávisku sína og þekkingarleysi á þessum málum. Af þeim sökum sá ég sérstaka ástæðu til þess að fara yfir það í örstuttu máli hvaða mikilvæga hlutverki sveitarstjórnarstigið gegnir í þessu máli og hvað það þýðir fyrir okkur að afgreiða þetta frv. til sveitarstjórnarlaga.

[24:00]

Ég var að nefna það, svo ég hoppi nú úr einu í annað og algjörlega tengslalaust, að ég er hræddur um að mörgum brygði í brún ef sá grunnþjónustuþáttur í hverju sveitarfélagi sem lýtur að sjúkraflutningum og brunavörnum væri ekki annars vegar. Þar eru sveitarfélögin enn og aftur í lykilhlutverki.

Ég er hræddur um að það yrði líka lítið um innihaldið og grunninn í hátíðaræðum hæstv. ferðamálaráðherrans ef sveitarfélögin sinntu ekki ferðaþjónustu hringinn í kringum landið. Það yrði lítið gagn í öllum þeim ræðum ef sveitarfélögin sinntu ekki þeim skyldum að gera ferðaþjónustunni hátt undir höfði. Þar liggur það enn og aftur í augum uppi að ef sveitarfélögin hefðu ekki metnað til þess, hefðu ekki frumkvæði og kraft til þess að sinna þessari ferðaþjónustu væri hæstv. ferðamálaráðherra bara einn í símanum, talaði bara út í tómið. (Gripið fram í: Við Sigurjónu.) Talaði bara til Georgíu eða við Sigurjónu. En það gefur auðvitað auga leið að það verður að vera endapunktur, það verður einhver að svara í símann. Í þessu tilfelli svara sveitarfélögin svo sannarlega kalli hæstv. ferðamálaráðherra og sinna þessari þjónustu og koma í símann í hvelli.

Auðvitað er ferðaþjónustan nátengd allri almennri afþreyingu í landinu í dreifðari og þéttari byggðum. Það er á hendi skipulagsyfirvalda, sveitarfélagsins, sveitarstjórnarinnar á hverjum stað að reyna að leysa úr læðingi áhuga á ýmiss konar afþreyingu, leysa úr læðingi áhuga þjónustuaðila til þess að bjóða upp á afþreyingu. Það gerist ekki af sjálfu sér alls staðar, það þekkjum við sérstaklega í dreifðari byggðum, að menn keppist beinlínis um að opna verslanir. Þar kemur sveitarstjórnarmaðurinn inn líka. Menn bíða ekki í röðum eftir því að kaupa verslunarhúsnæði í 300 manna eða 400 manna þorpum. Þar þurfa sveitarstjórnarmenn að koma beint eða óbeint að verki til þess að halda byggðinni einfaldlega gangandi.

Það er meira að segja þannig, þó að margir í þéttbýlinu geri sér ekki mikla grein fyrir því eða leggi mikið upp úr því, þá gegna sveitarstjórnarmenn miklu hlutverki í landbúnaðarpólitík okkar með forðagæslunni og fjallskilum. Raunar snýst það mestan part við í þéttari byggðum og sveitarstjórnarmenn hafa auðvitað barist dálítið við sauðkindina og lausagöngu búfjár í landnámi Ingólfs. Sumum sveitarfélögum hefur tekist býsna vel upp í því að koma böndum á þetta fé þéttbýlisbúanna, öðrum ekki, og það hefur leitt til ýmiss konar vandamála sem við erum enn þá að takast á við. En lögum samkvæmt gilda sömu lögmál um sveitarstjórnir í þéttbýli og dreifbýli, að þeim ber að gæta að forðagæslunni og fjallskilum enda þótt ekki reyni mikið á það beint.

Ég nefndi verslun áðan. Ég tala líka um atvinnurekstur. Við höfum auðvitað fylgst með því hringinn í kringum landið, sérstaklega og einkum á erfiðleikatímum hversu miklu hlutverki sveitarstjórnarmenn verða, hvort sem þeim líkar betur eða verr, að gegna í því að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Þess vegna verð ég að segja það, virðulegi forseti, og það kann að vera vegna þess að við erum við hér í sæmilegu góðæri, að mér finnst það dálítið hraustlegt hjá stjórnarþingmönnum mörgum hverjum, úr hinum dreifðari byggðum landsins, að loka algjörlega fyrir um það að sveitarfélög geti komið að því að styðja og styrkja atvinnurekstur heima í héraði. Auðvitað veit ég vel að þetta hefur verið mikið vandamál og það er pólitískt erfitt að meta það frá einu tilviki til annars hvenær og hvernig og hvort eigi að styðja og styrkja með ábyrgðarveitingu eða beinum fjárframlögum. Mér finnst hins vegar sumpart dálítil uppgjöf vera fólgin í þessu, því get ég ekki neitað. Hvort stjórnarþingmenn úr dreifðari byggðum séu einfaldlega búnir að sætta sig við orðinn hlut, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir með upplestri úr nýlega útgefinni skýrslu um búsetu á Íslandi, að fólk flykkist einfaldlega hingað á suðvesturhornið og hér setjist fólk í stórum stíl að, þá er það viðhorf en þá eiga menn auðvitað að segja það. Það hefur enginn sagt enn þá. Annað atriði í sambandi við ábyrgðarveitinguna ætla ég að gera að umtalsefni á eftir þegar ég vík nokkrum orðum að þessu frv. En þetta er sá þáttur sem ég vildi nefna í þessu samhengi.

Að lyktum vildi ég nefna í þessari örstuttu upptalningu af því mikilvæga hlutverki sem sveitarfélögin hafa með höndum og það er auðvitað atvinnurekendasjónarmiðið. Það er einfaldlega þannig að sveitarfélögin eru sennilega með stærri atvinnurekendum í landinu, semja um kaup og kjör við starfsmenn sína, þurfa auðvitað að halda úti starfsmannavænni atvinnustefnu og starfsmannastefnu og bera af þeim orsökum einum feikilega mikla ábyrgð. Þar hefur gengið á ýmsu og ég veit vel að hv. þm. Ögmundur Jónasson kann margar sögur af því. Þar eru ýmis vandamál sem við í Alþingi þurfum að koma nærri og sveitarfélögin hafa ekki náð að leysa enda kannski ekki á þeirra borði.

Þá er að víkja að þessu svokallaða samningsfrelsi sem stundum er svo nefnt. Það eru náttúrlega dæmi þess í sveitarfélögum að fólk vinnur sambærileg störf hlið við hlið, annar er í starfsmannafélagi viðkomandi sveitarfélags, hinn er í verkalýðsfélagi viðkomandi sveitarfélags og fá laun samkvæmt tveimur algjörlega óskyldum töxtum. Stundum er þar mismunur á og hallar á annan. Þetta er vandamál sem menn hafa út af fyrir sig átt mjög erfitt með að leysa. Ég minnist þess, af því ég er nú með upprifjanir í þá veru af reynslu minni í þessu sambandi, að ég hef ævinlega talið það vera hlutverk stéttarfélaganna sjálfra að finna á því viðunandi lausn, að það sé auðvitað enginn bragur á því að atvinnurekandinn taki um það einhliða ákvörðun hvorum megin hryggjar fólk eigi að liggja í stéttarfélögum, hvort það er starfsmannafélagsmegin eða í hinum almennu verkalýðsfélögum. Það verður að vera samkomulagsatriði milli stéttarfélaganna sjálfra og þeirra einstklinga sem hlut eiga að máli. Þannig hlýtur það auðvitað að verða.

Virðulegi forseti. Þetta var sá þáttur sem laut að því að reyna að glöggva tiltekna þingmenn á því mikilvæga hlutverki sem sveitarstjórn hefur með höndum og til þess að undirstrika að menn fara ekkert á harðahlaupum og handahlaupum yfir það frv. sem er til umræðu. Það er allt of mikið í húfi og þá ekki eingöngu það sem mest hefur verið rætt um og menn hafa helst haft á orði og lýtur að hálendismálum heldur er hér líka um grundvallarlagasetningu að ræða, eins og ég gat um, um sveitarstjórnirnar í landinu og hina lagalegu umgjörð sem þær eiga að starfa eftir.

Ég nefndi það rétt sem snöggvast, og rétt að árétta það, að þótt ekki séu nema tíu ár síðan núgildandi lög um sveitarstjórnir voru samþykkt þá hefur að mörgu leyti orðið bylting á öllu umhverfi á þessum árum. Bylting sem ég hafði talið og trúað að leiddi til þess að höfundar þessa frv., þeir sem fóstruðu þetta frv. og fóru um það höndum og gerðu það úr garði, hefðu eilítið meiri metnað og eilítið meira hugmyndaflug í þá átt að láta þetta nálgast þennan nýja veruleika. Þá er ég að tala um byltingu í upplýsingatækni og það hafa menn auðvitað talað hér um, ekki eingöngu það sem hefur verið nefnt í þessum ræðustól, að fundargerðir eða fundir öllu heldur yrðu ekki skrifaðir í fundargerðarbók heldur teknir upp á band, ég er auðvitað að tala um nettengingu. Ég er að tala um það að þessi lög, ef menn vilja vera í forsjárhyggju eins og þetta frv. segir til um, sem ég hef þó efasemdir um, að þá væri bent á að sveitarfélögin hefðu allar fundargerðir á netinu einum eða tveimur dögum eftir að þær hefðu verið frágengnar þannig að almenningur eigi aðgang að þeim þar. Við opnum því almenningi aðgang að þeim upplýsingaheimi og að sveitarfélögin verði þáttur í því. Öll sveitarfélög eru meira og minna nettengd og hafa öll tæki og tól til þess arna. Af hverju ræðum við þetta ekki í stað þess að vera hér með einhver hundgömul og ónýt ákvæði um það í hvers konar bækur eigi að skrifa fundargerðir? Af hverju opnum við ekki á þennan þátt?

Ég hefði líka trúað því af því að allir eru sammála um það og hafa barist fyrir því, sumir mikið og aðrir minna, að fækka og stækka sveitarfélögin og þar með efla þau, að það þýddi að þessi forsjárhyggja ætti að minnka, þ.e. að þetta stafróf, það að stafa ofan í sveitarfélögin nákvæmlega hvernig þau eiga að haga fundum, nákvæmlega hvernig þau eigi að standa að þessu og hinu, að eitthvað ætti að draga úr þessu öllu saman og að við sæjum fyrir okkur færri og stærri sveitarfélög innan ekki allt of margra ára, sem leiddi það af sér að þau væru sjálfum sér nóg, þyrftu ekkert á svona forskriftum að halda. Þar væru öflugri fjárhagslegri heildir sem gerði það að verkum að það þyrfti ekki eftirlitsmenn í svörtum frökkum í félmrn. til að mæta í heimsóknir reglulega til að athuga hvort ekki væri allt í lagi með fjármálin og það er út af fyrir sig sérkapítuli sem ég ætla að drepa á hér á eftir.

Ég hafði kannski séð það fyrir mér, þó ekki væri nema í greinargerð með þessu frv. að menn lyftu lokinu af einhverri framtíðarsýn varðandi önnur ný verkefni sem ættu að fara til sveitarfélaganna í ljósi þeirrar þróunar að gera þau færri, stærri og öflugri. Að menn opnuðu á það í athugasemdum með frv. að kannski væri heilsugæslan ekkert langt undan, að menn ætluðu kannski að skoða langlegudeildir fyrir aldraða, væru jafnvel með einhverjar tímasetningar í því, a.m.k. væri á það drepið að þetta frv. skapaði góðan grundvöll til þess innan ekki allt of margra ára að menn gætu farið að huga að raunverulegum frekari verkefnatilflutningi. Nei, nei, ekki aukatekið orð, ekki andað að þessu. Ekkert aukatekið orð um þetta.

Ég hafði líka trúað því og látið mér til hugar koma, af því að við höfum á hinu háa Alþingi verið að fara í dálítið gagnmerka vinnu og gagnlega sem lýtur að fjárreiðum ríkisins, til að mynda hlutverki Ríkisendurskoðunar og hvernig endurskoðun er háttað. Það vakti því sérstaka athygli mína að hér ganga aftur, og er auðvitað enn hnykkt á, hlutverk svokallaðra skoðunarmanna, kjörinna skoðunarmanna. Ég held mig misminni ekkert um það að við á hinu háa Alþingi höfum tekið það fyrirkomulag af, að ekki hafi verið talin þörf á því að kjörnir væru sérstakir yfirskoðunarmenn ríkisreiknings. Ég sé auðvitað hérna fyrir framan mig sérlegan sérfræðing í þeim efnum, hv. þm. Svavar Gestsson, sem gegndi því hlutverki um árabil ef ég man rétt og þekkir því þá sögu en ég held ég muni það rétt, og hann leiðréttir mig þá ef það er ekki, að menn hafi verið sammála um að með þessari nýskipan mála þjónaði það ekki tilgangi. Menn eru enn þá með þessa skoðunarmenn og það þekkja allir sem vilja vita, og sérstaklega í smærri sveitarfélögum, að þeir eru kjörnir af stærstu flokkunum til þess að gæta að sumu leyti þeirra hagsmuna en vonandi bæjarbúa allra í mörgum tilfellum. Oft hefur þetta skapað feikilega mikla erfiðleika, pólitíska tortryggni, undirmál, erfitt að halda trúnaði í smærri sveitarfélögum þar sem fáir búa og nálægð er mikil. Satt að segja sé ég ekki nokkurn tilgang í því að menn séu að halda í slíkt fyrirkomulag og ætla að ræða það eilítið betur á eftir. Því ég er hér á yfirferð yfir það sem ég hélt að yrði í þessu frv. en er ekki og sem mér finnst bera vott um það að þeir sem þetta sömdu hafi sumpart misskilið hlutverk sitt. Nema það hafi verið þannig að þeir hafi fengið þessa forskrift frá hæstv. félmrh. strax í upphafi, í þessari endurskoðunarvinnu, að það ætti einfaldlega að lesa próförk og eitthvert púss. Lesa próförk og eitthvað aðeins meir. Það er raunverulega það sem verið er að gera.

[24:15]

Þess vegna segi ég það, virðulegi forseti, eftir þessa upptalningu að þetta veldur feikilegum vonbrigðum. Því það er ekki verið að auka völd sveitarfélaga í landinu heldur þvert á móti að draga úr þeim. Það er kjarni þessa máls. Mér er meinilla við það, en verð samt að gera það, að vitna til hv. þm. Péturs H. Blöndals, því það kom að því að hann hefði rétt fyrir sér í einhverju. Og hann hafði rétt fyrir sér í því, það er sárt að þurfa að viðurkenna það, þegar hann fullyrti að að sumu leyti væri verið að svipta hér sveitarstjórnir fjárforræði. Það eru feikilega stór orð. En að sumu leyti er hægt að taka undir þau.

Ég neita að trúa því af gömlum samskiptum við sveitarstjórnarmenn að þeir ætli orðalaust að láta þetta yfir sig ganga. Ég neita bara að trúa því og ég ætla að rökstyðja þessa staðhæfingu mína á eftir þegar ég fer yfir kaflann um fjármál sveitarfélaga alveg sérstaklega.

En ekki síst er þetta alvarlegt vegna þess að árið 1994 samþykktum við á hinu háa Alþingi nýja stjórnarskrá, hvorki meira né minna. Þar var farið yfir sveitarstjórnarmálin eins og önnur mikilvæg mál og gerð var breyting á þeirri grein stjórnarskrárinnar sem þá var í gildi og laut að sveitarfélögum. Í eldra ákvæði var greinin nr. 76 í stjórnarskránni og hljóðaði þannig með leyfi forseta:

,,Rétti sveitarfélaganna til að ráða sjálf málefnum sínum með umsjón stjórnarinnar skal skipað með lögum.``

Árið 1994 var samsvarandi ákvæði í 78. gr. núgildandi stjórnarskrár og hljómar þannig, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.``

Hver er nú munurinn á þessu tvennu? Hann er ákaflega skýr. Hann er sá að út eru farin orðin ,,með umsjón stjórnarinnar``. Og tilgangur nefndarinnar sem vann þetta mál, og væntanlega hins háa Alþingis, með því að taka þessi orð út var að auka sjálfstæði sveitarfélaga. Með öðrum orðum: Málefnum þeirra yrði skipað með lögum en stjórnin hefði ekki stjórnarskrárvarinn rétt til að hlutast til um þeirra málefni eða hafa umsjón með þeim. Sá þáttur málsins var tekinn út.

Þess vegna eru það eins og hver önnur öfugmæli að í þessu frv. er gengið í allt aðra átt. Það eru stóraukin afskipti stjórnarinnar, framkvæmdarvaldsins í eftirliti og beinum afskiptum af sveitarstjórnarstiginu. Og það gagnrýni ég harðlega og tel fjarri öllu lagi. Það hefur stundum verið tíðkað að hafa uppi stór orð og vitna til stjórnarskrárinnar í því sambandi. Ég ætla svo sem ekkert að hafa neinn umbúnað utan um það, ég bara segi það eitt: Það stóð í stjórnarskránni 1994 að stjórnin ætti að hafa umsjón með sveitarfélögum. Af ástæðum sem ég hef þegar rakið stendur það ekki lengur þannig að stjórnin hefur engan stjórnarskrárvarinn rétt lengur til þess að hafa umsjón með sveitarfélögunum. Alþingi hefur stjórnarskrárvarinn rétt til og raunar skyldu að skipa málum þeirra með lögum. En framkvæmdarvaldið, ráðuneytin hafa ekki lengur neinn stjórnarskrárvarinn rétt til þess. Þess vegna er það fullkomlega úr takti, virðulegi forseti, að frv. af þessum toga, þar sem menn ganga í þveröfuga átt, komi hér fram.

Ég ætla að drepa á örfá atriði sem lúta að óþarfa afskiptum ráðuneytisins um tiltekin smámál með sveitarfélögum. Það er nú ekki eins og við séum að tala um sveitarstjórnarstigið eins og óþekktan frænda úti í sveit því að þetta er þannig að til sveitarstjórnarstigsins er kosið á fjögurra ára fresti, og raunar nú á næstu vikum, og það lýtur sömu lýðræðislegu lögmálum og við gerum hér á hinu háa Alþingi. Hugmyndafræðin er því einfaldlega sú í okkar lýðræðisríki að fari sveitarstjórnarmenn villir vegar þá er þarna fólk sem við höfum samkvæmt okkar stjórnskipan treyst til þess að ráða ráðum sínum, þá er það með völd til þess að skipta þessum mönnum út sem standa sig ekki í stykkinu. Flóknara er nú ekki það fyrirkomulag sem við höfum búið hér um okkur og enginn hefur lagt til og enginn held ég að hafi í hyggju að leggja til að breytt verði. Þannig er það nú bara.

Ég geri svo sem engan greinarmun, virðulegi forseti, á því hvernig þetta frv. var og hvernig lagt er til að því verði breytt, þ.e. hvernig núgildandi lög eru og hvernig frv. er, því almennt er þetta í þá veruna að afskiptin eru aukin, eins og ég sagði áðan, heldur lýsi ég bara almennum viðhorfum mínum til ýmissa þátta sem að þessu lúta sem ég nefndi áðan um þau afskipti, þessa afskiptasemi vil ég segja, ríkisins af sveitarfélögum.

Það segir til að mynda í 4. gr. um heiti sveitarfélaga, að segja þurfi sveitarstjórn það að leita umsagna hjá örnefnanefnd. Það þarf ekkert að segja sveitarfélögum svona hluti. Ef sveitarstjórnir eru eitthvað óvissar um sinn hlut og sinn hag varðandi nafngift sveitarfélaga þá leita þau auðvitað ráða hjá bestu mönnum. En við þurfum ekki hér á hinu háa Alþingi að segja t.d. Reykjavík frá því eða stórum þorpum hér á landinu, að það þurfi endilega að tala við örnefnanefnd. Það er bara þeirra val, nákvæmlega á sama hátt og ég sagði áðan. Það hefur enginn þurft að segja sveitarfélögum fyrir verkum hvernig þau eiga að haga þjónustu við ferðamenn, hvernig þau eiga að haga þjónustu við æsku landsins, hvernig þau eiga að haga sinni menningarstarfsemi. Þau hafa staðið sína plikt fullkomlega án þess að hið háa Alþingi þurfi að stafa það ofan í þau.

Sama gildir raunar um 5. gr., hún stingur mig ákaflega illa, að einhvern langan passus þurfi um það hvernig sveitarstjórnarstigið, þetta stjórnsýslustig, sem að mörgu leyti --- og ég segi það enn og aftur --- er jafnsett framkvæmdarvaldinu gagnvart Alþingi, að það þurfi að segja því nákvæmlega fyrir verkum í gegnum hvaða síur og til hvaða nefnda --- það var raunar sem betur fer tekið út, félmn. hafði þó vit á því að taka út þá tillögu sem finna mátti í frv. um að félmrh. skipaði þriggja manna nefnd sem skyldi fjalla um útlit byggðarmerkja og önnur tengd atriði. Og ekki nóg með það heldur ætlaði ráðuneytið að setja almennar reglur um byggðarmerki og hlutverk byggðarmerkjanefndar. Hvers konar þvæla og vitleysa er þetta? Hverjum datt svona óskapnaður í hug? Nefndin komst auðvitað að þeirri niðurstöðu sem betur fer að leggja af þessa blessuðu nefnd.

,,Ég er í byggðarmerkjanefnd.``

,,Hvaða hlutverk hafið þið?``

,,Jú, við vinnum samkvæmt reglugerð félmrn., við förum yfir tillögur að byggðarmerkjum hjá sveitarfélögum hringinn í kringum landið.``

,,Er það merkilegt starf sem þið vinnið þar?``

,,Já, þetta er mjög merkilegt starf sem við vinnum þar við mörg erfið úrlausnarefni. Við í þessari nefnd lendum að vísu stundum í ákveðnum kergjum og erfiðleikum við sveitarfélög sem hafa ýmsar skoðanir á hlutunum. Fyrir vestan til að mynda lentum við í því ekki fyrir margt löngu að þeir vildu endilega ákveðið byggðarmerki. En við í byggðarmerkjanefndinni lögðumst eindregið gegn því. Litasamsetning var með þeim hætti að það var ekki boðlegt nokkrum manni. Og við höfðum það auðvitað af.`` (SvG: Hvar var þetta?)

,,Ja, við í byggðarmerkjanefndinni erum auðvitað bundnir trúnaði þannig að ég fer ekkert lengra með það. En þetta var mjög erfitt mál í þessari byggðarmerkjanefnd.``

Ég sé það fyrir mér að ráðherra verður að breyta reglugerðinni þannig að það sé alveg ljóst hvar völdin liggja í þessum byggðarmerkjum. (Gripið fram í: Má ekki færa þetta undir lög...) Þetta var að vísu sem betur fer tilbúin saga, enda þetta ákvæði komið út. En annað inn að vísu því að nú skulu þeir hjá Einkaleyfastofunni koma að þessu máli. Nú skulu þeir veita umsóknum viðtöku og kanna skráningarhæfi byggðarmerkjanna. Og til að allt standist nú í þessu sambandi þá skal umsókn fylgja tilskilið gjald.

Ég sé fyrir mér borgarstjórann í Reykjavík senda borgarlögmann upp á Einkaleyfastofu og sækja um og hafa peninginn með sér.

Ef það eru reglur og lög sem gilda um Einkaleyfastofuna, sem ,,inklúdera`` byggðarmerki þá er auðvitað eðlilegt að það sama gildi um sveitarfélög. En að það skuli þurfa að standa í frv. til sveitarstjórnarlaga:

,,Byggðarmerki skulu skráð hjá Einkaleyfastofunni sem veitir umsóknum viðtöku`` --- og ég vek á þessu athygli, ,,umsóknum`` --- ,,og kannar skráningarhæfi merkjanna. Umsókn skal fylgja tilskilið gjald.``

Síðan er nú ekki alveg nóg komið því að það er líka annar mikilvægur þáttur hér sem menn þurfa að hafa mjög ofarlega í huga í þessu sambandi. Því áfram segir:

,,Iðnaðarráðherra setur nánari reglur um skráningu byggðarmerkja, m.a. varðandi umsóknir og meðferð þeirra,`` --- nú já, þá fór í verra --- ,,skilyrði fyrir skráningu, ógildingu, birtingu og gjöld fyrir umsóknir og vottorð úr byggðarmerkjaskrá.`` (Gripið fram í.)

Nú fer þetta að verða dálítið flókið mál og spurning um það hvort þessi málsgrein, þar sem iðnrh. kemur sérstaklega að byggðarmerkjamálum, ætti ekki fremur heima þá á undan þeirri málsgrein sem lýtur að hlutverki Einkaleyfastofunnar í þessu sambandi. Því að koma á með tilskilið gjald til Einkaleyfastofunnar, en það er ekki fyrr en síðar í þessari grein sem ráðherra hefur þá ákveðið gjöld fyrir umsóknina.

Það getur vel verið að ég sé einhvers staðar úti á túni í þessu sambandi en mikið lifandis skelfing finnst mér þetta fráleitt, að það þurfi að segja sveitarfélögum í landinu árið 1998 hvernig þau eigi að standa að því að ákveða sín byggðarmerki. Mér finnst þetta fullkomlega og algjörlega fráleitt. Lái mér hver sem vill. En ég spyr hvort menn viti það betur en ég hvort þetta sé nýmæli hvað varðar byggðarmerki, eða á þetta kannski við merki almennt? Eða hefur Einkaleyfastofan --- ég kann nú bara ekkert á þá stofnun --- þetta hlutverk almennt með svona merki? (SvG: Merki stjórnmálaflokka.) Já, mér datt það einmitt í hug. Erum við undir þá sök seldir til að mynda kratarnir með okkar rós að við þurfum að fara í gegnum þetta allt saman? (SvG: Nei. En ránfuglinn.) Ránfuglinn er undir það settur. (SvG: Já, hann er undir það settur.)

Ég spyr bara af því að ég veit ekki: Ef það er þannig að allir þurfi að fara á skrá hjá Einkaleyfastofunni með merkin sín, getur maður þá ekki fundið það í lögum um Einkaleyfastofu, virðulegi forseti? Er þörf á því að taka það sérstaklega fram í frv. til laga um sveitarstjórnir á Íslandi? Og þessi þáttur, þetta nýja verkefni til iðnrh., sem vekur sérstaka athygli mína, er það eingöngu hvað varðar skráningu byggðarmerkja? Af því að sveitarfélögin hafi ekki sinnt því hlutverki sínu nægilega vel að klára sig á byggðarmerkjamálinu? (Gripið fram í: Er ekki hægt að fá félmrh. ...?) Ég hélt satt að segja að það væru velflest sveitarfélög með sæmileg byggðarmerki. (Gripið fram í.) En ég spyr: Ætlar hæstv. félmrh. hvergi að koma að þessu máli? Er hann bara út úr þessu dæmi? Ætlar hann ekki að hafa neinar skoðanir lengur á þessum byggðarmerkjum? Samkvæmt brtt. nefndarinnar hefur hann engu hlutverki að gegna varðandi þetta margflókna mál um byggðarmerkin.

[24:30]

Ég spyr, virðulegi forseti, og vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. félmrh.: Er hann virkilega sáttur við það að hafa engu hlutverki að gegna varðandi byggðarmerkin? (Gripið fram í: Hvar er félmrh.?) Ég verð að óska eftir því, virðulegi forseti, að ráðherrann komi því að ég spyr: Er þessi brtt. nefndarinnar með hans samþykki? Er hæstv. ráðherra í húsinu?

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að ráðherra er í húsinu og hefur verið það í allt kvöld og í allan dag.)

Þá óska ég eftir því að hann leggi við hlustir, virðulegi forseti. Ég ætla að beina til hans hér ákveðinni spurningu. (Gripið fram í: En iðnrh.?) Ég bíð þá aðeins með þessa spurningu um byggðarmerkin og félmrh. þar til hann lætur sjá sig. Þar kemur hann og komi hann fagnandi, hæstv. félmrh. Mín spurning var þessi: Er hæstv. félmrh. sáttur við þá róttæku breytingu sem gerð hefur verið á 5. gr. frv. sem lýtur að því að hann hefur engu hlutverki að gegna lengur varðandi byggðamerkin? (Félmrh.: Já.) Á ég að trúa því þá að hann létti af sér allri ábyrgð varðandi byggðarmerkin og ætli að fela Einkaleyfastofunni og iðnrh. að taka þau mál og stýra að öllu leyti? (Félmrh.: Ég læt mig alveg hafa það.) Mikið var þetta valdaframsal ráðherrans og eru þá byggðarmerkin komin í iðnrn. (Gripið fram í: Þá þarf að kalla hann til.) Ég vænti þess að iðnrh. lýsi skoðunum sínum sérstaklega til þessa byggðarmerkjamáls þegar fram líða stundir.

Virðulegi forseti. Auðvitað er þetta mál allt saman eins og hver annar brandari, að setja hér á þrjár málsgreinar um byggðarmerki. Eigum við ekki bara að hafa sjálfstæð lög um þetta?

Kemur þá að stærri málum og mikilvægari sem ástæða væri til þess að fara eilítið ítarlegri í en byggðarmerkjamálið og það er stærð eða lágmarksíbúatala sveitarfélag. Menn hafa með réttu gagnrýnt það dálítið að þessi lágmarksíbúatala er býsna lág og margir eru þeirrar skoðunar að hún þurfi að vera miklu hærri. Ég neita því ekki að ég hef ævinlega verið þeirrar skoðunar að það eigi að forðast það eins lengi og nokkur kostur er að lögþvinga sveitarfélög til að sameinast, það eigi að vera sem fjálsast og að íbúar eigi að sjá sjálfir skynsemina í því að taka höndum saman. Þess vegna væri mér nákvæmlega sama þó hér væri ekki neitt, þ.e. hvort þessi fyrsta fyrsta setning væri inni eða úti. En ég held að neyðin kenni naktri konu að spinna og að þróun þessara mála verði enn hraðari en verið hefur síðustu missiri og mánuði sem hefur þó verið býsna hörð þegar hún loksins fór í gang. Rétt er að minna á að það var auðvitað vegna baráttu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur --- sem var mjög vanþökkuð til að byrja með --- sem þessi sameiningarbylgja sveitarfélaga fór virkilega af stað. Það byrjaði ekkert allt of vel 1993 að vori. Menn spáðu þessu illa og sérstaklega eftir fyrstu kosningu. Kannski hafa menn farið of bratt og ekki gefið sér nægilega langan tíma. Ég veit ekkert um það. En ég man að margir höfðu það sjónarmið eftir þær kosningar --- hvort það var 1992 eða 1993 --- að þetta væri andvana fætt og bæri feigðina í sér, að engin stemmning og enginn vilji væri fyrir því að íbúar sveitarfélaganna á Íslandi vildu í raun og sanni sameinast.

Tíminn hefur leitt annað í ljós. Á ólíklegustu stöðum hefur sameining náð fram að ganga, á stöðum sem engum hefði til hugar komið fyrir fjórum, fimm árum að gæti orðið. Sá hefði verið álitinn galinn og vitlaus sem hefði haldið slíku fram.

En þetta er nú að gerast og ég held að þessi þróun verði ekki stöðvuð þannig að ég læt mér það kannski í léttu rúmi liggja út af fyrir sig að þessi grein sé eins og hún er. Ég held að þróunin og andrúmsloftið, pólitíkin og vilji almennings sé einfaldlega í þá veru að það reyni á þetta í algjörum undantekningum. Það eru auðvitað undantekningar á öllu og ég ætla ekkert að nefna þær. Ein er uppi í Borgarfirði og önnur kannski annars staðar.

Ég var búinn að drepa örlítið á 7. gr. og ætla ekki að staldra mikið lengur við hana en get þó ekki látið hjá líða að nefna síðustu málsgreinina sem menn hafa eðlilega rætt eilítið. Hún varðar rekstur stofnana sveitarfélaga sem eru margvíslegar. Einkum eru það veitustofnanir sem menn eru sannarlega að ræða hér um og sumar hafa skilað ágætri afkomu. Nefndin hefur, held ég, tekið skynsamlega á því verkefni hvernig beri að skapa þessum stofnunum sæmilegan lagaramma. Gefið er smá andrými fyrir þessar stofnanir til að skila nokkrum aurum í arðgreiðslur til eigenda. Ég held út af fyrir sig, þrátt fyrir skiljanlegan pirring sumra sveitarfélaga, að erfitt sé að standa gegn því. Auðvitað þekki ég það úr mínu kjördæmi, bæði í Hafnarfirði og í Kópavogi, að menn hafa með réttu sagt að kaupendur heita vatnsins í þessum tveimur sveitarfélögum og Garðabæ hafi í raun borgað stóran hluta í Perlunni, 10--20% eða hvað það nú var. Og það má til sanns vegar færa. Sú gagnrýni hefur stundum verið hávær. Þetta verður ævinlega umdeilanlegt. Í þessu tilfelli er stóra sveitarfélagið að veita hinum minni ákveðna þjónustu og íbúar þeirra hafa fengið þá þjónustu eða þetta vatn, skulum við segja, á sömu kjörum og íbúar í borginni sjálfri. Það er því kannski lítið við því að segja þegar allt kemur til alls þó að eigandi þessarar auðlindar --- sem hefur sannarlega í þessu tilfelli lagt í ákveðna fjárfestingu, í áveðinn undirbúning, í ákveðna vinnu við það að gera þessa auðlind að því arðbæra fyrirtæki sem hún síðan reynist --- hirði þá einhvern arð af því. Og það sé síðan þeirrar sveitarstjórnar að ákveða hvernig honum er varið. En í þessu sambandi hafa sveitarfélögin, Hafnarfjörður og Kópavogur, af því ég geri þau að umtalsefni, gert ákveðið samkomulag um það hvernig þessu skuli háttað. Arðgreiðslur er til að mynda að finna í samkomulagi við Kópavogsbúa, ef ég fer rétt með. Um það er deilt að vísu í samningi borgarinnar og Hafnarfjarðarbæjar en þar er þetta eilítið öðruvísi.

Ef ég ætti að gera langa sögu stutta í þessu samhengi þá held ég að menn hafi í grófum dráttum hitt naglann á höfuðið með fyrirkomulag þeirra mála sem brtt. nefndarinnar gera ráð fyrir.

Ég vil kannski nefna í þessu samhengi, áður en ég vík frá 4. mgr. 7. gr. frv. um stofnanirnar og þann sjálfsagða rétt þeirra að hafa sjálfsforráð á gjaldskrá eigin fyrirtækja (Gripið fram í: Er nokkuð sjálfsagt lengur?) --- það þykir mér eðlilegt og sjálfsagt --- að auðvitað eru til sveitarfélög eins og Garðabær sem mótmæla þessu harðlega. Við hv. þm. fengum í gær eða dag yfirlýsingu frá bæjarráði Garðabæjar þar sem því er harðlega mótmælt að menn ætli að ganga svona frá 7. gr. með þessari útvíkkun á rétti sveitarfélaganna til að hirða arð af eigin fyrirtækjum eins og tillögur félmn. gera ráð fyrir. Garðbæingar hafa til að mynda kvartað í þessa veru yfir afkomu Rafveitu Hafnarfjarðar þannig að mörg sjónarmið eru uppi í þessu, við skulum ekkert blekkja okkur með öðru. Ég sé hins vegar ekki fyrir mér aðrar leiðir skárri til að skipa þessum málum en nefndin gerir hér tillögu um.

Ég vil segja almennt, virðulegi forseti, af því að hann heyrir að ég er mjög áhugasamur um að sveitarfélög ráði sínum málum sjálf og af því að menn eru hér að tala um sjálfsforræði og sjálfstæða tekjustofna, að ég vil hafa svigrúm og möguleika sveitarfélaga til þess að ákvarða upp á eigin spýtur tekjuöflun og hef ævinlega haft illan bifur á þessum svokölluðu lágmörkum og hámörkum í útsvari. Nú veit ég að samkvæmt stjórnarskránni er það eingöngu löggjafans að ákveða um skatta. En ég hef verið þeirrar skoðunar að þessi lágmörk útsvars og hámörk gætu þess vegna verið 1% og upp í 30%. Sem þýðir í raun og sanni að það væri hverrar sveitarstjórnar að ákveða hvort hún ætlaði að leggja á hátt útsvar, mjög hátt útsvar eða mjög lágt útsvar og að það væri kjósenda síðan að verðlauna eða refsa viðkomandi sveitarstjórnum í þeim kosningum sem í hönd færu vegna slíks ráðslags. Það væri með öðrum orðum á ábyrgð sveitarfélaganna sjálfra, ekki eingöngu að verja peningunum og eyða peningunum heldur líka hvernig þeirra er aflað.

Þetta finnst mér feikilega mikilvægt og auðvitað verður maður oft var við að mörg sveitarfélög nota ríkisvaldið og löggjafarvaldið eins og skálkaskjól þegar að þessu kemur, taka sig jafnvel saman um það að fara öll upp í hámarkið og nota ríkissjóð eða löggjafarvaldið sem eins konar viðbáru og segja: ,,Þetta eru ákvarðanir sem við þurfum að búa við frá hinu háa Alþingi eða framkvæmdarvaldinu.`` Þetta er lenska sem því miður hefur verið til staðar víða í sveitarfélögum þó að, eins og ég sagði áðan, í langflestum tilfellum hafi ég kynnst sveitarstjórnarmönnum og sveitarstjórnarstiginu sem öflugu stjórnsýslustigi sem vill standa sterkt og öflugt á eigin fótum.

Til að reyna að koma þessum einstöku athugasemdum sem ég geri við einstaka liði þessa frv. sæmilega skipulega frá mér, staldra ég næst við 13. gr. frv. sem lýtur að fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar. Þar eru að vísu brtt. frá nefndinni en ég staldra nú kannski ekki við þann þátt greinarinnar heldur hinn að sveitarstjórn skuli taka við 15 dögum eftir kjördag.

Nú veit ég auðvitað vel, virðulegi forseti, og það rifjast upp, að fyrir nokkrum vikum síðan afgreiddi Alþingi, að vísu gegn mínu atkvæði, við samþykkt nýrra laga um kosningar til sveitarstjórna, ákvæði sambærilegt þessu. En ég get ekki látið hjá líða að árétta viðhorf mitt sem enginn reyndi í umræðunni um það mál að mótmæla, hvorki flm. málsins, hæstv. félmrh., né nokkur annar: Hvers vegna í veröldinni ættu að gilda önnur lögmál við kjör trúnaðarmanna til sveitarstjórna en Alþingis? Hvers vegna þarf allt í einu 15 daga aðlögunartíma, bæði fyrir þá sveitarstjórn sem er að hverfa frá eða þá sem við á að taka? Hvaða rök mæla með því? Ekki nokkur. Þetta er eins og hver önnur fásinna. Ég minnist þess 1986 þegar þetta var samþykkt og var þá nýmæli, að menn voru að gera því skóna að prýðilegt væri fyrir nýja sveitarstjórn, áður en hún tæki við, að hafa 15 daga til þess að reyna að semja um meiri hluta, koma skikk á sín mál og hvíla sig eftir kosningabaráttuna. En það veit hver einasti maður að slík vinna byrjar hvort eð er daginn eftir kosningar, hvort heldur að menn hafi tekið formlega við völdum eður ei. Það hefur engin áhrif þar á.

[24:45]

Þetta fyrirkomulag gerir hins vegar það eitt að skapa óvissu og tortryggni því að til staðar er sveitarstjórn í 15 daga enda þótt búið sé að kjósa nýja. Í lögunum um kosningar, sem hefði kannski frekar átt heima í þessum lögum, er langt og ítarlegt ákvæði um það hvað gamla sveitarstjórnin má gera og hvað hún má ekki gera. Gamla sveitarstjórnin má með öðrum orðum í 15 daga láta hlutina ganga sinn veg og greiða það nauðsynlegasta en ef hún gerir eitthvað meira en ástæða væri til hefur nýja sveitarstjórnin rétt til þess, enda þótt hún sé ekki búin að taka við, að gera við það alvarlegar athugasemdir og setja á það stóra stopp. Það eru einhvers konar tvær sveitarstjórnir við völd í sveitarfélaginu en þó engin. Það þurfti einar átta eða níu línur í nýlegum lagabálki um kosningar til Alþingis til þess að reyna að skýra þetta og skilgreina en dugði þó ekki til. Auðvitað mætti segja frá lagatæknilegu sjónarmiði að sá texti hefði langtum frekar átt að eiga heima hér en út af fyrir sig er það ekki meginatriði málsins. Aðalatriðið er að þessi 15 daga frestur er kjánagangur og menn eiga ekki að framlengja svona ákvæði sem þjónar engum tilgangi nema til að skapa óvissu og óvissa er til að eyða henni en ekki til að auka við hana og framlengja.

Síðan verð ég að segja, virðulegi forseti, í 15. gr. þessa frv. að ekki finnst mér stórhugurinn né metnaðurinn feikilegur þegar kemur að ábendingu löggjafarvaldsins um það hversu oft sveitarstjórnir þurfa að funda. Fundi skal halda eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Nú hef ég um það efasemdir að það þurfi neina forskrift að því í lögum frá hinu háa Alþingi hversu oft sveitarstjórnir eigi minnst að funda. Ég held að alveg nægilegt sé að gera þá kröfu til sveitarstjórna eins og gert er í þessum lögum að þær semji sér skipulagsskrá, samþykki sér eins konar ,,stjórnarskrá`` þar sem er í öllum tilfellum væri kveðið á um fundatíðni og fundafjölda. Þar fer mjög eftir stærð viðkomandi sveitarfélaga hversu þær hafa þörf á og telja þörf á að funda. Síðan fer ráðuneytið yfir samþykktir allra sveitarfélaganna hringinn í kringum landið og staðfestir þær eins og þessi lög segja fyrir um. Hvers vegna í veröldinni þurfum við þá að búa til heila grein um það hversu oft á ári sveitarstjórnarfundir þurfa að fara fram? Auðvitað segir það okkur að þeir sem sömdu frv. hafa ekki framtíðarsýn. Þeir hafa enga sýn á að sveitarstjórnarstigið á að efla, það er að stækka, sveitarfélögum er að fækka, heldur eru þeir í gömlum tíma. Þetta segir manni auðvitað bara það og sýnir enn og aftur að menn hafa kastað til þess höndum, hafa ekki opnað augun við smíðar þessa frv. Hafa verið fastir í fortíðinni og fjötraðir við hana.

Ég gæti svo sem farið með langt mál um þessar greinar sem fara á eftir, 16., 17., 18. og 19. gr. Það eru mörg atriði í þeim sem hafa stundum orkað tvímælis, sérstaklega auðvitað 19. gr. um hæfi sveitarstjórnarmanna og sumpart leysir þessi grein ekki mörg þau álitamál sem vaknað hafa um það. Ég fæ hvorki séð það né skilið glögglega. Það getur verið að ég hafi ekki áttað mig á því. Menn hafa verið að tala um skólastjóramál í því sambandi. Er þeirri grundvallarspurningu svarað? Nú hafa skólastjórar í sveitarstjórnum verið að segja af sér, kannski að talsmaður nefndarinnar geti svarað mér því hvort þetta frv. svari því, eða hvort ætlast sé til að það svari því, hvort skólastjórar megi sitja í sveitarstjórnum áfram og vera þar með yfirmenn sjálfs sín. Út af fyrir sig hef aldrei séð neitt að því sérstaklega og mér finnst lýðræðisrétturinn vera framar flestu öðru en sumir hafa bókstaflega sagt af sér af þessum sökum og er skemmst að minnast skólastjóra nokkurs og sveitarstjórnarmanns í Höfn í Hornafirði í þeim efnum. Þetta er umræða sem er mjög mikilvægt að fari fram. Ég er ekkert handviss um eftir að hafa lesið athugasemdir með frv. og frv. sjálft að við séum neitt miklu nær hvað varðar þessi mál öll sömul þannig að það væri svo sem alveg ástæða til þess, virðulegi forseti, að ræða þau örlítið meira en ég ætla ekki að láta það eftir mér að þessu sinni. Það gæti gerst við 3. umr. málsins.

Fer ég nú hratt yfir sögu, virðulegi forseti, en vildi staldra við 24. gr. frv. sem snýr að varamönnum. Ég held að hún sé til bóta að flestu leyti, þ.e. að því leytinu til sem nauðsynlegt er um þau mál að fjalla en af því þetta eru praktísk vandamál sem þarna hafa risið og sveitarstjórnarmenn hafa svo sem kallað eftir leiðsögn löggjafarvaldsins um þau efni er e.t.v. skynsamlegt að ganga frá hlutunum eins og hér er gert þó ég árétti að alltaf er spurning hversu langt eigi að ganga með svona forskrift í grundvallarlagasetningu eins og hér um ræðir.

Í kaflanum um réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna vil ég bara sem dæmi drepa á 34. gr. sem lýtur að lausn frá störfum þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Nú telur sveitarstjórnarmaður sig ekki geta gegnt skyldum sínum í sveitarstjórn án óhæfilegs álags og getur sveitarstjórn þá létt af honum störfum eða veitt honum lausn að eigin óskum tiltekinn tíma eða til loka kjörtímabils.``

Ég held ég fari rétt með að félmn. hafi ekki gert neina breytingu á þessari grein. Ég velti því dálítið fyrir mér hvað menn eru að fara hér. Auðvitað er það þekkt að stjórnmálaflokkar, jafnvel formenn einstakra stjórnmálaflokka hafa beitt pólitískum þrýstingi í einstökum sveitarstjórnum til að koma sveitarstjórnarmönnum þess flokks frá um skemmri eða lengri hríð til að leysa ákveðinn taugatitring í viðkomandi flokki. Ég veit ekki hvort það er skynsamlegt að löggjafarvaldið opni á það að flokksagi og flokksvald, miðstýrt, geti með þeim hætti skapað greiða leið til að koma og senda óþæga sveitarstjórnarmenn í frí eins og dæmi eru um. Ég veit ekkert hvað það er skynsamlegt og auðvitað ber að hafa skilning á því ef álagið er svo mikið að sveitarstjórnarmenn veikjast. Það gefur auga leið en hér er sennilega ekkert verið að eiga við það. Það getur vel verið að ég misskilji þetta allt saman en ég er auðvitað með eitt tiltekið mál í kollinum þar sem sveitarstjórnarmaður í Hafnarfirði var sendur í frí um einhverra mánaða skeið eftir fund með forsrh. að kvöldi dags og það átti að leysa ákveðið innanbúðarmál í Sjálfstfl. í Hafnarfirði. Er átt við það í 34. gr. að slíkt sé gerlegt? Er verið að opna á svoleiðis vangaveltur og aðgerðir? Ég spyr talsmann nefndarinnar sérstaklega um það, hv. þm. Magnús Stefánsson.

Til að gæta allrar sanngirni vil ég láta þess getið að 36. gr. frv. er mjög til bóta. Á hinn bóginn eru hortittir í 38. gr., þ.e. að formaður byggðarráðs skuli valinn úr hópi kjörinna byggðarráðsmanna. Þeir í Reykjavík gerðu réttilega athugasemd við það sem ég get út af fyrir sig vel tekið undir. Mér finnst að það ætti ekki að vera útilokað að kjósa viðkomandi borgarstjóra eða bæjarstjóra formann byggðarráðs ef byggðarráðið væri að öðru leyti sammála um það og engin ástæða til að löggjafarvaldið fari að setja einhverjar hömlur á það og leggja af þá hefð sem þekkist til að mynda í Reykjavík, bæði nú og vafalaust í tíð fyrri meiri hluta. Ég kann ekki á hvernig því er háttað núna og þekki það svo sem í fleiri sveitarfélögum. Mér finnst ástæða til að menn breyti þessu. Sérstaklega vil ég líka lýsa yfir ánægju minni með breytingu sem gerð er í 40. gr. og tekur af öll tvímæli í þá veruna að sveitarstjórnir geta skipt um fulltrúa sína í nefndum og ráðum þegar meirihlutaskipti verða. Þetta er feikilega mikilvægt og leysir mörg vandamál. Menn hafa verið að horfa framan í fádæma vitlausa stöðu mála þegar meirihlutaskipti verða en nefndarmenn sitja sem fastast, eru í meiri hluta í skjóli minni hluta. Á því er tekið skýlaust hér og auðvitað verðum við að tryggja að lýðræðið fái að ganga sinn gang í sveitarstjórnum eins og annars staðar og til þess er leikurinn kannski fyrst og síðast gerður og hlutverk okkar fyrst og síðast mótað í hinu háa Alþingi.

Út af fyrir sig ætla ég ekki að staldra lengi við nefndastarfið, vil þó árétta að sumt af þessu er náttúrlega eins og í samfélagskennslu í efstu bekkjum grunnskólans og auðvitað eru sveitarstjórnarmenn það félagsvanir og þekkja það vel til að það ætti ekki að þurfa að stafa þetta svona ofan í þá. Það er þó út af fyrir sig til bóta og ég held það sé skynsamlegt að löggjafarvaldið taki af öll tvímæli um það eins og gert er í 50. gr. að við það sé miðað að kjörnum fulltrúum í nefndum, ráðum og stjórnum sé ákveðin tiltekin þóknun. Löggjafarvaldið er með öðrum orðum að reyna að treysta lýðræðið í sessi þannig að fólk geti sökum efnahags tekið þátt í lýðræðislegu starfi innan sveitarstjórnar eða undirnefndum hennar þannig að hér er um atriði til bóta að ræða.

Víkur þá sögunni að fjármálum sveitarfélaga og ég hef nú, virðulegi forseti, verið býsna jákvæður þessar síðustu mínútur varðandi einstök atriði frv. en því miður breytist tónninn í mér eilítið núna þegar kemur að þessum kafla um fjármálin. Ekki vegna þess að allt sé jafnvitlaust sem þar er að finna en sumt er það óneitanlega. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að satt að segja skil ég ekki að jafnágætum mönnum og þeim sem sömdu þetta frv., mönnum sem eiga auðvitað að þekkja vel til bæði í litlum og stórum sveitarfélögum skyldi koma til hugar að setja það í frumvarpstextann að hægt væri fyrir lok desembermánaðar í öllum sveitarfélögum, hringinn í kringum landið, litlum og stórum að ljúka gerð fjárhagsáætlunar. Það vita menn sérstaklega í smærri sveitarfélögum að þau þurfa að vita nákvæmlega um stöðu sína í jöfnunarsjóði, þau þurfa að vita nákvæmlega um það hvernig ríkissjóður lokar bókum sínum varðandi launapólitík, varðandi ýmsar efnahagslegar stærðir og praktíkin er einfaldlega, sérstaklega í smærri sveitarfélögum, sú að það er ógerlegt með nokkru viti, vildi ég sagt hafa, að loka dæminu varðandi fjárhagsáætlun í minni sveitarfélögum hringinn í kringum landið. Því fagna ég því sérstaklega að nefndin hafi gert þarna breytingar á sem voru mjög skynsamlegar og nauðsynlegar en satt að segja skil ég ekki að mönnum skyldi til hugar koma að reyna þetta í nefndarstarfinu sjálfu.

Á hinn bóginn fara mál til verri vegar hvað nefndina varðar þegar kemur að 65. gr. Slæmt var það í frumvarpstextanum en verra er það í tillögum félmn. Þá er ég að ræða um fjárfrekar framkvæmdir og það lýtur auðvitað að þeim grundvallaratriðum sem ég er æ ofan í æ að hamra á.

[25:00]

Í núgildandi lögum er við það miðað að fari framkvæmdir eða áætlaður heildarkostnaður framkvæmda eða hluts sveitarfélagsins í slíkum framkvæmdum upp fyrir allar skatttekjur yfirstandandi reikningsárs þurfi að leita til sérfróðra aðila til að fara yfir kostnaðaráætlunina. Í frv. er miðað við helming.

Nú er enn þá þrengt og rætt um þessa tölu sem 1/4 af skatttekjum viðkomandi sveitarfélags og þá þurfi að leita sérfróðra aðila. Mér finnst við tala um sveitarstjórnarstigið eins og þarna séu menn sem kunni ekkert og viti ekkert og geti ekkert. Það er auðvitað ekki þannig. Treystum við ekki fólkinu í landinu til að kjósa yfir sig sveitarstjórnir sem hafi eitthvert vit og einhverja þekkingu og einhverja kunnáttu? Sjáum við ekki fyrir okkur að þróun sveitarstjórnarmála verði þannig að þau verði stærri, sterkari og öflugri? Eða eða ætlum við að búa við núverandi ástand mála enn um sinn að þetta verði sveitarfélög með niður í 50 íbúa og mörg þeirra í kringum 70 og þar um bil?

Þetta tekur auðvitað mið af því að við ætlum að hafa sveitarstjórnarstigið smátt, lítið og veikt og það þurfi að segja því nákvæmlega fyrir verkum. Það er auðvitað ekki nokkur ástæða til þess. Og mér finnst þetta undarlegt og ég spyr: Hefur reynt á það ákvæði sem núgildandi lög segja til um? Ég held ekki. Ég held að aldrei hafi þurft að reyna á þetta. Eru einhver sveitarfélög sem hafa farið í einstakar stórar framkvæmdir sem hafa sett allt á annan endann? Það getur vel verið, ég man það ekki. Ég efast satt að segja um það. Ég er a.m.k. alveg handviss um að þau sveitarfélög eru annaðhvort búin að sameinast eða að þær sveitarstjórnir sem í slíkt ráðslag hafa farið hafi ekki verið endurkjörnar.

Af öðrum toga en þó skylt er ákvæðið um skoðunarmenn í 69. gr. Ég spyr enn og aftur: Hvaða stefnumörkun önnur á við í þessu sambandi en gerð er hér varðandi fjárreiður ríkisins og meðferð ríkisreiknings? Eru einhver önnur lögmál sem gilda um þau mál sem gera það að verkum að svo mikilvægt er, sem hér um ræðir, að sveitarstjórn kjósi tvo skoðunarmenn heima í héraði og jafnmarga til vara til loka kjörtímabils sveitarstjórnar? Ég sé enga ástæðu þess. Ég held að innra eftirlit og ytra eftirlit, endurskoðunarskrifstofa sinni þessu hlutverki alveg fullkomlega, heyrir auðvitað beint undir sveitarstjórnir en að skoðunarmenn hafi þarna mjög óljósu hlutverki að gegna, enda er enn og aftur kveðið á um að sérstaka reglugerð þurfi eða það eigi eftir að klára ákveðna reglugerð fyrir þessa skoðunarmenn. Og auðvitað vita menn það að í smærri sveitarfélögum hefur þetta skapað mikla tortryggni. Þessir skoðunarmenn eru pólitískt kjörnir þegar mikilvægast er að skoðunarmenn, eftirlit samanber ríkiseftirlit, sé yfir þessa hefðbundnu stjórnmálabaráttu hafið. Að þeir sem hafa eftirlit, óháð eftirlit með fjárreiðum sveitarfélaga eða ríkisins, þurfi ekki að lúta þessari pólitísku mælistiku sem oft og einatt veldur deilum, stundum misskilningi, allt að einu skapar erfiðleika sem væru ekki til ella. Og ég sé satt að segja enga ástæðu til þess að menn séu að ala á slíkri hugsanlegri tortryggni. Því miður eru þess dæmi að kjörnir skoðunarmenn hafi nánast verið pólitískt sendir agentar sem hafi haft það hlutverk fyrst og síðast, ekki það að gera efnislegar, faglegar athugasemdir við meðferð mála í viðkomandi sveitarfélagi heldur hafi verið nánast njósnarar og hafi gert það helst að fara í gegnum bækur og blöð viðkomandi sveitarfélags til þess að geta spjallað um það úti um borg og bý. Við þetta er vissulega mjög erfitt að ráða því að ekki fer meiri hluti sveitarstjórnar svo léttilega út í það að setja kjörinn skoðunarmann út á guð og gaddinn þó að hann hafi orðið uppvís að trúnaðarbresti, þó hann hafi orðið uppvís að því að kunna ekki til verka og þó að hann kunni ekki til verka. Við erum því enn og aftur að ávísa á vandræði sem væri auðvitað ástæðulaust að gera og er mjög einfalt og auðvelt að komast hjá. Við nálgumst þetta mál bara einfaldlega á sama hátt og við nálguðumst meðferð ríkisreiknings. Látum endurskoðunarskrifstofu, löggilta endurskoðendur sjá um þetta, komum skikk og skipan á hið innra eftirlit.

Við þekkjum þetta svo sem allt saman. Hafa menn t.d. einhverja tilfinningu fyrir því að málið hefði farið öðruvísi í Landsbanka Íslands ef þar hefðu verið kjörnir skoðunarmenn? Ég hef ekki sannfæringu fyrir því. Hér fara því menn villir vega og ég vil segja þetta mjög ákveðið, virðulegi forseti, af því að ég þekki dálítið til þessara mála, ekki úr minni heimabyggð eingöngu heldur víðar í kringum landið, og ég segi þetta nú af því að ég veit að það eiga eftir að vera vandræði með þetta. Menn eiga eftir að lenda í vandræðum með þetta. Sums staðar hefur þetta gengið ágætlega. Sömu menn hafa gegnt þessum skoðunarmannsstörfum áratugum saman og komið vel að verki. Annars staðar hefur verið skipt um menn jafnvel á miðju kjörtímabili, við hverjar einustu kosningar, þannig að það er allur gangur á þessu.

Ég benti á, virðulegi forseti, að það er verkefni ráðherrans að setja með reglugerð nánari ákvæði um endurskoðun hjá sveitarfélögum, svo sem með verkaskiptingu endurskoðenda og skoðunarmanna. Ég segi því, virðulegi forseti, að ef þetta á að samþykkjast með þeim hætti sem hér um ræðir, sem allt bendir nú til, þá hvet ég hæstv. félmrh. eindregið til þess að vanda mjög vel það regluverk sem hann ætlar að setja þessum kjörnu skoðunarmönnum. Því að það er mjög mikilvægt að gera það þannig að engum misskilningi valdi og ég hvet hann til þess.

Kem ég þá að 74. gr. sem er nú af ýmsum slæmum ein sú versta. Það er þessi eftirlitsnefnd. Það er ekki byggðarmerkjanefndin, það er eftirlitsnefndin, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Með byggðarmerkinu?) Nei, virðulegi forseti, ég heyri að hv. þm. eðlilega misskilja þetta. Hér er ekki um það að ræða að eftirlitsnefnd hafi eftirlit með byggðarmerkinu, heldur á þessi eftirlitsnefnd að hafa eftirlit með fjárreiðum sveitarfélaga þannig að hér er um aðra eftirlitsnefnd að ræða. (Gripið fram í: Já, já, það er skilið.) Og eftir því sem mér sýnist best þá er það félmrh. sem hefur ráð þessarar eftirlitsnefndar með höndum. Það er iðnrh. sem hefur byggðarmerkjamálið undir sínu forræði.

Hér er vissulega um algjört nýmæli að ræða að sérstök ástæða er til þess að setja á sérstaka eftirlitsnefnd með sveitarfélögum. Ég spyr nú í fullri einlægni hv. þm. Magnús Stefánsson, sem er talsmaður félmn.: Telur hann brýna nauðsyn á því, og að gefnu tilefni, að slík eftirlitsnefnd með starfsemi sveitarfélaga verði sett á laggirnar í félmrn.? Að menn verði klæddir upp í svarta frakka með dökka hatta sem fari um bæjarkontórana hringinn í kringum landið og gramsi þar í bókum og kanni hvort ekki sé allt með felldu. Ofan á allt hitt.

Og ég spyr: Eru einhver tilefni sem verða til þess að menn finna allt í einu upp hjólið í þessum efnum? Hvað er það sem gerir það að verkum að menn setja þessa eftirlitsstofnun á? Ég bið um dæmi þess. Ég sé nákvæmlega ekki nokkra ástæðu til þess að setja slíkan eftirlitsiðnað í gang. Og ekki síst í því ljósi sem ég nefndi áðan, sem er grundvallaratriði, að sveitarfélögin eru ekki lengur samkvæmt stjórnarskránni í umsjón stjórnarinnar eins og það hét en heitir ekki lengur.

Þetta er grafalvarlegt mál og auðvitað væri hægt að ímynda sér að þetta yrði misnotað. Við skulum segja að það væri til að mynda einhver annar hæstv. félmrh. en nú er og einhver annar oddviti meirihlutaflokksins en nú er, að með öðrum orðum væri ekki jafngott samstarf þar á milli og nú er heldur jafnvel pólitískt hatur og hér logaði allt í pólitískum illindum, þá gæti orðið býsna freistandi fyrir menn að senda eftirlitsnefndina á vettvang undir ákvæðum 74. gr. og láta hana fara að gramsa þarna. Það væri eins konar ávísun á það að ekki væri allt með felldu í sveitarfélaginu þegar karlarnir þrír í eftirlitsnefndinni kæmu askvaðandi inn í sveitarfélagið með svörtu töskurnar og hattinn. Það væri aldeilis stimplun sem sveitarfélagið fengi þá þegar þeir kæmu galvaskir.

Ég er bara algjörlega andvígur 74. gr. Hún er bara tóm vitleysa. Þess vegna segi ég það, virðulegi forseti, ég trúi því ekki, þeir hljóta að hafa látið plata sig, hv. stjórnarþingmenn sem þekkja eitthvað til sveitarstjórnarmála og hafa metnað til að treysta og tryggja sjálfsforræði og sjálfstæði þeirra, ég trúi bara ekki öðru. Ég átti satt að segja von á að nefndin tæki á þessu. Nefndin tekur að vísu á þessu. Það er nú ekki mjög stórmannleg breyting eða metnaðarfull. Jú, hún tekur ákvörðun um það að í stað þess að ákvarðanir eftirlitsnefndarinnar --- og taki nú forseti vel eftir --- verði endanlegar og ekki kærðar til ráðherra leggur félmn. til að ákvarðanir eftirlitsnefndarinnar megi kæra til ráðherra. En lengra ekki og þar verður úrskurðurinn sennilega endanlega staðfestur.

Mér finnst þetta feikilega slæmt. Ég árétta: Eru einhver dæmi þess að slíkt kalli eftirlitsnefnd? Ég þekki að vísu dæmi þess að sveitarstjórn hefur óskað eftir aðstoð, sérfræðiaðstoð og það er ekkert nema gott um það að segja. Kannski hefur hún í sumum tilfellum gripið of seint í taumana, það getur vel verið líka. En ekkert slíkt alvarlegt hefur komið upp að menn þurfi að setja á sérstakan eftirlitsiðnað í þessu sambandi. Það finnst mér algjörlega fráleitt og ég trúi því ekki að þeir fulltrúar sveitarfélaganna sem sömdu þetta frv., sem eru engir minni menn en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, og Ingimundur Sigurpálsson, bæjarstjóri í Garðabæ, hafi gengist inn á þetta glaðbeittir í fasi né heldur þrautvanir sveitarstjórnarmenn sem sitja hér fyrir stjórnarmeirihlutann á Alþingi og þá einkum og sér í lagi í félmn. Þetta gagnrýni ég mjög harðlega.

Einnig væri ástæða til að staldra á sömu forsendum við 76. gr. sem lýtur að sviptingu fjárforráða, sem er auðvitað mjög róttæk aðgerð. Satt að segja sé ég ekki fyrir mér að til hennar geti komið. Og ég segi: Ef mat færustu manna er það að til svo róttækra aðgerða þurfi að grípa að svipta þurfi heilt sveitarfélag, lítið eða stórt, ég læt mig það einu gilda, fjárforræði vegna þess að það kunni ekki með fé að fara, þá finnst mér það ekki ákvörðun sem félmrn. geti eitt tekið, sem framkvæmdarvaldið geti eitt tekið. Það er stærri ákvörðun en svo. Og annaðhvort tel ég að félmrn. þurfi að sækja staðfestingu dómstóla til þess eða jafnvel að leggja fram tillögu á Alþingi því til staðfestingar. Því það er auðvitað ekkert sjálfstæði sveitarfélaga ef við búum þannig um hnúta í löggjöf að framkvæmdarvaldið, einn ráðherra geti á grundvelli laga tekið peningaráðin af sveitarfélögum ef honum sýnist svo. Að vísu eftir ákveðnum farvegi. Mér finnst það bara svo feikilega stórt mál í þessari stjórnsýslueiningu okkar að einn maður í einu ráðuneyti geti ekki og megi ekki einn taka ákvörðun um slíkt og það þurfi þá atbeina Alþingis eða a.m.k. dómstóla samkvæmt tilgreindum farvegi. Það er mín einlæga skoðun í þessu sambandi.

[25:15]

Ég gæti svo sem farið fleiri orðum um þennan kafla frv. um fjármálin en mér finnst hann anga af því að sveitarfélögum er vantreyst botnlaust, upp úr og niður úr. Það er sá þankagangur, það hugarfar sem ég kann ekki við og kann ekki að meta. Það er í því ljósi sem ég hef fullan fyrirvara á flestum þeim ákvæðum sem er að finna í þessum kafla um fjármál sveitarfélaga. Það er á þeim grundvelli.

Um samvinnu sveitarfélaga er flestallt gott að segja þó að aftur sé þetta meira og minna allt of ítarlegt. Hér er enn og aftur hnykkt á hlutverki Sambands ísl. sveitarfélaga í samskipum við ríkisvald og í lögum þessum og er út af fyrir sig ekkert nema gott um það að segja. Ég segi þó eitt í því, virðulegi forseti. Mér finnst dálítil tilhneiging vera í þá áttina, einkum og sér í lagi í seinni tíð, að sveitarstjórnarmenn um allt land lúti nú orðið í of miklum mæli forræði Sambands ísl. sveitarfélaga. Í mörgum tilvikum er nauðsynlegt að það sé einn málsvari, einn fulltrúi allra sveitarfélaga á landinu sem ræði við ríkisvaldið, hafi leiðsögn og stefnumótun með höndum í tilteknum málaflokkum, skipan nefnda o.s.frv. en það má ekki verða á kostnað þess að sveitarstjórnarmenn hætti að hafa skoðun. Það er mjög áberandi í þeim umsögnum sem er að finna með frv. að þær eru ákaflega innihaldsrýrar. Það er lítið í þeim, sáralítið, allt of lítið. Það er til að mynda áberandi --- ég veit satt að segja ekki af hverju það er, ég neita að trúa að það geti verið annað en það að bréfin hafi ekki borist --- en í athugasemdum um lagafrv. segir að í upphafi starfs nefndarinnar hafi verið ákveðið að rita öllum sveitarfélögum bréf og gefa þeim kost á að koma á framfæri hugmyndum og tillögum að breytingum á sveitarstjórnarlögum. Svör bárust aðeins frá 14 sveitarfélögum. Þetta er alls ekki nógu gott. En það er kannski ástæða til að ég geymi mér það til 3. umr. málsins með von um að hugsanlega geti eitthvað gerst við 2. umr. í þeim ýmsu liðum sem ég nefndi til sögunnar og ég tel brýnt að menn breyti.

Ég get nefnt sem dæmi um þetta að sú þróun að ráðuneytið sé hér og þar og alls staðar hefur til að mynda leitt til þess að sumar sveitarstjórnir og sumir sveitarstjórnarmenn eru farnir að gera út á þessa pössun ráðuneytisins. Eins og þróun úrskurða og kæruefna til ráðuneytisins hefur þróast er augljóst mál að sumar sveitarstjórnir eru hættar að ræðast við heima í héraði, senda bara málin inn í ráðuneyti og segja: Þið afgreiðið þetta bara. Ég sé að það eru heilu bækurnar sem koma út, hálfgerðar jólabækur, um þessi efni. Til upprifjunar er úrskurður úr Vesturbyggð. Þar var kvartað yfir 20--30 atriðum og það er augljóst að hin pólitíska umræða sem á að fara fram heima í héraði var hætt að fara þar fram heldur fór hún bara fram í bréfasendingum, kærum til félmrn. Þetta er mjög vond þróun og afspyrnuslæm. Mér finnst og ég hef á tilfinningunni, virðulegi forseti, að menn séu eiginlega frekar að ýta undir hana í þessari lagagerð en að draga úr henni sem væri æskilegt. Ég vil lifandi umræðu innan sveitarstjórna, milli sveitarstjórna og um sveitarstjórnarmál. Hún hefur því miður verið allt of lítil í tengslum við það frv. sem er til umræðu en enn er von og ég ætla því að geyma mér nokkur álitaefni sem brenna mjög á huga mér til 3. umr. málsins.